Laugardagur 20.02.2010 - 19:48 - 24 ummæli

Leynimakk og svikabrölt

Það einkenndi einusinni Morgunblaðið að þar var haft fremur hátíðlegt málfar. Bæði blaðamenn og pólitískir stjórnendur forðuðust gildishlaðnar upphrópanir í eigin texta, enda reyndi blaðið að sverja sig í ætt við fyrirmyndir sínar, stórblöð einsog Times og Mondinn og Berlingske og svo framvegis.

Nú er annað hljóð í strokknum og gamli Moggi farinn að leika götustrák. Á forsíðu er sagt frá „grun um leynimakk“ en í Reykjavíkurbréfi fjallað um „svikabrölt“. Svo vill til að í báðum tilvikum er um að ræða ríkisstjórn Íslands – sem er auðvitað algjör tilviljun. 😉

Þetta minnir soldið á verstu harðlífistímabil Þjóðviljans, þegar stóru orðin voru heldur ekki spöruð, og oftar en ekki einmitt um ríkisstjórn hvers tíma. Fór Þjóðviljanum samt einhvernveginn mun skár en blaðinu með gotneska hausinn.

Annars eru alltaf einsog sömu þrjár fréttirnar í Mogganum þegar ég sé hann:

Ein er um Icesave. Göfugur útlendingur segir að Íslendingar skuldi engum neitt – en samt þrjóskast ríkisstjórnin við að koma landinu endanlega til andskotans.

Önnur er um fyrningarleiðina. Skrifstofustjóri hjá útgerðarfyrirtæki telur að fiskveiðar leggist af við Íslandsstrendur ef fyritækin hætti að eiga kvótann. Ekki spurður hvað hafi orðið um bankahlutabréfin.

Þriðja um meintar loftslagsbreytingarnar. Upp hefur komist um nýja prentvillu í neðanmálsgrein á blaðsíðu 2397 í 5. viðauka IPCC-skýrslunnar frá 2007. Sem sýnir enn einusinni að það er ekkert að marka loftslagsblaðrið í þessum vinstrimönnum.

Stundum verður þetta heldur þreytulegt. En auðvitað hefur Morgunblaðið líka ákveðið skemmtigildi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • Guðmundur

    Hvernig væri að þið, Mörður, lituð í eign barm?

    Skuldatryggingarálag Íslands fer stórbatnandi. Betri samningur um Icesave orðin staðreynd, bara spurning hversu miklu betri.

    Engum finnst búsáhaldabylting hafa skilað neinu. Langflestir sammála um að stjórnmálakreppa sé í landinu.

    Hvað vilt þú gera og hvað vilt þú segja við fólk fyrir þína hönd og annarra byltingarmanna? Þú sem hefur hrætt fólk og spunnið um frábæran Icesavesamning og óendanlega fagra vinstristjórn. Hver hefur séð árangur? Einhver?

  • Mörður er gamli samningurinn ennþá „besta mögulega niðurstaðan“? Mun einhver treysta orðum ykkar og dómgreind aftur?

    Þið eruð búin að vera.

    Annars satt best að segja er mér alveg sama hvaðan þessi samningur kemur svo lengi sem skaðinn fyrir íslendinga sé lágmarkaður.

  • Guðmundur, skuldatrygginar álag á Ísland er svona 520 til 570 punktar eftir dögum og fréttum á hverjum tíma. Það er hinsvegar ekki sagt að skuldatrygginarálagið hafi batnað við neitun forseta Íslands. Þegar forseti Íslands neitaði að skrifa undir, þá rauk skuldatrygginarálagið úr 350 punktum og uppí það gildi sem ég nefni hérna á undan.

    Það er hinsvegar alveg ljóst að ójarðtengda fólkið er á fleiri stöðum en bara á Morgunblaðinu.

  • Jón Frímann,

    Skuldatryggingaálagið er lægra í dag heldur en það var eftir að Svavar kynnti „glæsilegu niðurstöðuna“ ykkar síðasta sumar.

  • Jónas Bjarnason

    Mörður. Þið mættuð gera miklu meira í málefnum kvótans. Það er frekar auðvelt mál að hanna áframhaldið. Þegar kvóti losnar, 5% á ári, þá verður að gera eitthvað við veiðiheimildirnar – eða ígildi þeirra eins og mér líkar betur. Menn eiga að fara að hætta að nota orðið kvóti, það er orðið eins og pestin, sem menn losna ekki við. Kvóti og aftur kvóti. Hann felur í sér hugsun, sem við verðum að losa okkur við. Hann er í raun skömmtunarseðill af tiltekinni gerð. Það hentar í mörgum tilvikum betur að nota veiðidaga sem heimildareiningu og tiltaka veiðarfæri, en það er besta leiðin til að beita veiðarfærastjórnun, sem er nauðsynleg. Burt með botnvörpuna út fyrir 50 mílur eða af öllu landsgrunni Íslands. Hún er búin að gera nógu slæmt af sér. Krókaveiðar geta tekið við næstum öllum botnfiski nema karfa og grálúðu. Nýju línubátarnir eru geysilega öflugir.
    Nú, veiðigjöld verða að koma til sögunnar, það er ljóst. Það er stefnan, er það ekki? Þá verður að segja það beint út eða „explicit“ á nýíslensku. Aðaláróðurinn gegn fyrningarleiðinni er sá, að það sé óvissa yfir öllu og sjómenn og fiskvinnslufólk missi atvinnuna út um allt. Þetta er allt saman bull og af því að það er það, þá eigið þið að segja hvað á að gera svo fólk sjái það, að fiskurinn drepst ekki um 5% árlega.

  • Gagarýnir

    Rannsóknarskýsla, hvenær kemur þú?

  • Bla, bla, bla segir Mörður. Bla, bla, bla segir Jóhanna. Bla, bla, bla segir ríkisstjórnin. Hvernig væri að standa við kosningaloforðin og hætta að ljúga?

  • Thrainn Kristinsson

    menn hafa ekki húmör…

  • Skafti Harðarson

    Hér áður fyrr töldu vinstrimenn að þeir berðust fyrir þjóðlegum gildum. Núna berjist þið aðeins fyrir undirlægjuhætti við útlendinga. Þið senduð samningamenn til útlanda í Icesave-málinu og þeir sneru til baka með reikninginn og framvisuðu honum! Össur Skarphéðinsson vinur þinn vildi afhenda útrásarliðinu REI og skammaðist yfir því að tugir milljarða væru tapaðir. Hann hagnaðist síðan um 30 milljónir á innherjaupplýsingum í Spron. Aðstoðarmaður hans er flæktur í alþjóðleg hneykslismál sem varðar 60 milljónir að minnsta kosti. Svavar Gestsson sem var ritstjóri Þjóðviljans eins og þú (þótt þið séuð hatursmenn) samdi algerlega af sér. Morgunblaðið er eini fjölmiðillinn sem heldur uppi þjóðhollum sjónarmiðum. Almenningur er að fá nóg af útlendingadýrkun ykkar.

  • Kalli, skuldatrygginarálagið fór ekki að lækka fyrr en eftir Ísland sótti um aðild að ESB. Þangað til var það mjög hátt.

    Þannig að þessi fullyrðing þin, eins og þú setur hana fram er í raun ekkert annað en tilraun til þess að blekkja fólk.

  • Skafti Harðarson, hvernig væri að sleppa þessari öfga-þjóðernishyggju sem þú greinilega þjáist af. Ef þú læknast ekki af þessum bjánaskap sjálfkrafa, þá mæli ég með því að pantir þér tíma hjá góðum sálfræðingi.

  • Ólafur Guðmundsson

    Það er sorglegt að sjá Mbl orðið að áróðursnepli eftir að Ólafi Stefensen hafði tekist að endurreisa traust á blaðinu með faglegri blaðamennsku.
    Annars er fróðlegt að fylgjast með því hvernig forystumenn Sjálfstæðisflokksins eru allt í einu orðnir sáttir við skárri vaxtakjör á icesave láninu eftir öll stóru orðin um að samninginn aöl. Það má Sigmundur D eiga að hann er enn samkvæmur sjálfum sér í andstöðu við samninginn. Það er ljóst að Bjarni Ben er að leita eftir ástæðu til að láta af sýndarandstöðu sinn við icesave-samninginn.

  • Sig. Pétur

    Það er ekki bara þessi Skafti Harðarson sem þarf sálfræðiaðstoð.

    Davi, Hannes, Kjartan og öll náhirðin þurfa margrra ára sálfræðimeðferð. Þeir eru sjúkir inn að beini.

    Þjóðin ber of mikið tjón vegna þessara manna.

  • Mogginn er orðinn að áróðursnepli fyrir gömlu valdaklíkurnar í samfélaginu. Ef ekki væru minngargreinar um látið heiðursfólk, þá væri hann suma daga vart þykkri en gömlu flokksblöðin hjá Framsókn, krötum og allaböllum. Með því að fá inn lofgreinar um frambjóðendir til sveitarstjórnar í vor, getur hann hangið í hálfri þykkt.

  • Jón Frímann, lestu þig aðeins betur til um skuldatryggingaálagið. Ákvarðanir tengdar ESB umsókn hafa ekki haft nein áhrif á það.

  • En hvað er ALDREI minnst á í Fréttablaðinu? Þú ættir kannski að upplýsa fólk um það mörður minn. Það er nefninlega lítið skemmtanagildi í þeim fréttum sem Jón Ásgeir Kaldal hefur ákveðið að fjalla ekki um, af tillitssemi við eigendur blaðsins.

    Koma svo mörður, upplýsa fólkið í landinu um þetta. Allt upp á borð eins og vanalega hjá samfó!!!!!!

  • Þeir þjóðernisbláu sem hér tjá sig eiga greinilega mjög erfitt að sætta sig við svona hárbeitt grín um ,,ástandið“ á Mogganum.

  • Georg Georgsson (gosi)

    Skemtilegt hvað Bjarni B.og félagar eru orðnir sáttir. Spurning hvort þeir verða rukkaðir fyrir það tjón sem þeir hafa valdið okkur með lýðskrumi sínu síðustu mánuðu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir ætla að“ lýðskruma“
    sig frá stóru málunum á næstu mánuðum,td. 350. miljarða gjaldþroti seðlabankans, gjafakvótakerfið.afskriftir og rekstur moggans, 90.miljarða halla á ríkisrekstri næstu þrjú árin í röð,sem er bein afleiðing af hruninu. Er einhver þarna úti sem getur sagt mér hvert bakland Bjarna B.er Ekki er það samtök á vinnumarkaði hvorki SA eða ASÍ. Hver???

  • Því miður alveg hárrétt hjá þér!

  • siðspilling

    mörður , hólmfríður og Georg ætlið þið að segja já eða nei 6. mars?
    og georg flokkurinn hans Bjarna var í stjórnarandstöðu þegar “ gjafakvótakefið “ var endanlega innlimað með frjálsu framsali kvóta!! en vissir þú að Steingrímur og Jóhanna voru ráðherrar þá ? fólkið sem þú kaust 2007 til að breyta

  • Mörður staðan er bara þessi að Óli Grís er búinn afgreiða VG og Samfó á einu augabragði.

  • Georg Georgsson (gosi)

    Icesave málið var samþykkt fyrir mína hönd og þína 2008. Tjónið sem þetta lýðsrum er búið að kosta okkur er einfaldlega það mikið að þótt við greiddum enga vexti og eingöngu helminginn af skuldinni værum við samt í tapi. Þá er ótalið það tjón sem þessir menn eru búnir að valda orðspori okkar. Ekki gleyma því að það voru kjósendur sjálfstæðisflokksins og framsóknar sem komið hafa okkur í þá stöðu sem við erum í dag. Þeirrri staðreynd verður ekki breytt. Það er lágmarks krafa að fylgjendur þessarar stefnu láti þá í friði sem eru að reyna sitt besta, til að halda hér uppi vísi að þjóðfélagi sem þau tóku við í algjöru hruni ,hvort sem litið er til efnahagslegs eða siðferðilegs,

  • Sigurður #1

    Merkilegt að það tók aðeins einn mánuð að sanna að það er hægt að ná mun betri samning en Jóhanna og Mörður eru búin að reyna að troða á okkur í heilt ár.

    Einn mánuð.

  • Ritstjórinn á sprungusvæðinu við Rauðavatn hagar sér eins og honum er eðlilegt. Skítlegt eðli sagði einhver.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur