Laugardagur 01.05.2010 - 10:20 - 28 ummæli

Útgjöld í prófkjöri

Ég hef ekki skipt mér undanfarnar vikur af umræðu um styrki til prófkjörsþátttakenda – fyrsti varamaður S-listans í Reykjavík norður er nánast vanhæfur í þessu máli hvað sem honum kann að sýnast.

Mér finnst hinsvegar rétt að endurbirta hér gamla greinargerð af þáverandi bloggsíðu minni — af því að Steinunn Valdís Óskarsdóttir segir í Fréttablaðinu í dag að hún hafi „líklega ein frambjóðenda“ birt opinberlega „öll útgjöld“. Þetta er eftir prófkjörið fyrir alþingiskosningarnar 2007, sem fram fór í nóvember 2006. Ég varð númer 7 í prófkjörinu, næstur á eftir Ástu R. Jóhannesdóttur, næstur á undan Steinunni Valdísi. Hér er þetta, frá 14. nóvember 2006:

Kostnaður minn við prófkjörið var um 2 milljónir króna, og stóðst áætlun. Prentun, hönnun og útsending efnis nemur tæpum tveimur þriðju upphæðarinnar en um þriðjungur fjárins rann til auglýsinga. Enginn kostnaður við fundi eða veitingar. Hér er nánari sundurliðun:

Þátttökugjald: 40.000 kr.
Prentun:* 477.086 kr.
Útsendingarkostnaður:** 393.360 kr.
Auglýsingar´ 640.425
Ljósmyndun o.fl.: 70.000 kr.
Hönnun:´´ 332.415 kr.

Samtals: 1.953.286 kr.

* Þrír prentgripir: Bókarkorn með stökum, blöðungur með ,skýrslu‘, einskonar nafnspjald.
** Límmiðar, sendibíll, póstburðargjöld, hlutdeild í kostnaði við samsendingu frambjóðenda.
´ Í Útvarpinu, Morgunblaðinu, Blaðinu, Breiðholtsblaðinu og Vesturbæjarblaðinu.
´´Hönnun prentefnis og auglýsinga, breytingar á vefsíðu.

Þetta er að mestu leyti eigið fé en ég þakka fjölskyldu og vinum einnig fyrir framlög og annarskonar stuðning. Hæsta framlag nam 100.00 krónum. Engir styrkir voru sóttir til fyrirtækja eða auðmanna.

Ég nota tækifærið og þakka hinum smekkvísu fagmönnum sem unnu fyrir mig, Spessa ljósmyndara, hönnuðunum Þorvari og Jóni Óskari (stökurnar) Hafsteinssonum, Prentmetsmönnum og öðrum.

Svo kemur spjall um úrslitin og að lokum þessi yfirlýsing:

Tel að við í Samfylkingunni eigum núna að skoða vandlega þessi prófkjörsmál, ekki síst kostnaðarþáttinn.

Sjá hér.

Styrkur frá auðmanni

Ég leitaði ekki eftir neinum styrkjum frá óvandabundnu fólki í þessu prófkjöri, heldur ekki prófkjörinu í fyrravor. Einusinni var það samt – ég fékk fyrir prófkjörið 2003 styrk frá Björgólfi Guðmundssyni, þá aðaleiganda Eddu þar sem ég starfaði. Það voru 200 þúsund krónur. Ég er Björgólfi þakklátur fyrir þetta framlag, sem skipti máli við prófkjörsútgjöldin. Því fylgdu auðvitað engin skilyrði og við Björgólfur erum held ég ennþá ágætir kunningjar þótt ég hafi ekki séð hann lengi – ekki heldur á KR-vellinum. Mér fannst hinsvegar ekki þægilegt að hafa fengið þetta fé frá áhrifamiklum viðskiptajöfri sem þá var að hefja gríðarleg umsvif með ýmiskonar samskiptum við ríkisvaldið. Meðal annars þessvegna ákvað ég að fara ekki framar slíkar leiðir í prófkjörsbaráttu.

Og þá er sagt það sem nú þurfti að segja.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (28)

  • Jenný Anna Baldursdóttir

    Takk Mörður. Þú einfaldlega rokkar. Þjóðin þarf þig á þing.

  • Kristín

    Flottur!

  • Garðar Garðarsson

    Góð og skýr skil.

    Gangi þér allt í haginn.

  • Andrés Ingi

    Takk, kýrskýrt.

  • MargrétJ

    Og þú telur víst að allir viti hver „fyrsti varamaður S-listans í Reykjavík norður “ sé ??? væntanlega telur þú hann líka „háttvirtan?

    Um leið og þið stjórnmálamenn farið að tala saman eins og fólk og hættið að tiltla hvorn annan með svona uppskafningstiltlum, breytist kannski eitthvað.

    Ef þér líður illa með styrkinn frá Björgólfi eins og þú segir, þá legg ég til að þú styrkir mæðrastyrksnefnd með mjólk og brauði fyrir peninginn.

  • @Mörður:
    Góð skýrsla, háttvirtur fyrsti varaþingmaður Samfylkingar í Reykjavík norður (eða H.f.v.S. í R.n., ef það er eitthvað „alþýðlegra“). Þú gengur á undan með góðu fordæmi og ert einskis manns leiguþý. Enda hefur þér verið núið um nasir að rekast ekki endilega með hjörðinni.

    Ef eitthvað má af skýrslunni góðu eftir hrun læra, þá er sá eiginleiki nú eftirsóttastur allra, nefnilega það að hafa styrk til að skila sératkvæði, ef með þarf.

    @MargrétJ:
    Afsakaðu orðskrúðið, á svellkaldri íslensku þýðir þetta að „Mörður rokkar feitan“ ]:-)

  • Hrafn Arnarson

    Þakkir fyrir góða skýrslu. Hver er þín skoðun á afar háum styrkjum til einstaklinga og væntanlega einnig til flokka og flokksdeilda?

  • Haraldur Finnsson

    Þetta eru góðar upplýsingar og til fyrirmyndar. Ég vona að stórstyrkjaþegarnir fari að sjá að sér og átti sig á því að þeir eru að gera bæði sjálfum sér og öllum öðrum sem eru í stjórnmálum mikinn óleik með því að skipta sér ekki út af. Ef þeir gera það ekki sjálfviljugir verða þeir einfaldlega ekki valdir í liðið næst.
    Í boltanum er þetta þannig að sá sem gerir tómar vitleysur inni á vellinum í leik er settur á bekkinn. Ef hann móast endalaust við og er með vesen þá verður hann ekki í leikmannahópnum næst.

  • jæja

  • Tómas Waagfjörð

    Ef allir gætu verið eins harðir og þú þá væri heimurinn miklu betri staður. Ég segi harður vegna þess að það er auðvelt að eltast við peninga en maður verður að vera harður til að standast freistinguna.

  • Mörður.

    Þú sagðir brandara sem þú verður, úr því sem komið er, að útskýra:

    http://blog.eyjan.is/mordur/2009/11/30/brandarar-a-vef-rikisendurskodunar/

    E. S.
    Ég hlustaði á þig í þingsal tala um eftirlaunaskandal þeirra Össurar, Steingríms, Davíðs, Halldórs og Guðjóns Arnars. Þú átt heima á Alþingi.

  • Oddur Örvar

    Sæll frændi.
    Þú ert heiðarlegur að vanda.
    Kveðja úr norðrinu

  • Oddur Örvar

    Sæll frændi.
    Þú ert heiðarlegur að vanda. Og menn eins og þú eiga að vera á þingi. Þar er bara ruslaralýður og það þarf að moka flórinn í hinu háa alþingi svo að það fái sinn rétta sess.
    Kveðja úr norðrinu

  • breki karlsson

    Ég er mjög óhress með hvernig tekið er á þessum styrkjamálum. Mér kemur ekkert við hvernig styrkjunum var varið. Það er augljóst að með viðtöku styrkjanna voru menn að lofa viðkomandi styrkveitanda einhverri velvild. það skiptir heldur engu hvort viðkomandi vissi hvaðan styrkuinn kom. Því ef styrkurinn kom í gegnum stuðningshóp þá hefur væntanlega styrkveitandinn tangarhald á stjórnmálamanninum í gegnum stuðningshópinn. Það sést einnig greinilega í rannsóknarskýrslunni að þeir valdameiri fengu hærri upphæðir en þeir sem töldust vera valdaminni. Í íþróttum er sá dæmdur úr leik sem notar lyf til að koma sér í betra form. Íþróttadómarnir eru iðulega lífstíðar keppnisbann. Í umferðinni missa menn ökuskírteinið ef menn bragða áfengi. Það eru líka til lagagreinar um mútuþægni. Mér finnst því augljóst að hver sá sem tekið hefur við styrkjum vegna stjórnmálastarfa getur ekki starfað áfram í stjórnmálum. Og skiptir þá upphæðin engu máli. Það er prinsippið að menn vinni fyrir alla en ekki einstaka hagsmuna aðila.

  • Einar Guðjónsson

    Það er orðið langt síðan stjórnmálamenn hættu að hugsa um almannahag.Að einhverju leyti berum við kjósendur ábyrgð á því. Mörður hefur alla tíð kosið að standa og falla með því að vera hann sjálfur. Held að vísu að of mikil orka hafi farið í að bera blak af meðframbjóðendum á framboðslistum Samfylkingarinnar ( drenglyndi ? ). Úr því sem komið er þá á hann hvergi betur heima en í Besta flokknum eins og við hin.

  • Jahérnahér. Yfirgengileg meðvirkini í öllum þessum kommentum (nema Mörður sé duglegur að hreinsa út allt annað?)

    Mörður þáði fé af Björgólfi Guðmundssyni til að komast að kjötkötlunum. Og hefur nú sagt frá því. Þá er hann orðinn „hetja“! Allir voða kátir. Mest hann sjálfur að því er virðist.

    Afsakið fólk. En ég geri þá kröfu til Marðar að hann láti af frekari stjórnmálaþátttöku. Jafnvel burtséð frá „heiðarlegri játningu“ hans. Hann hefur einfaldlega fengið sinn séns á þingi…. nú þurfum við HREINT blóð og NÝTT. Við höfum engin not fyrir atvinnupólitíkusa; það ætti að setja þak á þann árafjölda/kjörtímabil sem fólk getur setið á Alþingi – sporna gegn þaulsetum og tryggja þannig virkara lýðræði.

    Vonandi skýtur Mörður ekki aftur upp kollinum í þeim sölum!

  • Ingólfur Harri

    GéTé,

    Mörður er ekki „hetja“ af því hann þáði fé af Björgólfi, né vegna þess að hann hefur sagt frá því.

    En það sem er aðdáunarvert er að hann sá það strax 2003 að það væri óeðlilegt að taka við þannig styrkjum, jafnvel þó það hefði verið tiltölulega lág upphæð, og hefur síðan ekki sóst eftir slíkum styrkjum fyrir prófkjör.
    Þó hefur hann hafi verið að keppa í prófkjörum við fólk sem fékk milljónir í styrki frá auðmönnum. Fólk sem n.b. sér ekki enn þann dag í dag hvað var rangt við að taka við þessum peningum.

  • Skýrt og þarft að greina frá.

  • Eiríkur Stefánsson Fáskrúðsfirði

    Mörður Árnason er einn fárra þingmaanna Reykjavíkur sem ætíð hefur barist einarðlega gegn gjafakvótaþjófakerfinu. Mörður hefur sínt það með framgöngu sinni gegn kvótakerfinu að hann skilur fólkið í landinu og tilfinningar þess. Mér hefur oft fundist það merkilegt hvernig Mörður hefur tjáð sig í því máli þegar félagar hans í Reykjavík hafa þagað þunnu hljóði. Mörður Árnason áttar sig á því að þingmaður verður að geta greint á milli hinna stóru hagsmuna þjóðarinnar og hinna smærri mála. Mörður þorir.
    http://www.thjodareign.is

  • Gott að heyra.
    Fleiri þurfa að gera hreint fyrir sínum dyrum.

  • Sæll Mörður: Það er stöndug fjölskylda sem snarar út nærri 2 milljónum – með lítilsháttar aðstoð óvandabundinna. . .
    Ástæða til að óska þér til hamingju með það . . . . . . .
    . . . . stóra málið er nú líklega samt hvort „hægt er að kaupa“ þingsætin – og þá hvort það getur verið að „hægt sé að kaupa Þingmenn“ . . . og jafnvel flokka . . .
    Er kannski síður spurt hvað menn hafa fram að færa . . . . og fyrir hvaða sjónarmið og stefnuáherslur menn standa?
    Kveðja að Norðan.
    Bensi

  • Afsakið a meðan eg æli …….. Þu hefur samt sem aður sitið og þegið laun a þingi an þess að gera nokkurn skapaðan hlut eins og allir þingmenn.

    Nefndu eitthvað sem þu hefur gert fyrir almenning i landinu ?

    Hvernig t.d getur verðtrygging alls ekki verið logð niður , en um leið og við gongum i ESB þa fellur hun sjalfskrafa niður ?

  • Haraldur Finnsson

    Bensi, mig langar til að biðja þig um að lesa bls.279 í 8.bindi skýrslunnar. Þar segir frá rannsóknum á áhrifum gjafa lyfjafyrirtækja á lækna. Ég hef enga ástæðu til að trúa að stjórnmálamenn standist hliðstæð áhrif betur en læknar

  • Hlynur Þór Magnússon

    Ekki rýrir þetta innlegg það mikla traust sem ég hef alltaf haft á Merði Árnasyni.

  • @ Skuggi

    Ég held ég geti svarð þessu með hugsjónir og afrek Marðar Árnasonar fyrir hönd almennings í þessu guðsvolaða landi….. eftir ótal mörg ár í flokksstarfi, oti, poti og þingmennsku:

    Manstu eftir Stóra Eurovison-málinu?

  • Gunnar Ársæll

    Nú borgar Mörður fyrir múturnar frá Bjögg..Landsb…SP..

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur