Mánudagur 25.01.2010 - 15:15 - 12 ummæli

Skýrsluna fyrir atkvæðagreiðslu

Það er út í hött að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um þau eftirmál hrunsins sem mestum deilum hafa valdið – Icesave – án þess að fyrir liggi skýrslan frá rannsóknarnefnd alþingis.

Umræður um hrunið og afleiðingar þess hafa tafist og hamlast vegna biðarinnar eftir þessari skýrslu – hvort sem hún nú stendur undir því eða ekki – og það er hreinlega ekki að marka þjóðaratkvæðagreiðsluna nema fyrir liggi þær grundvallarupplýsingar sem þar eru boðaðar.

Skýrsluvinnan hefur meðal annars valdið því að lykilmenn í atburðarásinni hafa kosið að tjá sig ekki um sinn hlut áður en ljóst yrði hvað í skýrslunni stendur og hvert framhaldið verður.  Stjórnmálaflokkarnir hafa líka, beint og óbeint, vísað til skýrslugerðarinnar til að afsaka að engin rannsókn eða umræða hefur enn farið fram á þeirra vegum um hrunið og ábyrgð á því.

Skýrslan og atkvæðagreiðslan tengjast í smáu og stóru. Það er ekki í anda lýðræðis og upplýsingar að ganga til atkvæða áður en skýrslan kemur út eða þá svo skömmu fyrir kjördag að enginn getur kynnt sér hana.

Ekki er annað að gera en að taka mark á þeim Páli Hreinssyni um að skýrslan sé ekki tilbúin. Þessvegna verður að fresta atkvæðagreiðslunni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Sæll Mörður,
    hér er ég ekki sammála þér. Ef ég skil rétt þá skal skýrslan varpa ljósi á aðdraganda og ástæður hrunsins. Hún er þá ekki að fjalla um Icesave eingöngu og ekki um afleiðingarnar, þ.e. hvort íslenskri þjóð beri að greiða Icesave. Því er hér verið að tala um epli og appelsínur í þeim skilningi að heilt fjármálakerfi hafi brugðist og með hvaða hætti eigi að greiða tiltekna skuld (því allir eru sammála um að samningur verði gerður, það er bara spurning um hvernig )
    Flækjum þetta ekki meir, nóg er nú samt. Tökum sértækt á Icesave og klárum það. Það er ljóst að við munum gera samning, spurningin er bara skilmálarnir.

  • Einar Ben

    heyr – heyr – heyr.

  • Sammála fyrstu athugasemdinni. Andlýðræðiskynslóðin úr Alþýðubanda-
    laginu reynir allt til að eyðileggja þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hún má ekki
    til þess hugsa að missa einhver völd.

  • Rannsóknarskýrslan og Stjórnlagaþing voru aðalútspil og loforð Samfylkingarinnar. Ég kýs ALDREI, ALDREI aftur Samfylkinguna!

    Gjörspillt samansafn valdagráðugra siðleysingja.

  • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

    Núverandi varaformaður SjálfstæðisFLokksins heitir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

    Hvað segir þetta okkur um FLokkinn ?

    Hvað segir þetta okkur um þjóðfélagið ?

    Er hugsanlegt að ástandið sé ekki alveg heilbrigt ?

  • Hrafn Arnarson

    Þjóðarakvæðagreiðslan snýst um mat. Við verðum að meta líkur þess að ná betri samningum. Við verðum að meta hvað það gæti kostað okkur að hafna samningi. Við verðum að meta hvað það kostar okkur að samþykkja samning.Við verðum að meta ávinninginn af því að samþykkja samninginn. Í þjóðaratkvæðagreiðslu er fortíðin að baki. Henni verður ekki breytt. Rannsóknarskýrslan og uppgjörin við útrásina er annað mál.

  • Rúnar Vernharðsson

    Svona brall fjórflokksins gengur ekki Mörður. Hér er fjórflokkurinn sammála að draga að birta þessa skýrslu. Kannski kemur hún aldrei. Tel það langlíklegast. Hvað er fjórflokkurinn að bralla núna. Segðu okkur það. Er verið að semja skýrsluna upp á nýtt til að fá stuðning hrunverja mestu spillingarafla í Íslandssögunni við framgang við kúgun almenns verkafólks. Hverjir fá ekki niðurfellinu á húsalánum, hverjir fá að borga allt í topp, hverjir fá að eta það sem út frýs o.s.f. endalaust kúgun á almenningi í þágu auðvaldsins.
    Hverjir fengur sína peninga í bönkum að fullu tryggaða af ríkinu á meðan verkafólk fær að borga brúsann. Þetta gengur ekki lengur að jafnaðaflokkur tengist svona svínaríi. Ef ekki verður tekið á þessu óréttlæti strax þá verður erfitt að bú hér. Þá verður máttu þess sterka virkjaður fyrr en seinna.

  • Merkilegt hvað samfylking er allt í einu orðin „þjóðaratkvæðasinnuð“. Fyrir jól þverneitaði flokkurinn að senda Icesave i þjóðaratkvæðagreiðslu, treysti fólkinu í landinu ekki til að kjósa um augljóst mál.

    Nú kveður við annað hljóð í annars tómri tunnu. Ólína vill þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótann (hvaða kvóta hefur hún reyndar ekki skilgreint). Mörður vill kjósa um rannsóknarskýrsluna sem enn hefur ekki komið út og hann hefur ekki hugmynd um.

    Samfylking er undarlegur flokkur. Hann fer í hringi. Snýst, á einu augabragði eins og einhver hefði sagt það.

  • Ég tek undir með þér Mörður að skýrslan og ICESAVE kosningar eru slæmur grautur. Að fresta kosningunum um ICESAVE er dýrt, en skýrslan mun líka opna nýjann og stórann vinkil á allt hrunið. Vonandi tekst að finna sáttaflöt hér heima og klára ICESAVE þannig.

    Orð Tryggva Gunnarssonar segja mér að þetta verður ljót lesning.

  • Veistu Mörður, ég held ekki að þetta skipti nokkru máli. Við erum mörg á vinstri vængnum sem erum óskaplega reið ríkisstjórninni fyrir svik hennar við málstaðinn. Við ætlum öll að segja NEI við Icesave – sama hvað.
    Fyrir það fyrsta, þarf að stöðva peningaflæði til landsins, sem síðan er svo mokað í „rétta“ fólkið og í öðru lagi er okkur nokk sama þó ríkisstjórnin falli. Hún hefur svo sannarlega sýnt sitt rétta andlit og svikið bæði fólkið í landinu og málstaðinn. Geri aðrir betur á jafnstuttum tíma. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þó ALLTAF staðið með sínu fólki.
    Ríkisstjórnin hefur sýnt okkur það að hér á ekkert gagnsæi að vera, engin skjaldborg, bara gjaldborg. Sama fólkið og kom okkur til andskotans, fær niurfelldar skuldir, hreint borð og fyrirtækin aftur á silfurfati. Ef ekki sama fólkið þá einhverjir útvaldir sem geta reddað sér matador peningum eða verðlausum veðum. Ekki stendur almenningi NEITT af þessu til boða.
    Nei – burt með vinstri og burt með hægri. Þið hafið fengið ykkar séns og aldeilis klúðrað málunum. Nú þarf þjóðin að gefa skít í flokka og standa saman og fá hér þjóðstjórn. Þjóðstjórn sem ekki einn einasti þingmaður, núverandi eða fyrrverandi fær aðgang að.

  • Þið voruð alveg til í að samþykkja Icesave, jafnvel óséðan samning, strax i fyrra og aftur fyrir nokkrum vikum og þá minntist enginn á að betra væri að bíða eftir þessari skýrslu. Nei, þá var þjóðinni hótað öllu illu og hver dómsdagsspáin rak aðra með hrikalegum lýsingum á því sem skekja myndi íslenskt samfélag ef Icesave yrði ekki samþykkti fyrir haustið, fyrir næstu mánaðarmót, fyrir áramót…. bla bla bla…. Skýrslan stendur örugglega fyrir sínu og við kjósum um Icesave og fellum samninginn. Svo tökum við á ykkur og hinum sem koma við sögu í skýrslunni ógurlegu.

  • Þorsteinn Vilhjálmsson

    Mörður, ég sé ekki fyrir mér að þjóðaratkvæðið verði marktækt, hvernig sem staða mála verður að öðru leyti þá og hvernig sem svokölluð úrslit yrðu. Alltof mikill öldugangur í kring, of margt að gerast. — Kveðja, ÞV

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur