Sunnudagur 07.03.2010 - 10:50 - 18 ummæli

Þrír ljósir punktar

Og þá er það búið líka.

Niðurstöðurnar virðast hafa verið nokkurnveginn þær að rétt rúmur helmingur atkvæðisbærra manna fór á kjörstað og sagði nei við úreltum samningi. Um fimm af hundraði skiluðu auðu – eða sögðu já, nánast í gríni – og um 40% sátu heima.

Svo er strax byrjað að takast á um túlkunina, skilaboðin svokölluðu heima og ytra. Ég á satt að segja erfitt með að sjá að nein sérstök boð hafi komið út úr þessum degi. Til þess var kjörsóknin of dræm og ástæður að baki nei-atkvæðunum alltof margvíslegar.

Og þótt í gær hafi verið búin til heil kröfuganga með spjöldum á ensku fyrir hina erlendu blaðamenn lýsa þeir fyrst og fremst hnipinnni þjóð í vanda.

Meðal nokkurra ljósa punkta er auðvitað að hér skuli þó hafa orðið þjóðaratkvæðagreiðsla, og nú er bara að vona að óheppilegur aðdragandi og eftirmál eyðileggi ekki þá lýðræðishugmynd um alla framtíð. Við skulum líta á þetta sem reynslupróf til að læra af.

Annar ljós punktur er reyndar sjálf markleysa niðurstöðunnar. Eiríkur Tómasson lögfræðiprófessor hafði þau sterku rök gegn þessari atkvæðagreiðslu að þegar Icesave-lögunum frá í desember hefði verið hafnað mundi verða erfitt að gera nýjan samning. Atburðarásin síðan um áramót ónýtti sjálft átakamálið, samninginn frá því í haust og lögin um hann – þannig að úrslit atkvæðagreiðslunnar hafa ekki nokkurt forsagnargildi um skilmála nýs samnings.

Þriðji ljósi punkturinn er svo sá að nú er von til þess að ríkisstjórn vinstriflokkanna fari að taka aftur við völdum þeim sem þjóðin fól henni í maí síðastliðnum. Það er hennar að taka forystu fyrir þjóðinni með nýjum samningum um Icesave, í framhaldi af ágætu tilboði viðsemjendanna, og taka síðan til við endurreisnina á ný, með stuðningi stjórnarandstöðunnar og forsetans eða án.

Ef hún hefur ekki styrk til þess – vegna þófs hinna síðarnefndu eða útaf Liljustríðunum í VG – þá eiga Samfylkingin og Steingrímsgrænir að óska saman eftir endurnýjuðu umboði í alþingiskosningum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • rúmlega helmingur kosningabærra manna fór á kjörstað í gær. Yfir 90% þeirra sögðu nei. Hvorki ég né þú getum nokkuð sagt um hug þeirra sem sátu heima. Það fólk hafði tækifæri til að mæta á kjörstað og skila t.d. auðu sem hefðu verið skilaboð um að þeirra mat væri að kosningin væri marklaus. Það gerðu þau ekki og því ekkert meir hægt að segja um þetta fólk.

    Kosningin þurfti að fara fram því hún var endanpunktur á ferli sem þurfti að klára. Staðfestingin þurfti að koma fram því annars hefði endanlaust verið hægt að rífast um hana. Stjórnvöld hefðu átt möguleika á að draga lögin til baka, sérstaklega í ljósi þess að Jóhanna og Steingrímur lýstu þau úrelt. Sennilega er staðreyndin sú að þau höfðu ekki meirihluta á þingi til að draga þau til baka. Það segir margt um þingstyrk ríkisstjórnarinnar.

    Neitun forsetans og boðun þjóðaratkvæðagreiðslu virðist hafa skal okkar mun betri samningsskilmálum, sumir segja 80 milljörðum. Fyrir mér er eins og núverandi ríkisstjórn sé að segja…bretar voru svo góðir að henda til okkar beini til að naga. Við eigum að vera þakklát og hætta andstöðu og samþykkja. Núverandi samninganefnd hefur reyndar hafnað þessu tilboði og krefjast meira. Það er einmitt það sem ég vil, klárum þetta mál á réttum forsendum. Staðreyndin er sú að tvisvar hafa stjórnvöld komið með samning sem þjóðin er á móti. Á það var hinsvegar ekki hlustað og því þurfti þessa kosningu til til að hún fengi skilaboðin alveg skýr. Það er einfandlega flótti ríkistjórnar að segja að þar sem betra tilboð væri komið ætti ekki að kjósa…..betra tilboð var einmitt komið fram vegna fyrirhugaðrar kosningar. Ef við hefðum hætt við er ansi hætt við að margir og örugglega Jóhanna og Steingrímur hefðu sagt, þjóðin er sátt við tilboðið..samþykkjum. En það er einmitt það sem íslensk þjóð vill ekki og sýndi það í kosningunum í gær. Í guðanna bænum takið mark á þeim.

  • Segjum sem svo, að þjóðaratkvæðagreiðslan núna hafi verið svona upp á punt og til að halda áfram þrýstingi, til að skila betri samningi …

    Segjum sem svo að Bretar og Hollendingar kalli þetta ekki punt heldur samþykkja lögin frá því í sumar, sem samþykkt voru frá Alþingi og núna með samþykki helmingi þjóðarinnar.

    Segjum sem svo að þetta sé síðasta orðið í ICESAVE deilunni, ekki þarf að semja meira af því að UK og Hollendingar segja OK?

  • Sigurður Pálsson

    Miðað við fyrri pistla þín um þetta mál hefur þú að öllum líkindum sagt já í þessari kosningu, nema þú hafir tekið áskorun þíns formann og setið heima.

    Nú liggur það fyrir að tæplega 94% þjóðarinnar sagði NEI og kjörsókn var á bilinu 55-60% sem má teljast mjög gott miðað við hvernig ríkisstórnin talaði niður kosninguna. Þú og fleiri getið reynt að túlka kosninguna hverning sem þið viljið en þið getið ekki breytt staðreindum

    Tæp 94% sögðu NEI

  • „Nú liggur það fyrir að tæplega 94% þjóðarinnar sagði NEI og kjörsókn var á bilinu 55-60% sem “

    Það er þó smá húmor í sumum ennþá.

  • Það er rétt að framstilling Sigurðar Páls hér er villandi. Hinsvegar er það iðullega notað t.d. fyrir kosningar almennt að skoðanakannanir eru gerðar, oft með 1000-1500 manna úrtaki og niðurstöður hennar sagðar endurspegla vilja þjóðarinnar í komandi kosningum. Og merkilegt nokk þá eru þær oftast nokk nærri lagi. Þegar við erum hér með svona stórt úrtak, rúmlega helming kosningabærra manna sem kaus, er þá ekki á sama hátt hægt að segja kosningin endurspegli restina. Er eitthvað sem segir að hlutfall þeirra sem kaus ekki myndi vera annað?.

  • Mörður Árnason

    Um 94% — eða um 55% nei er ekki deilt. En hvað þýða nei-atkvæðin?

  • Hrafn Arnarson

    „Niðurstöðurnar virðast hafa verið nokkurnveginn þær að rétt rúmur helmingur atkvæðisbærra manna fór á kjörstað og sagði nei við úreltum samningi.“ Þetta er einfaldlega ekki rétt. Lögin voru í gildi enda samþykkt af Alþingi. Ef Jóhanna taldi að lögin væru í reynd úrelt(sem er rétt) þá gat hún lagt sitt af mörkum og sagt nei. Hún gat líka beitt sér fyrir því að lögin yrðu felld úr gildi á Alþingi. Það var heldur ekki gert.

  • Hrafn Arnarson

    Nei-akvæðin eru ekki vandamálið . Vandamálið er að túlka boðskap þess stóra minnihluta sem sat heima.

  • Þórður

    Mikið á Samfó erfit. Verst er að hún dregur beint lýðræði niður í svaðið. Grátlegt.

  • Haukur Nikulásson

    Af hverju þarf sérstaklega að túlka „atkvæði“ þeirra sem sátu heima?

    Þeir kjósendur, sem sátu heima með Jóhönnu, sættu sig við að aðrir réðu ferðinni. Það er óþarfi að gera grín að dómgreind okkar með svona túlkun á þjóðaratkvæðagreiðslunni.

    Það er líka bull að segja að „nýr samningur“ hafi legið á borðinu. Þjóðin hefur nákvæmlega ekkert fengið að vita um hann. Áttum við að sleppa því að kjósa byggt á einhverjum útlendum tölvupóstum hjá Jóhönnu eða Steingrími?

  • Hrafn; þeir sem sátu heima tóku ákvörðun um að hafa ekki áhrif. Það að mæta og skila auðu hefðu t.d. verið skilaboð. Því er ekkert meir um þau að segja.
    Þeir sem mættu í gær og nýttu kosningarétt sinn vilja hlutast til um framtíð sína.

    og svona til gamans..af því Mörður hefur svo gaman að því að túlka; nýjustu tölur segja að 62,5% kosningabærra manna hafi kosið. Þýðir það að þessi 37,5% sem sátu heima sé Samfylkingin og armur Steingríms….ég var bara svona að spekúlera…:o)

  • Því miður Mörður þá virðist Samfylkingin ekki vera lýðræðislegur flokkur…það er alltaf að koma betur og betur í ljós, hvort sem er á Alþingi eða út á við….mjög sorglegt!!!

  • Vonandi tekur þessi stjórn til óspilltra málanna (ef hún er þá ekki fallin þegar þetta er skrifað!) og gerir almennilega samninga? Ekki samninga sem eru „bestu fáanlegu samningar í stöðunni“, sem reynast svo bara eitthvert feik mánuði síðar.

  • Nei, því miður Mörður þá er þjóðin ekki að fara gefa vinstrinu annan séns. Það er þetta eða ekkert.

    Ef það er kosið aftur þá mun Samfylkingin bíða afhroð – skiljanlegt afhroð. Þetta vita Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn.

    Miklu frekar fólk sem getur tekið ákvarðanir og komið þeim til verka en fólk sem er ófært um að koma sér að verki vegna sundurlyndis.

    Þetta er staðan í dag, ef þú sérð hana ekki þá ertu ekki tengslum við þjóðina. En kannski eru vinstri fólk ófært um að komu nokkrum hlut í verk. Kannski er þá rétt að frelsa þjóðina undan fólki sem getur ekki annað en karpað innbyrðis.

  • Það er mikill misskilningur að þjóðin hafi verið að styðja stjórnarandstöðuna með því að segja nei.

    Ég held að þjóðin sé búin að fá sig fullsadda af þessu Icesave kjaftæði og vilji fara að snúa sér að öðru. Hvernær kemur rannsóknarskýrslan úr ?

  • Andrés Ingi

    Ef kjörsóknin hefði verið um ca. 85-87% sem er hefðbundin þátttaka, þá hefði Neiið samt þýtt um ca. 67%.

  • Úlfar Bragason

    Því miður mun þessi stjórn ekki taka til óspilltra málanna eftir yfirlýsingar Lilju Mósesdóttur í dag. Hún ætlar áfram að vera í stjórnarandstöðu með Ögmundi og einum til tveimur öðrum í VG. Ef VG hefði staðið með Steingrími hefði Icesave málið þróast á annan veg. Íhaldið og F-flokkurinn hafa spilað á þennan klofning í VG. Hins vegar hefur Samfylkingin staðið einhuga að baki Jóhönnu og ómerkt þá kenningu íhaldsins að þar væri ekkert annað en sundurlyndið. Þess vegna er það undarlegt að Samfylkingunni sé kennt um að mál komast ekki í höfn. Jóhanna hefur róið lífróður áfram en VG hefur stöðugt róið á móti. Þennan sann
    leika hefur skopmyndateiknari MBL. oftar en einu sinni sýnt á mynd.

    Ef stjónin hrökklast frá geta Ögmundur og Liljurnar þakkað sér það að hafa fellt fyrstu eiginlegu vinstristjórn Lýðveldisins.

  • Nú er bara að vona að Bretum og Hollendingum liggi þvílík reiðinnar ósköp á að þeir komi skríðandi á hnjánum, hálf lamaðir af ótta við Ólaf, Sigmund og Bjarna að þeir skrifi undir hvað sem er. Enginn trúaður framsóknar- og sjálfstæðismaður efast um að nú séu þjóðirnar tvær lamaðar af skelfingu gagnvart hinni staðföstu íslensku þjóð. Stórveldinu í norðri sem allt getur meira og betur en aðrir: Þrjúhundruð þúsunda veldið ósigrandi.
    Ó, við erum svo miklir menn íslendingar! Fundum meira að segja upp hjólið, bara dálítið á eftir hinum, en hvað með það: Hjól var það og það held ég nú!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur