Þriðjudagur 13.07.2010 - 15:47 - 44 ummæli

Magma – óþarfur æsingur

Allur ótti, pirringur og æsingur út af orkubisnessnum á Íslandi er algerlega eðlilegur og réttmætur eftir þau stórslys sem ráðamenn hafa staðið fyrir í orku-, stóriðju- og umhverfismálum undanfarna áratugi.

Samt verða vinir íslenskrar náttúru og áhugamenn um efnahagslegt forræði að staldra við og hefja sig uppúr skotgröfunum kringum Magma – því að sú taugaveiklun er löngu farin að spilla fyrir raunverulegum árangri.

Sænskt eða kanadískt?

Magma-málið er tvöfalt. Annarsvegar eru athugasemdir við að sænskt fyrirtæki sé í raun og veru kanadískt. Magma í Svíþjóð sé bara skúffufyrirtæki til að fara kringum íslensk-evrópsk lög. Alveg rétt – svo langt sem það nær.

En umræddum lögum var aldrei ætlað að hindra að fjárfestingar á Íslandi eða annarstaðar á Efnahagssvæði Evrópu kæmu frá öðrum en Evrópumönnum. Þvert á móti. Tilgangur laganna er fyrst og fremst að tryggja að fyrirtæki sem fjárfestir á EES-svæðinu hagi sér samkvæmt evrópskum lögum. Þessvegna er gerð krafa um heimili og varnarþing á EES-svæðinu, til að hægt sé að höfða mál gegn því á grunni evrópskra laga fyrir evrópskum rétti – hvort sem hann er í Madríd eða Umeå eða á Akureyri.

Látum í bili vera að menn séu yfirhöfuð ósáttir við erlendar fjárfestingar – en hvaða máli skiptir hvort þær koma frá Gautlandi eða Bresku Kólumbíu? Deilan um þetta er nauða-ómerkileg – og mér liggur við að gera hér þá eina athugasemd – hvað það er heimskulegt að ekki sé hægt að stofna svona fyrirtæki á Íslandi í staðinn fyrir Svíþjóð.

Orka – veitur

Að hinu leytinu snýst Magma-málið svo um eignarhald á orkufyrirtækjum. En aðeins þeim orkufyrirtækjum sem borga eigandanum – veitufyrirtæki í félagslegri eigu – fyrir afnot af auðlindinni í tiltekinn tíma. Við höfum síðan síðast skipt þeim í tvennt,  veitu- og eignarhaldsfyrirtæki annarsvegar, áhætturekstur við framkvæmdir og orkusölusamninga hinsvegar.

Ég segi já við þessari skipan – og styð prinsippið í lögunum frá 2008, á sama hátt og ég styð veiðileyfagjald í sjávarútvegi og finnst skynsamlegt það kerfi sem Norðmenn hafa komið sér upp á olíusvæðunum sínum.

Áhættufé geti komið frá bissnessfyrirtækjum við virkjanasmíðar, rekstur og orkusölu, arður af auðlindinni renni til eigendanna. Ekkert bannar hinsvegar að orkufyrirtæki í almannaeigu keppi á þessum markaði einsog verið hefur – þótt það sé líklega ekki skynsamlegt til lengdar. Meðal annars vegna þess að slíkum fyrirtækjum hættir til að hreiðra smámsaman um sig einsog ríki í ríkinu, samanber Landsvirkjun og OR, og þrýsta kjörnum fulltrúum til ákvarðana sem ekki eru í almannahag. Margföld reynsla af þessu. Síðast við Kárahnjúka.

Hvað er að?

Ég veit í sjálfu sér ekkert um Magma nema sýnist að það hafi ráðið sér kjaftforan og þjösnalegan forstjóra af gamla ál- og orkuskólanum. Þeim mun meiri ástæða er til að fylgjast nákvæmlega með fyrirætlunum þess á Íslandi. Alveg einsog virkjanapartinum af Landsvirkjun, OR, OV og Rarik. Magma hefur líka tekist að ná bjánalega löngum samningum við frjálshyggjupólitíkusinn Árna Sigfússon, sem nú er að verða langt kominn með að leggja Suðurnesin í rúst. Það þarf líklega að endurskoða lögin frá 2008 og stytta tímann í 40 ár, einsog þáverandi ráðherra vildi, en 65 árin voru þá málamiðlun við Sjálfstæðisflokkinn, illu heilli.

Önnur slys í málatilbúnaði Árna og félaga tókst hinsvegar að koma í veg fyrir, einkum þá ógæfu að Árni seldi sjálfa auðlindina undan Suðurnesjamönnum til að redda sjálfum sér uppúr djúpum skít í Reykjanesbæ.

Nicht diese töne!

En í meginatriðum er Magma-málið stormur í vatnsglasi. Það skiptir engu máli hvort útlendingurinn er kanadískur eða sænskur, ef hann fer að íslensk-evrópskum lögum. Það er líka fjarstæða að halda því fram að hérmeð sé hið illa alþjóðaauðvald að eignast íslenskar auðlindir. Þvert á móti eru nú líkur á því, eftir lögin frá 2008, að stórnotendur – óháð fæðingarþorpi – borgi í fyrsta sinn sanngjarnt verð fyrir íslenska orku – beint til eigendanna, sem er fólkið á Íslandi.

Sjálfsagt að kanna og ræða allt í botn. Þegar það er búið skulum við endilega fara að snúa okkur að raunverulegum vanda og raunverulegum lausnum, félagi Svandís og aðrir umhverfisjafnaðarmenn. Sóknarfærin blasa við – ef við bara kynnum að losa okkur úr samsærunum og sjálfsvorkunninni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (44)

  • Þórarinn Einarsson

    Þú ert ekki að ná þessu Mörður. Efast reyndar um að það sé hægt að útskýra þetta fyrir þér. Hún er nokkuð kassaleg heimsmyndin þín.

  • Magma – óþarfur æsingur.
    Samfylking – óþarfur hluti af löggjafarvaldinu.

  • Föðurlandssvikaeftirlitið

    Þú ert kominn yfir strikið við að verja landráðin og ert þar með orðinn samsekur.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Alkasyndrúmið lýsir sér á nákvæmlega sama hátt. Afneitun dauðans.

  • Ef allt fer eftir vonur ESB-vina getur margt gerzt. Eftir nokkur ár
    sjá nokkrar Röskvur, að þær halda, kanadískan togara trolla upp
    við landsteina. Þær hoppa af reiði. En svo ná þær í sjónaukann,
    og sjá þá að þetta er sænskur togari með ódýrri pólskri áhöfn.
    Þá segja þær sína á milli: Þetta var nú óþarfa æsingur. Þeir eru
    bara að ná sér í soðið fyrir ESB-þjóðina á meginlandinu. Þetta
    kemur okkur svo sem lítið við. Þeir koma ekki einu sinni á land
    á Íslandi. Svo stjórna okkar alvitru foreldrar í Brussell líka öllum fiskveiðunum við Ísland.

  • Kristján G. Kristjánsson

    Af hverju gátuð þið ekki útskýrt þessar lagaforsendur fyrir ári síðan?

  • María Kristjánsdóttir

    Hvernig væri ef þú veist ekkert um Magma að lesa Láru Hönnu?

    Og aldrei þessu vant skil ég ekki heilu setningarnar. Hvað merkir til að mynda þetta: – því að sú taugaveiklun er löngu farin að spilla fyrir raunverulegum árangri. ?

  • Ómar Kristjánsson

    Ágúst, þetta er alveg afleitt dæmi hjá þér eða líkingarmynd.

    Þó erlendir ættu í togara hérna eða fiskvinnslu – yrðu þeir að fra eftir nákvæmlega sömu reglum varðandi veiðar, vinnslu og vinnu og íslenskir aðilar! You skilja?

    Þannig að þetta tal hjá þér er bara útí bláinn og vitleysisskáldskapur a la andsinnastæl.

    Alveg eins og erlendir aðilar verða að fara að nákvæmleg sömu reglum varðandi orkudæmi og innlendir aðilar. Sem dæmi ermagma að fara að sömu reglum og þegar innlendir aðilar voru í málinu. Ekki flókið.

    Og jú, svo niðurstaða upphafspistils er beisiklí rétt. Óþarfa æsingur eða ys og þys útaf engu.

    Hef líka á tilfinningunni að fjölmiðlar séu að úa til svona framhaldssögu til að fá klikk á netmiðla sína eða áhorf og hlustun á radío og TV.

    Það er með ólíkindum hve umfjöllun svokallaðra fjölmiðla er ruglingsleg og án þess að festa fingur á málinuefninu, Alltaf þessi helv. kranablaðamennska og æsingarstíll. Farið þangað og skrúfað frá krana og svo í næsta stað og skrúfað frá þar. Þetta er bara léleg fjölmiðlun.

    Eg gæti treyst mér til að búa til frétt sem lýsti betur eða tæki fyrir efni máls betur heldur en öll umfjöllun ísl. fjölmiðla samanlagt síðustu 2-3 mánuði – bara ef ég fengi klukkutíma eða svo við vinnslu fréttar og borgað eitthvað sanngjart bara.

  • Ég held að það þurfi að skilgreina „raunverulegan árangur“. Hér talar fulltrúi „nútímavæðingar“ og „raunsæis“, gegn „einangrun“ og „molbúahætti“. Þetta eru slagorð Samfylkingar, sem þau tóku upp eftir Sjálfstæðisflokknum.

    Samfylkingin er „nýi Sjálfstæðisflokkurinn“, fullur af menntuðu raunsæisfólki. Samfylking er á þeirri skoðun að hagsmunir fjármagnsins séu „þegar upp er staðið“ hagsmunir okkar allra, þar sem brauðmolar og jafnvel heilsu brauðsneiðarnar munu hrjóta af allsnægtaborði peningafurstanna.

    Nokkrar leiðréttingar þarf að gera hér. Ein er sú að auðvitað hefði Kanadamönnunum verið í lófa lagið að stofna firma á Íslandi. Össur ráðlagði þeim að gera það ekki, það væri í því skattalegt óhagræði.

    Það er líka rangt að Norðmenn hleypi útlendingum í olíuna. Það gera Danir ekki heldur og ekki Hollendingar.

    Það getur vel verið að í frjálshyggjutextanum sem Mörður les áður en hann fer að sofa á kvöldin standi, að allt sem er gott í ESB, hljóti líka að vera gott hér. En það er ekki þannig. Við erum örríki og verðum að gæta okkar í hverju skrefi.

    „Fjárfesting“ Magma er í raun framhald af útrásarhyggjunni. Sem felst í að flytja út fjármuni í stað þess að fá fjármuni inn í landið. Magma fær lánað fé á Íslandi til að kaupa íslenskt fyrirtæki. Síðan hækkar Magma verðið á orkunni og greiðir með því lánið. Síðan flytur það arðinn úr landi.

    Það þarf annað hrun til að Samfylkingin skilji „raunveruleikann“.

  • Ég hef það á tilfinningunni að utan við æsinginn í stjórnarliðunum sjálfum (sem eins og vanalega eru sjálfum sér verstir), og kannski hundrað mjög háværum netverjum sem finna skoðun byggt á því hvað bloggarar og leiðsögumenn eins og Lára Hanna halda, er þjóðinni sjálfri nokk sama hvort kompaní í Svíþjóð eða Kanada eigi orkufyrirtækið. Orðatiltækið „stormur í vatnsglasi“ hefur aldrei átt betur við.

  • Auk þess, má bæta við, að reglur EES um fjárfestingar ganga út á það fyrirtækið sé í alvörunni innan EES. Það þýðir að starfsemin sé þar. Annars er ekki hægt að lögsækja fyrirtækið í alvörunni. Skúffufyrirtæki sem „starfar skv. lögum EES“ er bara djók.

  • Verð að viðurkenna er að mjög hissa á þessum pistli þínum, finnst þú gjörsamlega misskilja um hvað málið snýst. Verð að taka undir með Maríu Kristjánsdóttur og biðja þig um að lesa pistlana hennar Láru Hönnu og kynna þér málið betur. Hún vísar í sínum pistlum í flesta aðra sem skrifað / fjallað um málið líka.

    Þetta snýst ekki um hvort það skipti máli hvort eigandinn sé kanadískur eða sænskur. Þetta snýst um að selja nýtingarréttinn (hvort sem til innlendra eða erlendra aðila) á undirverði, fá ekki einu sinni pening fyrir söluna heldur lána kaupverðið á vel undir markaðsvöxtum, um verulega hættu á mikilli hækkun á verðskránni til innlendra neytanda á komandi árum, festa óeðlilegan langan nýtingarrétt, o.s.frv. Vissulega snýst málið líka um hvort við viljum gera erlendum aðilum (sem og innlendum aðilum) kleift að EIGNAST auðlindir okkar (þ.m.t. sjávarútveginn), sem er stór stefnumarkandi ákvörðun fyrir þjóðina.

    Þetta Magma mál er risamál og svo langt í frá óþarfa æsingur. Ef kynnir þér málið þá líklegra að komist að þeirri niðurstöðu að ef eitthvað sé þá hafi verið alltof lítill æsingur um málið. Ég hef það mikla trú á þér að treysti að þú kynnir þér núna málið frá öllum hliðum og skrifar svo nýjan pistill og lætur okkur vita hvort enn á þeirri skoðun að um óþarfa æsing að ræða.

  • „Þetta snýst ekki um hvort það skipti máli hvort eigandinn sé kanadískur eða sænskur. Þetta snýst um að selja nýtingarréttinn (hvort sem til innlendra eða erlendra aðila) á undirverði, fá ekki einu sinni pening fyrir söluna heldur lána kaupverðið á vel undir markaðsvöxtum, um verulega hættu á mikilli hækkun á verðskránni til innlendra neytanda á komandi árum, festa óeðlilegan langan nýtingarrétt, o.s.frv. Vissulega snýst málið líka um hvort við viljum gera erlendum aðilum (sem og innlendum aðilum) kleift að EIGNAST auðlindir okkar (þ.m.t. sjávarútveginn), sem er stór stefnumarkandi ákvörðun fyrir þjóðina.“

    Það er orðið alltof seint að stoppa það. Það er þegar búið að selja GGE HS Orku. Og það er GGE sem er núna að selja Magma.

    Það að ríkið grípi inní samning milli GGE og Magma á þessum tímapunkti er bara ávísun á skaðabótamál

  • Valur B (áður Valsól)

    Það sem fólk er óánægt með er ekki endilega hvaðan kaupendurnir eru heldur það að Samfylkingin er að hjálpa til að við selja auðlindir okkar til útlendinga. Við viljum eiga auðlindirnar fyrir almenning og að arður af þeim fari í það að lækka verð til neytenda. Þetta virðist þú og aðrir stórkarlar í Samfylkingunni ekki skilja. Ég hef kosið Samfylkinguna frá stofnun flokksins, en hér eftir myndi ég frekar láta slíta af mér handlegginn en að setja X við S. Það umburðarlyndi er búið Mörður Árnason. Ég er orðinn pólitískur munaðarleysingi og vantar flokk sem berst fyrir aðild að ESB til að kjósa, því ekki mun ég kjósa Samfylkinguna eftir þetta. Megi þið Samfylkingarfólk sem styðjið þessa einkavæðingu skammast ykkar.

  • Sjóður, hver er skaðinn fyrir Ross Beaty? Fargjöld og gistikostnaður?

  • Hann á HS Orku í dag og ef hún yrði tekin af honum myndi hann eflaust gera ansi skemmtilega kröfu um allan framtíðargróðann sem hann hafði séð fyrir sér næstu 130 árin eða svo.

    Það yrði langt og leiðinlegt mál sem myndi að öllum líkindum tapast, því miður.

    Það sem klikkaði var að banna sveitarfélögunum að sleppa takinu á þessum fyrirtækjum og þau misstu sig í einhverju „gróðæri“. Auðvitað á þetta að vera í almannaeigu.

  • Ross á ekki HS Orku fyrr en um mánaðamótin. Vandalaust að setja bráðabirgðalög eða lengja frest. Lögin gætu verið eins og norsku Panikklögin frá 1907, sem banna útlendingum að eiga vatnsaflsvirkjanir. Eða einsog frönsku lögin sem banna útlendingum meirihlutaeign í virkjunum.

  • Birgir Gislason

    Mörður,
    Sú gagnrýni sem hefur komið fram í þessu máli snýst ekki um það hvort fyrirtækið sé sænskt eða kanadískt, þó er það sérstakt í sjálfu sér afhverju Magma þótti það mikilvægt að stofna skúffufyrirtæki í Svíðþjóð (sem er tvöfalt stærra en móðurfyrirtækið í Kanada!). Þetta mál snýst um umráðarétt yfir einni af grunn auðlindum landsins og er ekki taugaviklun þeirra sem hafa kynnt sér málið og haldið uppi málefnalegum rökum af hverju þetta er rangt.

    Flest ríki setja upp varnir um sínar grunn auðlindir og jafnvel samgöngufyrirtæki (sbr. US), það er mikilvægt út frá þjóðhagslegu öryggi. Ef enginn fiskur væri í sjónum umhverfis Ísland og engin nýtanleg orka í landi, þá væri ekki hægt að byggja Ísland. Svo einfalt er það.

    Það að afhenda nýtingu á einni af okkar verðmætustu auðlind í hendur erlendra aðila stefnir þjóðhagslegu öryggi þjóðarinnar í hættu. Það gerðu Bretar og núna standa þeir frammi fyrir því að borga eitt hæsta orkuverð í Evrópu (bæði rafmagn og gas) og það stefnir í að rafmagn verði skammtað til almennings eftir 2016 vegna skorts á fjárfestingu í nýjum virkjunum fyrir rafmagn.

    Það er mikilvægt að menn svari þessari spurningu: Vilja Íslendingar að erlendir aðilar eigi meirihluta í íslenskum fyrirtækjum sem hafa leyfi til að nýta auðlindir þjóðarinnar? Ljóst er af skrifum þínum er að þú ert hlyntur því. Því ekki stíga skrefið þá til fulls og selja OR og Landsvirkjun einnig til erlendra aðila og losa þjóðina þannig undan þeirra skuldaklafa, sem meðal annars þrýsta á að gjaldeyrirshöftin þurfa að vera við líði komandi ár? Svo má auðvitað bjóða erlendum aðilum að kaupa íslenska útgerð og losa þjóðina undan þeirra skuldum líka.

    Það er ekki ljóst hvaða hagsmuni þú berð fyrir brjósti í þessu máli. Ekki þjóðarinnar, það er þó ljóst.

  • Ómar Kristjánsson

    Það er eki hægt að ,,banna útlendingum“ að eiga í orkufyrirtækjum.

    Það verður þá að vera almennt. þ.e. eiga við um bæði ,,frábærlega stórkostulega íslendinga“ og ,,vonda útlendinga“

    Í noregi er eignahald einkaaðila almennt takmarkað. Við 1/3, minnir mig. Þarf að rifja aðeins upp hvernig er nákvæmlega.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Þessi grein veldur miklum vonbrigðum og margt við hana að athuga. Þar má nefna:

    1. Þú viðurkennir að Magma í Svíðþjóð er „bara skúffufyrirtæki til að fara kringum íslensk-evrópsk lög.“

    Er ekki ólíðandi að fyrirtæki skuli fara í kringum lögin til þess að komast í orkulindir okkar? Er það ekki dapurlegt að þingmönnum og ráðherrum skuli finnast það „smámál“? Við skulum gefa okkur það að iðnaðarráðuneytið hafi ekki bent fyrirtækinu á þessa leið eins og Ásgeir Magmaforstjóri hélt (heldur?, mun halda?) fram. Nóg er nú samt.

    2. Þú segir „Ég veit í sjálfu sér ekkert um Magma nema sýnist að það hafi ráðið sér kjaftforan og þjösnalegan forstjóra af gamla ál- og orkuskólanum. Þeim mun meiri ástæða er til að fylgjast nákvæmlega með fyrirætlunum þess á Íslandi.“

    Hvernig getur það verið að þú vitir ekkert um Magma? Það er búið að fjalla um eiganda fyrirtækisins mánuðum saman. Hann er fjárglæframaður sem svífst einskis. Ertu að bíða eftir upplýsingabæklingi frá fyrirtækinu? Það er ekki boðlegt að nota eigin vanþekkingu sem rök í málinu.

    3. Þú virðist halda að orkusölufyrirtæki í almannaeigu séu varasamari en þau sem eru í einkaeigu vegna þess að þau eiga til að „þrýsta kjörnum fulltrúum til ákvarðana sem ekki eru í almannahag. Margföld reynsla af þessu. Síðast við Kárahnjúka.“

    Á síðustu stundu tókst kjörnum fulltrúum að stöðva glæpamennina sem ætluðu sér að gambla með eignir Orkuveitu Reykjavíkur. Var það ekki vegna þess að fyrirtækið var í almannaeigu? Hvernig virðist þér ganga að hafa taumhald á einkafyrirtækinu Magma? Er það ekki á leiðinni í Kerlingarfjöll?

    Auðvitað er samspil fyrirtækja í almannaeigu og glæpamanna stórhættulegt, en er þá lausnin að láta glæpamennina fá allt saman? Ertu viss um að samkeppni olíufélaganna hafi tryggt almannahag? Eða bankanna? Er gróðafíknin líklegri en félagsleg eign til þess að tryggja ALMENNINGI hámarksarð af orkuauðlindunum?

  • Ómar Kristjánsson

    Bla bla bla.

    Hérna er umfjöllun reuter um norge frá 2007:

    ,,Norway reinforces public hydropower ownership

    OSLO Aug 10 (Reuters) – Norway announced on Friday it would no longer let private investors buy hydropower concessions but that they could still own up to one-third stakes in publicly held hydroelectric plants.
    —-
    „The provisional decree of public ownership states that licences of acquisition to waterfalls and hydropower plants will no longer be granted to private actors,“ the energy ministry said in a statement.

    „However, it will be possible to sell one third of publicly owned hydropower companies to non-public owners,“ it said.

    In June, an international court in Luxembourg said that Norway’s rules on ownership of hydropower concessions, which force private owners to relinquish licences after 60 years, were against European Economic Area (EEA) rules and discriminated against private owners and potential investors.“

    http://uk.reuters.com/article/idUKL1092124020070810

    Hinsvegar vaknar spurning um, sem sagt, um virkjun og veitur. Var þessu ekki skipt hérna á íslandi sko. Fyrir stuttu. Og hvernig nojaradæmið kemur þar inn.

    Það er margt í mörgu.

    Þið fáið það verkefni að finna umfjöllun esa eða efta dómstólsins um nojarardæmið. Væri fróðlegt fyrir ykkur að kíkja á. Fræðast. Síðan tala. Eigi bulla bara eitthvað. Þreytandi.

  • Mörður – Þetta er áhugaverður vinkill í skotgrafaumræðuna.

    Bendi samt á vegna þess sem þú segir um að 65 ár sé of langur tími í auðlindaleigunni til Magma þá má benda á að þegar um er að ræða „endurnyjanlegar“ auðlindir eins og jarðhitann þá þarf að horfa til langs tíma. Ef tíminn er t.d. 40 ár væri freistandi fyrir Magma að dæla hratt upp úr kerfinu og skilja það eftir kalt og tómt – þannig að það tæki mjög langan tíma að endurnýjast. Hugsanlega færu þeir hægar í sakirnar ef þeir ætluðu sér að fá eitthvað úr kerfinu í 65 ár – þó veit maður aldrei hvað svona námuverkamenn eins og forstjóri Magma hugsa. Kannski hugsa þessir útlendngar bara eins og og Íslendingarnir sem ætla sér að keyra hratt vinnsluna úr jarðhitavirkjunumun okkar á „ágengan en sjálfbæran hátt“ – eins og þeir segja sjálfir. En kannski eru óvitrir Íslendingar betri en þeir útlendu…..

  • Er það ekki aumkunarvert hlutskipti að þurfa að réttlæta vitleysuna sem flokksforystan hefur komið flokknum í varðandi þetta mál ?

    Það er auðvelt að tala og tala, og skrifa og skrifa, en gera svo ekkert í málinu !

    Þetta eru þið búin að gera svo um munar !

    Nennið þið ekki að gera eitthvað af viti í þessu máli, eða er búið að klúðar því svo gjörsamlega að allt vitrænt er gjörsamlega ófært ?

    Hvar ber þig næst niður varðandi þetta mál ?

  • Adalsteinn

    Langloka, Mörður. Nenni ekki að lesa langlokur.
    Mörður, þú ert að verða landráðamaður í mínum
    augum. Frjálsu handfæraveiðarnar sem þú
    lofaðir mér, gáfu 6 daga í júlí, þaraf 3 dagar
    af vegna brælu.

  • Ómar Kristjánsson

    Það er athyglisvert þarna, þ.e. samkv. frétt reuters, að málið hefur ekki síst snúist um: ,,Norway’s rules (…), which force private owners to relinquish licences after 60 years“

    ,,In June, an international court in Luxembourg said that Norway’s rules on ownership of hydropower concessions, which force private owners to relinquish licences after 60 years, were against European Economic Area (EEA) rules and discriminated against private owners and potential investors.“

    Nú bara treyst eg mér ekki alveg í augnablikinu til að íslenska hvað felst í ,,relinquish licences“ en á norsku er það, að eg held, kallað ,,hjemfallsregelen“.

    Veit ekki hvort það sé sambærilegt við ísl. fyrirkomulagið að rétturinn til nýtingar renni út eftir svo og svo langann tíma og nú er talað um að stytta. Skal ekkert fullyrða um það á þessu stigi málsins.

  • Samkvæmt þessu þá hirðir ríkið virkjanirnar bótalaust eftir 60 ár

    http://silfuregils.eyjan.is/2010/07/13/magma-og-audlindirnar/#comment-27983
    Orkubloggið 13.7 2010 09:59

    Af hverju er ekki löngu búið að setja svona lög á Íslandi sbr. þessi lög í Noregi?

  • Auðlindirnar eru sameign okkar sem hér búa. Sameign Íslendinga.

    Þær eru undirstaða þess að hér sé lífvænlegt. Verði þær ofnýttar eða teknar frá okkur á einu augnabliki leggst hér byggð af.

    Þetta er grundvallaratriði sem ekki verður horft fram hjá, þó það finni sér ekki stað í pólítísku dægurþrasi.

    Að öðru leit vísa ég á áskorun til veruleika-firrtra stjórnmálamanna sem berjast nú um á hæl og hnakka fyrir lifibrauði sínu.

    „Í stað þess að opna fyrir óhindruð viðskipti fjölþjóðlegra fyrirtækja með eigin hagnað að markmiði, vilja Borgarahreyfingin og Hreyfingin beina þeim eindregnu tilmælum til yfirvalda að láta þjóðina sjálfa úrskurða um yfirráð á auðlindum landsins“

    http://www.xo.is/index.php/nyjustu-frettir/yfirlysing-fra-borgarhreyfingunni-og-hreyfingunni.html

  • Einkavæðing fjármögnuð með kúluláni og veði í hlutabréfunum!

    Hefur maður ekki heyrt þennan áður.

    Það er rétt hjá þér Mörður, þetta snýst ekki um Magma.

    Þetta snýst um að auðlindirnar og nýting þeirra á að vera í eigu þjóðarinnar.

    Höfnum einkavæðingu auðlindanna.

  • Mörður,
    Varst þú ekki örugglega í SUS á yngri árum?

  • Hrafn Arnarson

    Fjórfrelsið er kjarni EES-samningsins. Ísland samdi um mikilvægar undantekningar. Erlendar fjárfestingar eru ekki leyfðar í sjávarútvegsfyrirtækjum, en þær eru leyfðar í orkufyrirtækjum. Af hverju gilda ekki sömu reglur? Væri eðlilegt að setja sömu almennu takmarkanir um einkaeign?Eru orkuauðlindirnar ekki jafn mikilvægar og fiskistofnarnir? Magma Energy Sweden hefur heimilisfesti á EES-svæðinu. Í lagalegum skilningi er ekkert við samningana og söluna að athuga að því gefnu að orkan sé ekki eins mikilvæg auðlind og fiskistofnarnir. HS orkan var seld á undirverði og með afar hagstæðum skilmálum. Það skýrist væntanlega af vonlausri skuldastöðu fyrirtækisins og því að engir erlendir fjárfestar fundust. Það er ljóst að ríkisstjórnin verður að láta málið til sín taka. Eðlilegt virðist að takmarka einkaeign án tillitis til þjóðernis.

  • Krafan er einsog maðurinn sagði: Eitt Kína!

    Er Ísland með í því?

  • Gagarýnir

    Sammála þér, ef ég hef skilið rétt. Íslensk fyrirtæki eru í íslensku lagaumhverfi hver sem á þau. Undarleg mótsögn að vilja fjárfestingar erlendar en meina þeim eign afþví þeir eru útlendingar.

  • Ómar Kristjánsson

    Reyndar eru erlendar fjárfestingar leyfðar í sjávarútvegi – upp að ákv. marki.

    Þetta er eitthvað best geymda leyndarmál íslands.

    En varðandi mál nojara og dóm efta, þá er eins og eingarhald per se komi lmest ítið beinlínis við sögu. Aðallega (sýnist manni í mjög fljótu bragði) þetta atriði með að leifið renni hugsanlega út eftir ákeðinn árafjölda. Og Að eigur renni þá til ríkisins (bótalaust að því er virðist)

    Ennfremur er athyglisvert að (aftur, aðeins eftir snöggt yfirlit. sjá td. grein 77) þá er eins og ekki beinlínis sé bannað eignarhald einkaaðila yfir 1/3 heldur að ef eignarhlutur fari yfir það geti ríkið hugsanlega gripið til aðgerða.

    Einnig er helst svo að skilja (sínist mér) að dómurinn samþykki í rauninni að ríki geti haldið ákveðnum atvinnugreinum eða geirum atvinnulífs í eigu ríkisins (og það þá jarðar speki svokallaðra andsinna um að EES/ESB skipi fyrir um einkavæðingu)

    Annars er hægt að finna dóminn hér:
    http://www.eftacourt.int/index.php/cases/case_e_2_06

  • MargrétJ

    Aðalmálið er að sjálfsögðu að ÍSLENDINGAR eru m.a., eigendur að Magma og það fleiri en einn og fleiri en tveir. Þetta eru menn sem hafa komið landinu á kaldan klaka með lagaklækindum og þjófnuðum. Af hverju þessi hópur kemur ekki fram undir nafni, segir í raun alla söguna. Þeir VITA SEM ER að það yrði allt brjálað ef fólk vissi að ÞEIR væru að eignast afnotarétt af auðlindum okkar. Sumir í þessum hópi eiga ekki einu sinni að eiga íslenskt vegabréf – hvað þá að fá að reka hér business með bullandi íhlutunum frá stjórnvöldum og á kostnað okkar almennings.
    ENN OG AFTUR OG ÁFRAM!!!!!!!!

  • Skoðaðu sögu Magma. Þetta fyrirtæki hefur sér enga sögu. Það er skráð í kanadísku kauphöllinni, en þar eru lítil viðskipti með hlutabréfin, litlar upplýsingar að hafa um fyrirtækið, og reynsla þessa fyrirtækis í sambærilegum rekstri og það hyggst standa fyrir hér á landi er takmörkuð.

    Mikil læti um lítið mál segir snillingurinn Mörður, en gæti ekki verið að þetta mál kljúfi endanlega ríkisstjórnina? Leppur samfylkingar í VG, Steingrímur J. Sigfússon, sá sem er sendur út með ruslið þegar dallurinn fyllist, honum er varla vært í eigin flokki mikið lengur.

    Hvað gerist þegar þessi stjórn springur?

  • Þú ert á pólitískum villigötum Mörður.Þú verð frelsi fjármagnsins,og setur það ofar öðru frelsi líkt og lærisveinar Hannesar Hólmsteins.

    Magmamálið er ekki smámál, þras, né stormur í vatnsglasi.Þetta er grafalvarlegt fordæmisgefandi stórmál sem ríkisstjórnin verður að takast á við af festu ef ekki á ílla að fara.

    Núna eru það hagsmunaaðilar sem stýra atburðarrásinni, en ríkisstjórnin horfir á, og aðstoðar jafnvel erlenda fjárglæframenn við að komast yfir auðlindirnar.
    Ef fram fer sem horfir er þess ekki langt að bíða að flestar auðlindir landsins verða komnar undir erlend yfirráð. þá er einnig sjálfstæði þjóðarinnar í hættu.
    Er eftirsóknarvert að borga okurverð fyrir vatn og rafmagn til erlendra eigenda auðlindanna ?
    Kynntu þér málið Mörður og gerðu svo eitthað í málinu.

  • Garðar Garðarsson

    Samfylking er eitt stórt spurningamerki hvað varðar einkavæðingu í orkugeiranum, þar sem frjálshyggjan hefur samt verið ofan á fram að þessu og leyfir einkavæðingu framleiðsluhlutans með alltof löngu orkunýtingarleyfi, en þeir samfylkingarmenn sem eru á móti einkavæðingu orkufyrirtækja er nokkuð stór hópur og hefur ekki haft sig nægilega í frammi. Það vantar skýra stefnu hjá Samfylkingu hvað varðar einkavæðingu orkufyrirtækja og í raun virðist ekki vera til stefna um þetta stóra málefni sem er alveg ótrúlegt. Hvernig væri að kynna sér hvernig einkavæðing víðast hvar í nágrannalöndunum hefur skilað sér. Samkvæmt fréttum hingað til þá hafa orkufyrirtækin í Evrópu safnast á fárra manna hendur og orkuverð hefur hækkað í flestum tilfellum við einkavæðingu sem ætti að segja manni að það sama myndi gerast hér og þess frekar þar sem markaður er lítill og einangraður. Það er mikil skammsýni að selja stóru orkufyrirtækin frá sér vegna tímabundins fjármagnsskorts.

    Það kemur mér á óvart að þú Mörður sést einkavæðingarsinni orkufræmleiðslunnar og þá með nýtingarleyfi í 40 ár.

    Ef ekkert er gert í að breyta lögum sem banna einkavæðingu orkuframleiðslunnar þá er þetta Magma dæmi aðeins byrjunin á yfirtöku erlendra fyrirtækja og kannski innlendra aðila í smáum stíl á orkufyrirtækjunum. Þess vegna skiptir það okkur sem viljum ekki einkavæða orkuframleiðsluna (nema þá kannski þannig að einkaaðili megi vera í minnihluta með ekki ráðandi hlut) miklu að Magma eignist ekki í HS Orku með því að fara á svig við lögin.

    Alþingismenn og stjórnmálamenn eiga að gera allt til þess að lögin um fjárfestingu erlendra fyrirtækja í íslenskum orkufyrirtækjum séu virk þannig að ekki sé hægt að stofna skúffufyrirtæki til þess að hunsa lögin, en það virðist ekki vera hvað varðar Samfylkinguna sem reynir ekki að stoppa ferlið þar sem er verið að fara á bak við lögin og anda laganna.

    Ef Samfylkingin samþykkir þessa yfirtöku Magma án þess að láta reyna á lögin þá er hún að missa enn fleiri stuðningsmenn sína og verður fljótlega lítill hægri krataflokkur sem aðhyllist einkavæðingu á sem flestum sviðum án athuganna á því hvort einkavæðingin sé þjóðhagslega hagkvæm eða ekki.

  • Nefndi það einhvers staðar í ummælum; að aldrei í mínum villtustu draumum ætti ég von á svona máttleysi frá svona skipaðri ríkisstjórn, í þvílíku prinsippmáli.

    Tek að öðru leyti sérstaklega undir með ASE 13.07 2010 kl 17:32 sem einlæga og öfgalausa skoðun á því sem málið snýst um.

  • Þetta er ekki í lagi þarna er verið að fara með auðlindir okkar bakkdyra megin inn í ESB með meingölluðu EES regluverka rugli sem greinilega hentar Samfylkingunni. Hvaðan koma peningarnir hverjir ætla að fjármagna, getur það verið að bakaræningjar Íslands séu en að.

  • Adalsteinn

    Þetta er stærsta hagsmunamál almennings að sé lágt orkuverð.
    Þá segir Mörður í langloku, veriði róleg.
    Farðu og röltu heim til Jóns B, Mörður og mynntu hann á loforð þitt.
    Frjálsar handfæraveiðar.
    Þú ert auli Mörður, ef þú lætur þetta tækifæri ganga þér úr greypum.

  • Vinur alþýðunnar

    Lengi lifi frjálst Tíbet!

  • Hrafn Arnarson

    Aðalsteinn, það eru til vænlegri leiðir til að berjast fyrir frjálsum handfæraveiðum en að troða þeim inná allar mögulegar og ómögulegar bloggsíður. Núverandi kerfi er sérkennilegur skrípaleikur.

  • Ómar Kristjánsson

    það er bara rosa mikill misskilningur í gangi hérna. Það hefur ekkert komið fram um að magma sniðgangi lögin eða fara baka til o.s.frv. Lítu nefnilega miklu frekar út sem þeir séu algjörlega að fara eftir lögum.

    Á eg að segja ykkur á hverju lögin byggjast? Ok. eg skal upplýsa ykkur. Fræða.

    Byggist á 34 gr. EES samningsins sem segir:

    ,,34. gr. Með félög eða fyrirtæki, sem stofnuð eru í samræmi við lög aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis og hafa skráða skrifstofu, yfirstjórn eða aðalstarfsstöð á yfirráðasvæði samningsaðila, skal farið, að því er þennan kafla varðar, á sama hátt og einstaklinga sem eru ríkisborgarar í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum. Með félögum eða fyrirtækjum er átt við félög eða fyrirtæki, stofnuð á grundvelli einkamálaréttar eða verslunarréttar, þar með talin samvinnufélög, svo og aðrar lögpersónur sem lúta allsherjarrétti eða einkamálarétti, þó að frátöldum þeim sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni.“

    Það sem menn kalla ,,skúffu í svíþjóð“ er í samræmi við þetta. Er bara þannig. Þegar sagt í ísl. lögunum,, lögaðili“ – þá er það í samræmi við þetta. Svo er nú það.

    Það sem fólk ætti að vera að tala um er, hvort allt ætti þá að vera í ríkiseigu. Það er alveg hægt. En fólk er bara ekki aðtala um það, almennt, sýnist mér. Fólk er að tala um að íslendingar verði að eiga þetta. Þ.e. fólk er fylgjandi eikavæðingu en bara að vondir útlendingar mega eii kaupa. Bara sorrý, það gengur ekkert!

    Nú, varðandi dóm EFTA varðandi nojara – þá snerist það sýnist mér um, að sem sagt opinberir aðilar áttu orkufyrirtæki á móti einkaaðilum. Með skilyrðunum sem einkaaðilum var settur, leit dómsst. þannig á að um mismunun væri að ræað. Óbein mismunun eftir þjóðerni. Því fyrirkomulagið hagnaðist fyrst og fremst opinberum aðilum sem væru eðli máls samkv. nojarar en kæmu niður á prívataðilum sem væru jafnvel allstaðar að úr EES.

    Þarna getur fólk séð hvað jafnræðisreglan er sterk í EES.

    E fyrirkomulagið í Noregi virist samt vera ennþá að einkaaðilar geta aðeins átt ákveðinn hluta (nefna sumir 1/3) Það er eins og ekkert banni það per se í EES og ennfremur er ekki bannað að það sé alfarið í Ríkiseigu.

  • það sem ég hef út á Magma að setja er að sem erlendur aðili(staðsett í Svíþjóð) þá gat það keypt 8,62% hlut í HS Orku á 2,5 milljarða króna af Geysi Green með aflandskrónum sem það keypti á 147 ISKUSD, 16,9 milljónir USD!

    Ef fyrirtækið hefði verið innlent þá hefði það þurft að kaupa krónurnar hér á landi og þurft að borga 125 ISKUSD, 20 milljónir USD!

    Mismunurinn eru 3 milljónir USD eða 375 milljónir króna sem Magma Energy fékk í raun í afslátt frá ríkinu!!!

    Það hefði verið heimskulegt af Magma Energy að stofna dótturfyrirtæki á Íslandi vegna kaupanna á HS Orku því þá hefði það ekki getað fengið þennan afslátt.

    Þessi afsláttur stóð ekki innlendum fyrirtækjum og einstaklingum til boða og er í raun brot á EES samningnum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur