Mánudagur 14.06.2010 - 08:45 - 14 ummæli

Vatnið – furðuleg staða

Deilan um vatnalögin snýst um grundvallarmál – hvort auðlindir landsins eigi að vera sameign þjóðarinnar eða einkaeign útvalinna. Á þeim forsendum var um þau háð mikil og erfið orusta á alþingi árin 2005 og 2006, sem lauk með því að meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks samþykkti lögin en við fengum fram frestun á gildistökunni fram yfir næstu kosningar.

Nú standa málin þannig að nýtt lagafrumvarp er ekki tilbúið – veit ekki af hverju – en Sjálfstæðisflokkurinn stendur þver gegn því að hin lögin séu numin úr gildi. Það mundi skapa einkaeignarrétt á vatni þvert á vilja mikils meirihluta þjóðarinnar og stefnu stjórnarflokkanna.

Mér heyrast forystumennirnir vera að tala um að fresta gildistökunni aftur, reyndar í þriðja sinn. Það er ekki gott – meðal annars vegna þess að enginn veit hvað ríkisstjórnin lifir lengi, en þó skárra en að lögin taki gildi, sem væri fullkomlega fáránlegt í samstjórn þeirra flokka sem einmitt tókst að standa vörð um fornan rétt í málinu.

Í pósthólfinu sé ég að þetta finnst fleirum — og það styrkir okkur í að ganga frá þessu á síðustu dægrum þingsins.  

Skil annars ekki af hverju í ósköpunum stjórnarmeirihlutinn hefur málað sig svona út í horn með því að semja um þinglok á einhverjum tilteknum tíma fyrir þjóðhátíðardaginn. Kannski er fólk bara  orðið þreytt? En samfélagið er enn í sárum eftir hrunið og algerlega eðlilegt að alþingismenn séu við störf þangað til þeir hafa lokið sínum verkum – þar á meðal þeim að ákveða um vatnalögin með tilheyrandi umræðum. Ekki stendur á mér – á töluvert á lager frá fyrri umræðu um vatnalög — og er ekki á leiðinni eitt né neitt í sumar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • María Kristjánsdóttir

    Það væri gaman að vita af hverju stjórnarandstaðan ræður svona miklu á alþingi ? Eru menn ekki eitthvað að misskilja lýðræðið? Einnig af hverju vatnalögin nýju eru ekki fullunnin? Svo líka fyrst þú ert nú kominn þarna. Eru það fjölmiðlar sem standa í vegi fyrir að upplýsingar berist á milli stjórnarmeirihlutans og almennings? Eða hlusta menn ekki innan veggja alþingis á lýðinn? Finnst hann skipta minna máli en til dæmis stjórnarandstaðan?

  • Þurfa ekki sumir að komast til brussel fyrir sautjánda júní?

  • Vatnalögin verður að afnema og þá segi ég þó ég hafi ekki sent fjölpóst á Þingmenn. Lögin eru í svo miklu hrópandi ósamræmi við vilja þjóðarinnar. Vatn er sameign mannkyns og má ALLS EKKI KOMAST Í EINKAEIGN.

  • Að sjálfsögðu eiga þingmenn að klára sína vinnu áður en þeir fara í frí. Á hvaða vinnustað myndi það líðast að hluti starfsmanna kæmi í veg fyrir afköst og færi svo bara í frí frá hálf kláruðu verki?
    Með svona fyrirkomulagi er verið að verðlauna slæma hegðun. Ef þingmenn vilja tefja mál þá verða þeir að fórna sínu sumarfríi í það.

  • Ég sá á vef Alþingis að málið er ekki á dagskrá, spurning hvort það frestast þá bara eða hvort lögin frá 2006 taka ekki bara gildi frá 1. júlí? Sjá http://www.smugan.is/frettir/nr/3546

    Hið síðasta er ótækt. Vitaskuld eru varnaglar í lögunum um gernýtingu vatns og ákvæði sem eiga að tryggja þeim sem hafa notið vatnsins með eiganda þess áframhaldandi neyslu í ákveðinni goggunarröð.

    Hinsvegar er ljóst að með því að gera einkaaðilann ábyrgan fyrir réttlátri skiptingu góssins, hefur löggjafinn EKKERT lært frá einkavæðingu bankanna og ríkisstofnananna og gjafakvótans með fisk. Vandamálið var nefnilega ekki svo mikið að einkaaðilum sé ekki treystandi fyrir verðmætum, heldur var eftirlitsskyldu ríkisins (checks-and-balances) svo ábótavant (þökk sé gengdarlausri frjálshyggju), að varnir brugðust o.s.frv.

    Málið snýst með öðrum orðum um það, að ríkið MÁ EKKI firra sig ábyrgð á að hafa eftirlit með grunngildum og -bjargráðum almennings. Ríkið má ekki eftirláta einkaaðilum að „passa upp á“ að enginn líði skort á nauðsynjum.

  • Hefur einhver útlistað hvað er að þeim vatnalögum frá 1923 sem gilda enn? Hafa þau verið til stórkostlegra vandræða? Átta mig ekki á því af hverju lagt var af stað.

  • Ef málið verður ekki tekið fyrir,þá öðlast þessi lög gildi.

    Ef svo fer, þá þýðir ekki fyrir ríkisstjórn að segja að það sé einhverjum öðrum að kenna, þau hafa völdin og tækifærið til þess að fella þau úr gildi. Hótun um málþóf er hlægileg í samanburði við hversu mikilvægt málið er, en enn hlægilegra væri að láta hana virka.

  • hvernig stendur á að nú séu liðin þrjú ár síðan samfylking settist að stjórnarkötlunum, og enn hafi ekkert gerst í þessu máli? Er búið að gelda flokkinn algerlega? Er hann á barmi þess að setja upp fimm ára áætlanir líkt og gömlu átrúnaðargoð helstu ráðamanna samfylkingarinnar gerðu á sínum tíma með skelfilegum afleiðingum fyrir alla heimsbyggðina?

  • Ég hefi talað við ótölulegan fjölda manna af öllum kynjum sem undrast hví þingmenn þurfa endilega að ljúka þingi á einhverjum ákveðnum degi. Öllum, án undantekningar, finnst að þingið eigi að fara í frí þegar nauðsynlegum málum er komið frá. Hvorki fyrr né síðar.

  • Spurning hvort stórfelld jarðakaup auðmanna og félaga í þeirra eigu tengist þessum lögum. Geri síður ráð fyrir að það sá vegna náttúrudýrkunar eða draums um að sinna nokkrum rolluskjátum í ellinni. En hvað veit maður svo sem.

  • Það er vissulega Framsókn og Sjálfstæðisflokkur sem halda þessu máli frá dagskrártöku, en stjórnarflokkarnir geta með engu móti leyft sér að fara í sumarfrí fyrr en þetta mál hefur verið afgreitt.

    Þá væri áhugavert að vita nákvæmlega hvað IMF hefur sagt undirmönnum sínum í ríkisstjórn hvaða auðlindir eigi að einkavæða.

    Það er lítill munur á áformum þeirra hér og annars staðar eins og í Afríku og Suður Ameríku.

  • Þorsteinn Vilhjálmsson

    Þetta mál er alveg nógu stórt fyrir málþóf = störukeppni. xD mundi væntanlega tapa atkvæðum á hverjum degi sem það stendur yfir.

  • í versta falli mætti samþykkja frestun laganna um mánuð eða tvo strax og halda síðan beint áfram að ræða afnámið og koma því í gegnum þingið – það er varla skylda að gera allt á elleftu stundu – ef sjallar nenna málþófi og sleppa frítöku í þann tíma,… verði þeim að góðu

  • Það þarf að afnema þetta strax ekki spurning, enga einkavæðingu eða einkavinavæðingu með vatnið, OKKAR, OKKAR,OKKAR

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur