Miðvikudagur 11.08.2010 - 09:10 - 7 ummæli

Hættan er heimatilbúin

Nú er ljóst að Einar K. Guðfinnsson og aðrar þjóðhetjur sem hneykslast á  erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi – vissu fyrir allt um þessa fárfestingu og þar með að hún  má samkvæmt lögum nema allt að 49,9%. Að minnsta kosti að áliti sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins 1999–2005. Upphrópanirnar núna eru pólitískur blindingsleikur. Þeim er ætlað að þeyta upp moldviðri sem um leið hylji fullkomið áhugaleysi sjálfrar viðkomandi þjóðhetju um að leysa vandann.

En hver er nákvæmlega vandinn? Ekki peningar frá útlöndum eða hvað? – því allt íslenskt atvinnulíf er fullt af peningum frá útlöndum, þeim sem aflast við sölu afurða, þeim sem fást að láni og þeim sem lagðir eru fram sem fjárfesting. Vandinn er auðvitað sá að um leið og við viljum sjá sem mest af peningum frá útlöndum verðum við að tryggja að þær auðlindir sem við gengum í arf gagnist okkur og afkomendum okkar. Besta leiðin til þess er sú að þær séu eftir því sem kostur er í þjóðareigu – og síðan greitt gott verð til eigandans fyrir afnot af þeim.

Í sjávarútvegi er eðlilegast, réttlátast og skynsamlegast að þjóðareign auðlindarinnar sé bæði negld rækilega niður í lögum og stjórnarskrá og staðfest með leigufyrirkomulagi – veiðileyfagjaldi – þar sem útgerðarfyrirtæki geta tryggt sér afnotarétt til mislangs tíma eftir hentugleikum og undir eðlilegu eftirliti með greiðslum, fyrirfram eða eftirá. Að þessu er stefnt með hinni frægu fyrningarleið og öðrum svipuðum aðferðum til að rjúfa gjafakvótakerfið frá 1983 og 1990.

Væri þessi skipan komin á þyrfti ekki lengur að hafa neinar teljandi áhyggjur af erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi. Þvert á móti væri slík fjárfesting í flestum tilvikum afar æskileg, og má raunar búast við miklu framboði fjár að utan til sjávarútvegsgreinanna, vegna þess að við erum góðir sjómenn og útgerðarmenn og fiskverkendur og fisksalar, og vegna þess að hér er öflug fræðihefð um fisk og annan auð í sjónum, vísindaleg og reynsluleg.

Hættan við slíka fjárfestingu er lítil, og tiltölulega auðvelt að stemma stigu við henni með lögum og reglum, svo sem um að allur afli skuli að meginreglu seldur á fiskmörkuðum. Hagur af henni getur orðið mikill þar sem erlendir fjárfestar mundu auðvelda tæknilega framþróun og tilraunir í veiðum og vinnslu, en nú einkum losa íslenskan sjávarútveg við gríðarlegan skuldabagga. Líklegt er líka að erlendri fjárfestingu fylgdu kröfur um fulla alvöru í rekstri sjávarútvegsfyrirtækjanna í stað ævintýramennsku og fjárausturs út úr greininni sem allir þekkja, einkum þó íbúar í þeim byggðum sem háðastar eru glímunni við Ægi.

Eina ástæðan – en hún er líka veigamikil – til að óttast erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi einsog málum er nú háttað er auðvitað sú að með fjárfestingu í útgerðarfyrirtækjunum „eignast“ útlendingar kvóta, og þarmeð hlut í sjálfri auðlindinni. Af því við höfum ekki haft vit (sum okkar) – eða kjark (önnur okkar) – eða vilja (þau okkar sem hafa hagsmuni af óbreyttu ástandi) – til að taka til í eigin ranni og leggja af gjafakvótakerfið vonda og spillta.

Reyndar eiga útlendingar þegar slíkan kvóta – annarsvegar í krafti laganna frá 1991, sem heimila þeim 49,9% eign í sjávarútvegsfyrirtækjum, og hinsvegar eiga erlendir bankar veð í fyrirtækjunum, skipum þeirra og kvótum, sem þeir geta kallað eftir hvenær sem er.

Þessvegna er óbreytt ástand ómögulegt. Mönnunum munar – annaðhvort aftur á bak, þá þannig  að við bönnum sjávarútvegsfyrirtækjum bæði að selja útlendingum hlut og að taka lán gegn veði í kvóta eða verðmætum sem tengjast honum – ellegar nokkuð á leið: Íslensk þjóðareign auðlindarinnar en óheft svigrúm handa fyrirtækjunum sem borga okkur fyrir nýtingarréttinn.

Hættan við erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi er heimatilbúin. Sem betur fer er það líka á okkar valdi að losa okkur og börnin okkar undan þeirri hættu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Innkalla allar veiðiheimildir strax og setja þær á leigumarkað. Hvort Íslendingar eða útlendingar eigi útgerðirnar skiptir ekki máli, ekki frekar en verktakastarfsemi eða önnur fyrirtæki.

  • Mr. Crane

    Afhverju ekki að fara sömu leið og ESB?
    Þar eru veiðiheimildir fastar á hendi, öllum innan EES og víðar heimilt að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum en mjög stíf veiðiskylda en samt sem áður í flestum tilfellum hægt að skipta á kvóta og leigja ef það hentar eitt árið. Hins vegar eru útgerðir sviptar veiðiheimildum ef þau eru ekki að veiða kvótann sjálf.

    Ætlarðu að refsa þeim sem eru í greininni fyrir það að hafa fengið kvóta gefins?
    Allar stærstu útgerðir landsins hafa borgað hressilega fyrir þær aflaheimildir sem þær hafa aðgang að. Væri það ekki ranglæti að ætla að svipta þessa aðila nýtingarrétt sem þeir hafa annað hvort borgað fyrir eða kostað miklu til að afla sér með veiðireynslu. Hvers vegna heldurðu að Íslendingar fái kvóta í Barentshafinu? Hvers vegna heldurðu að Íslendingar geti gert kröfu um makrílkvóta? Heldurðu að það hafi verið bullandi hagnaður á makrílveiðum fyrstu árin?

    Íslendingar eru nú þegar með besta kerfi í heimi þegar kemur að nýtingu á sjávarauðlindum þrátt fyrir að núverandi sjávarútvegsráðherra Guðjón Arnar Kristjánsson, með stuðning gimpsins sem kallar sig ráðherra, sé að reyna að eyðileggja það. Besta og hagkvæmasta kerfið er kvótakerfi með framseljanlegum aflaheimildum og ríkri veiðiskyldu. Til að bæta kerfið væri hægt að leggja af strandveiðiruglið, sem er eitt það heimskulegasta rugl sem sést hefur og leggja af allar millifærslur í kerfinu sem eru til hagsbóta fyrir smáa sérhagsmunahópa innan sjávarútvegs og eru til þess fallnar að stuðla að offjárfestingu og rýrari kjörum þeirra sem starfa við greinina.

    Nú þegar hefur Samfylkingin staðið sig gríðarlega vel í að berjast fyrir hagsmunum allra þeirra sægreifa sem seldu kvótann sinn. Þið hafið í stórum stíl með stuðning við hluti eins og strandveiðikerfið svipt fólk í fiskvinnslu atvinnu, Norðurlandi, Vestfjörðum, og eflaust fleiri stöðum, til að leyfa sægreifunum að komast aftur á sjóinn án þess að borga fyrir það. Hvar er réttlætið í þessu ?

    Þetta „réttlæti“ sem þið eruð að berjast fyrir er ekkert annað viðurstyggileg hagsmunabarátta fyrir þá sem hafa selt frá sér kvóta dulbúin sem einhver réttlætisherferð. Ótrúleg hræsni, ótrúlegt bull.

    Það er líka kostulegt að horfa upp á þessar stanslausu árásir á fyrirtæki innan sjávarútvegs þegar drasl eins og frumvarp Jóns Bjarnasonar um kúaabændur er sett fram. Þetta frumvarp er líklega ein grófasta árás á neytendur á Íslandi sem sést hefur. Ef Samfylkingin stoppar ekki þetta mál þá er illa komið fyrir flokknum og hann getur sagt bless við allt frjálslynda fylgið sitt.

  • Garðar Garðarsson

    Í þessu máli er ég sammála þér Mörður.

    En hvað varðar skoðun þína á einkavæðingu orkuframleiðslunnar eins og þú hefur lýst hér í eldra bloggi, þá er ég þér þar algjörlega ósammála. Þú hefur lýst því yfir að það sé allt í lagi að gefa út nýtingarleyfi til t.d 40 ára til einkaaðila og þar með talið til erlendra fjárfesta. Ráðandi hlutur í stærstu orkufyrirtækjnum á að vera í höndum opinberra aðila að mínu mati. Það hefur sýnt sig að þar sem orkufyrirtækin hafa verið einkavædd í öðrum löndum, þar hefur orkukostnaður til almennings hækkað og slakað hefur verið á öryggi framleiðslunnar.

    Það vekur furðu mína að þið í forustu Samfylkingarinnar hafið verið tryggja einkavæðingu í sessi án þess að umræða hefur átt sér stað um þessi mál meðal flokksfélaga Samfylkingarinnar. Þó það vanti fjármagn inn í landið þá er það skammsýni að selja frá okkur mjólkurkúna. Einbeitum okkur frekar að fjárfestingu útlendinga í samkeppnishæfum innlendum fyrirtækjum sem síðan nýta sér þessa dýrmætu orku okkar.

  • Garðar Garðarsson

    Svo það fari ekki á milli mála hér að ofan hjá mér þá vil ég meina að Samfylkingin er að festa í sessi einkavæðingu í orkugeiranum.

  • Ómar Kristjánsson

    Það er bara mýta að ísl. stjórni vel fiskveiðum. Það er ekkert sem styður þetta. Meina, hérna eru einhverjar 300 þ. hræður með alveg þvílíka hafsvæðið bara einir – og allt í volli má segja. Td. þorskurinn – ekki svipur hjá sjón og ísl. hefur mistekist að byggja hann upp. Þeim hefur ekki tekist það þrátt fyrir mikla áreynslu. Til að redda sér verða menn að hrifsa til sín 1/5 af heildarveiðkvóta sameiginlegs stofns núna! Það ætti nú að segja mönnum eitthvað.

    Eg er með þá kenningu að þetta eigi eftir að versna enn frekar á komandi árum. Menn eru að vanmeta stórvirku tækin og flottu græjurnar sem þeir nota við að ryksuga sjóinn og skemma lífríkið og trufla.

  • Adalsteinn

    Björgum Íslandi, frjálsar smábáta veiðar.

  • Adalsteinn

    Sjáið hvað einn jeppa ræfill getur gert af sér, fari hann
    út fyrir veg. Reynið að sjá fyrir ykkur tugi tonna þungt
    troll dregið yfir gróið land, reynið að sjá afleiðingarnar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur