Fimmtudagur 10.06.2010 - 08:27 - 19 ummæli

Alvöru-stjórnlagaþing

Sérstakt stjórnlagaþing, þjóðkjörið á svig við flokkakerfið, án þátttöku ráðherra og þingmanna, með öll þau völd sem unnt er að veita því – þetta er ein af sjálfsögðum umbótaaðgerðum eftir hrun og búsáhaldabyltingu, tilraun til að skjóta nýjum grundvelli undir samfélagið – skapa Nýja Ísland.

Að þetta margumtalaða þinghald skuli ekki ennþá vera á hreinu – skýrir kannski að hluta til útreiðina sem listar hefðbundinna framboða fengu í kosningunum um daginn.

Sjálfstæðisflokkurinn er skíthræddur við stjórnlagaþing og berst gegn því með öllum ráðum. Þarna gæti eitthvað gerst – sem klíkubandalagið í Sjálfstæðisflokknum næði ekki að kontrólera, annaðhvort í krafti auðs og valda eða þá með hótunum og málþófsruðningi gegn veiklunduðum meirihluta á alþingi.

Hugmyndin um úrtaks-þjóðfund er alveg ágæt sé sá fundur liður í undirbúningi og almennri umræðu fyrir sjálft stjórnlagaþingið. Úr slíkum fundi kæmu eflaust ýmsar hugmyndir og tillögur – en fyrst og fremst mundi fundarhaldið líklega verða til tákns um að þjóðin öll tekur þátt í þessari endursköpun með margvíslegum hætti.

Hugmyndavinnan er nefnilega óvenjulega langt komin um nýja stjórnarskrá. Það er búið að ræða þau mál, skrifa um þau og setja þau inn í stefnuskrár almannasamtaka og stjórnmálaflokka í ein 66 ár – þannig að aðeins sé tekinn tíminn frá lýðveldisstofnun. Áður hafði langtímum saman farið fram stjórnarskrárumræða á Íslandi, nánast samfellt allt frá því á fyrrihluta 19. aldar.

Það sem núna liggur fyrir er að vinna úr þessum hugmyndum og tillögum, læra af mistökum undangenginna ára og áratuga, og smíða stjórnskipulag sem hentar nýjum tímum.

Tillagan sem Mogginn kynnir í dag úr Sjálfstæðisflokknum um þjóðfund í staðinn fyrir stjórnlagaþing – er eingöngu sett fram til að slátra stjórnlagaþinginu  og sjá til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi aftur undirtökin um stjórnskipulag þjóðarinnar – í félagi við afturhaldsmenn og værukæra hugdeyfingja annarstaðar í flokkakerfinu.

Stjórnarmeirihlutinn sem ég er hluti af samþykkir auðvitað stjórnlagaþing hvað sem líður undanbrögðum og villuljósum Sjálfstæðisflokksins. Ríkisstjórnin sem ég styð fellst auðvitað ekki á tillögu um að síðdegiskaffi í Laugardalshöll og enn ein sérfræðinganefndin komi í staðinn fyrir þjóðkjörna samkomu um stjórnskipunina með völd við hæfi þeirra atburða sem við lifum lengi enn í skugga þeirra.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • „Stjórnarmeirihlutinn sem ég er hluti af samþykkir auðvitað stjórnlagaþing hvað sem líður undanbrögðum og villuljósum Sjálfstæðisflokksins.“

    Ef þetta er AUÐVITAÐ, af hverju er þá ekki búið að því?

  • Hrafn Arnarson

    það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn beitir öllu afli sínu gegn Stjórnlagaþingi. Málþóf er ein aðferð. henni er beitt til að stöðva mál í þinginu. Björn Bjarnason sagði á þingi að hann væri tilbúinn að eyða öllum tíma sínu í að tala gegn þessu máli. Hvað er þá svona hættulegt? Jú, lagasetningarvaldið er tekið af þingheimi. Skýrsla rannsóknarnefndar er áfellisdómur um íslenska stjórnkerfið. Listinn um galla kerfisins er langur. Þeir sem eru í kerfinu miðju geta ekki breytt því. Alveg á sama hátt geta útrásarvíkingarnir ekki byggt upp nýtt ísland.

  • Er ekki hægt að tosa þetta í gegn þegr sjallarnir fara á landsfund?

  • Kristján Elís

    Það þarf bara að horfa á útsendingu frá Alþingi til þess að komast að því afhverju er ekki búið að samþykkja stjórnlagaþings lagafrumvarpið.
    Þar gasprar hver mannvitsbrekkan af annari í andsvörum við sjálfan sig til þess að stoppa þetta mál.
    Mörður; ekki gefast upp, ég held að þjóðin treysti á ykkur núna

  • Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki stjórnlagaþing, það er nokkuð ljóst. Framsóknarflokknum finnst of dýrt að eyða 500 milljónum í nýja stjórnarskrá, væntanlega engir þar á bæ sem hagnast persónulega á því. Er ekki nýbúið að eyða 700 milljónum í átak til að glæða áhuga erlendra ferðamanna á landinu? Ekki heyrðist mikið kvartað yfir því.

    Samfylking og VG vilja kjósa til ráðgefandi stjórnlagaþings og ef marka má orð arftaka Steinunnar Valdísar í formannstóli allsherjarnefndar er stjórnlagaþingi falið að ‘vinna ákveðna grunnvinnu’ en Alþingi fengi svo málið til meðferðar. Einnig sagði hann að mest væri um vert að Alþingi væri (skv. frumvarpinu) falið að ræða nánar um tillögur þær sem koma frá stjórnlagaþinginu.

    Saga stjórnarskrárbreytinga í boði Alþingis er ein samfelld raunarsaga og flestar þær tillögur sem lagðar hafa verið fyrir stjórnarskrárnefnd hafa dagað uppi í nefndinni. Alþingi á alls ekki að koma nálægt nýrri stjórnarskrá enda er plaggið m.a. umboð þjóðarinnar til löggjafarsamkundunnar sem einungis 10% þjóðarinnar treysta.

    http://www.samfelagssattmali.is

  • Karl Pé.

    Skítapakkið i Sjálfstæðisflokknum er alltaf samt við sig. Þeir reyna að tefja eða fella Stjórnlagaþingið og munu svo kenna stjórninni um það!!!

    Stjórnarmeirihlutinn á að koma þessu máli í gegn. Strax!

    Ekkert samráð má hafa við Sjálfgræðismenn. Þeir eru búnir að hafa nógu mikið af þjóðinni á öllum sviðum.

  • Eggert Sólberg

    Það er ekki rétt sem hér kemur fram að framsóknarmönnum finnist of dýrt að eyða 500 milljónum í nýja stjórnarskrá. Rétt er að framsóknarmenn vilja setja 500 milljónir í bindandi stjórnlagaþing en ekki ráðgefandi eins og núverandi ríkisstjórn ætlar sér að gera.

    Framsóknarflokkurinn hefur að ég held einn stjórnmálaflokka ályktað um stjórnlagaþing á flokksþingi á þessari öld (gerði það líka oft á 20. öldinni). Það er líka rétt að minna á að ein af forsendum þess að Framsóknarflokkurinn studdi minnihlutastjórnina síðasta vetur var að boðað yrði til stjórnlagaþings. Samfylking og VG stóðu ekki við það loforð m.a. vegna þess að hugmyndin þótti of dýr en einnig vegna tímaskorts.

  • Gísli Tryggvason

    Nokkrir kostir eru fræðilega hugsanlegir en ég tel ráðgefandi stjórnlagaþing samkvæmt fyrirliggjandi tillögu verra en að bíða eftir alvöru stjórnlagaþingi; kannski er hægt að fallast á þessa málamiðlun mína:

    „7. Málamiðlunarhugmynd. Ljóst sé að þeir róttækustu fallast ekki á mismunandi útgáfur af ráðgefandi stjórnlagaþingi sem lýst er að framan en að sinni náist ekki sátt um róttækustu tillöguna (í 8. tl.); því sé rétt að fallast á að stjórnlagaþing sé formlega ráðgefandi en hafi í raun úrslitavald með því að tillaga þjóðkjörins stjórnlagaþings verði send beint í (ráðgefandi) þjóðaratkvæði þannig að Alþingi hafi fyrst og fremst formlegan staðfestingarrétt. Fallist þjóðin á tillögu stjórnlagaþings muni hvorki einstakir þingmenn né þingflokkar treysta sér til þess að hafna tillögunni (einkum ef samþykkið er með yfirgnæfandi meirihluta). Þetta er hugsanleg málamiðlunartillaga ef allir aðilar láta af ítrustu hugmyndum sínum til íhalds eða róttækni. Þetta er hugmynd sem kom upp í samtölum mínum í gærkvöldi – og ég gæti íhugað í því skyni að ná bæði sáttum og árangri. Ég þykist vita að fleiri frjálslyndir umbótasinnar aðhyllist þessa lausn.“

    Sjá nánar hér:
    http://blog.eyjan.is/gislit/2010/06/09/stadan-i-stjornlagathingsmalinu-ii-8-kostir/

  • Ég er einfaldlega algerlega sammála þér Mörður og þarf ekki fleiri orð um það.

  • Sigurjón

    Merkilegt að deilt er um hvort stefna skuli til stjórnlagaþings eða að sleppa því.

    Hins vegar er ekki deilt um þau atriði sem breyta þarf frá núverandi stjórnarskrá.

    Á að kjósa til stjórnlagaþings til að gera eitthvað sem enginn veit hvað er?

  • Vigdís Ágústsdóttir

    Það fyrsta með nýrri stjórnarskrá, er að hefta flokksræði en efla lýðræði. Ég skal lofa því að, ég kýs ekki til Alþingis, fyrr en við höfum fengið nýja stjórnarskrá, og hana nú !!!!!!!

  • Það er lífsnauðsyn að stjórnlagaþingi verði komið á án afskipta alþingismanna. Alþingismenn eiga að hafa rétt eins og allir þegnar landsins til að tjá sína skoðun a nýrri stjórnarskrá og eins og þegnar landsins greiða atkvæði um hana í þjóðaratkvæðisgreiðslu. Þeir eiga EKKI að hafa neinn rétt umfram þann og alls ekki til að útvatna væntanlega stjórnarskrá, blindaðir af eigin hagsmunum.

    Hvar eru núna pottarnir og pönnurnar sem voru vopnin í búsáhaldabyltingunni?

    Er ekki kominn tíma á að storma niður á Austurvöll?

  • Sigurður

    Voru stjórnarliðar bara rétt í þessu að frétta af andstöðu sjalla við stjórnlagaþing? Það mætti halda það.

    Nema stjórnarliðum finnist málið svo léttvægt að það megi nota örlítið lengur til að berja á sjöllum og kenna þeim um tafir á framgangi þess.

    Eða hvað skýrir það að málið er tekið til umræðu rétt fyrir þinglok?

  • MargrétJ

    Það er alveg ljóst að eitthvað verður að gera. Þingheimur verður að fara frá. Síðustu dagar reka smiðshöggið. Það virðist borin von að þetta fólk vinni fyrir land og þjóð eins og það er kosið til og fær greitt fyrir. Maður hreinlega skammast sín fyrir að hafa kosið þetta „rusl“ á þing. Svo á að fara í sumarfrí?!! Ekki eins og venjulegt fólk. Nei, þingmenn telja enn að nú til dags þurfi janfmarga sumarfrísdaga og þegar riðið var í kjördæmið!! Sýnir bara hvað fólkið er ótengt við raunveruleikann. Mikið vildi ég óska við nættum þingfólk sem tæki hér málin alvarlega og færi loksins að vinna fyrir kaupinu sínu. Hætti við langt sumarfrí og tæki málin föstum tökum.
    Sorglegt og hreinlega sárt að horfa uppá Alþingi íslendinga standa á sama um ástand lands og þjóðar.

  • Því miður, eins og staðan á málinu er í dag þá verður þetta stjórnalagaþing Alþingis, um Alþingi og fyrir Alþingi. Ekki verður efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá nema eftir að Alþingi er búið að semja hana og þá bara í heild sinnni, ekki grein fyrir grein. Henni verður otað að almenningi með þeim formerkjum að annað hvort samþykki hann stjórnarská Alþingis eða fái ekki neitt. Þetta er ljótt mál Mörður og þarf að gera öðruvísi.

  • Ég hef efasemdir um þjóðkjörið stjórnlagaþing. Hverjir ættu möguleika á að hljóta kosningu og hverjir ekki?

    Einungis „málsmetandi“ og/eða þjóðþekktar persónur ættu möguleika á að hljóta kjör. Ekki jón Jónsson, bjáni, eða Jóna Jónsdóttir, óbreyttur ræstitæknir. Fólk sem enginn þekkir. Þó eiga þau jafnmikinn rétt á að koma að gerð stjórnarskrár og hver annar þegn.

  • Styð þessa hugmynd fara af stað með framkvæmd strax nægar verða umræður síðar

  • Pálmi Pálmason

    Mörður, orð í tíma töluð og í gegn með þetta nú! Nýr þjóðfundur um stjórnarskrámálið er ágætt innlegg sem undanfari og málþing fyrir nýtt stjórnlagaþing sem síðan kæmi fram með fullmótaða tillögu fyrir stjórnarfrumvarp sem alþingi hefði í kjölfarið enga ástæðu né burði til að breyta efnislega…annað væri að reka fingur framan í almenning!

  • Mér líst bara vel á þær hugmyndir sem meiri hliti Allsherjarnefndar kom með inn í frumvarpið. Sýnist að þarna hafi tekist að sætt málið og það var nauðsynlegt til að koma því á leiðarenda.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur