Mánudagur 18.01.2010 - 08:32 - 9 ummæli

Davíð kallar

Davíð Oddsson vill ekki að Bjarni og Sigmundur Davíð séu að makka á „furðufundum“ með Jóhönnu og Steingrími. Davíð segir í Sunnudagsmogga að næst sé þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem „ólánslögin“ eru felld, og fyrst að henni lokinni komi „þverpólitísk“ samninganefnd. Framhald í næsta Reykjavíkurbréfi.

Þetta er fróðlegt. Staðan er þannig að eina leiðin til að ná lendingu í Icesave-málinu, að ekki sé talað um efnislegan ávinning, er breið samstaða innanlands. Breytingar, nýr samningur eða einhverskonar gerðardómur með milligöngumanni eða sáttasemjara – þetta er útilokað nema viðsemjendur og aðstoðarmenn geti verið þokkalega vissir um að á nýja niðurstöðu verði fallist á Íslandi.

Þessvegna gerir ríkisstjórnin rétt með því að kalla forystumenn stjórnarandstöðunnar til liðs, þrátt fyrir allt sem á hefur gengið. Og þessvegna var nákvæmlega rétt hjá Bjarna og Sigmundi Davíð að taka þátt í samráði um hvernig á að halda áfram. Þeir eru að sumu leyti fangar eigin árangurs – eftir að forsetinn féllst á óskir þeirra um þjóðaratkvæðagreiðslu bera þeir sinn hluta ábyrgðarinnar á því hvernig fer í framhaldinu. Þeir eru reyndar menn að meiri að hafa áttað sig á þeirri nýju ábyrgðarstöðu.

Hvað sem nú verður, þegar jötunninn hefur kallað úr Hádegismóum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Telemakkos

    Því miður virðist „Hrunsteinn“ – hér annars staðar á Eyjunni – vera með þetta:

    „Hannes Hrunsteinn Gissurarson
    18.01 2010 kl.08:46 Tilkynna óviðeigandi ummæli!

    Slóð Frábærar fréttir!
    Þá styttist í að ríkisstjórnin falli og Davíð taki við.
    Kjartan og ég verðum í nýrri samninganefnd um Icesave. Þjóðin verður að greiða það fyrir Björgólfana.
    Ragnar Árnason sér þá um niðurrif velferðarkerfisins.
    Þetta er allt að gerast…“

  • Einar Pétur

    Góð grein um Icesave frá 12. þ.m.

    Það sorglega við þessa pólitísku stöðu sem upp er komin er að ríkisstjórnin ber ábyrgð á henni. Þessi skrípaleikur í sumar kom okkur í þessa stöðu. Því miður stóðu Steingrímur og Jóhanna ekki í lappirnar þegar á þurfti að halda. Málið var tilbúið í sumar og hefði átt að vera borið upp til samþykktar eða synjunar. Liljur hefðu ekki fellt málið á þeim tíma punkti, hvað þá Rousseau Bessastaðabóndi.

    Það verður áhugavert að reikna út hvað þessi pólitíski hringlandaháttur hefur kostað landið. Ætli hann fari ekki að slaga uppí Icesave?

    Bjarni og Sigmundur eru bara í þeim leik að gera Icesave að táknmynd hrunsins. Icesave er svo á ábyrgð x-S og x-V. Ergo: hrunið er Samfylkingu og VG að kenna. Þannig munu næstu kosningar hljóma.

    Sorglegt.

  • stefán benediktsson

    Viðsemjendur okkar munu ekki koma aftur að samningaborði nema að tryggt sé, fyrirfram, að næsti samningur haldi. Það eykur ekki bjartsýni að eiga allt sitt undir „Framtíðar“pólitíkusunum ungu. Snúnara finnst mér þó að tvær ákvarðanir forseta skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar kalla eiginlega á þá nýjung í stjórnarfari að forseti og ríkisstjórn semji fyrirfram um innihald laga.

  • Halldór AS

    Maður hefur séð þetta viðhorf sem Mogginn viðrar víða hjá stjórnarandstöðunni undanfarna daga.

    Áður var kvartað yfir því að stjórnin hlustaði ekki á stjórnarandstöðuna í þessu máli, en nú á það að heita spuni og nánast móðgun við stjórnarandstöðuna að liðsmenn hennar séu spurðir út í hugmyndir sínar.

    Málið er einfaldlega það að stjórnin var búin að afgreiða þetta mál fyrir sitt leyti, en synjun forsetans gjörbreytti stöðunni og gefur tilefni til gagngerrar endurskoðunar – en sú endurskoðun getur eiginlega ekki farið fram á forsendum stjórnarinnar eingöngu. Það þykir mér allavega heldur hjákátleg krafa; að þeim sem áttu að hafa brugðist í málinu sé gert að taka upp boltann alfarið á eigin ábyrgð að nýju. Ekki gefur það neitt sérstaklega til kynna að stjórnarandstæðingar séu að vinna í málinu af heilum hug; miklu frekar hættir manni til að álykta að þeim henti einna helst að hanga á hliðarlínunni og setja út á allt það sem stjórnin gerir, og leyfa henni að bera þessa óvinsælu Ísbjargarbyrði ein og óstudd þegar allt kemur til alls.

    Gott og vel; samstaða hefur hugsanlega náðst um þverpólitíska samninganefnd – en er sú afskaplega einfalda og óbyltingarkennda hugmynd virkilega eina innlegg stjórnarandstöðunnar? Eftir allt þetta karp í fjöldamarga mánuði? Því á maður afskaplega erfitt með að kyngja.

  • Ómar Kristjánsson

    Staðreyndin er að við gjörning forseta var málið sett í rugl sem enganveginn er hægt að sjá fram úr.

    Með stjórnarandstöðu sérstaklega – eg sé enga möguleika á að hún fari að segja eitthvað af viti varðandi þetta mál. Mér sýnist bara sama lýðskrumið og bullið áfram frá þeirra hálfu. (enda alltaf hugsað þannig hjá sjöllum og frömurum, hugsað sem vopn til að koma núverandi stjórn frá)

    Það sem vantar líka alveg að nái nní umræðuna er að háttalag sjalla og framara hefur valdið Landinu meiri skaða nú þegar en icesaveskuldin.

    Í staðinn eru settar af stað miklar umræður í i 2-3 daga, kringum orð manns nokkurs sem – gleymdi að taka með inni dæmið EES samninginn !

  • Hefði ekki þurft breiða samstöðu frá byrjun? Ögmundur kallaði eftir því. Hvar varstu þá Mörður?

  • Mörður Árnason

    Breiðust var samstaðan, kæri Marat, þegar allt var gert einsog Ögmundur vildi í lok ágúst. Það sýnir okkur auðvitað að samstaðan þarf að vera um raunsæ markmið.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Alveg frá upphafi hefur hreina vinstri stjórnin fullyrt að allt væri útilokað hvað varðar betri samninga. Þjóðin er örugglega búin að fá meira en nóg af ÚLFUR – ÚLFUR lygaýlfrinu frá þér og þínum líkum. Því miður fyrir þjóðina hafa einmitt slíkir aðilar stjórnað feigðarförinni. Man ekki betur en að Jóhanna og Steingrímur hafi logið um að fyrirvararnir í samningi 2 hafi rúmast innan þess fyrri eftir að breiða samstaða flokkanna um málið náðist í sumar. Það var aldrei nein spurning. Svona fer þegar kunnáttulaust fólk fer í verkefni sem það hefur nákvæmleg ekkert í að gera. Dýrustu einkavinavæðingar sögunnar.

    Breið samstaða næst ekki fyrr en að þjóðin hefur hafnað Icesave samningshroðanum í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þá fyrst er hægt að tala um næstu skref. Vonandi utanþingssamninganefnd og utanþingsstjórn. Stjórnmálamenn hafa verið uppljóstraðir sem marklausir tækifærissinnar. Þingheimur nýtur heilla 12% traust þjóðarinnar, og það var mælt fyrir þennan sirkus vinstri stjórnarinnar. Stjórnin hefur sýnt og sannað að hún er ófær um að koma að málum til að leysa deiluna, vegna þess að hún hefur allt aðrar áherslur en mikill meirihluti þjóðarinnar, sem nokkuð augljóslega telja hana gæta hagsmuna rangra aðila. 30% stuðningur við Icesavehroðann segir allt sem þarf.

    Annars er stjórnin örugglega frábær og einstök hvað með að framfylgja stefnuskrá sinni og festa vel í minni þjóðarinnar um stórfenglegheit hreinnar vinstri stjórnar. Hvernig er það annars, stýrir Davíð ennþá Samfylkingunni hvað stefnumótun varðar? Hans nafn er nefnt oftar opinberleg en formanns Samfylkingunnar þegar flokksmenn tjá sig opinberlega um meint ágæti stjórnarinnar. Það er ekki fyrr en þjóðin segir klárt NEI og tekur völdin af stjórninni í málinu, hendir út handónýtu samningaliðasdraslinu og samningsaðferðafræðinni að mótaðilarnir og „alþjóðasamfélagið“ fer loksins að taki mark á okkur. Engin tekur mark á þeim sem lætur viljugur traðka sig ofaní svaðið, og unir því ágætlega og ætlar sér að vera þar um alla framtíð.

  • Samfylkingin er spilltasti flokkur landsins, ég er farin að hallast á að hrunnið sé af þeirra völdum, það er ekki einleiki að þeir sem stjórna nú í bönkunum eru flest allir góðkunningjar samfylkingarinnar úr gömlu bönkunum og það stendur þeim firrir þrifum að hreinsa til. Samf lætur í það skína að Björgúlfs feðgar séu vinveittir Sjálfstæðisflokknum og spillingin sé þaðan komið samt eru Samf og VG sjúk í að borga óreiðu þeirra. Hvaða ráðabrugg er í gangi hjá þeim vinum Steingrími, Svavari ,Indriða, Jón B, Jóhönnu og Gordon B hryðjuverka skoffíni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur