Mánudagur 26.07.2010 - 09:37 - 34 ummæli

Hvar í stjórnarsáttmálanum?

Ég heyri í fjölmiðlum að nokkrir þingmenn ætla að hætta að styðja ríkisstjórnina ef Magma-málið leysist ekki. Svo stórum orðum þyrfti að vísu að fylgja nánari leiðbeining um lausnina – á ríkið að kaupa Magma út? Rifta samningnum – og þá hvernig? Hvað má lausnin kosta og hvaðan á að taka það fé?

Hitt veldur meiri áhyggjum:

Að þingmaður styður ríkisstjórn er grundvöllur þingræðislegrar stjórnskipunar þar sem ríkisstjórn verður að njóta meirihluta á þingi. Ef slíkur þingmaður hættir að styðja ríkisstjórnina þarf eiginlega annaðhvort að hafa gerst:

Að ríkisstjórnin fer í bága við stjórnarsáttmálann, sem myndar forsendur stuðningsins,

eða að við einhverjar nýjar aðstæður sem ekki er gert ráð fyrir í þessum sáttmála brýtur ríkisstjórnin gegn anda stjórnarsáttmálans, þeim hugmyndagrunni sem samstarfið hvílir á.

Svo skoðar maður samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG frá 5. maí 2009 – og ekkert finnst í honum um Magma Energy. Sérstakur kafli  – alveg ágætur (fyrir utan klúðurslegan stíl) – er þó þarna um umhverfi og auðlindir, og byrjar svona: „Standa þarf vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum“ – heyr! – en þetta mál snýst ekki um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum enda eru auðlindirnar á Suðurnesjum í lögbundinni sveitarfélagseigu.

En eru þetta þá ekki nýjar aðstæður?

Undir forystu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks seldi ríkið hlut sinn í HS vorið 2007, til hins illræmda Geysis Green Energy. Þar með eignaðist GGE ekki bara hlut í fyrirtækinu sem slíku heldur beinan eignarhlut í auðlindunum. Þetta var upphafið.

Með nýju lögunum frá 2008 var komið í  veg fyrir að þetta gæti gerst aftur. Þar segir að ekki megi selja auðlindina einkaaðilum. Með sömu lögum var svo kveðið á um uppskiptingu orkufyrirtækjanna, þar sem veiturnar skyldu vera í félagslegri meirihlutaeigu en við eignarhaldi virkjunar- og rekstrarhlutans voru engar hömlur settar. Þessi lög urðu til á tímum ríkisstjórnarinnar vondu sem Samfylkingin þvældist í með Sjálfstæðisflokknum, og báru þess merki. Leigutíminn er of langur. Endurnýjunarrétturinn er túlkaður afar frjálslega í Magma-samningnum. Og núna finnst okkur undarlegt að íslenska ríkinu skuli ekki hafi verið áskilinn forkaupsréttur við sölu hluta í orkufyrirtækjunum.

Meginatriði í lögunum var hinsvegar þetta tvennt: Auðlindirnar í opinberri eigu, uppskipti orkufyrirtækja. Og lögin urðu til þess að forsvarsmenn HS – sem lögin  náðu ekki til – ákváðu að skipta fyrirtækinu upp og setja auðlindirnar aftur til sveitarfélaganna. Lögin leyfðu hinsvegar einkahlut í orku-partinum, og Magma sá sér þar leik á borði. Hvernig sem mönnum líkar það verður veskú að viðurkenna að það var lögunum samkvæmt (undanskil hér deiluna um sænsku skúffuna, sem er efnislega frekar ómerkileg).

VG var í stjórnarandstöðu á þessum tíma og talaði gegn frumvarpinu – nokkuð óskýrt í megindráttum en með ýmsum ágætum ábendingum. Hver var afstaða VG að lokum til þessara laga sem sumir þeirra kenna nú við frjálshyggju og landsölu? – Þingmenn VG sátu hjá. Greiddu ekki atkvæði. Það var ekki einusinni nafnakall við þriðju umræðu í þinginu.

Í stjórnarmyndunarviðræðunum í maí 2009 hefur VG greinilega lagt svo mikla áherslu á þetta að á HS er ekki minnst einu orði, hvorki beint né óbeint. Samt er staðan þá sú að einkaaðili – GGE – átti verulegan hlut. Um sumarið seldi GGE Magma part af þessum hlut. Seinna á árinu 2009 – með VG í ríkisstjórn – keypti Magma hlut OR, svo Hafnarfjarðar. Og loks allan GGE-hlutinn. Og þá loksins vöknuðu þjóðfrelsisliljurnar í VG.

Ég var ekki á þingi 2008 þegar lögin voru samþykkt – en studdi þau úr fjarska, bæði sem jafnaðarmaður og umhverfissinni. Nú er lag að endurskoða þessi lög, og ræða allar hliðar máls – forkaupsrétt og leigutíma, almannahag, fjárfestingar og áhætturekstur,  hugmyndafræði og eignarhald, þar á meðal reynsluna af „félagslegri“ eigu Landsvirkjunar og OR, sem lengstaf hafa hagað sér einsog ríki í ríkinu með rányrkju og umhverfisspjöllum – með góðfúsu samþykki pólitíkusa í ofurlaunuðum stjórnum – án raunverulegs eftirlits frá „öðrum“ stofnunum ríkis og sveitarfélaga.

Ræðum þetta endilega allt saman, sem fyrst, sem dýpst, sem opnast. Án hótana, takk.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (34)

  • Þú ert búinn að vera, samfylkingin er búin að vera, ríkisstjórnin er búin að vera og stjórnmálastéttin er búin að vera!

  • Illugi Jökulsson

    „Í stjórnarmyndunarviðræðunum í maí 2010“ á náttúrlega að vera „Í stjórnarmyndunarviðræðunum í maí 2009“. Trúi ég.

  • Fyrir mér er þetta einfallt, þeir eru að gera það sem stendur í sáttmálanum „Standa þarf vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum“
    Getur þú útskýrt fyrir mér hvernig þetta mál snýst ekki um auðlindir þjóðarinnar?
    Kanski snýst kvótmálið sem þið eruð farnir að bakka með ekki heldur um aðulindir í þínum augum, hver veit?
    Kanski er þetta bara spurning um skilgreiningu á orðinu auðlind?

  • Mörður Árnason

    Illugi — já, að sjálfsögðu, breyti því strax!

  • Magnús BJörgvinsson

    @ingi!

    Fyrir mér er það augljost!Það voru sett lög 2008 eins og Mörður segir hér að ofan sem banna að selja auðlindir. Heldur er það nýtingaréttur í afmarkaðan tíma sem er heimilt að selja. Og ekki byrja nú á því að snúa upp á þetta. Bendi þér á að bygging virkjana til að selja orku til eins fyrirtækis er nákvæmelga sama og hefur veirð gert hér um áratug. T.d. er Kárhnjúkavirkju í raun sala á nýtingarrétti auðlindar til 30 eða 40 ára. HS orka hefur nýtingarrétt og borgar Reykjanesbæ sem á orkuaðlindina leigu eða auðlindagjald. Það sem er hinsvegar ekki í lagi er leigutíminn. Þ.e. 65 ár. En það voru mistök í lagasetningu að hafa þann tíma svo langan. Eins þá má nú setja í lög að erlendir aðilar megi ekki eiga meirihluta í orkuvnnslufyrirtækjum.
    En þetta afsakar ekki framgöngu VG. Sem hefur haft allan tíma í verlöldinni tila ð gera eitthvað í málinu áður en það varð of seint.

  • Þórarinn Einarsson

    Samfylkingin veit greinilega ekki hvað það merkir í raun að standa vörð um auðlindirnar.

    Svo er það bagalegt að heyra kvartanir Samfylkingarmanna yfir hótunum VG núna eftir allar hótanirnar sem komu frá Samfylkingunni vegna Icesave og ESB.

    Það er bara sjálfsagt að Samfylkingunni sé sett einhver mörk í sinni landráðahyggju. Nú er sko nóg komið!

    Ef þessi ríkisstjórn deyr, þá má heldur betur segja að ‘farið hefur fé betra’.

    Kannski er þessi ríkisstjórn einungis að fresta byltingunni. Það verður spennandi að sjá hvað tekur við. En Samfylkingin er a.m.k. búin að vera.

  • Bergþóra Gísladóttir

    Hið versta mál því það virðist þeim eiginleikum búið að það sé nær ómögulegt að skilja það í fortíð og framtíð. Það einkennist af mörgum afleikjum í fortíðinni og ég veit ekki hvort það hefur eitthvað upp á sig að rifaja upp nema þá fyrir skákmenn. Ég hef meiri áhua á hvað eigi að gera í framtíðinni. Segjum nú svo að samningunum verði rift, hver er þá næsti leikur?

    Eins og ég sé þetta mál finnst mér máttur þess liggja í því hvort við getum lært eitthvað af því og hvort við gerum síðan eitthvað við þann lærdóm, t.d. að setja lög um eignahald á auðlindum.

  • Að benda á hversu illa fyrri stjórnir hafa staðið sig réttlætir ekki að standa sig illa núna.
    Held að ef almenningur hefði gert sér grein fyrir hvað var verð að samþykkja með lögunum sem sett voru 2008 hefði því verið mótmælt harðlega á sínum tíma.
    Að einkavæða orku á þennan hátt hefur ekki boðað gæfu fyrir nokkura þjóð og kemur örugglega ekki til með að færa okkur gæfu.

    Það var krafa þegar þessi stjórn var kosinn að það yrður breitingar á hugsunarætti hjá ríkisstjórn, stjórninn getur því ekki endalaust skýlt sér bak við gjörðir fyrri ríkistjórna, við erum jú öll sammála um að þar var um að ræða meira og minna vanhæft fólk, verkefni dagsins í dag er að vinda ofan af því sem þá var gert.

  • Ómar Harðarson

    Skynsamlegur pistill. Það má þó líka velta fyrir sér af hvaða orsökum hlaupið er til nú.

    Vg var á sínum tíma ekki stofnaður sem heildstæður stjórnmálaflokkur heldur miklu fremur sem Ekki-Samfylkingin. Inn í flokkinn hópaðist fólk sem hafði starfað saman í ýmsum hópum en var illa við kratismann. Þarna voru feministar, umhverfissinnar, herstöðvaandstæðingar, þjóðernissinnar (ekkóið af Þjóðvarnarflokknum), sósíalistar og anti-glóbalistar og svo pragmatistar sem var einfaldlega illa við þá sem stóðu að Samfylkingunni eða töldu sig almennt meira til vinstri.

    Langstærsti hluti þingflokks Vg tilheyrir síðasta hópnum, en á erfitt uppdráttar því „meira til vinstri en Samfylkingin“ er ekki stjórnmálastefna sem hægt er að útskýra svo vel sé fyrir kjósendum. Pragmatistarnir eru því jafnan tilbúnir til að jánka þegar harðsnúnir málefnahópar innan flokksins ná hertaki á stefnunni, þó svo að þeir verði alltaf ofan á í lokin. Þegar litið er til baka undanfarið ár, þá má sjá þjóðvarnarmennina í ESB umræðunni, anti-glóbalistana í Icesave og andófinu gegn AGS, feministana í borgarstjórninni. Nú er kominn tími fyrir umhverfissinnana að láta að sér kveða og ná hertökum á flokksstefnunni.

    Ég held hins vegar að markmiðið sé ekki endilega að ná fram riftun Magma „fjárfestingarinnar“. Það er lagalega og fjárhagslega nær útilokað að verða við slíkum kröfum á þessu stigi. Aðalatriðið er að pína pragmatistana og koma umhverfismálunum ofar á forgangslistann. Ég get í sjálfu sér tekið undir að það sé göfugt markmið – en líklegast er þó að allir komi út úr þessari snerru laskaðir á einhvern hátt.

  • Er Samfylkingin búin að vera? Það held ég ekki. Ég hef ekki verið mikill aðdáandi hennar en sýnist hún núna vera eini flokkurinn sem áttar sig á hvað þarf að gera til að koma Íslandi aftur á réttan kjöl. Hún vinnur saman, virðist setja sig vel inn í málin (berið saman vinnubrög og talsmáta t.d. Guðbjarts Hannessonar og Skúla Helgasonar við Guðfríði Lilju og Ögmund, nú eða Sigmund Davíð eða Bjarna Ben) og kemst oftast að skynsömum niðurstöðum.

    Magma er ekkert aðalatriði og að láta ríkisstjórn falla á þessu dæmi sýnir bara að VG-menn átta sig ekki á hvernig þeir eiga að koma málum áfram. Nema þetta sé bara leið til að koma Ögmundi aftur í ráðherraembætti?

    Hvað varðar framtíð Íslands þá þarf núna að snúa umræðunni við þannig að hún snúist ekki með eða móti ESB, heldur hvað tekur við þegar AGS fer. Lopapeysur og lambakjöt eða áframhaldandi uppbygging á nútímasamfélagi á Íslandi.

    Joe

  • Árið 2008 var orkuauðlindinum skipt upp í eignarrétt og nýtingarrétt .

    En það er þetta með nýtingaréttin til einkaaðila sem ekki er ásættanlegur .
    Að einkafyrirtæki geti eignast nýtingarétt á stórri auðlind til þriggja mannsaldra eða meir – er fyrir mér ekki mikill munur á og að eignast í raun auðlindina sjálfa.

    Nú breytist tæknin ört og yfirráð á nýtingu geta því innan ekki langs tíma margfaldað verðmæti orkunnar sem seld hefur verið.
    Sæstrengur er innan seilingar og orkusala til Evrópu gjörbreytir stöðu þeirra sem eiga nýtingarréttinn en skipti auðlindaeigandann engu máli-aðurinn mikli fer úr landi -eign þess sem á nýtingarréttinn….Þjóðin situr eftir .
    Þessum ágalla laganna verður að breyta-þjóðinni í hag.

  • Eitt er a selja íslenskum banka 15% hlut í orkufyrirtæki. Hitt er að selja kanadísku fyrirtæki fyrirtækið á einu bretti, fyrirtæki sem er utan EES, og má lögum skv. ekki fjárfesta í orkufyrirtækjum.

    Enn og aftur er samfylkingarfólk að bera saman epli og appelsínur.

    Auðvitað hefði Árni Matt. á sínum tíma átt að selja sveitarfélögunum hlut ríkisins í HS, en þar með er ekki sagt að sveitarfélögin hefðu ekki selt sinn hlut. Flest sveitarfélögin á suðurnesjum seldu sinn hlut.

    Það er skrýtið hjá Merði að tala um að þetta eða hitt standi ekki í stjórnarsáttmálanum. Ríkisstjórnin ætlaði t.d. að standa vörð um hagsmuni þeirra sem minnst mega sín, en síðan er það ríkið sem er fyrst til að brjóta stöðugleikasáttmálann. Stendur það eh staðar að ríkið eigi að brjóta samninga sem það gerir?

  • Hvar er skjaldborgin ?

  • Hvað með þá hótun sem fulltrúi Samfylkingarinnar í nefnd um erlenda fjárfestingu kom á framfæri við fulltrúa VG? Var það ekki hótun um að stjónrarsamstarfið væri í hættu ef Magma fengi ekki HS Orku?

    Og hversvegna er Samfylkingin tilbúin til þess að fórna almannahagsmunum, ríkistjórnarsamstarfi og jafnvel sína helsta stefnumáli í kjölfarið: ESB-aðild, fyrir hagsmuni skuggalegs skúffufyrirtækis í Svíþjóð?

  • Garðar Garðarsson

    Það er rétt Mörður VG er loksins að vakna, en hvenær rumskar Samfylkingin? Ætlar hún að sofa þar til einkaaðilar hafa eignast öll stærstu orkufyrirtækin og þar með nýtingarréttinn?

    Hvenær fór fram umræða í Samfylkingunni um einkavæðingu orkufyrirtækjanna? Væri ekki nær að stöðva alla einkavæðingu og snúa af þeirri braut þar til Íslendingar hafa komist að niðurstöðu um hvað þeim er fyrir bestu?

    Hefur farið fram athugun á því hvernig einkavæðing í nágrannalöndunum hefur tekist til? Aðalatriðið er að tryggja hagkvæmustu lausn fyrir almenning.

    Samfylkingin sefur sínum þyrnirósarsvefni líkt og fyrir bankahrun þegar hún svaf værum blundi þar til samfélagið fór á hliðina. Samfylkingin getur ekki bent á aðra þegar hún hefur tækifæri til að grípa í taumana.

  • Mörður
    Hvar í stjórnarsáttmálanum er talað um nýtingaréttarleið? Var ekki talað um fyrningarleið?

  • Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að Sf. er ekki vinstri flokkur eða umbótaflokkur.

    Allir hefðu fyrirfram haldið að Mörður væri vinstrimaður. Aldrei hefur nokkrum Íslendingi dottið í hug frá því að Hitaveita Reykjavíkur lagði í fyrsta húsið að leiðslan að húsinu kæmist í einkaeigu, aldrei frekar en gatan sem leiðslan lá í.

    Þó seint sé snýst málið um þetta. Málið snýst um hvort verslun með heitt vatn eða kalt sé þrælamarkaður.

  • Adalsteinn

    Það er alltaf sama langlokann hjá þér Mörður, þú hlítur að geta stytt
    mál þitt. Íslendingar eiga líka aðra auðlind, fiskimiðinn.
    Er ekki komið að því að þjóðinn fái góða uppskeru, af fiskimiðum sínum.
    Hafskip LÍÚ eru að fiska hér upp í fjöru sama afla eða minni, heldur en
    SKARFAR eru að veiða fyrir Kínverska fiskimenn. Þetta er orðinn þjóðarskömm, er ekki mál að vakna.
    Bolfiskafli Íslendinga er ca. 300.000 tonn, 1/3 af því sem Þorskaflinn
    ætti að vera.

  • Jóhannes Laxdal

    Þetta eru ömurlegar réttlætingar Mörður. Samfylkingin ber fulla ábyrgð og ykkur er nær að hunskast til að koma í veg fyrir að erlendir aðilar ræni hér og rupli í brunarústum hrunsins í stað þess að kenna bara brennuvarginum um. Þið báruð ábyrgð á að girða vettvanginn svo þjófar og ræningjar gætu ekki hrifsað til sín allt sem hönd á festi. Hvað eruð þið að hugsa?

  • Af hverju hættu þessir bráðskemmtilegu vikulegu fundir Lady Gaga og Steingríms í kjallara Þjóðmenningarhússins, þar sem þau skötuhjú ræddu landsins gagn og nauðsynjar við almúgann?

    Núna sést Jóhanna ekki. Steingrímur er bara hvumpinn og pirraður þegar hann er spurður um áform stjórnarinnar.

    Koma svo, hvernig væri að bjoða upp á þessa fundi aftur?

  • Hvað segirðu? Er ekki minnst á Magma í stjórnarsáttmálanum? En er minnst á Icesave og skattahækkanir? Ég held ekki. Hinsvegar er minnst á hækkaðar húsaleigu- og vaxtabætur. Hitt er svo spurning hvort það má gera allt sem ekki er minnst á í sáttmálanum eða ekkert af því.

    Þessi röksemdafærsla er þér varla sæmandi.

    http://ggauti.blog.is/blog/ggauti/entry/1080110/

  • Það er eðlilegt að slíta ríkisstjórnarsamstarfi ef upp kemur grundvallar ágreiningur sem ekki er hægt að leysa.

  • Hvar stendur það í stjórnarsáttmálanum að gefa eigi Magma Energy 400 milljón króna afslátt(3 milljónir USD) og að þeir skyldu ekki koma inn með gjaldeyri heldur aflandskrónur og veikja þar með gengið, draga úr kaupmætti launa, hækka vexti og ýta undir verðbólgu?

    … hvar stendur þetta í stjórnarsáttmálanum?

  • Hrafn Arnarson

    Mig langar að gera athugasemdir. 1)Málið snýst um sameiginlegan eignarrétt þjóðarinnar á auðlindunum. Það er merkingarlaust hjá merði að segja að orkan á Suðurnesjum sé í sveitarfélagseigu samkvæmt lögum. Er erlendur aðili hefur keypt sér nýtingarrétt(með lagalega hæpnum hætti) til 65 ára og möguleika á framlengingu þá á sá aðili auðlindina í reynd. Alveg með sama hætti á þjóðin fiskistofnana skv. lögum sem kemur ekki í veg fyrir kaup og sölu kvóta milli útgerðamanna. Þeir eiga auðlinduna í reynd. 2. Ef það er lagaleg nægjanlegt að skrá fyrirtæki í landi innan EES-svæðisins(skúffa)þá eru lög sem takmarka fjárfestingar aðila utan svæðisins markleysa. Allir hljóta að geta leikið sama leikinn og Magma. Ein spá í lokin; ríkisstjórnin mun lifa þetta af.

  • Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar stendur skýrt að fyrningarleiðin skuli vera farin næst þegar kemur að úthlutun kvóta sem er 1. sept. 2010. Skýrara verður það ekki. En VG eru að renna á rassinn með frumkvæði Björns Vals, þingmanns VG og skipstjóra.
    Ef ríkisstjórnin svíkur þetta aukast líkur mikið á því að útvegsmenn eignist kvótann skv. hefðarrétti og frumbyggjalögum í alþjóðarétti. Og þá skal ég veðja við ykkur að Sjálfstæðisflokkurinn mun liðka fyrir aðild að ESB.

    Sjá Freudian-slip aldarinnar:

  • Úlfar Bragason

    Heyr! heyr! þessa góðu greiningu hjá Merði. Þar er kjarni málsins reifaður. Hvernig væri að tala um Magmamálið án æsinga, án hótana.

  • Mr. Crane

    Ég er algjörlega á móti því að opinber fyrirtæki með ríkisábyrgð okkar skattborgara skuldsetji sig til að fjárfesta í orkuverum.
    Stjórnmálamönnum er ekki treystandi til að taka svona ákvarðanir. Þess vegna er það gríðarlega jákvætt að fram sé kominn einkaaðili sem borgar stórfé fyrir aðgang að auðlindinum og mun taka áhættuna af því að fjármagna orkuverin.
    Það væri óskandi að Talíbanarnir áttuðu sig á þessu. Þessar endalausu hótanir trufluðu deildarinnar í VG eru orðnar mjög þreytandi. Það er líka algjörlega ófyrirgefanlegt að sama lið hafi svikið ríkisstjórnarsáttmálann og greitt atkvæði gegn ESB viðræðum. Þá hefur sjávarútvegsráðherra einnig svikið sama sáttmála með því að setja sig upp á móti því að ráðuneyti verði sameinuð.
    Truflaða deildin í VG er ekki hæf til að vera ríkisstjórnarflokkur og því er VG ekki hæfur til að vera í ríkisstjórn. Ég skora á Samfylkinguna að lemja hnefanum fast í borðið og láta þetta lið standa við stóru orðin. Annað er algjörlega ólýðandi gagnvart okkur kjósendum Samfylkingarinnar.

  • Garðar Garðarsson

    Mr. Crane segir: „Annað er algjörlega ólýðandi gagnvart okkur kjósendum Samfylkingarinnar.“

    Mr. Crane þú talar ekki fyrir mína hönd né margra annara sem hafa kosið Samfylkinguna og eru á móti einkavæðingu orkufyrirtækjanna. Hversu stór hluti kjósenda Samfylkingar heldur þú að sé sammála þér?

  • Garðar Garðarsson

    Afsakið átti að vera „annarra“ hér fyrir ofan.

  • Legg til að þjóðin felli þessa ríkisstjórn og kjósi næst Brandaraflokkinn eða Bakkabræðraflokkinn. ALLT betra en þetta lið sem nú situr í ríkisstjórn. Eins og sést best á aðgerðum hennar frá upphafi – eða eigum við ekki að segja AÐGERÐARLEYSI!
    Þessi guðsvolaði ríkisstjórn hefur nánast EKKERT gert frá hruni – held mér sé óhætt að segja að EKKI eitt af þeirra stærstu loforðum um skjaldborgina, allt upp á borðið, gegnsæi á öllum sviðum og hvað þau lofuðu nú meir í þessum dúr, hafi verið staðið við.
    Landið væri mun betur statt með HVERN OG HVERJA sem er aðra en þá sem hafi komið nálægt stjórnmálum síðustu daga, mánuði og 30 ár.
    Allt á sömu bókina lært með þetta fólk. Það hreinlega missir getuna til að starfa af einurð við það að komast á þing.

  • Þetta er laukrétt hjá Merði.

    Hvergi í stjórnarsáttmálanum stendur að ekki skuli
    leigja auðlindir landsins í 130 ár til málarmynda skúffufélaga á 7 ára kúluláni með lægri vöxtum en ríkissjóði Bandaríkjanna býðst.

    Þannig að þetta er allt saman hið besta mál.

  • Jafnaðarmennirnir eru ekki lengur sósíaldemókratar, heldur býrókratar.

    Við viljum ekki býrókrata á þing, heldur stjórnmálamenn með hugsjónir og dugnað til að berjast fyrir þeim.

    Ef menn vilja selja „nýtingarrétt“ til einkafyrirtækja,
    og ef mönnum er sama hvort eigendur lúta íslenskri júrisdikjsón eða ekki
    og ef mönnum er sama um það hvort nýtingarrétturinn sé til árhundruða
    og ef mönnum er sama um það hvort verið er að beita lagakrókum
    og ef mönnum er sama þótt samningar séu fáránlega óhagstæðir Íslendingum,

    þá skulu menn játa það. En ekki fela sig á bak við skrifborð. Til þess eru stjórnmálamenn ekki valdir.

  • Er Sjálfstæðisflokkurinn virkilega búin að koma ykkur í þessa klemmu ??
    kaldhæðni örlaganna…..:)
    ..og hvað er nú betra en að koma öllum auðlindunum þmt kvótanum í hendur
    á útlendingum , það er hið besta mál, enda hafa Íslenskir útgerðamenn sýnt það að þeir kunna bara að hirða arðinn beint í vasann, og skilja skuldirnar eftir í annara manna vösum…hið sama á auðvitað um orkuna, sjáið sukkið og bruðlið á Orkuveitunni, bæði í tíð R Listans og svo Sjálfstæðisflokksins….í dag gjaldþrota drasl í steypuklumpi uppá hálsi… og sjáið svo útrásaraumingjana, sem styrktu ykkur alla hægri vinstri, stálu öllu verðmætum og skildu skuldirnar eftir í annara manna vösum, þmt mínum. Má ég þá biðja um að góssið renni til erlendra glæpamanna frekar en þessara Íslensku mafíósa.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Þessi pistill er sérkennilegur.

    Þú viðurkennir að lögin frá 2008 hafi verið meingölluð og nefnir þar nokkra þætti eins og þá að leigutíminn hafi verið of langur, lögin hafi gefið kost á afar frjálslegri túlkun á endunnýjunarréttinum og að íslenska ríkinu hafi ekki verið áskilinn forkaupsréttur við sölu hluta í orkufyrirtækjunum.

    Þessa gölluðu lagasetningu virðist þú skýra með því að Samfylkingin hafi verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. En hvað var þinn flokkur eiginlega að bardúsa? Voru lögin ekki samin og lögð fram af iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar?

    Gagnrýni þín á VG er ómakleg. Þú viðurkennir að á þinginu 2007-2008 hafi VG barist gegn frumvarpinu eða a.m.k. „talað“ gegn því en ýar að því að það verið vegna þess að flokkurinn hafi verið í stjónarandstöðu.

    Til marks um það hversu léttvægt VG hafi fundist frumvarpið og hversu lítið þeir hafi meint með andstöðu sinni nefnir þú að flokkurinn hafi setið hjá og ekki greitt atkvæði gegn frumvarpinu. Hér hlýtur þú að tala gegn betri vitund. Þess eru mörg dæmi að þingmenn sitji hjá við afgreiðslu mála sem þeir telja vanreifuð, illa undirbúin eða hrákasmíð, en þeir geta ekki stöðvað. Sú hefur vafalítið verið afstaða þingmanna VG og er augljóst að það var rétt mat. Magma-málið sýnir það og sannar. Aðrir þingflokkar studdu frumvarpið. Og allir þingmenn Samfylkingarinnar studdu lögin sem iðnaðarráðherra flokksins mælti fyrir að undanskilinni Ingibjörgu Sólrúnu sem var fjarverandi.

    Til marks um tvískinnung VG í þessu máli nefnirðu að á HS sé ekki minnst einu orði í stjórnarsáttmálanum frá 2009. Þarna talarðu aftur gegn betri vitund. Stjórnarsáttmálinn er almennt orðað plagg. Þar er EKKI eitt einasta fyrirtæki nefnt á nafn og ekki heldur HS eða Geysir Green.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur