Miðvikudagur 13.01.2010 - 11:56 - 5 ummæli

Hjartað slær í Kjararáði

Fréttablaðið segir frá því í morgun að Kjararáð hafi enn ekki brugðist við lögum frá því í sumar um að enginn ríkisstarfsmaður fari fram úr forsætisráðherra í launum.

Lögin eru frá 18. ágúst og hefur ráðið því haft tæpa fimm mánuði til að fylgja lögunum fram.

Þetta er örugglega alveg eðlilegt. Guðrún Zoëga, sem er formaður Kjararáðs, segir að launamennirnir sem um ræðir verði að geta andmælt og svo séu ýmis álitaefni sem þurfi að taka á og málið sé snúið. Um er að ræða fjölmennan hóp, eitthvað á fimmta tuginn, fyrst um tuttugu forstöðumenn stofnana og ríkisfyrirtækja, svo næstum þrjátíu dótturfélaga ríkisfyrirtækja – allir með meira en 935 þúsund krónur í laun á mánuði. Það er alveg eðlilegt að þetta taki sinn tíma.

Í Kjararáði situr líka fólk sem hefur hjarta sem slær með þeim sem verða illa úti í kreppunni og missa hluta af bjargræði sínu.

Og úr því þetta tekur sinn tíma er alveg eðlilegt að endurreisnin öll taki sinn tíma. Þetta er svo snúið, og svo þurfa aðilar máls að geta nýtt andmælaréttinn og að auki koma ýmis álitaefni.

Fólk sem missir vinnuna hefur að vísu engan andmælarétt. Og fólk sem missir húsið sitt lendir ekki mjög í miklum álitaefnum. En það fólk á sér heldur ekkert Kjararáð undir forystu Guðrúnar Zoëga.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Ég veit að þetta er snúið lagalega. Það er td. enginn tímamörk á framkæmdinni samkv. Lögunum?? Eru einhver ákv. í neyðarlögunum sem hægt væri að beita???? Það er algerlega ólíðandi að fólk sem komist hefur á ríkisjötuna ( hugsanlega einhverjir vegna hæfni) skuli komast upp með þetta á meðan margt heiðvirt fólk lepur dauðan úr skel vegna kreppunar.

  • Var nokkur meining á bak við þetta? Var þetta ekki bara eitt af þeim viðbrögðum til að lækka óánægjuöldurnar í lýðnum?
    Margt hefur verið sagt sem hljómar vel í fyrirsögnum. Og við vitum öll að fjölmiðlar fylgja engu eftir svo áður hörð mál verða að engu.
    Ríkisstjórnin verður að gera betur ef hún ætlar að ná trausti fólksins.

  • Ég hafði engan andmælarétt þegar mín laun lækkuðu um tugi þúsunda, og var ekki af miklu að taka, ég vinn á Landsspítalanum er bara sjúkraliði.

  • Halldór Á

    Góð umræða hjá þér Mörður

    Mig hefur undrað þessi ótrúlegi seinagangur hjá Guðrúnu Zoega. Fyrirsláttur hennar er sérkennilegur. Ef það er búið að setja lög um að lækka laun fólks, hverju á það þá að andmæla? Og hvernig ætlar Kjararáð Guðrúnar að taka á þessum andmælum?

    Þú hittir naglann á höfuðið. Það er ekkert að gerast í þessum efnum vegna þess að Kjararáðsfólk hefur ekki geð í sér til að lækka laun vina sinna, kollega og vandamanna niður fyrir milljónina.

    Guðrún Zoega er lydda og það á auðvitað að víkja henni úr Kjararáði. Auðvitað hefði Kjararáð strax átt að lækka umrædd laun og bjóða fólki að segja upp vinnunni ef það sætti sig ekki við það.

  • Mikið til í þessu. Það er mikil vernd fólgin í að vinna hjá hinu opinbera þegar maður er hátt settur – þeim lægra settu er ekki sýnd nein vægð, þá vefst ekki fyrir mönnum að skera niður svo um munar og senda viðkomandi á Mæðrastyrksnefnd ef svo ber undir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur