Laugardagur 14.08.2010 - 11:48 - 34 ummæli

Afvegaleiðing?

Málið kringum Gylfa Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra hefur nokkrar hliðar, og sumar þeirra eru ekki upplýstar að fullu þegar þetta er skrifað – þá einkum hver vissi hvað og hvernig í ráðuneytinu.

Því er svo haldið fram að Gylfi hafi ekki sagt satt við þingið um gengistryggðu lánin. Virtur stjórnmálafræðingur telur að hann hafi „afvegaleitt“ þingið. Nokkrir háttvirtir þingmenn hafa krafist afsagnar og hótað vantrauststillögu. Aðrir háttvirtir vilja fund í efnahags-, skatta- og viðskipta. Bjarni Ben vill kalla saman þingið allt.

Alvarleg sök – alvarleg ásökun

Það eru alvarleg mistök og afsagnartilefni að ráðherra ljúgi að þinginu eða afvegaleiði það – það er að segja villi um fyrir alþingi Íslendinga vitandi vits. Ásökun um það er líka ábyrgðarhluti og verður að styðjast við veigamikil rök, hvort sem hún kemur frá alþingismönnum eða háskólaprófessorum.

Ég hef ekki myndað mér neina lokaskoðun í þessu máli, en í fílólógíu og tengdum fræðigreinum er grunnreglan að gá í frumtextann og byggja rök sín og afstöðu á því sem þar stendur.

Fyrirspurn Birkis Jóns

Frægt svar Gylfa Magnússonar um lánin kom í fyrirspurnatíma á þinginu 1. júlí í fyrra. Í þessum fyrirspurnatímum svara ráðherrar spurningum sem þingmenn hafa lagt fram skriflega, og hefur ráðherra samkvæmt þingsköpum tvær vikur til að undirbúa svar við slíkri fyrirspurn.

Fyrirspurnin sem Gylfi svaraði miðvikudaginn 1. júlí 2009 var frá Birki Jóni Jónssyni. Í sjálfri hinni skriflegu fyrirspurn talar Birkir um „bílalán í erlendri mynt“, um einstaklinga „með erlend lán“, sem „skulda bílalán í erlendri mynt“. Í ræðunni þar sem fyrirspurnin er reifuð endurtekur Birkir Jón þetta og segir svo að allir hljóti að vilja lækka skuldir íslenskra heimila – og að hann „myndi vilja sjá þar sérstaklega horft á myntkörfulánin sem hafa hækkað gríðarlega síðustu missirin“. Fyrirspyrjandinn gerir í fyrirspurn sinni og reifun hennar ekki greinarmun á þessum lánum eftir því hvort þau eru í erlendum gjaldmiðli eða í gengistryggðum íslenskum krónum.

Gylfi svarar meginspurningum Birkis Jóns um fjölda lántaka og upphæð lána með tölum frá Seðlabankanum um þá sem „eru með fjármögnun bifreiðar í erlendri mynt“. Í svari Gylfa er heldur enginn greinarmunur gerður á lánum í erlendum gjaldmiðli og lánum í gengistryggðum krónum. Ekki kemur skýrt fram hvort Seðlabankinn gerir greinarmun á þessu og liggur beinast við að álykta svo sé ekki.

Miðvikudagsumræðurnar þar sem svarað er undirbúnum fyrirspurnum eru þannig skipulagðar að fyrst talar fyrirspyrjandinn, svo svarar ráðherrann. Svo mega aðrir þingmenn tala, hver í eina mínútu aðeins einu sinni, þá talar fyrirspyrjandinn aftur og að lokum ráðherrann.

Greinarmunur Ragnheiðar og Gylfa

Fyrsti ræðumaður eftir ráðherrasvar var í þetta sinn Ragnheiður Ríkarðsdóttir, og þá fyrst kom fram spurningin til Gylfa um það hvort gengistryggðu lánin væru lögleg. Hún vísar til hinna frægu laga um vexti og verðtryggingu og spyr hvort „myntkörfulánin“ séu lögleg vegna þess að þau virðist í raun vera „hrein krónulán en með erlendu viðmiði“. Gott hjá Ragnheiði.

Næst tala þrír Framsóknarmenn, aðallega um IceSave og afskriftarhugmyndir og síðan fyrirspyrjandinn og gerir ekki heldur þann greinarmun sem lesa má úr ræðu Ragnheiðar. Loks svarar Gylfi síðara sinnið og fyrst um „fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti lána í erlendri mynt“. Gylfi virðist sumsé ekki sinna þeim greinarmun sem Ragnheiður gerir heldur svarar einsog hún sé að spurja um lögmæti allra lánanna. Vísar að lokum til dómstóla sem einir séu færir um að skera úr þessum álitaefnum.

Þar með er umræðan búin. Ragnheiður Ríkarðsdóttir gat ekki tekið til máls aftur til að benda ráðherranum á að hann hafi ekki svarað hinni óundirbúnu spurningu sinni, og enginn annar þátttakenda í umræðunum virðist hafa kveikt á spurningu Ragnheiðar – eins augljós og manni finnst hún núna.

Umræðurnar leggjast þannig að ráðherrann misskilur spurningu Ragnheiðar, sem var flutt óundirbúin sem aukageta inni í fyrirspurn annars þingmanns. Skipulagið er þannig að Ragnheiður getur ekki bent honum á misskilninginn og hann getur ekki leiðrétt sig, að minnsta kosti ekki í þessari umræðu.*

Það sem sannara reynist

Þegar þessi texti er skoðaður í samhengi sýnist mér fráleitt að halda því fram að Gylfi Magnússon hafi verið að ljúga að þinginu eða afvegaleiða það – nema þá að hann hafi vitað fyrirfram af lögfræðilegum niðurstöðum um að hinn gengistryggði hluti lánanna stangaðist á við lögin. Um það veit ég ekkert ennþá – frekar en hinir háttvirtu kollegar mínir á þinginu eða professores sapientissimi Universitatis Islandiæ. En hef enga ástæðu til að efast um heilindi Gylfa Magnússonar í þessu efni þar til annað reynist sannara.

 

—————

* Ragnheiður, eða þá einhver annar, hefði reyndar getað vakið (og hefði náttúrlega í ljósi síðari tíma átt að vekja) athygli á msskilningnum/afvegaleiðingunni með athugasemd um fundarstjórn forseta …

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (34)

  • Það er þekkt í tilfellum sem þessum, að menn falla ekki á álitamálinu, heldur yfirhilmingunni. Gylfi sagði fyrir helgi að hann hefði ekki haft upplysingar um álit Seðlabanka fyrir 1. júlí 2009 en nú viðurkennir hann að hafa haft þær undir höndum.

  • Það er ekki fyrr en menn flækjast í neti lyganna að menn uppgötva að það er bara miklu einfaldara að segja satt!

  • Gunnar Ársæll

    Mörður segir:
    „Gylfi Magnússon hafi verið að ljúga að þinginu eða afvegaleiða það – nema þá að hann hafi vitað fyrirfram af lögfræðilegum niðurstöðum um að hinn gengistryggði hluti lánanna stangaðist á við lögin.“

    Fréttir: „Viðskiptaráðuneytið hafði áður greint frá því að Gylfi hafi séð minnisblað 24. júní, byggt á álitinu.“

    Nú kemur í ljós hvort Mörður er Maður eða Mús.
    Hvernig skildi hann kjósa í vantrausti á GM?

  • Gagarýnir

    Óhlutlæg hugsun er á okkar færi en erfið. Þetta andlega dáðleysi* kemur fram í okkur þegar persóna á í hlut. Leikrit með persónum og ekki skemmir dularfull bréf og kvenpersónur í viðskiptaráðuneytinu.
    Alvaran er samt sú að stjórnsýslan hér ræður ekki við að vera hún. Og við breytum því ekkert með lélegri hugsun í stíl DV.

    *dáðleysi er ein af dauðasyndum oft nefnd leti en það er annað hugtak.

  • Það er ljóst að Gylfi Magnússon sytur í skjóli og á ábyrgð Samfylkingarinnar. Öllum má vera ljóst að Gylfi er ekki sá endemis sauður að hafa ekki skilið fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Gylfi var vísvitandi að ganga erinda bankakerfisins með svari sínu á Alþingi og sleppti að gera grein fyrir þeirri vitneskju sem lá fyrir í ráðuneytinu. Gylfi mun þó aldrei berra pólitíska ábyrgð því hann er ekki kosinn, sú ábyrgð lendir á Samfylkingunni. Þegar Hreyfingin ber fram vantraust á Gylfa munu þá Mörður og félagar í Samfylkingunni taka á sig ábyrgðina af að láta Gylfa sitja ? Sú ábyrgð er stór. Það er ljóst að VG mun að stórum hluta ekki taka á sig ábyrgð af klúðri Gylfa og ef samþykkt verður vantraust á Gylfa hvað ætlar þá ríkisstjórnin að gera? Verður þetta banabiti ríkisstjórnarinnar ? Nei, vantrausttillaga á Gylfa verður ekki banabiti ríkisstjórnarinnar því bæði Jóhanna og SJS vita að Gylfi þarf að víkja áður en þing kemur saman í byrjun september. Gylfi er því svo gott sem kominn út úr ráðuneytinu og verður a.m.k. algjörlega áhrifalaus næstu daga og vikur því allir sjá feigðarmerki á ráðherradómi hans.

  • Þetta er óvænt. Þingmaður sem virðist vera inn í þingskaparlögum og ekki nóg, hann virðist álykta rétt.

    Spurt er og svarað samk. 49. gr. laga um þingsköp. Háttvirtur þingmaður Ragnheiður á ekki aðild að fyrirspurninni og spyr einskis samk 49.gr. og ráðherrann svarar engu samk. sömu gr..
    Það er eðli framkvæmdavalds að sitja á upplýsingum og eðli þingmanna að krefjast þeirra til þess er ma. 49. gr. og þá skiptir ekki máli hvaða blöð ráðherrann var búinn að lesa.

    Það sem er furðulegt: Hversvegna hafði fyrirspurn Ragnheiðar ekki komið fram fyrr? Það hefði verið hægt að spyrja Valgerði Sverrisdóttur og Björgvin G. Svo fremi að það sé yfirhöfuð að verksviði ráðherra að úrskurða um lagaágreining.

    Ég hef svo mínar órökstuddu efasemdir um að Hr. hefði komist að þessari niðurstöðu í því kostulega ástandi sem var sl. ár.

  • Umræðan um gengistryggðu lánin kemur venjulegum borgara úti í bæ svolítið spánskt fyrir sjónir. Mörður Árnason heldur uppi vörnum fyrir viðskiptaráðherra og reynir í löngu máli að finna smugur í málflutningi fyrirspyrjenda sem gætu hafa leitt til misskilnings. Þingmenn stjórnarandstöðunnar spyrja háyfirvaldið og ári síðar koma fram ásakanir um að þingið hafi verið afvegaleitt eða beinlínis logið að því. Í þessu máli virðast þingmenn allir með tölu og þar með sjálfur Mörður Árnason vera þekkingarsnauðir um gildandi lagaákvæði eða beinlínis verið þátttakendur í því að brjóta lög eða vísvitandi lagt blessun sína yfir lögbrotið.
    Var ekki samþykkt lagaákvæði á Alþingi 2001 þar sem blátt bann er lagt við gengistryggðum lánum?

  • Mörður Árnason

    GSS — Jú einmitt, og það er það allraskrýtnasta við málið allt þegar þau lög eru lesin, greinargerðin með viðkomandi frumvarpi og framsöguræða ráðherrans á sínum tíma. Ég get ekki annað en beðist afsökunar að hafa ekki fattað þetta þegar ég var þingmaður fyrra sinni — en ég var reyndar ekki í þeim nefndum og hópum sem helst komu að þessum málum. Man bara að öllum þótti þetta alveg sjálfsagt — og sjálfur heyrði ég engan gera mun á ,erlendum’ lánum og íslenskum gengistryggðum fyrren núna í sumar. Kerfið brást … kannski af því það þótti nánast eðlilegt að ,athafnaskáldin“ réðu förinni. Þær hyggjur náðu langt inn í minn flokk, einsog við erum núna að skoða í kraftmiklum umbótanefndum og með virkum og beittum umræðum alstaðar á flokksvettvangi (held ég að minnsta kosti, eða vona allavega).

    Þetta kemur Gylfa kannski ekki mikið við — en hann þarf auðvitað að standa fyrir máli sínu.

  • Gunnar Ársæll

    Setti Alþingi ekki þessi lög 2001?

    Skilur Alþingi ekki lög sem það setur?

    Til hvers er löggjafinn?

    Því meira sem þið flækið ykkur í þessu því erfiðara er að komast út.

    Mörður skilur alveg málið hann vill bara segja okkur að GM sé í fötum.

    Mörður við erum ekki hálfvitar.
    Textinn hér fyrir ofan þýðir í raun að þú telur okkur hálfvita.

  • Gunnar Ársæll

    Gylfi ætlar ekki að segja af sér. Hafði samt séð gögn frá Seðlabanka fyrir þingræðu.
    „Ég var fyllilega upplýstur um það sem átti að upplýsa mig um,“ segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem ræddi við Fréttablaðið í gærkvöld.“

    Mörður segir:
    „Það sem sannara reynist
    Þegar þessi texti er skoðaður í samhengi sýnist mér fráleitt að halda því fram að Gylfi Magnússon hafi verið að ljúga að þinginu eða afvegaleiða það – nema þá að hann hafi vitað fyrirfram af lögfræðilegum niðurstöðum um að hinn gengistryggði hluti lánanna stangaðist á við lögin. Um það veit ég ekkert ennþá – frekar en hinir háttvirtu kollegar mínir á þinginu eða professores sapientissimi Universitatis Islandiæ.“

    Mörður ummæli „við erum núna að skoða í kraftmiklum umbótanefndum og með virkum og beittum umræðum alstaðar á flokksvettvangi“

    Kerfið brást segir Mörður en hvað er hann nú að gera?

    Mörður segir hér í ummælum að það sé auðlesið úr lögunum að lánin séu ólögleg en eyðir löngum texta í að útskýra að allt var rétt hjá GM.
    Þetta kallast hvað Mörður?

    Þetta er brandari.

  • Ómar Kristjánsson

    Sko, vandamálið sem þurfti úrlausn er eða var, í raun ekki hvort óheimilt væri að gengistryggja ísl. krónulán.

    Vandamálið var hvort svökölluð myntkörfulán, þ.e. gengisbinding við erlenda gjalmiðla, teldist íslenskt eða erlent lán!

    Nú, Héraðsdómur komst að því að þetta telsist augljóslega erlent lán og þvó væri ekkert óhimilt við formið. Hæstiréttur taldi að vegna þess að í forminu á pappírnum bæri það með sér að vera íslenskt krónulán – þá væri það óheimilt að tryggja með þessum hætti.

    Erlendis hef ég séð þessu lýst þannig, að íslendingar hafi tekið lán í td. svissneskum frönkum og yenum vegna lágra vaxta og pakkað inn við lánveitingu í krónuform og þessi pökkun hafi verið dæmd óheimil. Þetta hlýtur bara að líta afr einkennilega út fyrir erlendu. Verð að segja það.

    Þetta með Gylfa, þá var bara alveg rétt hjá honum að segja þetta. Það eina rétta. Hvort sem hann sá eða heyrði af eihverjum minnisblöðum sem taka í raun ekki af skarið neitt heldu benda aðallega á þessi óljósu mörk. Erlend eða íslensk lán. Þar var efinn.

    Það er nú svo.

  • Sig. Pétursson

    Umfjöllun Marðar er mjög málefnaleg.

    Ég tel þó að jafnvel þótt Gylfi hafi vitað af þessu lögfræðiáliti þá hefði hann varla getað flaggað því og þar með hleypt fjármálakerfinu í uppnám. Málið hlaut alltaf að bíða dómsniðurstöðu og gerir enn.

    Málið allt ber merki aðfarar sem runnin er af óheiðarlegum rótum.

  • Ómar Kristjánsson

    Ps. það sem mér finnst hafa vantð alveg í þessa umræðu ea umfjöllun td. fjölmiðla er, að þeir leituðu upplýsinga um afhverju fjármálastofnanir fóru þannig að við lánveitinguna. Afhverju þessi leið var farin.

    Td. hef ég séð fólk segja að í raun hafi ekki verið um erlend lán að ræða, þ.e. að upphafslánsféð hafi ekkert verið erlendur gjaldeyrir sem breytt var í krónur. Þeim fullyrðngum er aldrei fylgt eftir með gögnum til að undirbyggja þá skoðun (hingað til)

    Manni innst jafnvel möguleiki að þessi háttur hafi verið hafður á til að einfalda málið fyrir lántakann – því eins og Þórólfur Matt. benti á þá er í raun enginn munur á þessu og því að á pappírnum stæði erlend gjaldeyristala. Þetta er bara reikningsaðferð sem skilar sömu niðurstöðu.

  • Mörður, ég get alveg tekið undir að velta má fyrir sér hvort Gylfi hafi gert þetta viljandi eða ekki (eða þannig skil ég orð hans). Mér finnst þetta snúast um þrennt:
    1) hvort Gylfi hafi yfirhöfuð skilið spurningu Ragnheiðar.
    2) hvort hann hafi áttað sig á muninum á „myntkörfuláni“ og „erlendu láni“.
    3) hvort skildi hann innihald minnisblaðs.

    Ef ég byrja á þessu fyrsta, þá er mikill vafi á þessu. Ragnheiður spyr um myntkörfulán og Gylfi segist vera svara henni og tala um erlend lán. Þ.e. eitt af eftirfarandi gerðist 1) hann skildi ekki spurninguna, 2) ruglar saman myntkörfuláni og erlendu láni eða 3) snýr viljandi út úr.

    Vafist þá eitthvað fyrir Gylfa hvað er erlent lán og hvað er myntkörfulán? Ef svo var, þá erum við í vondum málum, því við þurfum að velta fyrir hvað fleira vafðist fyrir Gylfa að skilja.

    Nú loks er það varðandi minnisblað Sigríðar Rafnar Péturdóttur. Í því kemur skýrt fram að í 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 sé bara heimilt að verðtryggja með vísitölu neysluverðs og því sé gengistrygging óheimil. Hún segir einnig að vafi kunni að vera á því hvaða lán falla undir ákvæði greinarinnar og loks að greinin banni ekki lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum. Sigríður Rafnar segir í niðurstöðukafla minnisblaðs síns, að lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum, tengdar gengi erlendra gajldmiðla, séu ekki ólögmæt, en hún leggur líka áherslu á í niðurstöðukaflanum að bara megi verðtryggja lán í íslenskum krónum með vísitölu neysluverðs. Gylfi lyndi því Alþingi helmingnum af niðurstöðu Sigríðar í undirkafla 4.1. Gerði hann það viljandi, las hann ekki lengra eða skildi hann ekki minnisblaðið. Það skal bent á að Sigríður eyddi mun meira púðri í gengistrygginguna en erlend lán.

  • Sigurður G.

    Þetta „stóra mál“ er hlægilegt í meðferðum fjölmiðla og fólks sem er vænisjúkt. Og enginn hefur spurt aðal-spurningarinnar, sem er að framkvæmdavald eða SÍ á ekkert frekar að birta lögfræðiálit, fremur en þeim sýnist. Því það að þeir birti lögfræðiálit, gætu margir litið þannig á að þeir væru að hafa áhrif á dómsvald, sem er hið eina úrskurðarvald. Ekkert lögfræðiálit hefur sama vægi. Þess vegna gat Gylfi né nokkur annar ekkert vitað um lögmæti þessarra lána ca. ári fyrr.
    En þetta aldeilis vatn á myllu skítadreifarana og rugludallana í Hreyfingunni og einhverja sem telja sig vera sjálfskipaða verjendur almennings. Þeirra sem ösnuðust til að taka áhættulán í formi myntlána (þeir vissu vel af áhættunni þegar þeir tóku lánið, annars hefðu þeir tekið verðtryggð lán eins við hinir, en gróðavonin var mikil ef allt hefði farið á besta veg).
    Eru Samtök heimilanna eða samtök lánþega einhverjir allsherjar talsmanns alls almennings? Nei, alls ekki. Gylfi er þó að reyna verja hagsmuni alls almennings en ekki einhverja útvalinna skuldara eða annarra. Og herförin gegn honum er vegna þess að sumir vilja bara fá góðar sértækar lausnir – fyrir sig. Skítt með aðra. Og þeir vilja líka halda sínum 200-300 fm húsum að fullu. Húsum sem greinilega voru alltof stór mv. kaupgetu. Maður gæti ælt á þessa heimtufrekju. Hún kemur venjulegum borgara sem fór varlega ekkert við. Þeim sem tóku verðtryggð krónulán og þurfa að borga allt að fullu. Fá sko engann lottóvinning í gegnum dómstóla. Þvílíkir frekjuhundar þetta gengislið !

  • Ómar Harðarson

    Hugsum okkur að verði sett lög um upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart þingi, eins og t.d. Gunnar Helgi hefur stungið upp á og ég held að verði af hinu góða. Þau lög myndu ná til svara ráðherra við fyrirspurnum (munnlegum, skriflegum og óundirbúnum skv. þingsköpum) og skýrslugjafar, ásamt yfirheyrslum fyrir þingnefndum.

    Slík lög myndu aldrei geta bannað ráðherra að afvegaleiða þingmenn í spurningum sem þeir leggja fram utan hins formlega vettvangs. Í almennum umræðum hafa ráðherrar eins og aðrir þingmenn fulla heimild til að segja það sem þeim sýnist og gera það sem stjórnmálamenn gjarnan gera: svara spurningum með svari við annarri spurningu. Það er því hárrétt hjá Kristjáni Sig. Kristjánssyni hér að ofan að „Háttvirtur þingmaður Ragnheiður á ekki aðild að fyrirspurninni og spyr einskis samk 49.gr. og ráðherrann svarar engu samk. sömu gr..“

    Ég hygg hins vegar að hér hafi nýr ráðherra sem vanur er kurteisi manna á meðal ekki áttað sig á að hann þurfti ekki að svara Ragnheiði og svaraði henni stuttlega og ekki fullnægjandi áður en hann vék sér að aðalefni umræðunnar, þe. spurningunni um umfang erlendra bílalána og hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera í því.

  • Sigurður G.

    Og ég bæti þessu við. Mörður og aðrir eins og Gylfi sem ég tel að séu að vinna að hagsmunum alls almennings en ekki útvalinna, ekki láta þetta freka lið sem tók gengistryggð lán og vilja fá dæmalausan lottóvinning ekki hafa áhrif á ykkur.
    Heimtufrekja þeirra sem tóku gengistryggð lán (amk var það þeirra eigin skilningur þegar allt lék í lyndi) er óþolandi. Þeir vissu vel af áhættunni, en ákváðu samt að taka hana! Og það er líka spurning. Þar sem lánin eru nú dæmt ólögleg, á þá bara annar aðilinn að njóta góðs af ? Brutu ekki báðir aðilar lög þar sem þetta er samningur milli tveggja aðila?

  • Hrafn Arnarson

    Ég vil þakka Merði fyrir góða greiningu. Hvorki Seðlabanka né ráðuneytum bar skylda til að birta lögfræðiálit. Það virðist vera þannig, svo furðulegt sem það er, að fjármálastofnanirnar sjálfar hafi fengið að túlka lögin með athöfnum sínum. Þær voru dómarar í eigin sök!! Enn merkilegra er skilningsleysi þingmanna á margumræddum lögum og umræðurnar sem eiga að leiða til afsagnar ráðherra. Miðað við mikilvægi málsins er atburðarásin á þingi grárbrosleg. Ragnheiður kemur inní fyrirspurn annars þingmanns og spyr um það sem öllum er nú ljóst að er kjarni málsins. Af þessu má draga þá dapurlegu niðurstöðu að meirihluti þingmanna hafi ekki haft minnsta grun um hvað málið snerist!! Svo mikilvæg sem spurning Ragnheiðar er þá er hún borin fram á röngum stað.

  • Mikið misskilja menn umræðuna. Þetta snýst ekki lengur um hvort álitið var birt eða ekki. Þetta snýst um það hvað Gylfi sagði byggt á lögfræðiáliti sem gert var. Hann sagði á Alþingi, að svar hans við spurningu Ragnheiðar væri byggt á áliti margar lögfræðinga í stjórnsýslunni. Málið er að hann var ekki að svara spurningu Ragnheiðar heldur spurningu sem hann hefði frekar óskað að Ragnheiður hefði spurt. Hann bjó yfir vitneskjum um rétt svar við spurningu Ragnheiðar og kaus að nota það ekki. Um það snýst umræðan, en ekki skildu til að birta eitthvað álit.

  • Pétur vélstjóri

    það er erfitt að tjá sig um málefni sem maður hefur enga þekkingu á, gera verður þá kröfu að þeir sem fjalla um málefni hafi vit á því, eins og gamla indjánabænin segir : grant god that I may keep my big mouth shut until I know what I am talking about

  • Gylfi Magnússon bar ekki gæfu til að segja satt, en það gerði Steingrímur Sigfússon ekki heldur. Af hverju telur Mörður Árnason sig knúinn til að verja það? Hvert erum við komin? Eru allir að hlýða skipunum?

  • Gylfa Magnússyni bar ekki gæfa til….

    átti þetta að vera

  • Nokkuð skondið að lesa þennan pistil „Það sem sannara reynist“ í því ljósi að Gylfi hefur nú þegar viðurkennt að hafa vitað að þessum „lögfræðilegum niðurstöðum um að hinn gengistryggði hluti lánanna stangaðist á við lögin.“

  • Eygló Aradóttir

    Hvaða eiginleiki í stjórnsýslunni á árunum fyrir hrun var það sem olli því að almenningur, kjósendur (sem eru þjóðin) voru svona grandalausir við hrunið? Er það ekki sú þöggun sem stjórnsýslan (á öllum stigum hennar) og meðvirkni við fjármálakerfið? Þess vegna er það alvarlegt mál, sérstaklega fyrir kjósendur Samfylkingarinnar, sem komst á flug með málflutningi um siðbót í íslenskum stjórnmálum (sumir hafa ekki gleymt því þó Samfylkingin virðist hafa gleymt því), að ekki skuli hafa verið greint frá þessum álitum sem stjórnsýslan hafði undir höndum. Í annan stað var spurning Ragnheiðar Ríkharðsdóttur afskaplega skýrt orðuð og svar ráðherrans við þeirri spurningu (sem hann sérstaklega tók fram að hann væri að víkja að) eins og hann væri köttur að fara í kringum heitan graut. Það er bara ekki boðlegt íslenskum almenningi nú tveimur árum eftir hrun.

  • Eygló Aradóttir

    sú þöggun sem stjórnsýslan (á öllum stigum hennar) sýndi af sér og meðvirkni við fjármálakerfið? Vantaði aðeins inn í í færsluna fyrir ofan.

    Það er aðallega út af svona málum sem kjósendum samfylkingarinnar blöskrar!

  • Guðmundur Ragnarsson

    Það er ekki hægt að misskilja þetta mál þótt stjórnarsinnar reyni það ítrekað. Einhverjir þeirra hefðu farið fram á afsögn ráðherra fyrri ríkisstjórna undir sömu kringumstæðum. Eins og Marinó lýsir réttilega snýst málið um heilindi og trúverðuguleika ráðherra í máli sem varðar stóran hluta almennings mjög miklu (og marga öllu, venjulegt fólk sem hefur orðið eignalaust af völdum þessara lána – ég þekki nokkra sjálfur). Menn reyna meira að segja að gera fyrirspyrjanda, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, tortryggilega í málinu og smjörklípum hent út og suður. Hjá Sigurði G. hér að ofan snýst málið t.d. um hvort „birta átti álitið“ en ekki framferði ráðherra. Já menn verja lygina fram í rauðan dauðann. Í máli þessu hefur Gylfi komið fram frá a-ö sem sannur „umboðsmaður“ fjármálastofnana.

  • Þórdís

    „Gylfi virðist sumsé ekki sinna þeim greinarmun sem Ragnheiður gerir heldur svarar einsog hún sé að spurja um lögmæti allra lánanna.“

    Ef doktor í hagfræði og háskólaprófessor skildi ekki þessa einföldu spurningu Ragnheiðar (hrein krónulán með erlendu viðmiði) þá er það algjör brandari þrátt fyrir alvarleika málsins!

  • Hvad med logfræditeymi Sedlabankans ,FME og storu bankanna ?

    Alvarleiki thessa mals er ohugnalegur og thvi midur eru gerandur thessa mals i raun og veru ad finna faranlegan sokudolg .. en svona er Island ..

  • Eini maðurinn sem er að segja sannleikann í málinu er Gylfi Magnússon. Sannleikurinn er einfaldur og er eftirfarandi: Deilan um lögmæti myntkörfulána verður leyst fyrir dómstólum í samræmi við eðli hvers máls. Lögfræðiálit, blaður bloggara, alþingsimanna og fjölmiðlamanna breyta engu um það. Það er sorglegt að horfa á árásir manna á þennan vel menntaða og mæta mann Gylfa Magnusson og komið mál að linni. . Hafa menn ekkert uppbyggilegt til málana að leggja. Ég efast um að þjóðin eigi skilið að fá að njóta hæfileka og þekkingar Gylfa eftir gegndarlausar tilhæfulausar árásir á manninn

  • Gylfi Magnússon er líklega hæfasti ráðherra þessarar fyrirlitlegu og vanhæfu ríkisstjórnar. Hann á samt að víkja strax úr ráðherrastólnum. Vonandi verður innan skamms unnt að reka allt Sossa-stóðið í bithagana og þá verður ævintýrið um Gylfa grasbít gleymt og grafið.

    Hvað varðar þá sérkennilegu atburðarás sem Gylfi hefur stjórnað, þá hefur hann orðið margsaga og er búinn að flækja sig í net blekkinga. Ráðherrar hafa ekki heimild til að láta eins og þeir séu kjánar og þeir eiga ekki að komast upp með barnalega útúrsnúninga. Varla geta það talist þjóðarhagsmunir að Gylfi Magnússon sitji lengur í ráðherrastóli.

    Stóra vanda-málið er vangeta Alþingis til að semja lög sem ekki fela í sér slíkar þversagnir að hvorki almenningur né lögspekingar geta sagt til um hvað þau merkja. Á valdstjórnin að komast upp með þann málflutning, að margra ára gömul lög séu svo óljós að ekkert sé hægt um merkingu þeirra að segja ? Eru það ásættanleg vinnubrögð að Alþingi setji lög um mikilvæg mál og síðan verði að bíða í áratug eftir að dómstólar felli Salómonsdóm um hvað þau raunverulega merkja ?

  • Margrétj

    Aðalmálið er að ALÞINGI setti sjálft þessi lög 2001 en keypti lánasöfn bankanna SAMT á allt of háu verði því þau höfðu greinilega ekki vitræna hugsun á því að athuga þessi lög.
    Það ber ALLT að sama brunni með þessa stjórn. Veit ekkert, skilur ekkert, GERIR EKKERT – ER AGNDOFA!!!

  • Geir Ragnarsson

    Nú skulum við skoða staðreyndir, ef einhver hefur áhuga á þeim:

    Kjarni spurningar Ragnhildar Ríkharðsdóttir er eftirfarandi:

    „Telur hann (þ.e. ráðherran) lögmæti slíkra lána hafið yfir allan vafa þegar höfð eru til hliðsjónar lög nr. 38/2001, um vexti og verðbætur? “

    Spurningin er lengri og má sjá hana í heild sinni hér:
    heimild: http://www.althingi.is/raeda/137/rad20090701T142746.html

    Í lögfræðiáliti Viðskiptaráðuneytisins stendur

    „Ljóst er að lög nr. 38/2001 banna ekki með skýrum hætti lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum. Ef ætlun löggjafans hefði verið að leggja bann við lánveitingum í erlendum gjaldmiðlum hefði þurft að orða það með afdráttarlausum hætti í lögum “
    heimild: http://www.efnahagsraduneyti.is/media/Acrobat/Minnisblad-um-lanveitingar-i-erlendri-mynt-090609.pdf

    Það er ekki þar með sagt að myntkörfulán séu lögleg, en þá er það vegna annara laga en laga nr. 38/2001, sem Ragnhildur spurði sérstaklega um. Þetta er nánar rakið í lögræðiálitinu sem vísað er til hér að ofan.

    Svar Gylfa er því í samræmi við álit sérfræðinga ráðuneytisins og í samræmi við það sem Ragnhildur spurði um.

    Það er síðan dómstóla að kveða á um lögmæti þessara lána.

  • Sigurður G.

    Hvað misskilja menn Marínó? Spurningin frá Ragnheiði er fyrir það fyrsta út í hött. Gat hún bara ekki sjálf lesið lögin og komist að sinni niðurstöðu? Hefði lögfræðiálitið þá vera meira en ígildi hæstarréttardóms sem kom ca. ári síðar en fyrirspurnin og svar Gylfa? Gylfi benti á að þetta yrði leyst fyrir dómstólum. Það hefði verið óábyrgt að blaðra eitthvað áður en dómstólar kveðja sinn úrskurð. Meðalgreindur maður og réttsýnn hlýtur að sjá það.
    Nei, þetta er stormur í vatnsglasi gerður til að sverta Gylfa. Og þið sem skuldið gengistryggð notið tækifærið þar sem hann hefur ekki tekið undir ykkar fáranlega söng sem sértækar aðgerðir ykkur til handa. Tam að borga vexti 2-3%, nokkuð sem almenningi á Íslandi býðst alls ekki.
    Mál að þessum ofsóknum á hendur Gylfa linni.

  • Ég hlustaði með eigin eyrum á ummæli Gylfa allt frá upphafi ráðherradóms hanns. Ummælin voru sorglegur vitnisburður um afstöðu hanns og dugleisi ráðuneitis hanns. Ég hringdi persónulega niður í ráðuneiti og spurðium álit ráðuneitis. Ráðuneitið vísaði í umræðuna en ekki lögin. Þrátt fyrir að viðskiptaráðuneitið færi með mál er varðar vexti og verðtryggingu.
    Auðvitað á viðskiptaráðuneitið að vita hvað lögin segja og vinna eftir því og gefa út yfirlýsingar eftir því og starfa til að gæta hagsmuna almennings og stuðla að því að lög séu virt í viðskiptum.

    Mér sýnist ekkert af þessu hafa verið gert og sýnist mér viðskiptaráðuneitið misskilja hlutverk sitt í þessu máli.

    Ef ransóknarskýrsla væri unnin um þetta mundi hún komast að sömu niðurstöðu og hin gerði. Ábyrgðarleysi og vanhæfni til að fylgja lögum og gera eitthva raunverulegt. Menn frýja sig ábyrgð og benda á ábyrgð annara.

    Aumar stofnanair með auma stjórnendur.

    Afstaða og ummæli Gylfa á öllum stigum málsinns munu fella hann og ekki að ósekju.

    Mörður …þú ert úti að aka í vörnum þínum við gungurnar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur