Laugardagur 10.04.2010 - 11:14 - 28 ummæli

Ábyrgð er ábyrgð

Mér  finnst heldur ekki líklegt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verði dregin fyrir landsdóm vegna afglapa í starfi utanríkisráðhera – og ég tek undir með varnarmönnum Ingibjargar Sólrúnar sem telja smjörklípulykt af þeirri athygli sem nú beinist að henni og Samfylkingunni rétt fyrir Stóruskýrslu. Sjálf hefur hún skrifað ágæta grein í TMM um helstu sökudólga hrunsins, nýfrjálshyggjuna og Sjálfstæðisflokkinn. Greinin væri þó líklega enn betri ef stjórnmálamaðurinn hefði haldið um penna og skýrt frá eigin verkum og reynslu, en ekki látið sagnfræðinginn einan um skrifin.

Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin komast nefnilega ekki hjá því að skoða eigin þátt í hruninu. Þar skipta máli verk ráðherranna í ríkisstjórn, og ekki síður það sem þeir ekki gerðu. Þar koma líka við sögu stefnuáherslur flokksins bæði árin fyrir stjórnarmyndunina 2007 og meðan á stjórnarsamstarfinu stóð. Og það þarf líka að skoða samræður í flokknum á tímabilinu 2007 til 2009, hvernig forystumenn hans fóru að því að hlusta ekki á flokksfólk og stuðningsmenn og létu sér nægja að messa yfir liðinu á skrautsamkomum (og eimir kannski enn eftir af þeim sið, Jóhanna og Dagur?) allt fram að Þjóðleikhússkjallarafundinum fræga – þráuðust reyndar við nokkur dægur líka eftir þá niðurstöðu.

Þetta þarf meðal annars að ræða á flokksstjórnarfundi sem Samfylkingin hefur boðað til um næstu helgi. En af því Ingibjörg Sólrún er í fréttum – sem hún stendur fyrir sjálf:

Þótt utanríkisráðherra beri ekki lagalega ábyrgð á bankamálum eða hagstjórn getur formaður Samfylkingarinnar í stjórninni með Sjálfstæðisflokknum ekki skorast undan pólitískri og siðferðilegri ábyrgð. Ingibjörg Sólrún ber samkvæmt íslenskri hefð ábyrgð á verkum allra samflokksráðherra sinna – þar á meðal viðskiptaráðherrans. Eitt af því sem fólk þarf reyndar að fara að vita er hvernig samskiptum þeirra tveggja var háttað. Er það rétt að bankamálaráðherrann hafi ekki fengið að vera með á fundum utanríkis- og forsætisráðherranna með Seðlabankastjóranum um stöðu bankanna? Af hverju hafði Ingibjörg Sólrún það þannig? Og hvernig í ósköpunum fór Björgvin Guðni að því að sætta sig við það?

Annað: Ég held einsog Ingibjörg Sólrún að einhver helstu mistök Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni 2007–2009 hafi verið að ganga inn í hana án þess að hafa þar nein áhrif á efnahagsmál og hagstjórn. Ég  var reyndar einn af þeim sem lögðu að formanni flokksins að krefjast fjármálaráðuneytisins við stjórnarmyndunina. Skilaboðin sem við fengum voru að þar hefði verið mikil fyrirstaða. Ég er ekki viss um að nógu mikið hafi verið reynt.

Forystumenn Samfylkingarinnar lögðu þessa stjórnarmyndun einfaldlega þannig upp að íhaldið ætti áfram að ráða efnahagsmálunum – Samfylkingin fengi fyrir sinn snúð ýmsar velferðarumbætur. Svo átti smám saman að koma vitinu fyrir „góðu“ Sjálfstæðismennina, ekki síst Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur en líka Geir Haarde, því þetta fólk væri miklu skárra en Davíð og hlyti smátt og smátt að þróast frá honum í stöðugu samneyti við hina ofurnútímalegu jafnaðarmenn í hinni glaðbeittu ríkisstjórn sem snjöllum PR-manni datt í huga að sviðsetja á Þingvöllum.

Vinsæl kenning í forystu Samfylkingarinnar á upphafstímum Haarde-stjórnarinnar – og má sjá stað í ræðum þáverandi formanns – var sú að það yrði að fara að endurnýja líkingamálið kringum pólitíkina, sem væri alltof gamaldags og karllegt. Til dæmis væri gott að klæða ýmislegt pólitískt samstarf í tungumál frá dansgólfinu – nú væru dansfélagarnir að laga sig hver að öðrum, og þessvegna ætti að sýna þolinmæði.

Sú þolinmæði var sýnd alltof mikið og alltof lengi – stundum  með æluna uppí háls. Það er meðal annars okkar sök, almennra flokksfélaga, sem við þurfum líka að ræða næstu helgi og næstu vikur.

Ingibjörg Sólrún skýrir eftirgjöf sína í stjórnarmyndunarviðræðunum þannig í TMM-greininni að almenningur hafi ekki verið móttækilegur fyrir efnahagsgagnrýni Samfylkingarinnar fyrir kosningar. Vitnar í blogg eftir Egil Helgason.

Ég er ósammála. Í upphafi kosningabaráttunnar 2007 hafði Samfylkingin minna fylgi í könnunum en mörg undanliðin ár. Sá árangur sem náðist, að koma fylginu úr 17–18% í tæp 27, og tapa ekki nema 3 þingönnum frá 2003, er í mínum huga að miklu leyti að þakka einarðri gagnrýni Samfylkingarinnar í efnahagsmálum, ekki síst með aðstoð bæklingsins um Jafnvægi og framfarir í ritstjórn Jóns Sigurðssonar.

Rétt er hinsvegar að þegar ljóst varð að stjórnarandstaðan náði ekki meirihluta hófst mikið kapphlaup Framsóknar, Samfylkingar og VG um að mynda ríkisstjórn með íhaldinu. Á því bera ábyrgð bæði forystumenn Samfylkingarinnar og VG. Önnur leið var til – á það benti Ögmundur Jónasson í frægri afmælisræðu á NASA, og aumingi minn reyndar líka og áður í bloggi. Hún var að mynda vinstriblokk með samstöðu VG og Samfylkingar, sem síðan byði til samninga um stjórn en væri líka reiðubúin í stjórnarandstöðu. Ég er ekki þar með að segja að þetta hefði gengið upp – en það er rétt að halda til haga þeirri staðreynd að þessi möguleiki var aldrei skoðaður. Sannleikurinn var auðvitað sá að ákveðnir forystumenn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins voru búnir að setja sig í aðrar stellingar sirka tveimur vikum fyrir kosningar.

Þetta þurfum við Samfylkingarmenn að fara í gegnum – og auðvitað margt annað. Það merkir ekki að flokkur okkar eða forystumenn beri höfuðábyrgð á hruninu. En án þess að takast ærlega á við þetta verkefni öðlast flokkurinn og núverandi forystumenn hans ekki þann trúnað sem nú þarf öðru fremur á að halda.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (28)

  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingar hvetur flokksfélaga sína í grein um skýrsluna væntanlegu:“að taka ekki þátt í hinum hefðbundna leik að benda á ábyrgð og mistök annarra“.
    Mörður Árnason tekur undir þetta sjónarmið. Ábyrgð er ábyrgð segir hann og Samfylkingin á og mun gangast við sinni ábyrgð á hruninu undanbragðalaust og alls ekki reyna að milda ásýnd flokksins með því að benda á aðra.
    Í þessum skrifum Marðar er samt holur hljómur. Í bíti Bylgjunnar fyrir skömmu var hann ásamt blaðamanni á Morgunblaðinu að ræða útkomu skýrslunnar og fór þar mikinn. Án þess að hafa minnstu hugmynd um innihald skýrslunnar lét hann stór orð falla um pólitíska andstæðinga um meintan hlut þeirra í hruninu og varði sinn flokk með orðfæri sem honum er einum lagið og með þeim leiða sið að yfirtala viðmælendur sína með hroka og yfirlæti.
    Ræða hans í bítinu var dæmigerð fyrir íslenska pólitík. Að koma sínum flokki undan ábyrgð með því að benda á ábyrgð og mistök annarra.
    Í skrifum hans um að ábyrgð sé ábyrgð er því holur hljómur en vonandi var hann bara illa fyrirkallaður í bítinu. Eða var fúllyndi hans Heimi Karlssyni að kenna?

  • Ágæti Mörður. Ekki dugar neitt minna en alvöru uppgjör og alvöru endurnýjun. Annað er ótrúverðugt og um skaða Samfylkinguna.

    Lestu þetta.

    http://www.dv.is/blogg/eimreidin/2010/4/5/uppgjor-oskast/

    6658 lesendur hafa gert það.

  • Góð og ýtarleg grein hjá þér Mörður. Ég er sammála þér i öllum megin atriðum.

    Aflgjafi minn til fylgis við Samfylkinguna á vormánuðum árið 2007 var ítarleg stefna í efnahagsmálum sett í bók og innihaldið sett sama af Jóni Sigurðssyni , þeim mikla þekkingar og reynslumanni í efnahagsmálum.

    Þá var hrollur í mér varðandi framgang efnahagsmála á Íslandi. Bankarnir á fullu við að moka erlendu lánsfé á lágum vöxtum inní landi til útlána m.a á íbúðamarkaði- til langtímalána. Bílum mokað inn á lánsfé ,100%, og á myntkörfulánum. Fyrir venjulegan eldri mann sem lifað hafði tímana tvenna sýndist þetta vera glórulaust rugl sem gæti ekki farið vel.

    Og eftir stjórnarmyndun Haarde stjórnarinnar (móðgun við Þingvelli að kenna ósköpin við þann helga stað) þá kemur í ljós að grunninum sjálfum , efnahagsstefnu Samfulkingarinnar, er stungið undir stól og sást ekki meir.

    „Ingibjörg Sólrún skýrir eftirgjöf sína í stjórnarmyndunarviðræðunum þannig í TMM-greininni að almenningur hafi ekki verið móttækilegur fyrir efnahagsgagnrýni Samfylkingarinnar fyrir kosningar.“

    Það fer um mig ískaldur hrollur við þessa setningu.

    Og síðan lokar formaðurin sig af með Sjálfstæðisflokki og er sambandslaus við sína ráðherra. Viðskiptaráðherra er skýrt dæmi.

    Og til að kóróna verkið tekur hún upp þráðinn frá Halldóri Ásgrímssyni og leggst í útrásarvíking fyrir setu þjóðarinnar i Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Eitthvað sem Davíð Oddsson hafði sett á ís sem utanríkisráðherra.

    Og á meðan brann allt hér heima sem brunnið gat. Hrun íslensks efnahags og siðmenningar varð staðreynd…í októberbyrjun 2008

    Fv. formaður Samfylkingarinnar verður að líta í eigin barm.

  • Hrafnkell Ásólfur

    Sæll Mörður – ég hef verið á þeirri skoðun frá hruni að Samfó verði að gera heiðarlegt uppgjör á sínum þætti. Samfylkingin var í ríkisstjórn og varði m.a. þá vitleysu sem var í gangi síðustu mánuði fyrir hrun. Hins vegur hefur mér ekki þótt vera nokkur áhugi á slíku uppgjöri hjá yfirstjórn flokksins, ekki hefur svo sem heldur verið mikil pressa frá hinum almenna flokksmanni. Það hefur því dregið mjög úr trú minni á Samfylkinguna og gjörsamlega slökkt á áhuga mínum að taka þátt í starfi flokksins.

    Þó það gleðji mig að sjá ykkur Sigríði Ingibjörgu stíga nú fram og krefjast heiðarlegs uppgjörs finnst mér það bara vera of seint, Vona samt að þið fáið hjómgrunn á flokkstjórnarfundi.

    kv. Hrafnkell

  • Ætli ég teljist ekki enn einn sem tek undir orð þín, Mörður, svo flestra sem hér hafa tjáð sig. Sjáums eftir viku. gb

  • Takk fyrir góðan pistil.
    Ég tek undir ábendingu Teits Atlasonar hér fyrir ofan.
    Íslenskir stjórnmálaflokkar verða að taka til í sínum ranni.
    Mér sýnist ekki vera mikill áhugi á því og einna minnstur hjá samfylkingunni.
    Stefna samfylkingarinnar undanfarin ár virðist mér aðallega hafa verið að herma eftir íhaldinu í fyrirgreiðslu fyrir fjármagnseigendur.
    Ætli flokkurinn að teljast jafnaðarmannaflokkur verður hann að hætta því og fara að standa með heimilunum í landinu, ekki bara heimilum ríka fólksins.
    Hef trú á því að þeir flokkar sem verða áfram í afneitun eftir birtingu rannsóknarskýrslu missi fylgi.
    Mér finnst það óþolandi fyrir kjósendur að stór hluti frambjóðenda sé það mútulið sem nú situr á Alþingi.

  • Tek undir með þér, Mörður, að stjórnmálamaðurinn IGS verður að horfa í spegil og taka ábyrgð. Tala hreint út.

    Tveir menn ættu að gera SF þann greiða að hætta í stjórnmálum við fyrsta tækifæri. Það eru Björgvin og Össur. Þeir verða í varnarstöðu það sem eftir er og dragbítar á Samfylkingunni.

    Það þarf að hleypa ósködduðu fólki að.

  • Við skulum vona að flokkshollustan blindi ekki fólk nú þegar skýrslan kemur út.

  • Jakob Þór Haraldsson

    Flott grein hjá þér ég óska flokknum þínum VELFARNAÐAR er kemur að því að fara í uppbyggilega & heiðarlega sjálfsgagnrýni. Mér finnst til dæmis ótrúlega lélegt hjá Ingibjörgu Sólrúnu að tjá sig nú á þeim nótum að HÚN hafi ekkert vitað um banka- & efnahagsmálin, hún hafi bara verið Utanríkisráðherra…lol…lol..lol..! Svona líðskrum gengur ekki upp, hún var FORMAÐUR Samfylkingarinnar, það var hún sem mæti ítrekað á fundi með Davíð Oddssyni þar sem ÁVALT var bent á að bankarnir myndu hrynja. Það var Ingibjörg sem tók undir þá gagnrýni Davíðs og annara að ekkert vit væri á að hafa Björgvin viðskiptaráðherra með á fundum um hans MÁLEFNI – því hann stígi ekki í vitið – ef það var álit Ingibjargar á Björgvin af hverju var hann þá gerður að viðskiptaráðherra??

    Síðan ber Ingibjörg & Geir H. Haarde gríðarlega ábyrgð tengt því sem þau „ekki gerðu“ í aðdraganda hrunsins eins og þú bendir réttilega á! Þau fá ekki greidd laun fyrir að vera sofandi í vinnunni. Voru allir þessir styrkir sem runnu til FL-okkanna kannski bara MÚTUR?? Ég vona innilega að ykkar FLokki beri GÆFA til að fara í sjálfsskoðun og uppbyggilega vinnu. BÓFAflokkurinn – sorry – RÁNfuglinn (X-D) hefur ekki sýnt neinn áhuga á að fara í slíka vinnu, en ég vona að ykkur beri gæfa til þess. Ég frábið mér hins vegar að þurfa að hlusta næstu 2 mánuðina á „blekkingar, lygar & útúrsnúninga“ frá spunameisturum X-S & X-D. Framsókn (50-50 skiptin) þurfa einnig að ÞORA að tala um aðkomu sýna að „einkavinnavæðingunni“.

    Eftir stendur sú sorglega staðreynd að flest allir íslenskir stjórnmálaleiðtogar eru afleiddir, flokkarnir eru spiltir og eru ekki að setja þjóðarhagsmuni í fyrsta sæti, heldur eru það hagsmunir FLokksins í fyrsta sæti, hagsmunir styrkaraðila (Bónus – Landsbankinn) sem lenda í 2 sæti, svo eru hagsmunir samtaka eins og LÍÚ sem lenda í 3 sæti, svo eru hagsmunir eiginn þingmanns og hans kjördæma sem lenda í 4 sæti, svo eru hagsmunir vinna þingmannsins sem lenda í 5 sæti og ÞJÓÐARhagsmunir enda svo ávalt aftast í röðinni – svona getur þetta ekki gengið – það er vitlaust gefið í okkar spilta samfélagi og þjóðinni blöskrar siðblindan sem alstaðar brýst fram. Við höfum ekki gengið veginn til góðs, ég treysti á þig og aðra flotta einstaklinga í ólíkum flokkum til að standa fyrir breytingum. Þjóðin vil gildi eins og „heiðarleika & sannleika“ og flokkarnir verða að fara að „hlusta á & vinna fyrir þjóðina“, ekki satt?

    kv. Heilbrigð skynsemi (www.fun.blog.is)

  • Guðmundur

    Mörður Árnason hélt mikla ræðu á fundi í Þjóðleikhúskjallaranum og kolféll í prófkjöri beint í kjölfarið.

    Stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokki var samþykkt einróma á flokksstjórnarfundi Samfylkingar. Mörður segist hafa sagt ýmislegt – það er hvergi skráð eða vitað og ekki sagði hann neitt þar. Ýmsir aðrir tóku til máls.

    Það er hins vegar vitað að VG og heimastjórnararmur Sjálfstæðisflokksins höfðu handsalað stjórnarmyndun.

    Höfundur ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var Einar Oddur Kristjánsson heitinn.

  • Mörður Árnason

    Vegna Guðmundar: Var ekki á þessum flokksstjórnarfundi, af óviðráðanlegum ástæðum — og tók aldrei þátt í atkvæðagreiðslu um þessa stjórnarmyndun.

  • ..og innan samfylkingarinnar og allra hinna gerspilltu flokkanna, eiga þeir allir eitt sameiginlegt:
    Þeir þáðu allir mútur frá glæpamönnum……
    hvernig líður stjórnmálaelítunni með jafnvel þjófstolið fé
    inná sínum reikningum ? af hverju er allt þetta fólk enn á alþingi ?

  • Hans Snorri Geirsson

    Ef mér skjöplast ekki hafði Steingrímur J. Sigfússon biðlað opinberlega til Ingibjargar Sólrúnar og Samfylkingarinnar um að vinstri flokkarnir gengu bundnir til kosninga. Það var slegið út af borðinu af Samfylkingunni sem bull og að halda yrði öllum möguleikum opnum, ekki mætti útiloka nætt.

    Það má vel vera að Mörður hafi minnst á eitthvað slíkt og eflaust talaði Ögmundur vel um þau mál í ræðu sinni í Sjálfstæðishúsinu. Eftir stendur hins vegar að formaður eins vinstri flokks bað formanns annars um bindandi samband löngu fyrir kosningar. Samfylkingin hafnaði því.

    Allar skýringar Samfylkingarfólks á stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn verða að skoðast út frá þeirri staðreind. Ef menn óttuðust svo að Vg færi í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og þetta vara bara spurning um að vera á undan (sem er reyndar nákvæmlega sama afsökun og Alþýðuflokksfólk notaði árið 1991) af hverju var þá boðið um bindandi bandalag ekki bara þegið?

    Einfaldlega vegna þess að Samfylkingarfólk var löngu búið að ákveða samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Það þarf ekki annað en að rifja upp ræður þess um turnana tvo til að átta sig á því.

  • Guðmundur

    Hans – þú er á algjörum villigötum.

    ISG bauð SJS og Guðjóni Arnari Kristjánssyni í kaffi til sín eftir ræðu SJS um samstarf stjórnarandstöðunnar. Þetta gekk síðan undir heitinu Kaffibandalagið og lagði fram þingmál sameiginlega.

    Þeir Steingrímur og Ögmundur fóru í skógarferð fyrir allra augum daginn eftir kosningar 2007. Byrjaði á því að Steingrímur réðst á fallinn formann Framsóknarflokksins Jón Sigurðssonar og krafðist þess að biðist afsökunar í Sjónvarpssal á auglýsingu ungra framsóknarmanna sem særði hégómleika Steingríms. Á sama tíma lýsti Ögmundur yfir vilja til að mynda vinstristjórn þriggja flokka með Framsóknarflokki. Svona hélt áfram næstu daga að Ögmundur og Steingrímur toguðustu á um umboð VG en öllum áhorfendum varð ljóst að svona 3ja flokka stjórn væri ógjörningur vegna deilna.

    VG spilaði sig úr leik gagnvart Sjálfstæðisflokki og 3ja flokka vinstristjórn alveg af sjálfsdáðum. Þetta muna allir eða getað rifjað upp með því að lesa fjölmiðla þessa tíma.

  • Þór Eysteinsson

    Ágæt greining að mörgu leiti. Það voru mikil mistök við stjórnarmyndun 2007 að samþykkja að hafa engin áhrif á efnahagsmál og hagstjórn, og samþykkja viðskiptaráðuneytið sem eins konar dúsu. Ég tel að það hafi einnig verið mistök að Samfylkingin hafi ekki gert kröfu um dómsmálaráðuneytið, en þar hefur nýfrjálshyggjan ráðið lengur en elstu menn muna; við búum nú við réttarfar nýfrjálshyggjunar og súpum seyðið af því sem þjóð. Ég veit ekki til að nein umræða hafi farið fram um dómsmál og réttarfar í Samfylkingunni undanfarin ár, og er það ekki vegna þess að jafnaðarmenn hafi ekki stefnu eða skoðanir í þeim efnum. Ingibjörg Sólrún hefur verið að tjá sig nú að undanförnu um ýmsa hluti, m.a. umsóknina að ESB, og sé ég enga ástæðu til að menn bregðist við með þeim hætti sem margir hafa gert; þitt innlegg, Mörður, er þó málefnalegt. Ég er algerlega ósammála henni um að draga eigi umsóknina til baka, en það er rétt hjá henni að forystumenn flokksins mættu ræða það mál og berjast fyrir því af meiri krafti. Ef við fáum góðan samning er ég viss um að skynsemi muni ráða afstöðu þjóðarinar. Hins vegar er ég á því að ISG og fleiri forystumenn Samfylkingar hafi gert mörg alvarleg mistök í samskiptum sínum við Sjálfstæðisflokkinn 2007-2009, en einnig í samskiptum við VG. Það er ljóst að innan VG er heiðarlegt fólk sem má treysta, og vinna með, þótt stundum þurfi kattasmölun af einhverju tagi….

  • Gunnar Gunnarsson

    Guðmundur 15:14
    Nú er ég af landsbyggðinni og þekki ekki þessar algjöru villigötur sem þú segir Hans staddan á. Hvað um það, en ég tel mikinn grundvallarmun á því að VG bjóði SF að ganga bundnir til kosninga saman, en óformlegt kaffispjall eftir kosningar. Var kaffifundurinn kannski sjónarspil fyrir vinstra fólk áður en hoppað var uppí hjá Geir þar sem tvíbreið sængin var klár lögnu fyrir kosningar?

  • Steinar Þór Guðlaugsson

    Fagna þessu innleggi þínu Mörður. Hvenær fá almennir flokksmenn að ræða þetta augliti til auglitis við forustumennina í næði og án stýringar og skrauts?

  • MargrétJ

    Þarft mál og nauðsynlegt að Ingibjörg svari fyrir sig og sinn þátt. Hins vegar er mér stór spurn, hvenær Jóhanna ætlar að svara fyrir sinn þátt í því þjóðfélagi sem er hér núna. Hvernig stjórnmálamaður Jóhanna hefur veirð í gegnum tíðinni, töldu líklega flestir kjósendur hennar vita. Nú hins vegar er einhver allt önnur kona forsætisráðherra. Hrokafull, frek, ókurteis, ósamúðarfull og agndofa!
    Þessa konu könnumst við bara alls ekki við og því fer fjarri að hún muni verða kosin aftur af stórum hluta af okkur „venjulegum“ vinstri sinnuðum konum úti í þjóðfélaginu. Þessi kona virðist ekki hafa nokkra hugsjón lengur, ekkert vita hvað er að gerast hér, alltaf agndofa.
    Hennar eftirskrift verður hreinlega svikari. Svikari við vinstri hugsjónina og eigin sannfæringu. Endurtek það sem ég hef sagt hundrað sinnum áður að slíkur viðsnúningur hefur ALDREI sést í íslenskum stjórnmálum áður.
    Samfylkingin er búin að vera – algerlega og við sem höfum stutt við bakið á ykkur úti í þjóðfélaginu í mörg herrans ár, erum hætt að treysta ykkur.
    Næst verður kosið það sem hentar í það og það skiptið. Við erum búin að fá nóg af hugsjónum, sem þið pólitíkusar kasta, sem skítugri tusku um leið og stólar eru í boði. Nú eruð þið skítugu tuskurna sem við ætlum að kasta.

  • ISG verður vonandi dæmd fyrir landráð af gáleysi, hún er Elizabet Taylor
    okkar Samfylkingarmanna og flokknum í Rvík er ekki viðbjargandi að setja hana í heiðurssætið,það er kjaftshögg og mun kosta atkvæði.
    Sá Halldór Ásgrímsson og frú á hjóli á Vesterbrogade í dag, var ekki nógu fljót til að hrinda honum. Hitti líka Árna Snævarr og bað hann um meira blogg.
    Fór á fund um daginn hjá Samfylkingunni í Iðnó og skammaðist mín fyrir Jóhönnu og Dag…bla bla,, minnst sjarmerandi fólk sem til er að segja afrekasögur af sjálfu sér..Gud i himlen..gekk frammhá íbúðarhúsi Anker Jörgensens og hugsaði um jafnaðarstefnu..sem ekki er í hávegum höfð hjá samfó.Aumingja Jóhanna var sett sem puntudúkka á lista Alþýðuflokksins fyrir 38 árum og endar sem forsætisráðherra,segi aftur Gud i himlen, amma hennar hlýtur að snúa sér við í gröfinni..Ljóður á ráði okkar íslendinga er að tala ekki tæpitungulaust, samfó er að mínu mati dauðvona nema að inn á völlinn komi fólk með hærri greindarvísitölu og meðvitað um jafnaðarstefnu en það sem er í boði..Samfó með ISG í fararbroddi rústaði landinu og ekki sízt Reykjavík..munið efir Degi þegar HR var settur í Öskjuhlíðina og Hringbrautin var breikkuð eftir 6ára gömlu skipulagi afhverju var ekki hlustað á Örn Sgurðsson og Hringbrautin lögð í stokk?Ég bý rétt við Landspítalann og Hringbraut og finnst nóg kommi. Ætlar samfó að
    standa við bakið á svona ósjarmerandi einstaklingi…hvar ertu Hjálmar Sveinsson eftir alla góðu þætti þína um skipulagsmál, dettur þér í hug að vera á lísta með lækni sem ISG handpikkaði?
    Eitt af djásnum bæjarins er bygging Guðjóns Samúelssonar og þrátt fyrir allt er ég ekki ósátt við nýbyggarnar á Landspítalalóðinni en ekki meir…thank jú very músch Djísús Dagur reynir að sannfæra okkur í samfó að hann sé það sem koma skal, en ég segi að því fyrr sem við losnum við Dag og allt það fólk sem ISG þjóðníðingur af verztu sort pikkaði inn í samfó, því betra. Alþýðuflokkur..þvílíkt nafn. Góði Guð gefðu að til verði slíkur samansöfnuður af fólki sem vill hag Allra vel eða sem beztan,flestum líður ílla og ég vona að við flest þráum jöfnuð.
    En sem sagt Mörður, tala tæpitungulaust, losna við forystuna sem fyrst.Alltof margorð..Steinar Þór orðað það sem ég vildi segja án málalenginga.++
    Kveðja úr borg sósíalismans…með Frank Jensen sósíaldemókrata sem yfirborgarstjóra.áeftir hinni dásamlegu R itt.ISG bjó hér í nokkur ár en lærði greinilega ekkert..allavega ekkert um danskan kúltúr..hér eru engin verðmæti í jörðu, ekkert silfur eða gull hafsins..en danir lifa samt og eru abyggilega beztu sölumenn heimsins ég hef borðað danskt beikon í tjaldi í norður Thailandi og þú líklega einsog ég í Arabalöndum danskt smjör, ég þó allt væri í hers höndum útaf Múhameðstúrbaninum…en ISG fór samt til Dana og hélt því fram að íslenzka bankakerfið væri í lagi..sú kona var sko ekki í lagi…skilur ekkert og er einsog fæðingarhálviti síðan á Þingvöllum þegar hún kyssti Geir..burt með hana og hennar áhrif að eilífu.

  • Hvernig er hægt að segja að Samfylking hafi engin áhrif haft á efnahagsmál og hagstjórn? Var flokkurinn ekki með Viðskiptaráðuneytið? Er það ekki það ráðuneyti ásamt fjármálaráðuneytinu sem fer helst með hagstjórnina í landinu?

    Samfylking fór líka með ýmsa stóra málaflokka sem hefðu getað komið sér til góða í dag, s.s. iðnaðarmálin. Össur Skarphéðinsson gúffaði hins vegar í því embætti, talaði úr og í við þá fyrir norðan, gat ekki gefið ákveðin svör. Flokkurinn kom með eitthvað „korter í kosningar“ 2007 útspil sem hét „stóriðjustopp í tvö ár“. Þetta var gert þegar flokkurinn sá fram á afhroð í kosningum vegna fylgis sem leitaði til VG.

    þetta fylgishrun var óumflýjanlegt, með einhverjum loforðum sem voru raunar ekkert annað en framlenging á vandamálum flokksins fram í tímann er að skila sér í þessu gríðarlega fylgishruni flokksins í dag. Hann er stjórnlaus. Átökin innan flokksins eru jafnvel meiri en innan VG, sem eru þó mikil.

    helstu stuðningsaðilar flokksins til margra ára, Baugur er farinn, samfylking á æ erfiðara með að stýra umræðunni í fjölmiðlum landsins eftir að Davíð Oddsson tók við ritstjórn Morgunblaðsins, en það blað er helsta stjórnarandstaðan á Íslandi í dag, en ekki þeir sem sitja í minnihluta á þingi. Staksteinar Moggans eru á við heilan þingflokk Sjálfstæðisflokksins.

    Mörður er enn og aftur kominn í einhvern „selluklúbb“ álíka þeim sem var myndaður í þjóðleikhúskjallaranum þegar stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var sprengd að tilstuðlan þessara spellvirkja.

    Líklega hefur Ólafur Ragnar Grímsson völdin í sínum höndum í dag. Hann gæti flautað þennan hrylling sem ríksstjórnin er af, og látið mynda utanþingsstjórn.

  • „Ingibjörg Sólrún skýrir eftirgjöf sína í stjórnarmyndunarviðræðunum þannig í TMM-greininni að almenningur hafi ekki verið móttækilegur fyrir efnahagsgagnrýni Samfylkingarinnar fyrir kosningar.“

    Ræfilslegri getur málsvörnin tæplega orðið.

  • Það má ekki gleyma því að fólk batt með réttu eða röngu, vonir við Ingibjörgu. Hún var í hugum margra sá leiðtogi sem hefði getað valdið umskiptum. Hvllík vonbrigði. Allt umhverfi hennar gaf fyrirheit um öflugan leiðtoga, sem hefði getað sett mark sitt á sögu þessa unga lýðveldis. Hún brást algjörlega. Ég held að það séu vandfundin dæmi í stjórnmálasögu okkar um jafn mikil vonbrigði. Ef menn halda að íslenskur flokkur jafnaðarmanna með norrænum hætti sé í augsýn, þá er það mikill misskilningur.

  • @joi

    Þú spyrð:

    „Var flokkurinn ekki með Viðskiptaráðuneytið? Er það ekki það ráðuneyti ásamt fjármálaráðuneytinu sem fer helst með hagstjórnina í landinu?“

    Svarið er nei, viðskiptaráðuneytið var ekki hagstjórnarráðuneyti, það hlutverk var í forsætisráðuneytinu sem var einnig ráðuneyti Seðlabankans. Undir viðskiptaráðuneytið heyrði FME. Verkaskiptingin var í grófum dráttum þannig að undir forsætisráðuneyti og Seðlabanka heyrði ábyrgð á fjármálastöðugleika og lausafjárstýring fjármálakerfisins í heild. Undir viðskiptaráðuneyti og FME heyrði lagaleg umgjörð um starfsemi einstakra fjármálastofnana og eftirlit með starfsháttum þeirra. Svo unnu þessir eftirlitsaðilar saman með formbundnum hætti. Þetta hefur verið skýrt ágætlega í tveimur greinum eftir Gunnar Axel Axelsson:
    http://www.visir.is/article/20100318/SKODANIR03/391050354
    http://www.visir.is/article/20100324/SKODANIR03/40193952

  • Þeir fara mikinn Valhallarmennirnir hér að framan. Hætt er við að þeim sigi larður efir helgina-þegar Skýrslan birtist.

  • Um daginn héldu Staksteinar moggans því fram að eftirfarandi klausa í stjórnarsáttmálanum 2007 væri ættuð frá Samfylkingunni – getur þú upplýst okkur hvort það sé rétt Mörður ?

    //

    Í umbreytingu íslensks atvinnulífs á undanförnum árum felst meðal annars aukið vægi ýmiss konar alþjóðlegrar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi.

    //

  • Árni Snævarr

    Mæltu manna heilastur, Mörður. Það er lítilmannlegt af ISG að kasta allri ábyrgð yfir á viðskiptaráðherrann á þeim forsendum að hann en ekki hún hafi borið ábyrgð á efnahagsmálum. Ekki síst er þetta ómaklegt vegna þess að hún sniðgekk hann og sat fundi án hans um hans málaflokk. Það er kominn tími til að ISG útskýri þetta. Ekki að það fríi Björgvin ábyrgð, en það er annað mál. kv. Árni Snævarr

  • MargrétJ

    @Sævar

    Bara svo það sé á hreinu þá hef ég kosið til vinstri í hvert eitt og einasta skipti síðan ég hafði kosningarétt. Finnst sú umræða að leyfi vinstri menn sér að gagnrýna stjórnvöld harðlega, séum við Valhallarpennar.

  • Ég tek undir með Árna Snævar varðandi ISG og Björgvin.

    Það sem stendur upp úr er hvernig Björgvin G. er gerður að „the fall guy“ náungin sem á að taka sökina, bæði af ISG og GHH. Björgvin gerir síðan þau mistök að segja að hann hafi verið inn í málinu, sem ég held að sé ósatt. Þetta er svo síðasta átyllan sem GHH greinir frá í svörum sínum til RNA.

    Hvort Björgvin hefði átt að segja af sér eftir þjóðnýttingu Glitnis þ.s. hann var gjörsamlega snupraður að formani sínum og augljóslega ekki treyst . Samstarfsmenn hans báru ekki virðingu fyrir honum og töldu hann ekki starfi sínum vaxinn. Í stað þess að taka slaginn og reyna að reka af sér slyðru orðið.

    Það er ljóst eftir að gluggað í þessa skýrslu og það Björgvin hefur verið að vera eftir hrun, hann hefur verið að reyna tjasla upp á orðspor sitt. En hans fyrrverandi formaður notar hann en sem blóraböggul. Nokkuð sem segir meira um ISG en Björgvin.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur