Miðvikudagur 30.06.2010 - 11:13 - 44 ummæli

Skynsamleg lausn

Hinir nýju forystumenn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hafa sent út tilmæli um gengistryggðu lánin, hversu með skuli fara þangað til dómstólar úrskurða annað. Annaðhvort séu notaðir lægstu vextir óverðtryggt eða lægstu vextir verðtryggt. Þetta er góð lína og einboðið að lánveitendur og lántakendur fari eftir þessu.

Í venjulegum neytendaviðskiptum er það þannig að hafi neytandi keypt gallaða vöru þá fær hann hana endurgreidda – sem á hér illa við – eða seljandinn lætur hann fá aðra vöru sem er eins eða kemur að sömu notum – er staðkvæmdarvara á stofnanamálinu.

Staðkvæmdarvara hinna gölluðu gengistryggðu lána eru önnur eins, óverðtryggð með nokkuð háum vöxtum, eða verðtryggð með heldur lægri vöxtum. Hér skiptir auðvitað miklu hvernig lánakjör hvers og eins verða útfærð, og hvaða úrræði eru í boði fyrir þá sem áfram eru í klandri vegna hrunsins – en í prinsippinu er þetta skynsamlegt og sanngjarnt.

Og algerlega samkvæmt bókstafnum, sýnist manni. Fjórða grein laga nr. 38/2001:

Þegar greiða ber vexti …, en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum … Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum …

Nú hefjast auðvitað málaferli, en líklegust og æskilegust lok þeirra eru í þessum dúr. Skelfing hinna gengistryggðu hefur þá linast, og menn geta aftur komið sér að verkum við það annarsvegar að bæta stöðu hinna verst settu og hinsvegar að snúa hjólunum  í gang þannig að atvinnuleysi hverfi og kaupmáttur aukist – á leiðinni í Nýja Ísland með lærdóma hrunsins í vegarnesti.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (44)

  • Adalsteinn

    Þú þarft ekki að snúa neinum hjólum Mörður, þú hefur miskilið eitthvað.
    Stattu bara við kosninga loforðið þitt, FRJÁLSAR HANNDFÆRAVEIÐAR.
    Þá kemur þetta sjálfkrafa.
    ÞAÐ ER GLÆPUR GAGNVART ÞJÓÐINNI AÐ HORFA AÐGERÐAR LAUS
    Á 15.000 MANNESKJUR ATVINNULAUSAR.

  • Ósköp er gott að gera valið sér lagagrein. Talsmaður neytenda velur aðra, raunar úr stjórnarskránni sem segir aðgerðir stjórnvalda stjórnarskrárbrot. Enn aðrir velja aðrar lagagreinar.
    Það athyglisverða er hvaða stöðu Jafnaðarmennirnir velja.

  • Jón B G Jónsson

    Hæstréttur felldi sinn dóm og hann er skýr. Svo skýr að nánast allir másmetandi lögmenn telja að gengistryggingin sé lögbrot en annað standi í lánasamningunum þ.á m vextirnir. Ætti það ekki að vera skylda alþingismanna að verja þrískiptingu valdsins? Við höfum ennþá okkar efsta dómstig. Það er ekki enn komið til Brussel. Hvers vegna hefuir ekkert heyrst frá þér Mörður um hundruð milljóna afskriftir til handa fyrirtækjum og útrásarmönnum þessa lands en þú ætlar af límingunum þegar hinn almenni borgari nær réttlætinu fram? Þú ert skrýtinn jafnaðarmaður!

  • Valur B (áður Valsól)

    Kæru naflaskoðendur.

    Mig langar til að þakka ykkur fyrir 100 miljarða reikninginn sem þið viljið nú senda almenningi, svo þið getið sloppið við að borga og átt eftir bæði bíla, hús, fellihýsi og hjólhýsi. Gaman að búa í landi þar sem allir hugsa fyrst um rassinn á sjálfum sér. Nú skal græða á daginn og grilla á kvöldin eins og enginn sé morgundagurinn. Þetta er í raun fyrsta skiptið sem ég er sammála Pétri Blöndal. Þið eruð naflaskoðendur. (Tek það fram að ég er sjálfur með gengistryggt lán)

  • Á það skal minnt að allir alþingismenn hafa undirritað á sínum fyrsta fundi í sameinuðu þingi drengskaparheit að halda stjórnarskrá landsins svo það er skylda alþingismanna að sjá til þess að lagasetning standist ákvæði stjórnarskrár .

  • En Mörður minn kæri, þetta ákvæði í vaxtalögunum á eingöngu við þegar vextirnir eða vaxtaviðmiðunin hefur ekki verið ákveðin. Það er ekki svo með þessa gengistengdu lánasamninga. Þetta ákvæði gildir því einfaldlega ekki. Spurningin er hins vegar hvort forsendur vaxtanna séu brostnar, og ef svo er, hvað gerist þá? Þeirri spurningu er ekki svarað í vaxtalögunum. Rökin þín eru því frekar aum en þau sýna hins vegar hvar þú stendur í þessu máli.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Ertu ekki að horfa framhjá dómi Hæstaréttar, kallinn minn?

    Það er alveg skýrt í þeim dómi að gegngisbinding lána er ólögleg. Vextirnir eru löglegir en það er ekki hægt að breyta forsendum eftir á eftir hentugleika AGS.

  • Kristján H Theodórsson

    Þú ert að fagna líklegu lögbroti „jafnaðarmaður“.

  • Þegar þingmenn hvetja til lögbrota, einsog Mörður Árnason gerir í þessari færslu, þá er stutt í fasismann. Samfylkingin er að breytast í fasísk samtök sem gefur ekkert fyrir lýðræði og gefur ekkert fyrir réttarríkið og gefur ekkert fyrir þrískiptingu valdsins.2

  • Mörður; – hvað er eiginlega að þér . . . . ?
    Það er ekki heil brú í því að svokallaðar „eftirlitsstofnanir“ fari að taka sér „fyrirmælavald“ sem raskar gerðum og gildum samningum . . . jafnvel ekki þó stjórnvöld vilji – og jafnvel ekki þó einstökum stjórnmálamönnum „finnist það sanngjarnt“ . . . .

  • Einar Guðjónsson

    Er nú kannski farið að snúast um hvort að tveir ríkisbubbar í Seðlabankanum hafa framið valdarán í landinu. Eftir fundinum að dæma telja þeir sig nú fara með Dóms og framkvæmdavald í landinu.

  • Sorglegt að hlusta á þig Mörður. Að þú skulir voga þér að taka þér stöðu gegn almenningi og með fjármálaklíkunum sem hér eru að mergsjúga allt til dauða. Það voru einmitt EKKI svona þingmenn sem þjóðin kallaði eftir í síðustu kosningum

  • Mörður:
    „Í venjulegum neytendaviðskiptum er það þannig að hafi neytandi keypt gallaða vöru þá fær hann hana endurgreidda – sem á hér illa við – eða seljandinn lætur hann fá aðra vöru sem er eins eða kemur að sömu notum – er staðkvæmdarvara á stofnanamálinu.“

    Mörður það er ekki hér verið að tala um gallaða vöru heldur ólöglega vöru. Þú og þinn flokkur er það aumasta sem fram hefur komiðí íslenskum stjórnmálum. Eina sem þið getið gert er að moka undir rassgatið á Jón Ásgeir og félögum.

    Get lofað þér því að þú verður ekki þingmaður þegar hausta, held svei mér þá að það verði búið að henda ykkur öllum út með skít og skömm.

    Eina sem ég bið um er NÝTT LÝÐVELDI með nýju fólki og öruggu bankakerfi sem þjóðin getur treyst.

    „Sveiattan Mörður“

  • Það væri kannski bara betra að þú segðir ekki neitt og þið í ríkisstjórn færuð frá og létu aðra um þetta þið látið AGS stjórna , og held eg að flokkurinn þinn hverfi í næstu kosningum, mundu Mörður það eru LÖG í landinu sem þú og þinn flokkur virða ekki .

  • Hvað hefði gerst ef gengið hefði EKKI hrunið og lántakendur greitt samkvæmt upphaflegri greiðsluáætlun?

    Hefðir þú, Mörður, þá komið og sagt að það væri ósanngjarnt að greiða svona lága vexti eins og á er kveðið um í þessum lánum og farið fram á að vextirnir yrðu hækkaðir? Hefði þá FME og SÍ komið fram með þessi tilmæli?

    Og það er alveg á hreinu að ef gengistryggðu lánin hefðu borið ríkisvexti samkv. SÍ þá hefðu ekki svona margir tekið þessi lán. Og alls ekki svona há lán.

    En dómur Hæstaréttar skal standa. FME og SÍ geta ekki ætlast til að lánþegar fari eftir ólöglegum tilmælum. Allavega mun ég ekki gera það.

  • Adalsteinn

    Mörður hefur aldrei getað samsinnt almennri skoðun, honum
    er ekki SJÁLFRÁTT.

  • Adalsteinn

    Kannski fær Mörður kikk, af að æsa ykkur upp.

  • Hvar varst þú með þína sanngirni þegar ég var að borga yfir 100% hækkun á lánunum mínum? Og Valur B, hvernig færðu það út að 100 milljarðar færist yfir á almenning. Þetta eru allt einkafyrirtæki maður.

  • Jóhannes

    Væri ekki réttast að RSK skattlegði hagnaðinn sem er að myndast hjá þeim sem skuldsettu sig upp í rjáfur og fá nú væntanlega niðurfellingu skulda. Á kostnað þess hluta þjóðarinnar sem skuldsetti sig ekki upp í rjáfur og stendur nú í því að greiða skuldir annara í formi hærri skatta og vöruverðs, lægri kaupmáttar og skertrar þjónustu.
    Má ekki segja að skuldarar hafi verið tilbúnir til að taka þátt í svindlinu meðan það var þeim hagfellt?
    Var nokkur sem rak mál á hendur fjármögnunarfyrirtækja meðan gengi krónunnar hélst hátt?

  • Langar að koma með þrjár ábendingar.
    Í fyrsta lagi fer í taugarnar mér þegar einhver tekur sér valdið án þess að hafa forsendur til þess. Þú segir „en líklegust og æskilegust lok þeirra eru í þessum dúr.“ Þú hefur semsagt mikla þekkingu á þessu og ert með tilmæli til dómstóla – er þetta ekki kallað dómstóll götunnar. Einhver gæti kallað þetta hótun til löggjafarvaldsins.

    Í öðru lagi er þetta engin lausn, og þá varla skynsamleg. Ef allir væru í sama liði og lánveitendur væru sanngjarnari þá mætti sjá lausnir. Hins vegar hafa þeir farið fram með offorsi, bæði fyrir og eftir dóminn, og ætla sér algjörlega að fara sínar eigin leiðir, sbr. yfirlýsingar sumra banka. Ég ætla að líkja ástandinu í samfélaginu í dag við fjölskylduofbeldi þar sem valdhafar og fjármálafyrirtæki (foreldrar) ganga mjög hart fram í ofbeldi sínu gagnvart öðrum fjölskyldumeðlimum (neytendum). Þú horfir á þetta samband innan samfélagsins og hvetur valdhafana til að halda áfram sínu ofbeldi, slíkt sé skynsamlegast miðað við stöðu mála.

    Í þriðja lagi vil ég þakka þér fyrir ábendinguna um að allir þurfi að leggjast á eitt að koma samfélaginu og velferð okkar á fullt skrið – þarna erum við mjög sammála.

  • Mér þykja rök þín athyglisverð Mörður en þau halda ekki vatni í mínum huga.

    Ástæðan er sú að í þessu máli er staðkvæmdavaran miklu dýrari en sú sem upphaflega var samið um. Þetta er eins og að ég keypti mér bíl sem yrði svo innkallaður þar sem hann uppfyllti ekki lög og reglugerðir um framleiðslu bifreiða. Ég fengi því annan bíl í staðinn fyrir hinn en hann yrði dýrari en sá sem ég keypti upphaflega og ég ætti ekki annarra kosta völ en að greiða mismuninn. Ef ekki er hægt að laga hinn keypta hlut (sem ekki er hægt hér) og ekki hægt að láta þig fá sambærilegan hlut þér að kostnaðarlausu (sem virðist ekki vera hægt hér) áttu sem neytandi skýran rétt á því að skila hlutnum þannig að báðir aðilar gangi frá borðinu í sömu stöðu og ef aldrei hefði orðið að kaupunum.

  • Jóhannes, það er ekki verið að fella niður neinar skuldir!

  • Garðar Garðarsson

    Þessi tilmæli Seðlabanka og Fjármálaeftirlits eru skynsamleg og nú er það dómstóla að dæma. Miðað við þessa lausn þá eru skuldarar samt að detta í lukkupottinn miðað við hvað þeir skrifuðu undir með opin augu og gerðu ráð fyrir gengistryggingu lána.

    Þetta eru bestu neytendalán hingað til síða verðtrygging var tekin upp hér um árið.

  • Þórdís

    Mörður, þetta eru langt frá því að vera venjuleg neytendaviðskipti, þetta eru án efa þau biluðustu og sjúklegustu „viðskipti“ sem fyrirfinnast í s.k. þróuðum ríkjum. Fjármögnunarfyrirtækin stunda grimmt nótulaus viðskipti (a.m.k. SP og Avant) sleppa því að gefa út sölureikninga fyrir bílunum. Síðan rukkað þau „skatt“ ofan á ímyndaðan kostnað, s.s. stela í nafni skattsins. Síðan falsa þau lánasamninga, breyta skilmálum o.fl.. Síðan búa þau til sína eigin „gjaldmiðla“ og kalla það lán í evrum, dollurum o.fl. (en það má enginn vita, og því kemur það ekki fram á samningum eða heimasíðum). Síðan færa þau kröfur á viðskitpavini inn í heimabanka aftur í tímann, þannig að drátarvextir byrja að tikka áður en reikningurinn var svo mikið sem sendur „viðskiptavininum.“

    Og þessar sjoppur eru enn opnar! Sjoppum sem væri fyrir löngu búið að loka í t.d. Nígeríu. Og framkvæmdastjórar, lögbrjótarnir, þessara sjoppa eru með krumlurnar í lagafrumvörpum norrænu velferðarríkisstjórnarinnar (bílal.frumvarpið).

  • Helgi Jóhann Hauksson

    Því miður Mörður, þá er þetta ekki lausn og hvorki skynsamleg né sanngjörn gerð.

    Réttarkerfið byggir á því að aðilar verði að taka afleiðingum gerða sinna til að þeim lærist að halda sig á braut laga og réttar.
    Ef fjármálafyrirtæki eru sífellt leyst úr snörunni þegar þau sjálf ein og óstudd brjóta á viðskiptavinum sínum (það buðust ekki önnur bílalán en þau gengistryggðu) þá læra þau það eitt að óhætt sé að gera almenningi og varnarlausu fólki hvað sem er, stjórnvöld muni alltaf bjargi þeim fyrir horn.

    Þess utan hafa þessi fyrirtæki og starfsmenn þerra gengið afar hart fram gagnvart fólki og ekki sýnt vott af samúð eða sanngirni þegar fólk bauð allt sem það gat til að standa sína plikt.
    Það kom líka skýrt fram þegar Árni Páll reyndi að díla við þau, að þar var enga sanngirni eða réttlæti að finna.

    – Svo þar hefur ekki verið unnið fyrir ögn af eftirgjöf eða því að almenningur sætti sig við að yfirvöld hvetjii til að bortin séu á fólki lög í þágu þessara fyrritækja.

  • Þorgeir Gunnarsson

    Hæstiræettur felldi dóm, en fjallaði ekki um vextina sérstaklega. Það er ekkert sem segir að í framtíðinni verði ekki hægt að fella fleiri dóma í Hæstarétti sem t.d. skera úr um vextina. Það er ekki hægt að halda því fram að ekki megi halda áfram að vinna í þessu stóra máli þó að Hæstiréttur hafi skorið úr um ólögmæti gengistryggingarinnar.
    Segjum nú að gamni sem svo að Hæstiréttur hefði dæmt eitthvað annað lán ólöglegt vegna einhvers ákvæðis í því sem kæmi lánþeganum illa, þ.e.a.s. að vegna þess að eitthvert ákvæði í láni væri ólöglegt þýddi það að lánakjörin versnuðu um allan helming.
    Ég er hræddur um að Neytendasamtökin, Hreyfingin, Hollvinir heimilina og hvað þessi samtök öll heita, sem nú hrópa hæst, myndu láta í sér heyra og krefjast þess að lánakjörin yrðu nær því sem gengur og gerist vegna þess forsendubrests sem hefði orðið.
    Ég tek það fram að ég er sjálfur með myntkörfulán en ef ég reyni að horfa á málið með sanngirnisaugum þá finnst mér ekki sanngjarnt að krefjast þess að fella niður stóran hluta af upphaflegu láni þó svo að eitt ákvæði í því hafi verið dæmt ólöglegt.
    Ég myndi alla vega ekki vilja kaupa bíl af manni sem hugsar eins og forsvarsmenn fyrrnefndra samtaka.

  • fridrik indriðason

    sælir mörður
    það vantar alveg í þinn málflutning að menn eiga að bera ábyrgð á eigin gjörðum. þeir einu sem mótmæltu lögunum frá 2001 voru forsvarsmenn þeirra lánafyrirtækja sem nú eru í djúpum skít. dómur hæstaréttar er mjög skýr. í samræmi við lög er gengistrygging ólögleg. annað í þessum samningum stendur. ef þú ætlar að fara að verja hagsmuni „lögbrjótanna“ frekar en orðið er mun ég segja; et tu brute

  • Hárrétt (það er pistillinn).

    En það er þekkt úr sálarfræðinni að þeir sem eru beittir ofbeldi, beita sjálfir ofbeldi. Þannig að þær óhamingjusömu sálir sem fjárfestu í þeirri trú að gengið myndi haldast (sic) og hefur verið haldið öfugum yfir eldum fjármálafyrirtækja síðan án þess að stjörnvöld hafi gert neitt af viti, hafa náttúrulega litla samúð með kvölurum sínum nú, né ríkistjórninni. Jafnvel þó að kvalararnir séu að stórum hluta í eigu almennings og að ágóði þeirra (umfram það sem sanngjarnt er og skynsamlegt) mun æsa upp verðbólgubálið sem brennir upp eignum og launum samborgara þeirra!

    Enn sem fyrr vantar samhenta ríkisstjórn sem í raun og veru er með einhverja sýn á hvernig við eigum að haga málum í þessu landi. Og ekki veitir stjórnarandstaðan þeim andrými til þess. Kannski er það vegna þess að til að venjulegt fólk geti lifað hér eðlilegu lífi, þarf að ganga í ESB (sem kvótaeigendur vilja ekki) og jafna lífskjörin í alvöru (sem kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja ekki).

  • Mörður Árnason

    Et tu, Federice! Nú fara af stað dómsmál — og á meðan mælast Seðlabanki og FME til að miðað sé við lagagreinina sem ég birti. Þannig næst — að sinni — ákveðin sanngirni milli lántakendahópa, sem á sínum tíma stóðu frammi fyrir 1) gengislánum með ,erlendum’ vöxtum, 2) verðtryggðum lánum með tilheyrandi vöxtum, 3) óverðtryggðum lánum með hærri vöxtum. Þannig er líka — í bili — komið í veg fyrir það lotterí að almenningur borgi gengistryggða brúsann með hærri sköttum, minni velferðarþjónustu, skertum lífeyri. — Ég er svo alveg sammála þér og t.d. Sverri eða Þórdísi hér að ofan um framgöngu fyrirtækjanna, og einmitt rétt að rifja upp sögur Árna Páls þegar hann var að toga þau að samningsborði árangurslaust. Reiði, gremja, blót og formælingar — allt eðlilegt, og ég skal taka við meira af svo góðu ef mönnum er í því einhver fróun. En ég stend á því sem mér finnst skynsamlegt. Þessvegna er ég í stjórnmálum.

  • Þórdís

    Mörður, ef þú ert t.d. til í að beita þér fyrir því að það verði í alvörunni skoðað hvort vsk-inum sem fólk greiddi hafi verið skilað til Skattsins, þrátt fyrir enga sölureikninga (ath. fólk hefur verið að greiða hann allt að þrefalt, t.d. í tilfelllum sem menn fengu gengistryggt lán fyrir öllu kaupverði bílsins með vsk.) að þá skal ég trúa því að þú hafir áhuga á sanngirni í þessum málum. Bókhaldsbrotin eru svo gróf, (vantar mörg þúsundir sölureikninga í bókhald Avant og SP), að ég efast um að annað eins hafi gerst hér á landi, þ.e. svona einföld og augljós bóhaldsbrot, að „gleyma“ að gefa út reikninga.

    Það virðist vera mikill vandræðagangur hjá Skattinum hvað þetta snertir, búnir að vera að „skoða“ þetta í marga mánuði.

  • Mörður Árnason

    Ég skal reyna þetta, Þórdís. Undarlegt mál.

  • Garðar Garðarsson

    Mörður þú stendur þig vel og lætur ekki stórann þrýstihóp breyta gegn samvisku þinni.

    Eitt er að lánastofnanir fóru með offorsi gegn lántakendum þegar lán tvöfölduðust á skömmum tíma, annað er að menn verða að borga lánin til baka þannig að þau brenni ekki á báli verðbólgu. Ég þekki engan sem er tilbúinn að lána mér t.d 100 þúsund kr. og ég mun borga 70 þúsund kr. plús einhver þrjú prósent í vexti til baka eftir árið.

  • Þórdís

    Takk, sérfræðingurinn hjá RSK heitir Bjarni Amby Lárusson.

    kv.þórdís

  • Fyrrverandi samfylkingarmaður

    Fjármálafyrirtækjum er í sjálfsvald sett að ákveða hvort lánasamningar séu löglegir?

  • Ég tel einsýnt að lánasamningarnir séu ólöglegir í heild sinni og því beri að fella þá niður og afskrifa lánin.

    Fyrst menn eru byrjaðir að tala um sanngirni og réttlæti, þá legg ég til að menn láti vexti af öllum lánum í júlímánuði renna til atvinnulausra. Það er ósanngjart að sumir skuli vera atvinnulausir og aðrir ekki.

  • ht bjarnason

    Enn og aftur lýsi ég þeirri skoðun minni hvað ég skammast mín fyrir að hafa kosið Samfylkinguna á sínum tíma. Hvílíkar liðleskjur í einum flokki!

  • Skynsamur að vanda Mörður. Raunsætt og kalt mat. Færð stórt prik að þora að tala gegn skoðunum reiðu skuldaranna, það virðist vera ákv. múgsefjun í gangi að reiðir skuldarar hafi ávallt rétt fyrir sér. Það nýtir t.d. Hreyfingin sér til framdráttar í lýðskrumi sínu til að afla sér vinsælda.

  • Brynjólfur

    Þessi vextir voru á tímabili 21%. Ég er vissum að Mörður Árnason tæki ekki bílalán á 21% vöxtum eða hvað ?

  • Einar Guðjónsson

    Legg til að við reynum að ná sambandi við Þorgeir Ljósvetningagoða á miðilsfundi og fáum hann til að reyna að höggva á hnútinn og áður en það verður of seint því fólksflóttinn er orðinn stöðugur.

  • MargrétJ

    Við fyrrverandi kjósendur þessa hagsmunapotarar sem kallar sig Samfylkinguna, erum gáttuð á grímuleysi þingmanna hennar við að hyggla útrásarvíkingum, fjármálafyrirtækjum og stórþjófum þessa lands. Greinilega búið að ákveða fyrir löngu, jafnvel fyrir síðustu kosningar, hverja á að aðstoða við að „erfa“ landið.
    Dómur Hæstaréttar á að virða að vettugi meir að segja!
    Lög virðast bara eiga að gilda þegar hentar.
    Verði ykkur að góðu segi ég bara – vona að það standi hressilega í ykkur.

  • Jónas Páll Jónasson

    Sæll Mörður,
    Hefur þú hugsað og pælt í hverju þú ert að jánka ?

    Lítið dæmi: Ég var með erlent lán uppá cirka 10 milljónir í tvö ár á íbúð sem ég sel 2006. Núna bíð ég eftir að skilastjórn Glitnis komi með c.a. 1 milljón í kröfu á mig vegna vangoldinna vaxta (5 % vaxtamunur í tvö ár).

    Annað dæmi sem er upp diktað en raunverulegt: 30 milljón króna lán tekið 2005. Vangreiddir vextir fyrir hrun nema þá cirka 5 milljónum og eftir hrun og gengisbreytingar var fólk kannski rétt að borga það sem því ber ef miðað er við 8.5 % vexti (margir í ymisskonar frystingum) og fær ekkert til baka. Ergo af þessu 30 milljón króna láni er fólk að borga um 150 þús meira í dag á mánuði en ella. Okei því gæti boðist að fá verðtryggt lán í staðinn, en þá falla á lántöku og stimpilgjöld og eldri skuld vegna ógreiddra vaxta (hér hugsaði ég út frá 8.5% vöxtum en þeir voru jú mun hærri og gera dæmið mun svakalegra)

    Eins og góður maður sagð Mörður:
    Vont er þeirra ranglæti verra er þeirra réttlæti.

  • Andrea Ólafs.

    Sorglegt að sjá hvernig þið „jafnaðarmenn“ horfið á réttlæti og hafið ekki hugmynd um hvernig það ætti að útfærast.

    Sorglegt og átakanlegt að sjá þig hvetja til frekari lögbrota fjármálafyrirtækja rétt eins og FME og SÍ gerðu – það ætti að svipta ykkur alla völdum og ábyrgðarstöðum því það er algerlega ljóst að þið standið ekki undir þeirri ábyrgð og axlið hana engan veginn!

  • Hjálmur

    Auðvitað eru forsendur vaxtanna brostnar. Samingurinn var ólöglegur, það verður að semja upp á nýtt. Það eru ekki í boðí á Íslandi óverðtryggð lán með þriggja prósenta vöxtum! Ekkert svona sko, jeppakaupendur og neysludallar.

  • Hjálmur

    Brynjólfur. Mörður hefði örugglega ekki heldur tekið gengistryggt lán upp á fimm milljónir fyrir jeppa.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur