Þriðjudagur 16.03.2010 - 08:49 - 12 ummæli

Villi I og Villi II

Athyglisverð forsíðufrétt í Fréttablaðinu um fjármögnunarvanda Orkuveitunnar.

Einsog allir vita gengur illa að fá fé til framkvæmda og undirtektir eru tregar í skuldabréfaútboði sem yfir stendur hjá Orkuveitunni í því skyni, en þar var einkum róið á lífeyrissjóðamið.

Stjórnarformaður Gildis, þriðja öflugasta lífeyrissjóðsins í landinu, segist ekki geta lagt fé umbjóðenda sinna í fyrirtækið. Meðal annars vegna þess að eigandi þess, aðallega Reykjavíkurborg, hafi látið greiða sér arð, og vegna þess að Orkuveitan hafi ekki hækkað verð á vöru sinni til neytenda, sem eru almenningur og fyrirtæki í Reykjavík og nágrenni.

Athyglisverð viðhorf, og vafalaust rökrétt út frá sjónarmiði fjárfestisins. En þarna stendur hnífurinn í kúnni. Tregða lífeyrissjóðanna veldur því að ekki fæst fé til virkjunarframkvæmda og annarra brýnna framkvæmda á vegum Orkuveitunnar, framkvæmda sem sjálfar mundu skapa umtalsverða atvinnu, og verða um leið aflvaki við aðra atvinnusköpun.

Athyglisvert fyrir Vilhjálm Egilsson, formann Samtaka atvinnulífsins, og rétt að hann minnist þessa dæmis næst þegar hann fer að skamma umhverfisráðherrann og náttúruverndarmenn fyrir að standa í vegi framfara og endurreisnar. Þá er bara að muna að formaður Lífeyrissjóðsins Gildis heitir líka Vilhjálmur Egilsson.

En Villi I, sá sem skammast, er náttúrlega ekki sami aðilinn og Villi II, sá sem fer með peningana. 

Það er svo nokkuð sérstakt að í þessum vítahring vantraustsins er allan hringinn um að ræða fé almennings – sjóðfélaga í Gildi, útsvarsgreiðenda í Reykjavík og á Skaga og í Borgarfirði, eiganda OR, orkukaupenda á heimilunum – en sami almenningur er nú að einum tíunda hluta án atvinnu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Magnað

  • Á meðan Icesave málið er óleyst -sígur aðeins á ógæfuhliðina hjá okkur . Við þurfum meiri gjaldeyri-erlent fjármagn. T.d er allur búnaður, nema sandur , möl og vinnuafl í virkjanir keypt fyrir gjaldeyri. Það er til fullt af íslenskum krónum….en þær duga skammt.

  • Kristján Kristinsson

    Þetta er meira banalýðveldið sem við búum í. Engar alvöru rökræður.

  • Það er spurning hvort að lífeyrissjóðir eigi að vera að taka sérstaklega þàtt í uppbyggingunni?
    Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera eina verkefni lífeyrissjóða að ávaxta fé félagsmanna á ábyrgan hátt, ekki að standa í atvinnu upbyggingu eða að standa í áhættu fjárfestingum.

  • Sigurður #1

    Já, það er auðvitað Iceave að kenna að lifeyrissjóðirnir vilja ekki lána OR…..

  • Vilhjálmur á þökk skilda fyrir að gæta hagsmuna lífeyrisþega í þessu tilviki. Lífeyrisþegar í almennum sjóðum fá tafarlausar skerðingar ef illa tekst til um fjárfestingar.

    Það er ekki von að Mörður átti sig á því vegna þess að hann er með sín lífeyrisréttindi á þurru eins og aðrir ríkisstarfsmenn núverandi og fyrrverandi.

    Ekki skiptir máli hversu illa fjárfestingum opinbera lífeyrissjóðsins er háttað. Mismunurinn er bara hirtur af sköttum almennings.

    Orkuveitan fær ekki lán hjá fjárfestingarbönkum og sjóðum sem gæta að sínum fjárfestingum vegna þess að hún hefur ekki tekið til í rekstri sínum eða nýtt gjaldskrá með fullnægjandi hætti.

  • Mörður Árnason

    Bara til að það sé á hreinu: Á um 30 ára starfsævi hefur ríkið verið vinnuveitandi minn í rúm 9 ár. Ég hef algeran skilning á hagsmunum félaga í lífeyrissjóðum — og er nokkuð hallur undir sjónarmið Friðriks hér að ofan, þótt ráðamenn í lífeyrissjóðum hljóti að taka tillit til neyðarástands í samfélagi sem mestanpart samanstendur af nú- og fyrrverandi iðgjaldagreiðendum. Þannig að vandi Vilhjálms er ærinn báðumegin borðs — en hann ætti þá kannski að viðurkenna það í staðinn fyrir að kasta ábyrgðinni annað.

    Sverrir — ,,nýta gjaldskrá með fullnægjandi hætti“ — aha — en afhverju kallarðu það ekki bara að hækka verð á rafmagni og heitu vatni í Reykjavík og nágrenni?

  • Rétt hjá þér Mörður. Það þarf að hækka verðið og taka til í rekstrinum. Það er ekki í þágu viðskiptavina OR að reka fyrirtækið í þrot.

  • Stefán Benediktsson

    Sagt það áður segi það enn. Hvar eru „aðgerðir“ atvinnulífsins. Maur upplifir þá soldið eins og í „leiðslu“ frá hruni. Leiddir í gildru, leiddir í gönur, leiddir til slátrunar, bíðandi óvirkir eftir að vera leiddir að nýju trogi.

  • Ég er sammála síðasta ræðumanni,hvar eru aðgerðir atvinnulífsins?????
    Villi á vælubílnum hlýtur að geta svarað okkur um hvernig þæer eru hugsaðar.
    Það er þyngra en tárum taki að sjá það að OR sé nánast á hausnum…..
    Hvernig væri að athuga hverjir væru ábyrgðaraðilar á þessum gjörningi.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Ég legg til að við bíðum og sjáum hvernig þetta reddast!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur