Laugardagur 23.01.2010 - 11:34 - 11 ummæli

Stefnulaus niðurskurður

Takk, Páll Magnússon, fyrir að ætla að skila jeppanum. Má samt í miðjum þeim fagnaðarlátum minna á að jeppinn var þrátt fyrir allt fyrst og fremst tákn – um hina nýju og glöðu ohf.-veröld á Ríkisútvarpinu. Ef ekki á að koma annað í staðinn er kannski bara við hæfi að forstjórinn haldi jeppanum?

Niðurskurðurinn úr fréttunum í gær (ekkert plagg eða áætlun liggur ennþá fyrir frá opinbera hlutafélaginu) er verulegur, og á ýmsan hátt undarlegur. Uppsagnir reyndra starfsmanna eru flestar óskýrðar – tökum til dæmis hina vönduðu blaðamenn og stjórnendur Elínu Hirst og Friðrik Pál Jónsson. Sumar hina boðuðu breytinga hljóma skynsamlega, svo sem langdregnar beinar útsendingar frá verðlaunahátíðum og öðrum skemmtisýningum. Nema maður hélt að þetta kostaði þó ekki miklu meira en sú dagskrá sem þarf að víkja. Annað er undarlegt, stórt og smátt – nefnum til dæmis útþurrkun „Viðtalsins“ sem Bogi Ágústsson hefur séð um nokkur misseri, og er gagnmerkur þáttur sem ekki getur kostað ósköpin öll: Tveir menn í stólum.

Megingallinn við tilkynningu útvarpsstjórans er þó þessi: Niðurskurðurinn er stefnulaus. Hann er hefur áhrif á starfsemi RÚV til frambúðar, en ráðstafanirnar eru handahófskenndar. Ýmsir segja líka að niðurskurðurinn sé of mikill miðað við rekstrarhorfurnar – þótt enginn neiti því að nú þurfi að draga saman Efstaleitinu einsog annars staðar. Við þær aðstæður eiga starfsmenn og stjórnendur að setjast á rökstóla og skilgreina hver sé kjarni starfseminnar, meginhlutverk þjóðarútvarpsins. Athuga hvort stefnan hefur undanfarin ár miðast við þetta og hverju megi breyta án þess að skera á vöðvana.

Slíkar hugleiðingar er hvergi að finna í yfirlýsingum útvarpsstjórans hingað til, og ekki ljóst að neinskonar stefnumótun liggi að baki ákvörðunum hans.

Útvarpsstjórinn klæðir þær aftur á móti þeim búningi að hér sé verið að „verja“ RÚV í þágu eigendanna, almennings, fyrir árásum stjórnvalda. Líklega treystir útvarpsstjórinn á að hagsmunahópar og áhugamenn rísi upp til varnar ýmsu því sem nú á að skera niður, svo sem svæðisstöðvunum eða kaupum á íslenskum bíómyndum og efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Þá er Páll í alþekktri en fullkomlega óábyrgri stofnanapólitík þar sem verðmæti almennings eru undir.

Hvar er stjórnin?

Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið ohf. starfar þar stjórn sem alþingi kýs. Hún á – sem betur fer – ekki að skipta sér af dagskrá en ber ábyrgð á störfum útvarpsstjóra og skal „taka allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur félagsins, þ.e. ákvarðanir sem ekki falla undir daglegan rekstur, ýmist að eigin frumkvæði eða að fengnum tillögum útvarpsstjóra eða annarra starfsmanna“.

Hvar er þessi stjórn? Hvaða stefnu hafa stjórnarmenn  mótað Ríkisútvarpinu á þeim tímamótum sem nú eru augljós í störfum þess – aðra en þá að hnýta í dónalegu ályktunina frá flokksráðsfundi VG? Af hverju er stjórn RÚV ohf. í felum?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Kristján Þorvaldsson

    Því miður held ég að þú hafir rétt fyrir þér þegar þú segir að Páll sé í ,,alþekktri en fullkomlega óábyrgri stofnanapólitík þar sem verðmæti almennings eru undir.“ Auðvitað eiga dreifbýlishópar, listamannasamtök og fleiri eftir að rísa upp og Alþingi réttir síðan kúrs. Ohf hefur engu breytt. Átti það ekki bara að vera skref í átt til einkavæðingar?

  • Ég er ekki viss að við getum hér og nú talað um stefnulausan niðurskurð. Þú bendir sjálfur á að upplýsingar um tilgang niðurskurðarins liggi ekki fyrir, allavega okkur almenning. Við verðum að ætla að stjórnendur hafi lagt fyrir sig áætlun og markmið og þar situr Páll ekki einn við stjórnvölinn. Það er einföldun að halda slíku fram.

    RUV er útvarp og sjónvarp allra landsmanna. Þegar vel gengur og tekjuafgangur góður má réttlæta ýmissa þáttagerð sem höfðar einungis til fámenns hóps landsmanna. Við aðstæður sem við lifum nú við höfum við ekki efni á því. Við verðum að verja þeim peningum sem við höfum til ráðstöfunar til að höfða til flestra landsmanna, í einu. Hygg ég t.d. að Viðtalið, eins gott og það er, hafi fallið þarna undir. Þó ódýr þáttur sé, ef einungis fámennur hópur horfir á, er þá hægt að réttlæta slíkt?

    Svo er kannski annað að við höfum aldrei spurt okkur í alvöru hvað við viljum hafa þarna á boðstólum. Erum við svo viss um að þekkja þarfir okkar?

  • Sig. Sig.

    Afsakið Mörður, en hún Elín Hirst er ekki „vandaður blaðamaður og stjórnandi“ eins og þú segir. Það er Friðrik Páll hins vegar.

    Hún er lélegur fréttamaður og hefur verið helsti fulltrúi öfgafrjálshyggjumanna inni á RÚV. Nátengd Kjartani Gunnarssyni og Hannesi Hólmsteini.

    Þeir settu hana í fréttastjórastöðu til að tryggja gott aðgengi sitt að fréttastofunni. Hún hreinsaði svo fréttastofu Sjónvarpsins af nær öllum nema skærbláum starfsmönnum.

    Hún er tákn fyrir ófaglega og flokkspólitíska fréttamennsku.

  • Sigurður G. Tómasson

    Ekki er við því að búast að samdráttur í RÚV sé gerður af skynsamlegu viti. Þar hefur íhaldið raðað inn stjórnendum undanfarin ár og sumir þeirra hafa bara verið fulltrúar flokksins en gjörsneyddir viti á útvarpi. Ekki er að sjá að núverandi yfirstjórn útvarpsins vilji – eða geti – breytt þeirri skemmtifréttastefnu, glysdýrkun og aulaskap sem viðgengist hefur þarna síðustu ár. En að halda að reksturinn lagist við skera niður dagskrá og fréttir, það sýnir best vankunnáttu stjórnendanna!

  • Mörður á nú að leggja Pál í einelti eins og aðra sem þið Saf er þekkt firrir að gera. Hver var þessi kona sem var þarna á í gærkveldi hún kom mér svo kunnuglega firrir sjónir getur verið að hún sé konan hans Róperts blaðamans sem nú er á þingi firrir Samf sem er spilltasti flokkur landsins.Mörður ertu að reina koma þér þarna inn svo Samf hafi yfir að ráða fréttaflutning í báðum fjölmiðlunum.

  • Ekki get ég nú deilt skoðun þinni á Elínu Hirst, Sig. Sig. Ekki hef ég upplifað ófaglega fréttamennsku af hennar hálfu. Ég tel það orðið hættulega braut ef við ætlum að dæma alla útfrá pólitísku skoðunum viðkomandi.
    Sigurður G. Tómasson, hefur þú hugleitt hvað landsmenn vilji. Hefur það yfirhöfuð verið kannað?. Oft hef ég upplifað þáttagerð þar sem þáttastjórnandi hefði átt að vera gera eitthvað allt annað en að starfa við fjölmiðlun….og undanskil ég þá ekki vinstrisinnaða þáttagerðamenn nema síður sér.

  • Kristján

    Það kann að vera að niðurskurðurinn sé stefnulaus. Það er slæmt. Það þarf hins vegar að skera miklu meira niður hjá RUV en nú er gert. Ríkið þarf ekki að reka sjónvarpsstöð, tvær útvarpsstöðvar og einn netmiðil. Þetta er bara lúxus sem Íslendingar hafa ekki efni á. Fyrir hverja er t.d. Rás 2?

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Sammála síðuhaldara að mestu. Um fagmennsku Elínar og fleiri er ekki ástæða að efast. Sýnist helst að Óðinn er að hreinsa út fólk sem ógnar honum hvað hæfi varðar. Fréttaauki Boga og Elínu var með mun meira áhorf en fréttirnar og Kastljós, og hver mínúta mun ódýrari í framleiðlu. Og að slá viðtal Boga af er út í hött, því ódýrara er ekki hægt að framleiða sjónvrpsefni, nema þá stillimynd. Hann hefur alveg ágætis áhorf og á fullkomlega rétt á sér. Það hefur ekki verið auðvelt að kyngja fyrir fréttastjórann, sem er kominn með fréttirnar í sennilega minnsta áhorf allra tíma. Nú er forstjórajeppinn búinn að hrynja í verði, og Páll er örugglega að stefna á nýjan sem kostar þá örugglega meira en sá sem hann skilar. Varla ætlar karlinn að láta stofnunina fjárfesta í Yaris eða strætókorti.

  • Sigurður G. Tómasson

    Einhver Orn, telur það vera “ hættulega braut ef við ætlum að dæma alla útfrá pólitísku skoðunum viðkomandi“. Það var og. Þá var sem sagt ekkert við það að athuga að íhaldið raðaði inn kömmisörum í RÚV. Við, sem viljum fagleg vinnubrögð, erum við þá bara gamlir kommar? Hvenær lauk kalda stríðinu?

  • Er ekki að skilja þetta. Það er búið að vera væl núna í þjóðfélaginu í langan tíma vegna þess að RUV er í mínus. 1 milljón í dag í mínus og veit ekki hvaða forsendur voru þar bakvið. Svo þegar tekið er á því þá skilur enginn neitt í neinu og allir hafa skoðanir á því að þetta sé rangt. Hefði ekki verið betra að finna út hvað er raun kostnaður á RUV til að halda úti góðri þjónustu um land allt og allir síðan samþykkir þeim kostnaði ríkisins. 1 milljón í mínus eða plús fer einfaldlega eftir því hvað er áætlað í rekstrarkostnað og sú áætlun afstæðukennd á allan hátt. Bk, Kári

  • Sæll einhver Sigurður, einhver Orn her. Komment mitt sem þú kýst að staldra við átti að vera til að hnykkja á áliti mínu á Elínu. Það er mitt álit að hún sé góður fréttamaður, þó svo að hún sé í „röngum“ flokki að einhverra áliti. Athugasemd þín, „við, sem viljum fagleg vinnubrögð“ lýsir vanþekkingu og hroka. Var ég að lýsa því yfir að ég vildi ekki fagleg vinnubrögð eða gast þú dæmt út frá skrifum mínum að ég væri þess ófær?
    Skrif þín festa álit mitt í sessi að ríkisrekinn fjölmiðill á ekki rétt á sér í dag. Það er ekkert sem réttlætir að skattpeningar okkar séu notaðir á þennan hátt. Það skortir ekkert á tækifæri né leiðir til að koma fréttum, menningu og öðru á framfæri ef menn vilja án þess að biðja náungann um að greiða fyrir.
    Það er einmitt dæmigert að heyra enn þessu úreltu rök, sem þú heldur fram, hægri, vinstri..kalda stríðið. Ef þú telur ekkert neman sjálfstæðisfólk vinna í ruv er þá ekki það rétta að leggja það niður…eða viltu bara skipta inn á þínu fólki.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur