Fimmtudagur 01.04.2010 - 09:21 - Rita ummæli

Mögnuð sýn af Þórólfsfelli

Fórum í gær fimm saman úr fjölskyldunni í Fljótshlíðina og upp á Þórólfsfell að horfa á gosið. Maður byrjar strax að gá að bólstrunum á Kambabrún og allur vafi hverfur fljótlega á leiðinni austur frá Selfossi – og þar sem sól á sumarvegi skín yfir landið er strókurinn nánast í seilingarfjarlægð. Við rætur Þórólfsfells um sjöleytið voru allt í einu litlir reykir til hliðar við aðalstrókinn, og þetta töldum við hlyti að vera frá hrauni í snjó en aðeins uppi í hlíðum fjallsins sáum við bjarma og eldinn sjálfan. Fyrsta sinn sem yðar einlægur sér eldgos berum augum – og samt hefur gosið og gosið síðan ég var strákur og alltaf hefur maður verið á leiðinni. Þetta var meiriháttar, og færðist svo í aukana eftir því sem við komum ofar. Þá komu símtöl og SMS úr bænum um aðra sprungu. Við vorum hér greinilega viðstödd mikil tíðindi – en í notalegri fjarlægð! Þá skildum við bílljósaröðina á leið út Markarfljótsaura og síaukinn umferðarþunga okkar megin – sem jókst og jókst þegar rökkvaði og eldtungurnar tóku að sér aðalhlutverkið á þessu mikla leiksviði. Hér blikna lýsingarorðin.

Og nú hefur stefnan verið tekin á Mörkina sjálfa og nær eldinum ef nokkurt færi gefst. Samt er þetta einhvernveginn alveg nóg frá Þórólfsfelli, ef ekki vill betur.

Þetta er – ennþá að minnsta kosti – vænt eldgos, engin spjöll, engin slys, gríðarlegur áhugi, og ágætar gjaldeyristekjur! Fyrir fólk sem ekki er á stórjeppum eða snjósleðum eða gönguvant er góð leið að skoða undrin af fellinu, og þarf ekki nema upp í miðjar hlíðar, svona klukkutíma þægilegan gang.

Svo kemur að aðalerindinu með þessum pistli: Á hjalla talsverðum í Þórólfsfelli miðju gegnt gosstöðvunum lá í mosaþembu stór kíkir í hulstri sínu, merktu fangamarki. Ég tók hann auðvitað upp og skoðaði með honum eldana, tók gripinn síðan til handargagns og ímynda mér að eigandanum líði ekki vel að hafa skilið þennan góða sjónauka eftir uppi í fjalli Látið endilega vita ef þið þekkið einhverja sem voru í gær eða fyrradag á Þórólfsfelli. Netfangið hjá mér er mordurarnason@simnet.is.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur