Sunnudagur 13.06.2010 - 16:05 - 4 ummæli

Pollýanna á aðalfundi

Hitti Pollýönnu á aðalfundi Græna netsins – hún þakkaði mér fyrir formennsku í því góða félagi í þrjú ár og fagnaði kjöri Dofra Hermannssonar – Polla hefur alltaf umgengist mig af ákveðinni varfærni en er beinlínis skotin í Dofra og var heldur dauf eftir prófkjörið í vetur. Mig grunar hún hafi kosið Besta.

Polla kom reyndar aðallega á Sólon að hlusta á Vilhjálm Þorsteinsson tala um orkustefnuna sem töluverð nefnd á vegum Kötu Júl er i þann mund að skila af sér – og hún var ánægð með Vilhjálm:

„Þetta er alvöru,“ sagði Pollýanna, „þarna er farið í gegnum þessi orkumál frá öllum sjónarhornum, ekki bara orkufyrirtækjanna og stóriðjunnar – og ekki bara með einhverri hippaspeki. Þegar þessi vinna er komin í gott plagg geta ríkisstjórnin og þið á þinginu – ertu ekki nýdottinn þangað inn aftur? – haft eitthvað að miða við til framtíðar í staðinn fyrir upphrópanir og þras um eina og eina virkjun.“

Ég samsinnti þessu – því mér líkuðu ágætlega vinnubrögðin hjá nefndinni og framsetning Vilhjálms – held reyndar upp á þá bræður alla: Gallinn er bara sá, Polla mín, að orkufyrirtækin eru ekkert með í þessu og eiga eftir að draga lappirnar endalaust – þau eru ríki í ríkinu sem enginn ræður við.

Það kom svipur á Pollýönnu: „Alltaf sami tónninn í ykkur þessu umhverfisliði! Auðvitað er brekka eftir í þessu – allt full af brekkum. En sérðu ekki hvað hefur gerst á bara fáum árum: Orkustefnan hérna í dag hjá Vilhjálmi prúða. VG og Samfylkingin ná saman um Rammaáætlunarfrumvarpið sem er komið inn í þingið þótt það verði ekki afgreitt fyrren í haust. Landskipulagið inni í skipulagsfrumvarpinu og verður samþykkt næsta vetur. Gott fólk að endurskoða alla náttúruverndarlöggjöfina einsog þið eruð búin að vera að kalla eftir árum saman. Og allt á fullu við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum eftir mikla vinnu í tveimur merkilegum skýrslum núna síðustu árin. Enda hafa þrír umhverfisráðherrar síðustu verið grænir: Kolbrún, Þórunn og Svandís. Og sumt af þessu er nánast einsog þið pöntuðuð það í Fagra Íslandi fyrir bara nokkrum árum.“

M: – Já, það er rétt, kæra Pollí – en þú heyrðir í Sigmundi jarðfræðingi: Það þýðir lítið að skrifa og samþykkja orkustefnu ef það á að klára nánast alla orku á Suður- og Suðvesturlandi í Helguvíkurálverið, og svo í næsta bita alla orku á Norður- og Norðausturlandi í þessa dellu á Bakka.

„Auðvitað ekki,“ segir Poll-Poll, „en hér er vinstristjórn! Fariði bara á fullt að skapa aðstæður fyrir öðruvísi atvinnulíf! Er ekki Vilhjálmur einmitt stjórnarformaður í Verne? Og Dofri framkvæmdastjóri í sprotaátakinu?“

M: – Við erum að reyna. En það vill enginn bíða. Störf strax, alveg sama hvernig og hvað þau kosta. Sjáðu Árna Sigfússon. Sjö menn í Keflavík. Allt út á taumlaus loforð um stóriðju og orkufyllirí.“

„Árni er úr járni og segir poi-oi-ong. Sunguði það ekki hérna um árið i Reykjavíkurlistanum? Þið eigið bara að hætta að mikla fyrir ykkur allan vanda og spila ykkur alltaf einsog fórnarlömb. Það er ekkert skemmtilegt að horfa upp á Kárahnjúka, eða kolefnishlutfallið, eða til dæmis villtan akstur utan vega, eða umgengnina um dýraríkið á sjó og landi – en græna hreyfingin hefur samt verið að vinna stöðuga sigra allt frá því náttúruvernd varð til í pólitíkinni kringum  1970. Og aldrei einsog núna á síðustu misserum – það er stórsókn í gangi og ótrúleg færi, bara ef menn geta rifið sig upp úr gamalli sjálfsmeðaumkun og minnimáttarhugarfari. Unga liðið stendur með ykkur, og landsbyggðin er líka að koma, af því þar eru menn að venja sig á ferðaþjónustu og menntun og náttúrlega framleiðslu og hættir að trúa á þrjúhundruð ára gömul iðnbyltingarfræði. Meira að segja Gísli Marteinn er orðinn grænn – hvernig heldurðu að Hannesi Hólmsteini líði?“

Við fáum okkur annan kaffibolla – ég venjulegt svart, Pollýanna auðvitað latté og trúir mér fyrir því að núna ætli hún að halda með Argentínumönnum á HM. „Þetta eru einu alvöru-karlmennirnir eftir í heiminum, geta bæði spilað fótbolta og dansað tangó,“ segir Polla með glampa í augunum. Ég tauta eitthvað um Ribery og Govou … en Pollýanna lætur sem vind um eyru þjóta, slær hendinni út og brosir: Messi …, hallar svo aðeins dreymin undir flatt og viðurkennir fúslega að hún hafi samt alltaf verið langveikust fyrir Diego Armando: – Já, drengurinn er breyskur og með kjaft, og svo er það kókið og konurnar – en hann er bara snillingur, þessi elska … og svo kemur hann alltaf aftur …

– Svona eigiði einmitt að hugsa, þið í þessum grænu netum: Aldrei gefast upp.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Sjálfrennireiðarstjóri

    Passaðu þig á þessum konum, þær eru alltaf að bruggga launráð og girnast þingsæti þitt.

  • Af hverju er ekki búið að sparka Vilhjálmi fyrir löngu? Eru samtvinnun viðskipta og stjórnmálamanna bara slæm ef það eru sjálfstæðismenn? Því miður Mörður, Samfylkingin er búin að missa allan trúanleika eftir það sem á hefur gengið undanfarið með orkulögunum og sölu orkufyrirtækja og hvernig þið ætlið að gefa eftir með álbræðslur í Helguvík og fyrir norðan. Og í framhjáhlaupi þá eru fyrirhugaðar framkvæmdir við nýjan landsspítala alveg gaga. Bæði er staðsetningin galin svo er engin þörf á honum! 50 milljarðar þar og 40 milljarðar í Hörpuna….það er ekki að sjá að hér hafi orðið bankakreppa og landið rambi á barmi gjaldþrots

  • Óður til vesaldómsins.

  • Vonandi eru bjartari tímar framundan hvað varðar grænu málin.

    En dag skal að kvöldi lofa og mey að morgni.

    Þetta eru bara orð ennþá hjá Sf.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur