Föstudagur 22.01.2010 - 10:38 - 19 ummæli

Fyrsta uppsögn: Páll Magnússon

Sárar uppsagnir á Ríkisútvarpinu þar sem útvarpsstjóri og stjórn bera að sjálfsögðu fyrir sig niðurskurð þings og ríkisstjórnar – og um leið harmar stjórnin ályktun frá flokksráði VG þar sem fram hafi komið meiðandi aðdróttanir …

Niðurskurður var ekki það sem Ríkisútvarpið átti skilið núna í kreppunni þegar hlutverk þess er mikilvægara en nokkru sinni.

Stefnumið og stjórnunarhættir á Ríkisútvarpinu hafa hinsvegar verið þannig undanfarin ár að útvarpsstjórinn og hin meðvirka stjórn RÚV – held þetta sé í sirka fyrsta sinn sem hún tjáir sig opinberlega – verða að líta í eigin barm eftir verulegum hluta skýringa á því hvernig komið er.

Því miður er alltof margt sláandi satt í dónalegu ályktuninni frá VG. Sjónvarpsstöðin stefnir óðfluga að því að verða einskonar Séðs- og heyrðs-útibú með léttmeti til að þjóna auglýsendum, og á meðan drabbast Útvarpið niður í blankheitum og metnaðarleysi á báðum rásum.

Samt hafa fjármálin verið ein tragedía, líka fyrir hrun og niðurskurð – en Páll fréttalesari finnur upp nýjan og nýjan fortíðarvanda og allskyns samtímaaðstæður til að afsaka hallareksturinn.

Staðreyndin er sú að tilraun Sjálfstæðisflokksins og 2007-gengisins um RÚV ohf. hefur ekki gengið upp. Það á Páll Magnússon að viðurkenna með því að segja fyrst upp sjálfum sér – og skila svo jeppanum dýra.

Þá væri kannski hægt að taka til við raunverulegt almannaútvarp í þjónustu við landslýð.  

Hvað ofsagt?

Hér er annars ályktunin frá VG. Ég hefði líklega orðað þetta aðeins öðruvísi – og auðvitað má ekki gleyma því ýmislega sem vel er gert – en fróðlegt væri að vita hvað þeim Svanhildi, Ara, Auði, Kristínu og Margréti í stjórn RÚV ohf. þykir almennt sagt of eða van í þessum texta.

Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs áréttar mikilvægi þess að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að búa svo um hnútana að hér geti frjálsir fjölmiðlar þrifist. Að sama skapi er mikilvægt að standa vörð um sjálfstæði Ríkisútvarpsins og það hlutverk sem því er ætlað í íslensku samfélagi. Lagaumgjörð, stjórnun og rekstrarfyrirkomulag sem nú gildir um RÚV, hefur ekki tryggt hlutverk miðilsins, sem virðist undir sömu sök seldur og aðrir miðlar. Stjórnendur RÚV hafa heldur ekki borið gæfu til að skilja hlutverk stofnunarinnar. Áherslan er áfram á ungar, vellaunaðar sjónvarpsstjörnur, forstjóralaun og jeppa, og niðurskurðartillögur ganga helst út á tilraunir til að losna við láglaunaða, reynda útvarpsmenn, sem ætti að öðrum ólöstuðum helst að halda í.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • María Kristjánsdóttir

    Sammála að þetta er óskiljanleg yfirlýsing frá stjórninni. Vilja þau halda í oháeffið? Reyndar er eitt af aðalatriðunum varðandi niðurskurðinn að það vantaði ekki aðvaranir þegar lagðar voru niður áskriftir á RÚV og það sett á fjárlög. Allir sem vildu vita vissu að það gat aðeins haft eitt í för með sér að alþingi yrði stöðugt að grauta í fjármálum stofnunarinnar. Allar ákvarðanir sem teknar voru í sambandi við oháeffið af fyrrum menntamálráðherra og meirihluta á þingi hafa verið til skaða fyrir stofnunina.

  • Tek undir hvert einasta orð í þessari ályktun VG.

  • Flott grein og réttmæt Mörður.

  • Hef engan áhuga að halda úti ríkisreknum fjölmiðli. Vinsamlegast selja þetta strax ef kaupandi finnst annars leggja þetta niður. Ekki koma með rökin um öryggi eins úrelt og þau eru….

  • Ef við stöldrum aðeins við staðreyndir sem liggja á blaði í formi ársreiknings.
    Rekstrarár RUV er frá 01.09 hvers árs til 31.08 þess næsta. Í ársreikning 2009 kemur í ljós að RUV skilaði hagnaði…já hagnaði af rekstri upp á kr. 856.583.228 fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Daglegur rekstur stofnunarinnar stendur því undir sér og vel það. Að frádregnum afskriftum er enn hagnaður upp á rúmlega 628 milljónir. Þá koma fjármagnsliðir og gengismunur og þá sígur á ógæfuhliðina, niðurstaðan er tap upp á rúmlega 217 milljón. Er það mögulegt að þetta segi okkur að stjórnendur og starsfólks er að skila góðu dagsverki en skuldir og gengisáhætta sé að eyðileggja þann árangur. Er mögulegt að við stofnun ohf hafi ekki verið gengið rösklega til verks og skuldastaða leiðrétt til samræmis við bolmagn rekstursins. Áður en við dæmum og rekum ættum við kannski að staldra við og skoða hvar vandinn liggur.
    Þetta breytir þó í engu skoðun minni á ríkisreknum fjölmiðli, við getum vel lifað án hans.

  • Góð grein Mörður..Sammála því sem kemur framm hjá þér. Ályktun VG segir allt sem segja þarf..Meira hefur borðið á útlitsdýrkun en hæfniskröfum þar á bæ hvað varðar sjónvarpið. Vegna hvers er haldið dauðahladi í það löngu úrelta fyrirbæri að vera með þulur? Af hverju er engar menntunarkröfur uppá borðinu þegar kemur að Ragnhildi Steinunni og vegna hvers er ráðist harkalega að kvenfólki í uppsögnum Kastljóss? Hvaða karlmönnum var sagt upp? Og vegna hvers þessi „tragedía“ þegar þeim er hent út? Getur verið að ástæðan sé sú að enn sé litið á þá sem fyrirvinnur??
    Páll er löngu búinn að sýna frammá vanhæfni sína sem útvarpsstjóri. Vegna hvers skilar maðurinn ekki jeppanum..lækkar sín eigin laun? Ætti hann ekki einmitt að hafa efni á að aka um og reka eigin bifreið einsog aðrir? Og til að kóróna allt segir hann Kristni Err upp með pistlana á Morgunvaktinni á mánudögum, þenna reynda útvarpsmann…eina manninum sem er talandi á íslensku..Vá..! Burt með Pál..inn með Kristinn Err…!

  • Kristján

    Best væri að leggja RUV niður. Næstbest væri að reka bara einn ríkisfjölmiðil. Af hverju er ríkið að vasast í að reka sjónvarpsstöð, tvær úrvarpsstöðvar og netmiðil? Rás 2 er orðin atvinnubótavinna fyrir úrelta poppara sem flytja dagskrá fyrir miðaldra karla. Þeir geta fundið sitt efni annars staðar, t.d. út í plötubúð eða á netinu.

  • Lárus Vilhjálmsson

    Það er augljóst eftir þessa slátrun útvarpsstjóra í dag að við erum að eignast eina ríkisfjölmiðilinn í heiminum sem sinnir bara keppnisiþróttum, amrískum dægurþáttum og júróvisjón. Íslensk menning er sett á klakann.

    Og fréttirnar í kvöld voru kannski dæmi um hvernig fréttamatið verður því þegar sagt var frá fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu um stækkun Rio Tinto í Straumsvík þá var bara rætt við forstjórann en ekki leitað eftir svörum andstæðinga stækkunarinnar.

  • Þessi grein þín Mörður hefði átt að koma fyrir löngu, en betra seint en aldrei. Hef undrast lengi metnaðarleysi ríkissjónvarpsins þar sem t.d. gamlir reynsluboltar hafa verið látnir taka pokann sinn og inn hefur verið ráðið vanhæft ungt en „fallegt fólk “ fólk. Mér hefur sýnst þetta líkjast einna helst amerísku sjónvarpsstöðunum þar sem menntun, reynsla og málfar er í öðru og þriðja sæti en útlit og aldur sett í fyrsta sæti. Sama metnaðarleysið er hjá útvarpinu, má t.d. rás 2 algjörlega missa sín.
    Það er löngu komin tími á að Páll Magnússon taki hatt sinn og fari að sinna öðrum hlutum.

  • Mig langar að staldra aðeins við fyrstu málsgrein ályktunar VG:

    „Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs áréttar mikilvægi þess að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að búa svo um hnútana að hér geti frjálsir fjölmiðlar þrifist“

    Núverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, ákvað að skera 10% af tekjustofni RUV. Það eru því núverandi stjórnarflokkar sem bera fulla ábyrgð á að RUV geti ekki þrifist sem frjáls fjölmiðill. Ég bendi á fyrri færslu mína hér að ofan þar sem fram kemur að daglegur rekstur RUV er í lagi og skilar hagnaði. Það er sú óráðssía sem Páll sem sagt stendur fyrir. Tek hér eftir að Mörður kýs að svara ekki staðreyndum um rekstarárangur RUV. Það er jú mun áhrifaríkara að tala um jeppann hans Páls. Nú þegar Páll hefur skilað honum, hvað er nú hægt að finna til svo ekki þurfi að tala um kjarna málsins.

  • Mörður Árnason

    Rétt, Örn, það er ofsagt hjá mér um ábyrgð stjórnenda RÚV — fyrr og síðar — á fjármálatragedíunni. Nú og þá skammta stjórnvöld megintekjur RÚV, og skuldirnar að hluta til líka. Þannig er RÚV att á auglýsingamarkað eftir viðbótartekjum í samkeppni upp á líf og dauða við hinar stöðvarnar, og sú samkeppni mótar svo dagskrána, en ekki hlutverk RÚV sem almannaútvarps á fjölbreytilegum fjölmiðlavettvangi. — Á hinn bóginn er hallarekstur hallarekstur, og um fjármagnsliði og gengisáhættu vita rekstrarmenn sitthvað fyrirfram.

  • Sæll Mörður og takk fyrir athugasemdina. Mér finnst skipta máli að aðgreina árangur daglegs rekstur, þ.e. niðurstöðu EBITDA frá lokaniðurstöðu. Nú þekkir þú sjálfsagt forsendur við stofnun ohf en það læðist að mér sá grunur að það félag hafi fengið í arf áratuga hallarekstur í formi skulda. Ef rétt reynist þá hefðum við átt að skera skýrar þarna á milli, viðurkenna skuldastöðuna, ríkið tækið þann pakka (gerir það hvort eð er) og ohf hefði byrjað með eðlilega skuldastöðu miðað við vænta starfssemi. Þá hefði t.d. verið hægt að sníða þennan stakk að afnotagjöldunum og loka fyrir tekjuöflun á auglýsingamarkaði. Ég verð þó að segja eins og er að það setur að mér hroll að færa Stöð2 nánast einokun á auglýsingamarkaðnum.
    Ég er einnig mótfallinn nefskattinum sem slíkum, hefði viljað afnotagjöldin beint til RúV áfram. Ástæðan fyrir því er að tekjupósturinn hefði þannig verið gegnsær og ábyrgð stjórnenda RUV þar með skýr. Nefskattinnum er því miður stýrt af Alþingi, samanber niðurskurður þess á honum til RUV nú um 10%. Frekar hefði átt að krefja stjórnendur um niðurskurð sem hefði skilað sér í hagnaði af rekstri sem svo rynni inn í ríkissjóð. Þannig helst ohf sjálfstætt og ábyrgð skýr.

  • Ríkisútvarpið hefur staðið sig vel samkvæmt tilgangi sínum. Það tók ekki nema mánuð að snúa því úr málgagni Sjálfstæðisflokksins í málgagn Samfylkingarinnar.

    Ekki stirðleikinn þar á bæ.

  • Opnum sjúkrahús í útvarpshúsinu eða dvalarheimili. Þarna gæti verið stórfín heilsugæsla og fl. og fl.
    Ég er á móti ríkisreknu bákni eins og Rúv stofnunin er.
    Algjör þvílík peningasóun á almannafé.!!
    Burt með sjónvarpið, og útvarpið, seljum hæstbjóðanda.
    Hættum að láta gráðuga borga sér miljón og meira á mánuði fyrir rassasetur, og frekjugang.
    Þjóðin vildi fyrir löngu leggja þetta bákn af.!
    Eiga nokkrar skrýtnar hræður í Reykjavík að stjórna þessari fásinnu sem Rúv er.
    Bara til að menntasnobbið geti haldið þarna til, nokkrar hræður að upphefja hvor aðra.????
    Ég segi NEI NEI NEI NEI NEI…!!!!!

  • og burt líka með aðra starfsmenn ríkissins sem hafa aðgang að bíl og jafnvel frítt internet, byrjum á Jóhönnu Sigurðardóttur og hennar dátum.

  • Segjum tveir.!!!!

  • Þegar í harðbakkan sló skilaði Páll jeppanum. Svo ? Sagði jafnvel upp innmúruðum og innvígðum til að bjarga eigin skinni.

    Hvernig stendur á því að þegar harðnar á dalnum eru alltaf reknir fréttamenn og dagskrárgerðar ? Auk skúringafólks, sem enginn talar um.

    Hvað með þá sem bera ábyrgð á rekstri og dagsrárgerð til margra ára ? Eru á fjallháu kaupi og í endalausum ráðstefnuferðum að kynna sér „dagskrárgerð erlendis“, t.d. í Ulan Bator -á dagpeningum- vikum saman… Koma sjaldnast með mikinn afrakstur heim. Taka hins vegar óhemju mikið af launum RÚV, án þess að nokkru sinni sé við þeim hróflað.

  • Er sammála mörgu því sem fram kemur hér að ofan en má til með að benda „Þóru“ á að fylgjast með fréttum ætli hún sér að tjá sig um málefni líðandi stundar. Get til dæmis bent henni á að búið er að segja upp öllum þulum RÚV, Páll búinn að gefa það út að hann hyggist skila bifreiðinni, að konur eru í meirihluta í Kastljósi þrátt fyrir uppsagnirnar og að Ragnhildur Steinunn er með háskólapróf (dúxaði raunar í háskóla) og því undarlegt að halda því fram að menntunarkröfum hafi verið sópað undir mottu þegar hún var ráðin.

    Á yfirleitt mjög bágt með að skilja þessa umræðu um áherslu á útlit og ungan aldur umfram annað þegar kemur að starfsmönnum RÚV. Sé ekki fyrir mér að mörg andlit á skjánum myndu gera góða hluti í fegurðarsamkeppni og læt það fara í taugarnar á mér þegar látið er eins og fólk þurfi að vera sextugt og sambrýnt til að geta talað almennilega íslensku.

  • „Hega“. Mér þykir fyrir því að hafa verið á undan Páli…skoðaðu hvenær ég skrifaði þessi ummæli mín. Þessar fréttir voru síðan birtar í fjölmiðlum um kvöldið og mér ekki kunnugt um þær frekar en þér eða nokkrum öðrum á þeim tímapunkti. Ég fylgist vel með fréttum, sit um hvern fréttatíma. Og ég hef ekkert á móti ´fallegu´ fólki, vel menntuðu og ungu. Enda er fegurð afstætt hugtak. Sumir sambrýndir eru bara sætir. Einu sinni vorum við ung, jafnvel falleg og erum kannski bara líka vel menntuð. En þegar útlit fóks ræður för get ég sem aðrir haft á því sterka skoðun. Ragnhildur Steinunn er eflaust afburða kona á mörgum sviðum. Og fínn sjúkraþjálfari En á því sviði er menntun hennar.
    En sem betur fer er mín skoðun á málefnum RUV jafnrétthá og þín eða hvers sem er. Ég hef verið greiðandi afnotagjalda áratugum saman, nú nefskatts..Og Páll hefi átt að skila margumræddri bifreið sinni fyrir löngu þó ekki væri nema til að sýna gott fordæmi.
    Með áherslu á ungan aldur með mátulega langt á milli augnabrúna versus það að vera á sextugsaldri og sambrýndur, langar mig að fá ábendingu um ungan starfsmann RUV sem talar jafn fallega íslensku og Kristinn Err..t.d. einhvern sem slettir ekki amerísku í nánast öðru hverju orði og talar í síbylju í nafnhætti.
    Pistlar Kristins hafa verið (h)rós Rískisútvarpsins í gegnum tíðina að mörgum öðrum ólöstuðum. Það sama má segja um reynda þáttastjórnendur Spegilsins, þáttanna Vítt og breitt, Víðsjá o.m.fl. Kilja Egils Helgasonar, Fréttaaukinn sem nú á að víkja, Viðtalið sömuleiðis…en meðan þetta gengur yfir þá sem ekki eru lengur ungir eða sætir og ekki einu sinni sambrýndir, er eina ráðið að slökkva ítrekað bæði á sjónvarpi og útvarpi meðan Júróvísíon, beinar og „óbeinar“ útsendingar íþróttaviðburða, aðallega karllægra, yfirtaka dagsrkána ítrekað. Og þá er betra að geta valið sjálfur um áskrift, ekki láta þröngva uppá sig einhverju sem maður kærir sig ekki um en er nauðbeygður til að greiða fyrir.

    Og best væri að sú stöð geymdi sambrýnda karla á sextugsaldri….sem tala gullaldaríslensku.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur