Þriðjudagur 12.01.2010 - 11:55 - 45 ummæli

Að standa í lappirnar

Sannir Íslendingar sem Standa í Lappirnar skiptast nú nokkurnveginn í tvær fylkingar.

Sumir eru byrjaðir á reit eitt frá því Icesave uppgötvaðist daginn eftir hrun og eru sannfærðir um að við eigum ekkert að borga. Neyðarlögin og dómstólaleitin og samningarnir og lánafyrirgreiðslan – allt þetta er hjóm eitt, því að við áttum aldrei að borga neitt. Skuldir Landsbankans við útlendinga voru bara skuldir einkafyrirtækis í eigu óreiðumanna, og koma okkur ekki við (um skuldir sama Landsbanka við Íslendinga gegnir hinsvegar allt öðru máli).

Fjallkonan á götuvígin!

Sérstakur undirhópur þessarar fylkingar telur rétt að nota tækifærið og lyfta Fjallkonunni upp á götuvígin að berjast gegn heimskapítalismanum með rauðan fána. Ef við borgum ekki fylkja aðrar snauðar þjóðir sér um okkur – eftir snarpa og hetjulega orustu renna upp ragnarök kapítalismans um heimsbyggðina, og síðan fellur allt í ljúfa löð á Íslandi og nágrenni, við róum til fiskjar og ræktum rófur. Undursamlegar töflur finnast í grasi, munu ósánir akrar vaxa – Baldur mun koma. Vonandi samt ekki Guðlaugsson.

Vegna þess að við þurfum alls ekki að borga – þá auðvitað er engin þjóðaratkvæðagreiðsla. Hún snýst jú um val milli tveggja samninga um að borga, og það ætlum við núna ekki að gera, og þessvegna er réttast að afnema hvortveggju lögin um ríkisábyrgðina, frá í ágúst og frá í desember. Fyrir fólkið.

Hvað gerist svo ef Fjallkonan verður skyndilega alein uppi á götuvíginu  – og heimskapítalisminn vinnur slaginn? Tja – þá höfum við gert okkar fyrir mannkynssöguna og getum yljað okkur í ellinni þegar íslenska skuldaverkfallið bætist í úrvalsrit byltingarmanna allra alda, við hliðina á Spartakusi og kommúnörðunum í París.

Semja við sjálfan sig

Aðrir sem Standa í Lappirnar hafa hinsvegar komist að þeirri niðurstöðu að nú þurfi að skipa nýja samninganefnd. Þar þurfi helst að vera þeir sjálfir, en líka alþjóðlegir sérfræðingar í samningatækni. Aðeins einn smávægilegur galli er á þessari hugmynd – nefnilega sá að til að semja þarf yfirleitt fleiri en einn samningsaðila. En þá benda Sannir Íslendingar á gott fordæmi: Samninginn góða sem alþingi samdi um við sjálft sig í ágúst. Það hafi verið fínn samningur. Hollendingar og Bretar hafi að vísu verið þeir þjösnar að vilja ekki fallast á hann – en það var einmitt vegna þess að íslenska ríkisstjórnin gleymdi að Standa í Lappirnar.

Þessir Sönnu Íslendingar vilja heldur ekki þjóðaratkvæðagreiðslu, af því hún kynni að minnka samlyndi og auka deilur meðal landsmanna um þetta mál, og koma þar með í veg fyrir góðan vinnufrið í samninganefndinni.

Pattstaða dauðans

Í alvöru er komin upp pattstaða dauðans í málinu, bæði millilanda og innanlands. Hvorki bresk né hollensk stjórnvöld hafa nokkurn áhuga á að taka upp samningana. Kosningar eru framundan í báðum ríkjum, og í hvorugu þeirra er líklegt að Icesave verði meðal kosningamála. Skársti kosturinn fyrir Breta og Hollendinga er líklega að bíða og gera ekki neitt þangað til Íslendingar hafa áttað sig.

Hugsanlegt er að hægt væri skapa þrýsting á Breta og Hollendinga með aðstoð Norðurlanda-  og Evrópusambandsríkja. Þá er líkast til eina leiðin sú að bjóða sættir um einhverskonar gerðardóm þar sem viðurkenndur alþjóðlegur milligöngumaður hefur forystu. Til þess að þetta gengi yrði þó væntanlega að vera skýrt að Íslendingar féllust án undanbragða á niðurstöðu gerðardómsins, stjórnarflokkar, Liljur, stjórnarandstaða, forseti og svo framvegis. Bara af þeirri ástæðu er þetta ekki sennilegur kostur.

Og þá var eftir einn

Og þá er bara eftir ein leið: Að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna, samþykkja þar einfaldlega þann samning sem ekki hefur þegar verið hafnað, og byrja að vinna okkur út úr vandanum og standa í lappirnar í staðinn fyrir að rífast einsog hundar og kettir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (45)

  • Skýrt og á mannamáli. Auðvitað.

  • Sigurður #1

    Er alveg útilokað mál að skottast upp úr sandkassanum og fara að ræða þessi mál á einhverjum vitrænum nótum……..

    Svona útúrsnúningar og stælar gera engum gagn.

    Íslensk flokka pólitík er að ganga af landinu dauðu.

  • Illugi Jökulsson

    Ef við borgum fylkja aðrar snauðar þjóðir sér um okkur …

    Á þetta ekki að vera „Ef við borgum ekki …“

  • Þórarinn Einarsson

    Ég vil benda þér á það Mörður að þú og þín skoðanasystkyni eruð á hnjánum.

    Það er aumkunarvert að sjá hvernig litlar sálir reyna að gera lítið úr þeim sem standa í lappirnar.

    Ég vil sjá stórt NEI í þessari atkvæðagreiðslu og sem mesta samstöðu þjóðarinnar. Réttlætið ofar Matador-reglum.

    Gjörið svo vel og rísið á fætur, þið sem enn krjúpið!

  • Kristján Elís

    Þórarinn er einn af fjölmörgum sem er með það á hreinu hvernig á að ná samstöðu, fylgið mér. Allir sáttir eða hvað??

  • Svo lengjast greinarnar sm málstaðurinn er veikari.

  • fridrik indriðason

    nokkuð góð greining á ástandinu. það er ljóst að bretum og hollendingum er í lófa lagið að hafa málið bara óleyst og hangandi yfir okkur eftir væntanlegt nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni. það er svo spurning hve lengi þjóðin þolir slíkt með lánshæfið í rusli og litlar líkur á áframhaldandi aðstoð alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

  • Það er kannski orðið vænlegast í stöðunni að fólkið fái að hafna þessum Icesave samningi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landið lokist að mestu frá umheiminum. Sá litli gjaldeyrir sem til er verði sparaður af mikilli fyrirhyggju. Við sem erum fædd fyrrihluta síðustu aldar þekkjum vel og munum vel það ástand sem hér ríkti allt til 1960. Allt skammtað naumt.
    Bent hefur verið á að tvöföldun á bensínverði hefði góð sparnaðaráhrif. Erlent grænmeti yrði ekki flutt inn- þar sparaðist heilmikill gjaldeyrir. Erlendur fatnaður hyrfi að mestu og innlendur sumaskapur stórykist. Innlend skósmiði yrði á ný atvinnugrein. Svínakjöt og kjúklinga hyrfu af matseðlinum- enda allt fóður innflutt. Fiskur tæki yfir.
    Já ég held að við myndu bara spjara okkur – að vísu færi þetta allt hægt af stað. En við stæðum í lappirnar að lokum-held ég.
    Við erum neflilega Íslendingar-þjóðflokkur norður í ballarhafi.

  • Hagsmunir hverra eru hafðir að leiðarljósi þegar böðlast er áfram eins og einhver Icesave Intrum?

    Heimspressan er full af umræðu sem er okkur hliðholl í kjölfar synjunar forseta.
    Viðbrögð ríkisstjórnar og ráðgjafa hennar taka ómakið af hörðustu innheimtulögmönnum Breta og Hollendinga og senda út fréttatilkynningar um að okkur beri að borga.

    Þetta er sent út í nafni ríkistjórnar Samfylkingarinnar sem skartar í embætti þingflokksformanns engum öðrum en Björgvini G. Sigurðssyni, meðvitundarlausa bankamálaráðherranum sem bloggaði um ágæti íslensku bankanna alveg fram að því að Glitnismenn gengu á fund Davíðs.

    Svo ég taki mér í munn orð eins ríkisstjórnarþingmannsinns; „Hvers eigum við skilið?“

  • Þórarinn Einarsson

    Kristján Elís, það verður meiri samstaða hjá þeim sem standa saman (í lappirnar) en hjá þeim sem krjúpa saman. Það verður engin samstaða í uppgjöf, en sá valkostur að standa gegn lögunum býður upp á mikla samstöðu.

    Það er engin skömm fyrir núverandi hnjásetumenn að rísa á fætur. Það bæri reyndar merki um mikið hugrekki. Skömmin er þeirra sem áfram krjúpa. Rís á fætur Kristján.

  • Mörður Árnason

    Jú, Illugi, auðvitað 😉 — lagaði þetta! Takk.

  • Sæll Mörður hef alltaf gaman af að lesa pistla þína, þótt fráleitt sé
    ég þeim alltaf sammála. Ég er einn þeirra sem tel að betur hefði mátt
    standa að þessum Isave samningum og að við eigum að freista þess að
    bæta þar úr ef nokkur möguleiki er á. Hins vegar finnst mér skondin sú
    sýn á málið sem fæst með því að bera saman þær kröfur sem við gerum til
    Breta og Hollendinga sem þjóð og þær kröfur sem gerum til hins almenna
    borgara á Íslandi um greiðslur á sínum skuldum (mjög oft v/íbúðarhúsnæðis)
    Í fyrirvörum alþingis var m.a. talið eðlilegt að taka mið af hagvexti(afkomu)
    það var talið eðlilegt að ef ekki tækist að klára lánið 2024 þá féllu eftirstöðvar niður. Í samningnum sjálfum voru svo ákvæði um að fyrstu sjö árin væri ekki borgað af lánunum annað en vextir.
    Það væri nú kanski athugandi að bjóða hinum almenna borgara upp á
    svipuð kjör og felast í fyrirliggjandi samningum um Isave, þótt taldir séu
    bölvaðir, það væri þá kanski von til þess að einhverjir þeirra væru lífs
    að lánstímanum liðnum

  • Haukur Gylfason

    Þegar ég lærði á bifhjól þá var mér sögð góð dæmisaga.

    Þegar þú er að keyra á bifhjóli og það kemur einhver bíll sem svínar á þig. Þá skiptir það voða litlu máli hvort þú sért í rétti eða ekki.

    Það færir manni voðalega litla huggun, þegar maður ferðast um á hjólastólnum, að öskra í sífellu, „ÉG VAR Í RÉTTI!!“.

    Icesave samningurinn er pólitísk málamiðlun. Ekki láta ykkur detta í hug að það sé verið að gefa eftir ýtrustu kröfur mótherja okkar. Ég efast um að ef allt sem íslendingar hafa gert fyrir og eftir hrun verði sett fyrir dóm, að það eigi eftir að koma okkur sérstaklega vel.

    Ef Íslendingar vilja taka slaginn við fjármagnseigendur og kapitalisman yfir höfuð. Hvernig væri þá að líta sér nær og spyrja, afhverju fengu allir Íslenskir fjármagnseigendur allt sitt frá skattborgurum þótt það hafi ekki legið nein lagaleg skuldbinding fyrir því?

  • Sigurður #1

    Haukur Gylfason.

    Vegna þess að hefði allt lausafé í landinu verið þurrkað út á einu bretti hefði efnahagsleg tortíming blasað við allri þjóðinni.

    þúsund sinnum verra hrun en við stöndum í núna.

    Við erum að tala um algert stopp, við gætum ekki einu sinni flutt inn lyf, eða eldsneyti.

    Eftirlitsstofnun EFTA er nú þegar búin að senda frá sér álit um það að þetta hafi verið lögleg aðgerð, og í raun nauðsynleg undir þessum kringumstæðum sem hér voru.

    Þessi neyðarréttur mun klárlega ýta til hliðar jafnræðisreglunni.

    Við skulum ekki gleyma því að Bretar beittu hryðjuverkalögum til að vernda 1% innstæða í breskum bönkum, og kölluðu þetta efnahagslega árás.

    Hvað má þá gera til að vernda 100%?

  • Kristjánsson frekar! Kv. B

  • Haukur Gylfason

    @Sigurður

    Það er enginn að tala um að þurka út allt lausafé á Íslandi. Það hefði mátt gefa öllum aðgang að því sem samsvaraði 20.000 evrum. Varla hefði fólk þurft meira en það til að lifa af.

    Með því að gera innlán að forgangskröfu – þá hefði þegar upp var staðið – enginn viðskiptavinur Glitnirs eða Kaupþings tapað innistæðum sínum.

    ESA tók sérstaklega fram að ekki væri tekin afstaða til mismununar í dómi sínum.

    Það skilur þá eftir peningamarkaðsreikningana, var nauðsynlegt Íslensku þjóðaröryggi að nota peninga skattborgarans í að borga alla þá peninga, þegar þeir voru ekki einu sinni dekkaðir af lágmarks innistæðutryggingu?

    Var verið að vernda hag almennings eða auðmanna? Eða var verið að setja alla þjóðinna í mun verri stöðu gagngvart Hollendingum og Bretum til að tryggja hagsmuni mjög fárra?

  • Sæll Mörður.
    Já víst ertu góður penni og oft hef ég verið þér sammála en sjaldnst nú í seinni tíð.

    Málið er akkúrat þannig vaxið að þetta verður kolfellt í þjóðaratkvæðagreiðslunni, sem ég ætla að vonast til að þið misvitrir stjórnmálamenn ætlið ekki a fara að taka af okkur almúganum. Þetta er stjórnarskrárvarinn réttur fólksins, þegar svona er komið málum.

    Bretar og Hollendingar munu ekkert gera og alls ekkert við okkur tala fyrr en búið verður að kolfella þetta í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

    Þá munu þeir sjá að þessu þrátefli verður ekki hægt að halda áfram og smþykkja að setjast að nýju yfir samningana og þá jafnvel með sáttasemjara og hugsanlega einhverskonar gerðardómi.

    Ef við samþykktum þetta í þjóðaratkvæagreiðslunni, sem væri algert glapræði, væri málið auðvitað búið og þjóðin sæti uppi með nauðungarsamninginn.

    Grátlegt er að sjá viðbrögð Ríkisstjórnarinnar og þeirra legáta í þessu máli. Það er forsetanum bölvað og ragnað bæði upphátt og í hljóði.
    Endalaus hræðsluáróður rekinn gegn þjóðinni. forsetanum beinlínis hótað stríði og þjóðinni líka samþykki hún ekki samninginn eins og hann er.

    Aftur og aftur gengur stjórnin beinlínis erinda Breta og Hollendinga og ESB valdsins , við að verja samninginn og draga í efa greinargóð og vel rökstudd álit fjölda virtra sérfræðinga sem segja það beinlínis ósanngjarnt og ekki standast neinar reglur að þessar byrðar verði lagðar á Íslensku þjóðina.

    Í staðinn fyrir að standa nú í lappirnar Mörður, bíta á jaxlinn og nota nú þetta einstaka tækifæri sem gefst til þess að ná nýrri viðspyrnu og þjóðarsátt um að standa á hagsmunum þjóðarinnar.

    Okkur hefur borist óvæntur liðsauki úr öllum áttum. En nei ríkisstjórnin gerir lítið úr þessum aðilum og rynir að véfengja þá þegar þeir eru að reyna að leggja þjóðinni lið.

    Össur þeytist um heiminn og fer á hnjánum fyrir silkihúfurnar í ESB til að væla út úr þeim að þetta muni ekki hafa áhrif á ESB innlimunina. Það er eina málið hjá honum. Hann sem hélt sig vera af stórlaxastofni er orðið lítið aumkunnarvert hornsíli í augum þessara manna og þjóðar sinnar líka.

    Í stað þess að fylkja þjóðinni á bak við ykkur og berjast fyrir málstað hennar, þá veljið þið enn og aftur leiðir óeiningar og sundrungar.

    Það verður áframhaldandi sundrung og sundurlyndi meðal þjóðarinnar meðan Samfylkingin ræður ráðum í Stjórnarráðinu.

    Það verður áfram sundurlyndi og sundrung meðal þjóðarinnar þangað til þessi ESB umsókn verður dreginn til baka, fólkið vill ekkert með þetta yfirríkjabandalag ESB hafa að gera og það er eitthvert það versta sem gert var að sækja um í þetta bandalag og sundra þannig þjóðinni.

    samfylkingin er í dag mesta sundrungar afl íslenskra stjórnmála frá upphafi vega.

    Enginn stjórnmálaflokkur fyrr eða síðar hefur vakið upp þvílíka reiði og jafnvel hatur tugþúsunda íslendinga.

    Það verður aldrei friður eða eining í landinu með Samfylkinguna við stjórnvölinn og heldur ekki fyrr en þessi ESB umsókn verður jörðuð !

  • Jón Guðmundsson

    Ég hef rekist á svolítið skondið í allri Icesave umræðunni. Menn eru að einblína á „12 milljónir á hvert mannsbarn“ en ef eignir landsbankans duga fyrir 80% af upphæðinni eru þetta 2,4 milljónir. Stór upphæð en miklu viðráðanlegri.

  • Vilhjálmur Ari Arason

    Þú og félagar þínir voru búnir að samþykkja lög í haust. Þar var gengið til móts við kröfur Breta og Hollendinga eftir samningaviðræður við þá og skuldin átti að greiðast að fullu fyrir 2024 með vöxtum. Svo framalega að hér færi ekki allt á versta veg í hagstjórninni gætum við STAÐIÐ Í LAPPIRNAR. Villt þú íþyngja íslenskri þjóð enn frekar ef við værum þegar komnir til fjandans OG Á HNÉN eins og viðbótarákvæði nýja samningsins (laganna) gerir ráð fyrir.

  • Uni Gíslason

    Það kemur best út fyrir íslenska þjóð að kjósa um Icesave 2 í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá verður ekki hægt að kenna neinum stjórnmálamönnum um ákvörðunina.

    Fólkið sjálft mun ákveða hvort ábyrgðin sé ásættanleg eða ekki og þurfa þá að lifa með ákvörðun sinni. Enginn mun skera þjóðina úr snörunni þegar þjóðin hefur sjálf ákveðið örlög sín í þessu máli.

    Ég þykist ekki vita hvernig kosningarnar fara, en ég veit að það skiptir ekki nokkru einasta máli fyrir mig. Sjálfur mun ég ekki kjósa, bara fylgjast með.

    Það er alveg hægt að kjósa rétt í málinu og rangt. Það er líka hægt að kjósa með tilfinningum og það er víst alveg jafn gilt, enda þarf kjósandi ekki að hafa neitt á bak við atkvæði sitt annað en eigin persónu. Ekki þarf að vera með góða ástæðu eða að hafa kynnt sér málin sérstaklega.

    Það er samt einn réttur valmöguleiki í atkvæðagreiðslunni og einn rangur. Það verður gaman að fylgjast með!

  • Ómar Kristjánsson

    „og skuldin átti að greiðast að fullu fyrir 2024 með vöxtum“

    Bull.

    Hvernig væri að menn færu bara að kynna sér þetta mál og hætta að bulla ?

    Er það ekki bara málið.

  • Sigurður #1

    Ómar Kristjánsson.

    Þú ættir nú að hafa vit á að fara að draga þig í hlé.

    Annað eins bull og ruglið frá þér síðustu mánuði er vandfundið.

  • Sæll Mörður.

    Þú dregur upp kalda og dökka mynd af ástandinu, en því miður er hún að mínu mati sönn.

    Það þýðir lítið að kasta fram slagorðum og halda að málið verði leyst með þeim.

    Við verðum að hætta að berja höfðum okkar við alla steina sem á vegi okkar varða, pússa spegilinn og viðurkenna að við erum fyrir tilstilli forseta vors, að beiðni slagorðafólksins, komin út í kuldann og verðum þar uns okkur vex vit og skilningur með lækkuðu hitastigi.

  • Niðurstaðan mín er JÁ við lögunum sem forsetinn hafnaði að skrifa undir.

  • unnur G, Kristjánsdóttir

    Nokkrir hér sem ætla ekki að borga þó að þeir viti að allir flokkar segjast gera sér grein fyrir að við verðum að borga Icesave.
    Umræðunni um að borga ekki lauk í fyrra þegar þáverandi fjármálaráðherra samþykkti með meirihluta Alþingis á bak við sig að við myndum borga.
    Út frá skrifum um að standa í lappirnar og skömmum á okkur Samfylkingarfólk, þjóðarrembingur er ekki gjaldmiðill sem aðrar þjóðir líta við. Og eins og ég kenni mínum ágætu nemendum þá er það þannig að ef ég vil fá borgað það sem aðrir hafa ábyrgst að ég fái þá verð ég líka að borga mínar ábyrgðir. „Það sem þér viljið að aðrir gjöri yður…..“
    Greiningin er fín hjá þér Mörður nema mér finnst vanta að spyrja hvað eiga þeir sem beita sér mest gegn síðasta Icesavesamningi (Sjallar og Frammarar) sameiginlegt með forsetanum okkar? Aðdáun á útrásinni og því fólki öllu!
    Fyrir ykkur sem eru nýir aðdáendur ÓRG þá á ég myndir af honum og tvær bækur um hann sem fást á góðum kjörum. Sími 690 2457.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Það er mikið lán fyrir Breta og Hollendinga að eiga sér svo marga öfluga stuðningsmenn hérlendis í Icesave deilunni. Núna að undanförnu hafa borist þau gleðitíðindi erlendis frá, að virtir talsmenn á meðal fræðimanna og fjölmiðlastéttar hafa tekið upp málstað Íslendinga af kærkominni og jafnvel mikilli hörku. Loksins þegar „alþjóðasamfélagið“ fékk fréttir af ofbeldisaðgerðum stórveldanna gegn smáþjóðinni þegar forsetinn neitaði að undirrita ólögin. Fyrir þann tíma hafa stjórnvöldum tekist markvist og þrælskipulega með engri kynningarstarfsemi erlendis, að kynna ekki þá hlið sem mikill meirihluti þjóðarinnar hefur alla tíð haldið uppi að hafna samningshroðanum, og vinnubrögðum þeirra sem fara með stjórn Icesave málsins fyrir þjóðina. Örugglega skammast þeir sín ekki fyrir að taka upp málstað Íslendinga, frekar en þeir íslendingar sem hafa tekið upp málstað Breta og Hollendinga.

  • Mörður Árnason

    Er ekki rétt, Guðmundur 2, að koma strax í veg fyrir þennan óþjóðlega áróður og setja lög um að Íslendingar haldi ekki með Hollendingum og Bretum? Þá þyrfti líka nákvæmt lögreglueftirlit og kannski sérstakan dómstól …

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Nei. Hvers vegna? Er þetta eitthvað sem menn þurfa að skammast sín fyrir?

  • Fráleitt að rekstur sem var á ábyrgð fjármálaeftirlits Breta og Hollendinga skuli vera með íslenskri ríkisábyrgð. (sjá 22. grein tilskipunar um eftirlit með fjármálafyrirtækjum frá 2002).

  • Anna Sigrún Baldursdóttir

    Greiningin á þeim sem Standa í Lappirnar í hópana tvo er snilldarleg. Enn sannast að stutt er öfgana á milli.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Skarplega athugað. Við kjöftum okkur ekki út úr Icesave-skuldunum.

  • Haukur Nikulásson

    Ég skal fúslega vera einn af þeim sem „Standa í Lappirnar“ eins og Mörður orðar svo skemmtilega.

    Ég skal líka fúslega játa að mig klæjar við tilhugsunina fengi ég að koma nálægt samninganefnd.

    Fyrsta tilboðið mitt væri að borga ekkert fyrir Icesave nema tryggingarsjóðinn og það sem í honum er, en krefjast bóta fyrir hryðjuverkalögin og afleiðingar þeirra.

    Ég er bálreiður þeirri undanlátssemi sem Samfylkingin hefur staðið fyrir við að véla landið undir stjórn Bandaríkja Evrópu. Það á greinilega að kosta öllu til. Enda hefur málflutningur Jóhönnu og Steingríms alltaf verið: „Þetta breytir í sjálfu sér engu!“ þegar nýjar og miklvægar upplýsingar hafa komið upp á borðið.

    Sú kúgun sem hefur birst okkur vegna lélegrar kynningar á málstað okkar er með ólíkindum. Ræfildómurinn á þessu sviði er líka sárlega augljós þegar gamli yfirmaður Marðar rúllar yfir erlendu miðlana á spariskónum án þess að virðast hafa mikið fyrir því. Núna fyrst get ég sagt að ég sé í alvörunni ánægður með forsetann og sú skoðun mín á hljómgrunn með 2/3 íslendinga núna.

    Það er eiginlega skrýtið að Mörður, fyrrum náin samstarsmaður forsetans, og fleiri skuli snúa við honum baki þegar hann er að margra mati er að hvetja þjóðina til dáða á þessum erfiðleikatímum.

    Mörður, svekkelsi og niðurlæging ykkar Samfylkingarmanna er skiljanleg. Málstaðurinn ykkar og undirlægjuháttur gagnvart ESB og útlendingum yfirleitt er orðinn allri þjóðinni bæði augljós og hlægilegur.

  • Haukur Nikulásson

    Mörður, ég gleymdi einu: Samningatæknin er að hafa meira úthald en andstæðingurinn. Það var gert í Þorskastríðunum.

    Við getum ekki sent annað sendiherraígildi sem gefst upp í startholunum.

  • Hordur – er ekki samningataeknin I bodi VG? Steingrimur, Indridi og Svavar eru I theim flokki, ekki Samfylkingu – jafnvel tho formadur Framsoknar og thu virdist eiga ofsalega erfitt med ad fota ykkur I theirri stadreynd.

  • Haukur Stendur I Lappirnar og er stadfastur I rangfaerslum sinum, m.a. I thvi hver styrdi samningum, flutti frumv arpid um Icesave. Vissulega er thar abyrgur radherra I samstafsstjorn VG og Samf, en Haukur kys – eins og formadur Framsoknarfl (sjalfsagt spin fra KB-Bensa) – ad horfa fram hja thvi og klina ollu a Samf. thad er hattur ofgamanna.

  • Haukur Nikulásson

    það er Samfylkingin sem gengur harðast fram í að samþykkja Icesave. Ég minnist þess ekki að Svavar hafa formlega gerst handgenginn VG? Kannski er það misminni. Mig minnir að hann hafi verið hættur þegar Samfylkingin og VG urðu til.

    Anna, þér til upplýsingar, ég tilheyri ekki neinum flokki og segi hverjum sem heyra vill að ég telji að einkavinavæðing Davíðs og Halldórs sé upphaf hrunsins og að Jóhanna og Steingrímur séu að fullkomna eyðilegginguna.

    Mér er svo sem sama núna hverjum er um að kenna, málið má ekki enda í þeim farvegi sem stjórnin setti þetta í. Það er fátæktargildra til mjög langs tíma án vonar um leiðréttingu eða réttlæti í málinu öllu.

  • Er ekki rétt munað hjá mér að Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og VinstriGræn hafi öll staðið í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga?

    Ef við gefum okkur, eins og eðlilegt er, að þetta sé allt þjóðhollt fólk sem gerir sitt ítrasta fyrir hagsmuni Íslands, þá vaknar spurningin hver var árangurinn?

    Allir flokkar virðast sammála um að við eigum/ætlum að borga lágmarksinnistæðutrygginguna 20,887 evrur.
    Bjarni nokkur Ben. mælti fyrir tillögu í desember 2008 um að ganga til samninga um Icesave og forsendurnar voru 7% vextir og lánstími 10 ár.
    Steingrímur J. mælir með samning sem gerir ráð fyrir 5.5% vöxtum og lánstíminn er 15 ár.

    Þar sem allir hafa setið við samningaborðið nema Framsóknarflokkurinn og forsetinn, væri kannski ráð að leyfa þeim að spreyta sig…
    Á meðan brenna restarnar af hagkerfi okkar.

    Verði ykkur að góðu.

  • @marat
    22. greinin í tilskipuninni um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum frá 2002 er um breytingar á fyrri tilskipun um vátryggingarstarfsemi. Segðu mér hvar í þessari tilskipun þú finnur eitthvað um ábyrgð gistiríkis útibús frá móðurfélagi í aðildarríki ESB/EES á eftirliti með því.

  • Fyrirgefðu Arnar, þetta er TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2000/12/EB ekki 2002

  • Það er nauðsynlegt að lesa þennan texta á ensku, þar sem íslenska þýðingin er meingölluð. Ég tek sem dæmi:

    7. Before following the procedure provided for in paragraph
    2, 3 and 4, the competent authorities of the host Member
    State may, in emergencies, take any precautionary measures
    necessary to protect the interests of depositors, investors and
    others to whom services are provided. The Commission and
    the competent authorities of the other Member States
    concerned must be informed of such measures at the earliest
    opportunity.

    ….

    8. Host Member States may exercise the powers conferred
    on them under this Directive by taking appropriate measures
    to prevent or to punish irregularities committed within their
    territories. This shall include the possibility of preventing
    institutions from initiating further transactions within their
    territories.

    Greinin fjallar um útibú og eftirlit með þeim. Þessi síðasta grein hefði nægt Bretum til að frysta allar eignir Icesave.

  • Chicken Little

    Já marat – þú ert miklu betri í Evrópurétti en allt starfsfólk utanríkis-, fjármála- og viðskiptaráðuneyti til samans.

    Verst að þú hafir ekki verið sendur út til að semja.

    En Bretar og Hollendingar eiga kannski líka klára kalla eins og þig sem geta grafið upp svona setningar:

    Responsibility for supervising the financial soundness of a credit institution, and in particular its solvency, rests with the competent authorities of its home Member State. The host Member State’s competent authorities retain responsibility for the supervision of liquidity and monetary policy. The supervision of market risk must be the subject of close cooperation between the competent authorities of the home and host Member States.

    Og ef það er satt sem að Björn Valur lét hafa eftir sér. Að Bretar hafi ætlað að loka útibúinu Icesave sumarið 2008 en hafi hætt við eftir að íslensk stjórnvöld hafi fullvissað þá um að þeir myndu ‘redda þessu’.

    Þá væri kannski ekkert svo gaman að sitja þarna röngu megin við samningaborðið.

  • Ágæti Chicken Little, ég er nú bara í allri hógværð að enduróma það sem Eva Joly og Alain Liepitz, sem benda á að eftirlitsábyrgðin er sameiginleg. Sagan sem Björn Valur er að segja, undirstrikar að vald til lokunar var hjá Bretum og Hollendingum. En Hollendingar hafa sagt að þeir hafi ekkert getað að gert þegar Icesave opnaði í Hollandi vorið 2008. Sem er rangt. Einsog Eva Joly benti á í viðtali við NRC Handelsblad. Að íslensk stjórnvöld hafi fullvissað Breta um að þeir myndu redda þessu, fríar Breta ekki undan ábyrgð gagnvart neytendum í sínu landi. En vissulega eru þeir að innheimta loforð sem Árni Matt. og kannski fleiri gáfu. Það loforð var því miður innistæðulaust en einsog kunnugt er hafa ráðherrar í lýðræðisríkjum ekki fjárveitingavald.
    Þannig að Bretar tóku séns, byggðan á von og vilja en engri getu og engri lagalegri heimild. Sorgarsaga. En sorgarsögur mynda ekki lagalegar skuldbindingar. Og siðferðilega ábyrgðin er ekki síður þeirra. Og ef þeir væru skynsamir menn, þá myndu þeir hætta kúgunartilburðum og reyna að finna lausn sem við getum lifað með.

  • Chicken Little

    Marat,

    Ef þú lest íslensk lög sem hafa verið tekin upp eftir þessum reglugerðum sérðu að meigin ábyrgðin liggur hjá heimaríki. Gistiríki ber skylda til að fullvissa sig um það að viðkomandi útibú sé undir eðlilegu eftirliti í heimaríki.

    Ef gistiríkið fær fullvissu frá heimaríki um að allt sé með felldu – þá hafa þeir ekki grundvöll til þess að grípa til aðgerða.

    Icesave útibúið sem slíkt var ekki endilega illa rekið, ekki frekar en útibú Landsbankans á Ísafirði. Það var fyrirtækjasviðið sem var búið að ausa pening í vitleysu. Það var þannig móðurfyrirtækið sem fór yfir og dróg með sér útibúið.

    Bretar höfðu litlar, en þó nokkrar, skyldur gagnvart útibúinu. En þeir gátu ekki metið allann bankann í heild sinni.

    Í hvert skipti sem einhver hefur haldið fram hið gagnstæða þá hafa þeir verið að benda á lög og reglugerðir sem eiga við um dótturfyrirtæki.

  • Ég leyfi mér að vera ósammála þér Chicken. Ef þú lest DIRECTIVE 2000/12/EC í heild sinni þá sést vel hvenær verið er að tala um útibú (branch) og hvenær dótturfélög (subsidiary). Í 22. grein er verið að tala um útibú.

    Tilskipanir ESB hafa lagagildi hvort sem aðildarlönd hafa komið því í verk að fella þær inní lög eða ekki og hvernig sú aðlögun hefur átt sér stað. Þannig að best er að fara alltaf beint í tilskipanirnar.

    Það kann að vera að við lesum ofangreinda tilskipun á ólíkan hátt en það ætti að mínu mati að vera ljóst að í þessari tilskipun er lögð rík áhersla á að neytendaverndin hvílir á gistiríkinu. Þetta hefur Liepitz einnig undirstrikað að hafi verið markmiðið með gerð þessarar tilskipunar.

    Nái menn ekki saman um þennan skilning, hefur þá enn einn ásteytingarsteinninn verið fundinn.

    Ennfremur mæli ég með að menn lesi aftur 8. málsgrein 22. greinar, þar sem fram kemur að FSA hefði verið í lófa lagið að stöðva alla fjármagnsflutninga (This shall include the possibility of preventing
    institutions from initiating further transactions within their
    territories), án þess að grípa til þess óyndisúrræðis að birta nafn Landsbankans á opinberri skrá yfir hryðjuverkasamtök.

  • Linur myndi Mörður allur

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur