Föstudagur 19.02.2010 - 12:16 - 21 ummæli

Smáfasismi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hamast á þingi og í fjölmiðlum við að láta reka breskan hagfræðing, Önnu Sibert, úr peningastefnunefnd Seðlabankans vegna þess að hún skrifaði grein um Icesave-málið í evrópskt veftímarit.

Þar hafi Anna Sibert mælt gegn „málstað Íslands“ og þarmeð óþolandi að hún sé að hjálpa Má Guðmundssyni að segja til um vextina – það sé einsog að kaupa í fótboltalið bakvörð sem ekkert kann nema skora í eigið mark.

Vá!

Að vísu snerta störf Önnu Sibert í peningastefnunefndinni ekki Icesave-deiluna, og auk þess er fólk valið utanfrá í peningastefnunefndina á þeim forsendum að það hafi fullt sjálfstæði og lúti engu valdi nema fræðilegu hyggjuviti sínu.

Anna Sibert heldur því meðal annars fram í greininni að lánsupphæðin sé ekki hærri en svo að Íslendingar ráði að öllum líkindum við hana. Hún segir líka að Íslendingar hafi nokkuð til síns máls um lagalega þáttinn, og telur 5,55% vexti nokkuð háa („rather unfavourable“ með breskum úrdrætti) – þannig að hér er varla á ferð svarinn fjandmaður?

Eitt af því sem fram kemur hjá Önnu er að líklega endurheimtist um 90 prósent af Landsbankaeignunum – ólíkt mati í nýlegri blaðagrein annars launamanns hjá íslenska ríkinu, Evu Joly, sem telur þetta hlutfall einungis um 30 prósent.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur ekki krafist þess að Eva verði rekin. Ávirðingar Önnu eru sumsé ekki þær að hafa skrifað um málið, heldur að hafa skrifað um málið gegn „málstað Íslands“. Og hver ákveður hvernig „málstaður Íslands“ lítur út hverju sinni? Jú – það er einmitt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Eitt af því allra ógeðfelldasta við Icesave-málið er einmitt orðið þetta: Hinn daglegi smáfasismi í orði og æði Sigmundar Davíðs, Moggaritstjórnarinnar og miklu fleiri – sem reyna að kæfa rök og umræðu með galdrabrennuhrópum í bland við Áfram Ísland-popúlisma. Samanber til dæmis árásirnar gegn þjóðníðingnum nýja, Þórólfi Matthíassyni.

Undarlegt í viðbrögðum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar núna – og bendir ekki til oftrúar á „málstað Íslands“ – er hinsvegar að hann skuli ekki treysta sér til að svara grein Önnu Sibert heima og úti með efnislegum rökum.

Líklega vegna þess að honum finnst mikilvægara að koma höggi á forsætisráðherra Íslands.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • “If you are not with us, you are against us!”
    http://en.wikipedia.org/wiki/False_dilemma

  • Ég myndi nú ekki láta nægja að kalla Sigmund og co bara „smáfasista“.

  • Lendir Samfylkingin í vanda, náist góðir samningar?

  • @Doddi
    Nei, það myndu allir fagna því ef hagstæðari samningar myndu nást.
    En pistill Marðar snýst um þá skoðanakúgun sem hefur verið alsráðandi í kringum Icesave málið. Ert þú hlynntur þessari skoðanakúgun?

  • fridrik indridason

    Sigmundur í sinni for
    sýpur drullu af könnu
    líklega vælir frammá vor
    um vandamálið Önnu

  • Ásgeir Gunnarsson

    þingýsa kosningaloforðum eina sem dugar

  • Of margar konur að stússa í málinu.

  • Úlfar Bragason

    Hriflu-Jónas er genginn aftur! Við höfum fengið nýjan F-flokk sem vill ákveða hvað er málstaður þjóðarinnar! Sigmundur Davíð er þó ekki versti fulltúi hans. Vigdís Hauksdóttir trompar allt!!!

  • Kjartan I save Gunnarsson

    Sigmundur Davíð er gagnlegur því hann reynir að fella ríkisstjórnina og koma okkur öfgamönnum frjálshyggjunnar aftur til valda. Davíð, Mér, Hannesi Hólmsteini og Ragnari Árnasyni…

    En ég verpð nú að segja að hann Sigmundur er ansi ófágaður í málflutningi…

  • Málið er einfalt Mörður og reiðilestur þinn bæði óþarfur og skaðlegur. Forsetinn, þjóðin og þingið hafa sammælst um, að fyrirliggjandi Ice save samningur er ekki ásættanlegur. Ríkisstjórnin og stjórandstaðan hafa náð samkomulagi um að reyna til þrautar að ná betri og sanngjarnari samningum við Breta og Hollendinga og viðræður þessa stundina eru á viðkvæmu stigi.
    Það þjónar ekki hagsmunum Íslendinga einmitt nú, að áberandi menn í þjóðlífinu og jafnvel háttsettir innan stjórnkerfisins séu á einhverju einkaflippi í viðtölum við erlenda fjölmiðla þar sem þeir gera lítið úr kröfum og óskum Íslendinga og draga á allan hátt réttarstöðu þeirra í efa.
    Orð Sigmundar Davíðs og gagnrýni hans á því ekki að túlka sem tilraun til þess að kæfa alla umræðu heldur aðeins sem vinsamleg tilmæli til einstakra manna að gæta orða sinna meðan leyst er úr viðkvæmri milliríkjadeilu.
    Málfrelsi er vissulega ein af grunnstoðum lýðræðisins en stundum er betra í þágu lands og þjóðar að þegja og hafa hægt um sig.
    Landskunnur prófessor má taka þau orð til sín en hann hefur haldið áfram af dæmalausri þráhyggju að tala niður íslenskan málstað í Icesave deilunni og getur ekki látið af þeirri iðju. Ástæðan er ekki endilega sú, að hann sé sannfærður um að rök hans standist nú eða eigi sér hljómgrunn. Hann getur einfaldlega ekki og vill ekki endurskoða afstöðu sína vegna stöðu sinnar og trúverðugleika innan Háskóla Íslands. Svona getur pólitíkin og flokkspólitísk afstaða leitt grandvara akademíkera inn í blindgötu.
    Sama má segja um aðstoðarmann fjármálaráðherra sem situr uppi með fyrirliggjandi Icesave samning og ver hann með kjafti og klóm. Hann er í áþekkri stöðu og prófessorinn.
    Hagsmunir Íslands eru ekki í fyrirrúmi heldur hitt fyrst og fremst að gæta þess að ekki falli kusk á hvítflibbann. Slíkir menn eru ekki þarfir íslenskum málstað.

  • GSS… Hvenær hafa forsetinn, þjóðin og þingið hafa sammælst um, að fyrirliggjandi Ice save samningur er ekki ásættanlegur? Ég man ekki betur en að núverandi samningur hafi verið samþykktur á þingi. Hvernig fer það saman við þessa kenningu þína? Þjóðin á eftir að kjósa og hver veit hvernig hún kýs? Hverjir eru svo hagsmunir Íslands. það virðist vera að það séu nokkrar skoðanir um það. Hvaða skoðun er þá rétt? Er það þín? Og getur þú þar með „blastað“ þá sem þú telur vera á „rangri“ skoðun (Svona svipað og Sigmundur)? Verðum við ekki að reyna að virða skoðanir annara?? Eða passar það ekki við hjá ykkur sem farið offari núna að „verja hagsmuni Íslands“?

  • Ég er sammála þér Mörður. Þessi viðhorf eru hættuleg. Þessir menn virðast trúa á Stalíniskt frelsi. Sigmundur kom ekki með ein einustu rök gegn grein Ann Sibert.

    „If you believe in freedom of speech, you believe in freedom of speech for views you don’t like. Goebbels was in favor of freedom of speech for views he liked. So was Stalin. If you’re in favor of freedom of speech, that means you’re in favor of freedom of speech precisely for views you despise.“
    Noam Chomsky

  • Ég er ekki hissa á að þú takir upp hanskann fyrir Sibert enda hefur þú ekki brugðist röngum málstað í þessu máli frekar en fyrri daginn. Þú hefur þó blessunarlega haldið þig við umræðuna innanlands og því ekki valdið sama tjóni og þau Sibert og Þórólfur sem hamast hafa í erlendum fjölmiðlum með málflutning sem óumdeilanlega er skaðlegur íslenskum hagsmunum og það á meðan viðkvæmar viðræður fara fram þar sem teflt er um hundruðir milljarða af fjármunum almennings. Slík framganga er óafsakanleg fyrir þá sem gegna opinberum störfum á vegum skattgreiðenda.

  • Hans Snorri Geirsson

    GSS: „Forsetinn, þjóðin og þingið hafa sammælst um, að fyrirliggjandi Ice save samningur er ekki ásættanlegur.“

    Hvaða bull er þetta? Þingið samþykkti samninginn og taldi hann því væntanlega ásættanlegan. Forsetinn neitaði að staðfesta lögin og vildi að þjóðin hefði sitt að segja, hann tók jafnframt fram að hann tæki enga efnislega afstöðu með því, hvorki með né á móti. Þjóðin fær svo að segja sitt 6. mars.

    Hvernig er hægt að rökræða við fólk sem tekst að koma þremur staðreyndavillum í upptalningu þriggja atriða?

  • Elvar, að halda því fram að Sigmundur hafi reynt að koma í veg fyrir málfrelsi er auðvitað brandari. Sibert er leyfilegt að segja hvað sem hún vill en þarf auðvitað að passa sig vegna stöðunnar sem hún er í.

    Ímyndaðu þér bankastjóra í banka sem á í vandræðum með lausafé. Sá bankastjóri myndi örugglega ekki gefa út fréttatilkynningu og hvetja fólk til þess að taka alla sína peninga úr bankanum. Hann „getur“ auðvitað sagt hvað sem er en það þjónar engum hagsmunum. Stjórinn hlýtur að hafa hagsmuni bankans og eigenda hans að leiðarljósi.

    Mörður, reyndu nú að koma þér upp úr skotgröfinni.

  • Hallgerður langbrók

    Sigmundur Davíð toppar alla mína viltustu martraðir um framsóknar? hvað segir maður Tímaskekkju, paranoju.Og humorinn verður að fylgja, maðurinn hefur útlitið sem beðið er um. Eða samanrekinn niðurrifsgaur sem enn er „Utangarðs“ Sorgin fyrir fagurgala eins og undirritaða er að innangarðs eru leiðindin söm. Málefnaleg? Nei. Enda er hægt annað en að gera grín?..

  • biðið nú aðeins,byrjar nú kastið úr glerhúsinu… hversu margir af ykkur vildu reka forsetann ?

  • Jón Eiríksson

    Síðast, þegar ég reyndi að koma athugasemd á framfæri hér var lagt til, svona óbeint, að ég væri tekinn út af þjóðskrá. Framsóknarmaður, minnir mig. Hrun Landsbanka íslands hefur verið klætt í köngulóarvef. Sleginn af þeim sem helst sjá sér hag í að drepa þjóðfélagsumræðunni á dreif. Forðast uppbyggilega greiningu á þeim vanda, sem við stöndum öll frammi fyrir. Ég er þakklátur þér, Mörður, fyrir að vera vakinn og sofinn yfir óbærilegum málflutningi þeirra sem kjósa að spinna blekkingarvefinn. Það opnar vonndi augu einhverra, einn er hver einn.

  • Það styttist í að Guðmundur Steingríms taki við framsókn.

  • Úlfar Bragason

    „Það þjónar ekki hagsmunum Íslendinga“! Er þetta ekki skoðanakúgun? Hver getur sagt svona. Þegar menn úti í sal í Háskólabíói töluðu í nafni þjóðar sagði Ingibjörg Sólrún að engin gæti talað svo í nafni heildar – ekki einu sinni flokksformenn! Menn urðu æfir í salnum. En ISG hafði lög að mæla. F-flokkurin talar amk. ekki fyrir mig.

  • Sigurður #1

    Mörður Árnason skilur ekkert í því hvernig það getur skaðað hagsmuni þjóðarinnar að þessi kona sé að skrifa í erlend blöð að okkur muni ekkert að borga þetta.

    Þetta segir hún á sama tíma og verið er að reyna að koma á nýjum samningum.

    Mörður sér bara ekkert að því.

    Mörður sér heldur ekkert að því að Jóhanna lýsi því yfir þrisvar í viku að samningsstaða okkar sé engin.

    Að við séum gjaldþrota þjóð ef við veitum ekki ríkisábyrgð.

    Mörður sér heldur ekkert að því að Steingrímur lýsi því yfir að við verðum kúba norðursins, og einangruð og útskúfuð úr „samfélagi þjóðanna“ ef ríkisáybrðg verður ekki veitt.

    Mörður sér ekkert að því að ríkisstjórnin lýsi því yfir í beinni útsendingu víða um heim að eftir synjun Forsetans á undirritun sé þetta tapað stríð og við séum í raun tæknilega gjaldþrota og komin að leiðarlokum.

    Mörður getur bara alls ekki séð hvernig svona málflutningur getur skaðað samningsstöðu okkar.

    Og það geta aðrir Samfylkingarpésar ekki heldur.

    Og það er akkúrat ástæðan fyrir því að Icesave er á nákvæmlega sama stað og fyrir ári síðan.

    Enn á byrjunarrreit, því ríkisstjórnin er sannfærðari en sjálfir bretar að samningsstaða okkar sé engin.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur