Þriðjudagur 01.06.2010 - 14:18 - 32 ummæli

Besti kosturinn

Samstjórn Besta og Samfylkingarinnar er klárlega langbesti kosturinn í Reykjavík – ég vona að meirihlutamyndun gangi fljótt og vel.

Nei, það er rétt. Við vitum ekki mikið um stefnumál Besta flokksins. Mér hefur samt heyrst að hann sé almennt hlynntur velferðarþjónustunni og vilji að fólk hafi vinnu. Á báðum þessum sviðum hefur Samfylkingin reynslu og áætlanir. Samfylkingin í borginni – og á undan henni Reykjavíkurlistinn  – hefur svo verið döpur annarstaðar þar sem Besti gæti bætt stöðuna: Í skipulagsmálum einkum og tilfinningu fyrir samhengi og sögu í byggðinni. Nú eru verktakarnir flestir farnir á hausinn þannig að það er kannski hægt að fara að hlusta á fólkið og fagmennina.

Já, það er rétt. Það verður skrýtið í nokkra daga að Jón Gnarr sé allt í einu orðinn borgarstjóri. En er þar úr svo háum söðli að detta? Gnarrinn er vís til að brillera í þessu, vantar að minnsta kosti ekki tilfinningu fyrir grasrótinni í borginni og veit vel hvað fólk flest er að hugsa. Það sýnir einfaldlega árangurinn á laugardaginn.

Svo hafa menn talað um aðra á Æ-listanum sem einhverja vitleysingahjörð – en það er mikill misskilningur. Þar er samankomið hvert talentið af öðru, framkvæmdamenn, stjórnendur, hugsuðir og skipuleggjendur, þaulvant samningafólk með fingurgómsnæmi á tíðaranda og almannatengsl.

Spurningin er ekki um hæfnina heldur hvort þau koma sér saman og hvort þau standa saman þegar gefur á bátinn – en þá er að muna að mörg koma þau úr veröld tónlistarinnar og leiklistarinnar þar sem einstaklingsframtakið er lítils virði nema samleikurinn sé þéttur.

Þetta getur orðið fínn borgarstjórnarmeirihluti – ég spái pólitískri frjósemi næstu misserin í höfuðborginni. Fyrir minn leiðtoga í borginni, Dag B. Eggertsson, er þetta nýtt tækifæri til að skapa í stjórnmálum. Grunar að að hann sé ekki jafn-búinn á því og maður les um á blogginu þessa daga. En auðvitað þurfa ungir menn stundum að uppgötva að heimurinn er eftir allt saman heldur meiri en kálfskinn hálft.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (32)

  • Óttas mjög að nú sé nýr kafli að byrja í Reykjavík. Glundroði og vandræðagangur svipaður og var fyrir nokkrum árum. En það kemur í ljós.

  • „Sem betur fer eru verktakarnir flestir farnir á hausinn“ segir þingmaðurinn. Og ekki bara þeir, heldur verslanir og fjölskyldur líka. Það hlýtur að vera mikið lán.

  • Mörður Árnason

    Rétt hjá þér, Gunnar, þetta er ekki viðeigandi orðalag. Breyti því. Ég á við að skipulag og uppbygging í borginni eigi að stjórnast af hagsmunum íbúa og atvinnulífs, ekki af gróðavonum verktaka. En atvinnuleysi í byggingabransanum er ekkert gleðiefni.

  • Já þetta verður alvöru. Núna þarf Samfylking, móðurskip, að skoða sig vel og hreinsa til. Kosningarnar sýndu að gömlu aðferðirnar ganga ekki lengur. Spunameistararnir þurfa að fá frí. Meira að segja eftir að úrslitin lágu fyrir héldu þeir áfram nokkrir að klappa steininn, kannski til að bjarga eigin skinni? Þeir áttuðu sig ekki á því að mottóið í dag er heiðarleiki. Þeir áttuðu sig ekki á að kosningarnar snérust ekki um Dag, Hönnu Birnu eða Sóleyju.
    Fjórflokkurinn er í áratugi búinn að reka þetta þjóðfélag sem sinn einkaklúbb og eftir að velferðarstjórn tók við af Frjálshyggjustjórn og ekkert breyttist þá loks áttaði stór hluti landsmanna sig á (eða viðurkenndi) að þetta er bara einn lokaður klúbbur. Hvað breyttist við að VG tók við af Sjálfstæðismönnum í Heilbrigðisráðuneytinu? Hvar er skjaldborgin?

  • Nú eru vondur verktakarnir farnir á hausinn. Úlfurinn dauður og rauðhetta frjáls.

  • Hrafnkell

    Sammála um að meiri hluti Besta flokksins og Samfó sé besti kosturinn. Held meira að segja að það gæti orðið mjög góð borgarstjórn sem mun brydda uppá ýmsu fersku. Opnun hugmynda í málefnavinnunna er allavega eitthvað sem almenningi hefur ekki verið boðið uppá áður sbr. http://betrireykjavik.is/

    Samfylkingin getur ekki annað en batnað í þessu samstarfi, jafnvel fundið loks leiðina að samræðustjórnmálum ;o). Ef hins vegar hinir óttaslegnu í samfó ná í gegn með þjóðstórnarhugmyndir Hönnu Birnu held ég að breytingarnar verði engar nema á yfirborðinu.

    En ég er bjartsýnn í dag og trúi að skynsemin verði óttanum yfirsterkari.

  • Ekki Eykt.

  • En Dagur þarf klárlega að horfa á The Wire.
    Það er reyndar bara ekki einu sinni fyndið hvað er mikilvægt að allir á Íslandi, sérstaklega stjórnmálamenn, ættu að horfa á þessa þætti, hérna megin hruns.

    Það er ekkert grín.

    Þessir þættir fjalla um samfélagið í Baltimore þar sem vanmáttugt lögreglulið og réttarkerfi reynir að glíma glæpi eiturlyfjahringsins sem í raun stjórnar samfélaginu og teygir anga sína út um allt, þar á meðal í stjórnmálin og fjölmiðlana, tekur á skólakerfinu, velferðarkerfinu, lögreglunni… gríðarlega margþætt saga sögð frá mörgum sjónarhornum á risastórum skala.

    Hljómar ogguponkulítið kunnuglega, eða hvað?

    Ég skil fullkomlega að Jón Gnarr setji þau skilyrði að þeir sem hann starfi með hafi séð þessa þætti. Alveg epískar tengingar í því.

  • Garðar Garðarsson

    Dagur er rétti maðurinn til að leiða Samfylkinguna í borginni, og sérstaklega í þessum viðræðum við Besta flokkinn.

    Furðulegt var að heyra frétt RÚV´s í gær þar sem vitnað var í „áhrifamenn“ í Samfylkingunni sem voru að að segja að borgarstjórnarflokkur Samfylkingar hefði ekki umboð til að mynda meirihluta með Besta flokknum. Ekki voru þetta meiri áhrifamenn en það að ekki þorðu þeir að láta nafn síns getið.

  • skilaboð kosningana voru reyndar ALLS EKKI þau að samfylkingin ætti að fara í borgarstjórn.

    en verði þeim að góðu, samfylkingin gerir hvað sem er fyrir völd, þannig að þetta ætti að ganga smurt inn.

  • Garðar Garðarsson

    Loki, með hverjum á þá Besti að fara í stjórn?

  • Hvaða áhrifamenn voru þetta Garðar? Hef heyrt talað um ókunn öfl í Samfylkingunni en þetta þarnast eiginlega frekari útskýringa. Eru þetta raddir guðanna sem krefjast mannfórna við og við?

  • t.d. sjöllu.

    þeir fengu næstum því jafn mörg atvkæði og Besti flokurinn.

    Annars er fáránlegt að flokkarnir stjórni ekki bara alllir saman.

    Það er allavega ljóst að það er engin vilji borgarbúa að Samfylkingin fari í stjórn.

  • Í raun er lýðræðislegast ( ef fólk vill endilega hafa minni og meirihluta ) að stærsti flokkurinn sé í meirihluta og ef hann nær ekki hreinum meirihluta þá fari næst stærsti flokkurinn í samstarf með þeim stærsta.

    þá endurspeglar meirihlutinn vilja meirihluta íbúana.. því fólk kýs jú þá sem það vill láta stjórna.

  • Ef Samfylkingin telur sig geta þetta þá er það í lagi, þeir greinilega henta Besta flokknum, eig sjálfsagt margt sameiginlegt t.d. í peningamálum taka bara lán ,lán og aftur lán og skilja það ekki að það þarf að borga til bakka.

  • Svartálfur

    Ánægður með hvað þú ert jákvæður – þetta er rétti andinn.

  • Kristján Snorri

    Það að „Besti“ sé í meirhlutaviðræðum við Samf. sýnir bara að hann er ekki þetta „nýja afl“ sem beðið var eftir, heldur hefðbundin stjórnmálaflokkur með nýju nafni og kómiskari einstaklingum í forystu.

    Það sem „Besti“ ætti að koma á framfæri í borginni er að enginn „meirihluti/minnihluti“ mynduðust, heldur myndu allir borgarfulltrúar sameinast um að kjósa brautargengi fyrir þau málefni sem eru þess verð, óháð fyrir hönd hvaða flokks viðkomandi formælandi hafi verið kosin/n.

    svona hefðbundið meirhluta/minnihluta samband gengur almennt séð útá það að allir séu (samnings)bundnir því að játa tillögum hvors annars, óháð persónulegum skoðunum, s.s. fylgja flokkslínum, og það ekki bara eigin, heldur samstarfsflokksins einnig.

    Ég vona að ég þurfi ekki að sjá á eftir atkvæði mínu til Besta flokksins næstu fjögur árin.

  • Besti og Samfó ná 53.8% sem sagt rétt meirihluta, en ef Besti og Flokkurinn eru með 68.3% sem er 14% meirra. Er það ekki lýðræðislegra að þeir reyni að ná saman fyrst?

    Annars ef Bestir værru eitthvað breyttingar vald myndu þeir leita til allra og fá alla til að vinna saman í borgarstjórn. Nema kannsi Sóley þar sem hún sagðist aldrei vilja vinna með Sjálfstæðisflokknum.

  • Garðar Garðarsson

    Elín, hér er slóðin á frétt Sjónvarpsins hjá RÚV:
    http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4498009/2010/05/31/0/

  • Ómar Harðarson

    Kosningaúrslitin voru kjaftshögg á Samfylkinguna. Þau voru engan veginn ávísun á meirihlutasamstarf við aðra flokka, nema allt annað hefur verið prófað. Samfylkingin á að slíta þessum viðræðum sem fyrst og láta Besta flokkinn gera opinbert hvað hann á við með breyttum vinnubrögðum og hvað hann hugsar um stjórn borgarinnar í miðri efnahagskreppu.

    Það yrði hagstæðara við þessar aðstæður fyrir Samfylkinguna að standa utan við meirihlutasamstarf og láta Besta flokkinn spreyta sig með Sjálfstæðismönnum.

    Kosningar eiga að skipta máli.

  • Garðar Garðarsson

    Meirihlutinn sem sjálfstæðismenn höfðu forustu um ásamt spilltum Óskari kolféll.
    Eru menn ekki að fatta það?

    Besti vann kosningarnar og getur valið sér partner og velur Samfó vegna þess að þeir telja greinilega að þeir geti helst gert róttækar breytingar á stjórnarháttum með þeim.

    Að fara í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum væri ansi skrýtið miðað við að Sjálfstæðisflokkurinn myndaði þrjá meirihluta og splundraði jafn mörgum á síðasta kjörtímabili. Í þessum þrem meirihlutum voru þrír mismunandi borgarstjórar. Þvílíkir stjórnarhættir! Eru menn svo hissa á því að ekki var talað fyrst við Sjalla?

  • Takk Garðar. Þessi frétt var eins og sniðin fyrir besta flokkinn. Þarna stóð fréttamaðurinn í beinni og vitnaði í leyniáhrifamenn í Samfylkingunni. Til hvers hann var í beinni skil ég ekki. Viðmælendurnir voru víðs fjarri.

  • xD úr 7mönnum í 5 menn = heldur 71,5% af fyrra fyldi
    xS úr 5mönnum í 3 menn = heldur 60% af fyrra fylgi

    Afhverju ætti Samfylkingin að stjórna í borginni???????

  • Hvers eiga verktakar að gjalda. Af hverju talar þú um verktaka, þegar þú átt sennilega við braskara.
    Verktaki er sá sem tekur að sér verk fyrir annan fyrir tiltekið gjald. Það eru ekki þeir sem eru erfiðir í skipulagsmálum Reykjavíkur eða annarstaðar. Það eru hinsvegar fésýslumenn og viðskiptamenn, sem byggja í eigin reikningi. Þeir fengu nafnið braskarar um eða upp úr aldamótunum 1900. Þeir eru enn til.

  • Dálítið fyndið og aumkunarvert hve Sjálfstæðismenn hafa mikinn áhuga á ,,þjóðstjórnum“, þegar þeir eru sprungnir á limminu.
    Fínt að fá Jón Gnarr fyrir borgarstjóra, hann verður ekki í nokkrum vandræðum með að toppa: Markús Örn, Davíð, Vilhjálm, Ólaf… og hvað þeir heita nú allir snillingarnir sem Flokkurinn hefur plantað niður í Reykjavík á undanförnum áratugum.

  • Það var verið að hafna Degi bla bla bla….feitt…. !!!!
    eru allir pólitíkusar undir sama þroskahefta hattinum ??
    Skilja ekki hvað er verið að segja þeim ?

  • Garðar Garðarsson

    Snorri, þetta er rangt hjá þér með xS.

    xS fór úr 4 mönnum í 3 menn = heldur 75% af borgarfulltrúunum.
    En þetta er heldur ekki rétt aðferð, því réttast er að nota breytingu á prósentufylgi á milli kosninga. En þetta er bara talnaleikur sem skiptir ekki máli.

    Aðalmálið er að Besti var stóri sigurvegarinn og getur valið þann flokk eða flokka sem hann vill vinna með.

  • Eiríkur Stefánsson Fáskrúðsfirði

    Hver Samfylkingarstjórnmálamaðurinn á fætur öðrum laug í fjölmiðlum rétt fyrir kosningar um kosningaloforð og stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um innköllun kvótans og endurúthlutun. Stjórnmálastéttin lærir aldrei neitt og þeir skilja ekki fólkið. 10% þjóðarinnar treystir stjórnmálamönnum. Fleiri treysta Lalla Jones
    http://www.thjodareign.is

  • Varðandi atvinnuleysi í byggingariðnaði vil ég benda á það sem Pétur Gunnarsson sagði í blaðagrein eða viðtali um daginn. Hvað var verið að byggja síðasta ár fyrir hrun? Átti að halda því áfram? Hrun byggingaðinaðarins er ekki smiðunum að kenna en varla viljum við að þeir haldi áfram að byggja draugahús.

    Gunnar, er ekki betra að menn segi sannleikann umbúðalaust fremur en haga orðum sínum svo „pólitískt rétt“ að þau hafi enga merkingu lengur? Það hefur verið hressandi að lesa skrif Marðar undanfarið og ég ætla að vona að hann láti engan draga úr sér blogg-tennurnar. Tími jákvæðni, raunsæis, skynsemi, sannleika og gleði er vonandi það sem rís úr öskunni. Auðvitað óttast maður að Besta flokknum mistakist, en við bara urðum að gera þessa tilraun, gömlu flokkarnir voru ekki að fatta neitt og tilhugsunin um óbreytt ástand var óbærileg. Ég held eins og Mörður að sá flokkur sem fer í samstarf með Besta fái stórkostlegt tækifæri og eigi að nýta það.

  • daniel magnusson

    það er fyndið að þú skulir kalla Jón Gnarr, “ Gnarrinn“. Þannig hljómar það eins og þú sért persónulegur vinur ellegar elskhugi hans. Nú er sannleikurinn matreiddur ofan í kölkuð munnhol okkar sem kusum rangt, af þeim sem kusu ekki. Þeir sem ekki höfðu döngun né manndóm, þykjast sáttir.

  • glúmur baldvinsson

    Vel að orði komist Mörður.

  • Grínið kárnar fljótt hjá Besta Flokknum. Þeir tala um öryrkja sem aumingja. Ætli þeir tali þá ekki um Samfylkinguna sem asna? Hafandi tapað 33% af sínu fylgi síðan í síðustu kosningum, og sjálfa sig hljóta Gnarr og co. að kalla sig hálfvitana að ætla sér að fara í samstarf við flokk sem tapaði mestu fylgi allra flokka.

    Ef Mörður heldur að þetta verði einhver fyrirmyndarstjórn, þá held ég að honum skjátlist. Þetta verður til þess að þurrka út samfylkinguna. Núna verður hún bakvið stýrið í borginni og landsmálunum. Það eru ekki bjartir dagar framundan hjá borgarbúum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur