Mánudagur 05.07.2010 - 09:29 - 30 ummæli

En hver kaupir hvalinn?

„Það gengur vel að selja hval,“ segir í Fréttablaðinu í dag: „Hvalkjöt verið selt fyrir 800 milljónir.“ Þetta verð hefur fengist fyrir 372 langreyðartonn sem flutt hafa verið út á þessu ári – af aflanum frá í fyrra.

Þessar uplýsingar skipta verulegu máli, einsog blaðið bendir á, því nokkuð hefur verið efast um að markaður sé fyrir hendi erlendis – þ.e. í Japan – fyrir þetta kjöt. Að vísu er ekki allur afli ársins 2009 kominn á markað, heildaraflinn var 1500 tonn og virðast því 1128 tonn enn ófarin austur.

Fréttablaðið leitar álits útflytjandans á þessum tölum, en Kristján Loftsson „baðst undan því að ræða hvalveiðarnar í smáatriðum“ af því að „allar upplýsingar sem hann láti frá sér séu afbakaðar í fjölmiðlum og þeim beitt gegn fyrirtækinu af andstæðingum hvalveiða“. Kristján segir hinsvegar með nokkrum drýgindum að það „eigi ekki að koma mönnum á óvart að hægt sé að selja vöruna“ – það sé auðvitað forsenda fyrir að „standa í þessari útgerð ár eftir ár“.

Heimild Fréttablaðsins um Japanssöluna 2010 eru útflutningsskýrslur Hagstofunnar. Þær eru traustar og byggjast á tollskýrslum. 372 tonn af langreyðarafurðum hafa sannarlega verið send frá Íslandi í skipslest. Í tollskýrslum er verðmæti útflutningsins tilgreint eftir upplýsingum útflytjandans, og með þeim hætti eru 800 milljónirnar komnar á forsíðu Fréttablaðsins. Lokaheimildin um 800 milljóna króna hvalafurðakaup Japana á þessu ári er sumsé – sjálfur Kristján Loftsson.

Fréttablaðinu hefur því tekist að leggja hálfa forsíðuna og heila fréttaskýringarsíðu í innblaðinu undir ekki neitt, og blaðamaðurinn, Svavar Hávarðsson, lætur sér lynda að ljóstra ekki upp um „smáatriði“ kringum hvalveiðarnar – svo sem þau hver sé hinn japanski  kaupandi hvalafurðanna og hvernig sala hafi gengið í Japan, nú eða hvað sé að frétta af farminum sem stöðvaður var í Rotterdam í janúar.

Örugglega af tilliti til þjóðarhagsmuna – einsog títt er fyrr og síðar um íslenska fjölmiðla. Um það hefur hrunið sem betur fer engu breytt.

Viðbætir: Njósnastarfsemi!

Eftri að þetta var skrifað birtist frétt á Vísi — þar staðfestir Kristján Loftsson að um 11.000 tonn liggi enn hér heima en vill annars ekkert um málið segja. Fréttafrásagnir af útflutningsmálum sínum séu í raun njósnastarfsemi.

Gaman að menn kunna enn að taka upp í sig, en samt er einhver skrýtin lykt af svona ummælum frá einum helsta auðkýfingi landsins …

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (30)

  • Er ég að reikna þetta rétt? Er kílóverðið á hvalketi 2 krónur og fimmtán aurar? Hvað skyldi kílóverðið á gúanói vera?

  • Svartálfur

    Ef talan 800 milljón króna er komin úr tollskýrslum þá er það sú upphæð sem er tilgreind á útflutningsreikningi og viðtakandi er lögaðili erlendis.

    Ef þú telur að Hvalur hf falsi útflutningsreikninga þá er það líklega þitt eða einhvers sem ákærir að sanna það.

    Menn eiga ekki að sanna að þeir séu saklausir heldur ber að sanna að menn hafi brotið af sér.

  • Svartálfur

    Allur útflutningur er tilgreindur eftir upplýsingum útflytjenda. Hver annar ætti að gera það? Mörður minn góður – hvaðan í ósköpunum hélstu að að upplýsingar um verðmæti útflutnings kæmi?

  • María Kristjánsdóttir

    Kannski glíma blaðamenn Fréttablaðsins líka við sömu togstreituna og ég. Þeir eru á móti hvalveiðum en þykir súr hvalur góður!

  • Elfa Jóns

    Svartálfur

    Mér finnst nú alveg eðlilegt að Hvalur hf útskýri hvar þessi 1118 tonn eru, hvort þau eru óseld eða seld … og þá fyrir hvaða verð.

    Það kemur okkur heilmikið við hver arðsemi af atvinnugreininni er … sér í lagi þar sem hún veldur vandkvæðum og kostnaði í öðrum geirum.

    Þetta eru því mikilvægar upplýsingar til að meta hversu gáfulegt er að standa í þessu.

  • Jón Ottesen

    Grímur ætti að fara á stærðfræði námskeið. Miðað við þessar tölur er kílóverðið 2150kr.

    800.000.000 deilt með 372.000 = 2150,53

    Ef við gerum ráð fyrir að restin af þessum 1500 tonnum seljist á sama verði þá gerið það 2.425.797.840kr eða næstum tvo og hálfann milljarð. Það munar um minna.

  • Moby Dick on a stick.

  • Elfa Jóns

    Nú las ég frétt, hermda uppá Kristján Loftsson sjálfan, um það að þessi 1100 tonn væru enn óseld. Honum fannst þetta þó mikil hnýsni og finnst Íslendingum greinilega ekkert koma markaðsaðstæður hvalaafurða við.

    En það er ljóst að ekki þarf að veiða nein ósköp í viðbót ef einungis 25% af afla 2008 er seldur, 2009 aflinn er er þá væntanlega líka óseldur, eða hvað?

    Ekki skil ég lógíkina í að veiða margfalt meira en selst … og það ár eftir ár.

    Það er eitthvað hérna sem alls ekki stemmir. Kannski ástæða fyrir því að Kristjáni Loftssyni er illa við hnýsni.

  • 1500 tonna afli þýðir ekki 1500 tonn af afurðum. Mér er til efs að nýting nái meira en 30%. Þ.e. 350-400 tonn af kjöti fáist úr þessum afla. Restin bein, höfuð, innyfli o.s.frv. Það gæti því verið búið að selja bróðurpartinn af kjöti ársins 2009.

  • fridrik indridason

    sælir mörður
    það er ekkert skrýtið að hvalveiðisinnar séu að æsa sig upp út af fréttaflutningi um sölu hvalaafurða í japan. sú sala er nefnilega ólögleg ef ekki japanir sjálfir eiga í hlut. þetta má einfaldlega sjá í lögum um bann við hvalveiðum í hagnaðarskyni sem enn eru í gildi. þessvegna þurfti kristján og co. að bíða næstum ár með kjötið sitt í frystigeymslu í japan eftir að einar k. heimilaði veiðarnar á ný 2008. Nokkrar fréttir voru á reuters um það mál. hugsanlega er kristján að selja kjöt sitt til yakuza samtakana sem ekki fara að lögum í japan. aðrir kaupendur þar í landi eiga á hættu málsóknir ef þeir kaupa íslenskt hvalkjöt.

  • Mörður Árnason

    Rétt Á., aflinn er auðvitað ekki þessi 1500 tonn, það eru afurðirnar sem geymdar eru úr aflanum. Þetta hefði átt að orða betur. Veit ekki hvað er gert við afganginn sem ekki er nýttur — einusinni var honum hent í sjóinn en svo hófst urðun einhverstaðar á Mýrum …

    Friðrik — Ja, það er ekkert fyrirfram grunsamlegt við japanska kaupandann — nema það að hann skuli ekki vera gefinn upp. Árni Finnsson heldur reyndar að það sé Kristján sjálfur sem kaupir afurðirnar Japansmegin (sjá Fréttablaðið), þær sem þangað komast og ekki liggja í tollgeymslum í japönskum höfnum og hollenskum!

  • Mér finnst þessar smásmyglislegu hvalapælingar Samfylkingarinnar vægast sagt undarlegar.
    Mörður er t.d. ekkert að velta því fyrir sér hvort að hægt sé að veiða meiri þorsk enda finnst Samfylkingunni það eflaust vera eitthvert aukaatriði.

  • Getur einhver sagt mér af hverju Kristján ætti að vera að veiða allan þennan hval ef hann getur ekki sellt hann?
    Þetta er dýr útgerð og ég efast um að hann sé að þessu bara svona til að eyða peningum.

    Án þess að ég þekki það þá gæti verið að kjötið sé mis seljanlegt eftir því hvaðan af skepninni það kemur, þar gæti mögulega leigið ástæða þess að hann telji sig þurfa að veiða meira þrátt fyirir að eiga byrgðir.

  • Ætli Kristján drepi hvali bara af hugsjón?

  • Hvalveiðar við Ísland eru einhvert dýrasta leikfang sem einn íslendingur hefur fengið á silfurfati frá ráðherranum sínum. Þetta hljóta að vera einhverjar óarðbærust veiðar við Íslandsstrendur nú um stundir.
    Auk þess eru Hvalveiðar afa umdeildar á heimsvísu og eru líka ákveðin ógn við Ferðaþjónustuna hér á landi. Hélt satt aðsegja að gosið í Eyjafjallajökli væri alvega að duga á því svið.
    Munirinn á Eyjafjallajökli og Kristjáni Loftssyni er sá að ráðherra getur stöðvað Kristján, en enginn ræður við Jökulinn.
    Kristján mun auðvitað rífa kjaft hvort sem er, svo það munar ekki svo miklu. Rausið í honum stöðvar alla vega ekki flug í útlöndunum.

  • jón eggert

    er ekki hægt að gefa þetta kjöt til hjálparsamtaka á íslandi ef það selst ekki? T.d. fjölskylduhjálparinnar. Þetta er fínasti matur.

  • Ég þurfti að lesa tvisvar um hvalveiðar afa hennar Hólmfríðar…

  • Haukur Kristinsson

    Kristján Loftsson er einn af mestu rugludöllum Íhaldsins.
    Auk þess er maðurinn arrogant og stígur líklega ekki í vitið.
    Auðvitað verður hann að leggja bókhald rekstursins á borðið. Allt upp á borðið, eins Þorgerður Katrín vinkona hans sagði. Ef hann getur sýnt fram á það að hans hvalveiða bauk sé hollt fyrir þjóðarbúið, gjaldeyrisskapandi etc., lítur málið öðruvísi út. En ég efast stórlega að svo sé.
    Þá ganga hans lekabyttur fyrir olíu, en ekki fyrir hans munnvatni.
    Olíuna þarf að flytja inn. Kristján er að mínu mati dæmigerður, frekur, 2007 kapítalisti, sem heldur að honum sé allt leyfilegt, þar eð hann á nokkra krónuseðla. Þurfum við á svona mönnum að halda? Nei.

  • Mið-hægrimaður

    Merkilegt að sjá alla Samfylkingarfélagana djöflast hér gegn atvinnustarfsemi í landinu. Þetta segir manni meira en þúsund orð. Fólk í Samfylkingunni er gegnumgangandi illa innrætt og hatast við allt sem lyktar af því að fólk geti aflað sér atvinnu hjá einkafyrirtækjum. Og þessi lýður á að leiða okkur út úr kreppunni! Guð hjálpi Íslandi.

  • Adalsteinn

    Held Mörður ætti að nota orkuna í að búa til vinnu handa
    15.000 atvinnulausum manneskjum án vinnu. HVAR ERU FRJÁLSU HANNDFÆRAVEIÐARNAR SEM ÞÚ LOFAÐIR. Reyndu að vinna fyrir
    kaupinu þínu maður, frekar en að eyða tímanum í svona bull.

  • Mörður Árnason

    Sæll Aðalsteinn. Held að þetta sé í um það bil tuttugasta skipti sem þú ræðir frjálsar strandveiðar í athugasemdum við pistla frá mér um aðskiljanleg efni. Þakka þér fyrir þrautseigjuna en ég biðst undan að vera sakaður um sérstök svik á kosningaloforðum um þetta, enda þokkalega hlynntur uppstokkun og endurnýjun í sjávarútvegi.

    Í stefnuskrá Samfylkingarnnar fyrir kosningarnar 2009 eru meðal annars þessi fyrirheit:

    ,,Gera umbætur á fiskveiðistefnunni til að auðvelda nýliðun í útgerð, heimila frjálsar handfæraveiðar hluta úr ári og tryggja fullt eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sjávar.“

    Mér sýnast strandveiðarnar góðu vera einmitt það sem hér er talað um.

    Svo getum við rætt hvað eigi að ganga lengra, og auðvitað um það hvernig á að leysa vanda hinna atvinnulausu — en hættu vinsamlegast þessum svika- og prettahrópum á mig og samherja mína.

  • Steini M

    Dæmigert blogg já Samfylkingarmanni. Það skal allt talað niður í duftið.
    Kristján Loftson á hrós skilið að skapa hálaunastörf og skapa þjóðarbúinu ómældar tekjur. En nei nei allt skal rifið niður enda er þetta eitthvað að þvælast fyrir ESB umsókninni.

  • Haukur Kristinsson

    Steini M skrifar að Kristján Loftsson eigi hrós skilið fyrir að að skapa hálaunastörf og þjóðarbúinu ómældar tekjur. Halló, þetta vil ég sjá svart á hvítu eða í staðfestu bókhaldi. En það gerir Kristján ekki. Ef beðin um slíkt rífur hann bara kjaft a la Davíð Oddsson.
    Ég er farinn að halda að Íslendingar séu upp til hópa fífl.

  • Hildur Helga Sigurðardóttir

    Alveg einstaklegar dularfullt mál, þessi hvalabisness Kristjáns Loftssonar -ekki eru aðrir í þessu.

    Hvers vegna er það svona mikið leyndarmál hver kaupir hvalinn af honum ? Sjö tannlaus gamalmenni í Japan, þar sem allir aðrir eru hættir að éta hvalkjöt ?
    Hann sjálfur ? (Tilgáta Árna Finnssonar og varla fáránlegri en hver önnur, þó að ég skilji hana ekki).

    Í flestum öðrum tilvikum er það ekkert leyndarmál hver kaupir íslenskar sjávarafurðir. Hví svo með hvalinn ?

  • Haukur, ég er sammála því að Íslendingar séu fífl ef þeir halda að Kristján veiði hvali án þess að hagnast á því! Ég hef engar áhyggjur af þessum hvalveiðum fyrst ríkið þarf ekki að styrkja þær. Auk þess skapa þær einhverjum atvinnu og því sé ég ekkert athugavert við þær.

  • Hrafn Arnarson

    Þetta er undarlegt mál. Að því er virðist ber skýrslum hér og í Japan ekki saman. Þar hafa engar hvalaafurðir verið fluttar inn. Fréttir af atvinnulífinu eru skyndilega orðnar að njósnum. Einar k gaf út reglugerðina á síðustu stundum ráðherratíðar sinnar. Hann hafði þá stór orð um milljarðatekjur af útflutningi hvalafurða. Ekki eru nú 800 milljónir neitt nálægt því, ef sú tala er rétt. En menn hafa a.m.k. haft kærur alþjóðlegra dýraverndunarsamtaka uppúr krafsinu.

  • Haukur Kristinsson

    Ef einhver heldur að Kristján Loftsson reki þessar aula hvalveiðar með hagnaði lætur blekkjast. Ég veit ekki hver styður kallinn í vitleysunni, en stuðning fær hann. Og hann heldur að þetta sé bara hans einkamál að drepa hvali og setja í frost. Mikið fara svona labbakútar í taugarnar á mér.

  • Ahab skipstjóri vildi bara ná hvíta hvalnum, en Kristján Loftsson vill ná þeim öllum.

  • Hef sjálfur meiri áhyggjur af landbúnaðinum en hann þurfum við að styrkja hvort sem hann vill eða ekki (ef bændur neita að taka styrki skulu þeir umsvifalaust sektaðir um háar fjárhæðir)
    Ættum kanski að skoða það fyrst áður en við hömumst í sjálfbærum hvalveiðum.

  • Hrafn Arnarson

    Veiðar hafa gengið vel að undanförnu enda þótt þoka hafi nokkuð hamlað veiðum. Samkvæmt Skessuhorni starfa 160 manns við veiðar og vinnslu hvals. Unnið er í Hvalfirði , á Akranesi og í hafnarfirði. Hvalveiðar eru viðkvæmt milliríkjamál og allir eiga hagsmuna að gæta ekki eingöngu kristján Loftsson. Stjórnvöldum ber að fylgjast grannt með gangi veiða. Það eru mikir hagsmunir í húfi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur