Þriðjudagur 17.08.2010 - 12:05 - 31 ummæli

Orð skulu standa

Það verður alltaf erfiðara og erfiðara að átta sig á því afhverju útvarps- og sjónvarpsstöðin RÚV hefur heitið Ríkisútvarp – þar virðist ekki rekin nein sú stefna sem eigi skylt við almannaútvarpsstöð einsog þær eru skilgreindar í grannlöndunum, og hefðir hins gamla þjóðarútvarps áttatíu ár aftur í tímann eru einsog hafðar upp á punt á tyllidögum.

En til þess borgum við öllsömul afnotafgjöld, nú í formi nefskatts, að hér sé einmitt rekið ríkisútvarp. 

Nýjustu fréttirnar úr Efstaleiti eru þær að vel látinn og vinsæll útvarpsþáttur þar sem íslenskt mál er undirstaða lágværrar skemmtunar og íbygginnar fræðslu, Orð skulu standa – sem hefur meðal annars fengið sérstaka viðurkenningu Íslenskrar málnefndar – er látinn niður falla af svokölluðum hagræðingarástæðum.

Þegar skrifstofustjóri Páls Magnússonar yfir útvarpshlutanum er spurður af hverju eini reglulegi þátturinn um íslenskt mál sé að hverfa – þá segir Sigrún Stefánsdóttir að það sé rabbað svolítið um tungumál árdegis á miðvikudögum, og svo verði einmitt fjallað um forn tengsl Ríkisútvarpsins við íslenska tungu í sérstökum þáttum sem á að flytja í vetur í tilefni 80 ára afmælis stofnunarinnar. Það voru sannarlega aum svör.

Tillaga: Hættið við þættina um 80 ára afmæli Ríkisútvarpsins. Endurflytjið frekar þættina um 70 ára afmæli Ríkisútvarpsins. Það er hvort eð er engin sérstök ástæða til að gleðjast yfir tíu síðustu árunum. Haldið Orðunum sem standa.

Önnur tillaga: Fáum til verka á Ríkisútvarpinu fólk sem vill reka almennilegt almannaútvarp og skilur hvað útvarp og sjónvarp snúast um.

Orð eiga að standa, líka þau sem snúast um skyldur RÚV við íslenska menningu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (31)

  • María Kristjánsdóttir

    Að þessum vel mæltu orðum loknum vona ég að þú takir það upp við menntamálaráðherra að það þurfi að leggja niður ohf formið og skipta út yfirstjórninni.

  • Mörður… Umræddur þáttur: Orð skulu standa, er eitthvað það grámyglulegasta sem RUV hefur boðið upp á só far. Gæti drepið naut úr leiðindum…

  • Það er fyllilega tímabært – og þótt fyrr hefði verið – að nota enskan frasa um Ríkisútvarpið: Rest in peace.

  • Hallgrímur H Helgason

    Hjartanlega sammála tillögum þínum númer 1 og 2 – sem og lokaorðunum. Þetta metnaðar- og menningarleysi er löngu orðið svo nöturlegt að tekur engu tali

  • Pétur Vélstjóri

    Sammála mjög áheyrilegur þáttur

  • Þessi skrifstofustjóri sem þú kallar svo, virðist hafa það eitt markmið að ganga af Rás 1 dauðri. Mín skoðun er að Rás 2 verði seld eða aflögð og Rás 1 efld til muna með nýju dagskrárfólki í bland við eldra. Til dæmis er veruleg eftirspurn eftir þjóðarútvarpi þar sem hlustendur geta hringt inn og rætt þjóðmálin. Persónulega finnst mér engin eftirsjá að Karli Th úr útvarpinu. Það er nauðsynlegt að endurnýja þessar kunningjaráðningar. Sem aftur vekur upp gamlar spurningar um tök stjórnmálaflokkanna á Ríkisútvarpinu. Þetta er jú einn af gömlu spenunum sem menn gátu óspart sogið.

  • Ríkisútvarpið sinnir ekki hlutverki sínu að neinu leyti.

    Fréttastofan stenst engan samanburð við það sem þekkist erlendis.

    Á þessum hörmungartímum í lífi þjóðarinnar er hún ekki fær um að bjíoða upp á fréttaþjónustu sem talist gæti viðunandi.

    Dagskráin með slíkum ólíkindum leiðinleg að því verður vart með orðum lýst.

    Getu- og metnaðarleysið algjört.

    Mér þykir ömurlegt að ég skuli vera neyddur til að halda þessari stofnun uppi.

    Ég vil leggja hana niður.

  • Lana Kolbrún Eddudóttir

    Ríkisútvarpið (= Rás 1) er 80 ára. Hefur starfað frá 1930.

  • Bæti við að ég tel enga eftisjá að þættinum Orð skulu standa.

    Mér þótti þátturinn yfirgengilega leiðinlegur og tilgerðarlegur.

    En ef til vill gætu fagmenn gert einhvern slíkan þátt áhugaverðan.

  • og þriðja tillagan er að Ríkisútvarpið verði lagt niður ellegar selt.

  • raggissimo

    Reyndar heldur RÚV upp á 80 ára afmæli í ár, en það er ekki aðalatriði. Hneykslið, sem virðist fara fram hjá flestum, er að fjárveitingavaldið, ríkisvaldið, er sífellt að skera af nefskatti, ætluðum RÚV, til að fjármagna einhver ótilgreind verkefni.

    Nú þegar hefur hann rýrnað um fjórðung og enn á að taka 9% til viðbótar. Þess utan hafa auglýsingatekjur RÚV dregizt mjög dramatískt saman. Er von þó eitthvað láti undan við þessar aðstæður? Menn mega deila á hvernig stjórnendur láta þennan niðurskurð bitna á dagskránni og starfsmönnum, þar sýnist reyndar sitt hverjum.

    Meginmálið er að nefskatturinn sem við borgum fyrir RÚV fer ekki nema að hluta til starfsemi stofnunarinnar og rýrnar stöðugt. Undir einbeittri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

  • Ég skora á þig að beita þér af hörku fyrir faglegri skipan í stjórn RÚV en ekki pólitískri bitlingaútbýtingu. Síðast þegar stjórninni var breytt (fyrr á þessu ári) var einn framsóknarbleðill tekinn út og annar settur í staðinn.

    Þegar stjórnmálaflokkar axla ábyrgð í þessum málum (sérstaklega þinn eigin) er von. Fyrr ekki. Þetta er í þínum höndum.

  • Örn Úlfar Sævarsson

    Miðað við viðbrögðin við þessum ótíðindum ætti þess ekki að vera langt að bíða að tilkynnt verði um Orð skulu standa á Bylgjunni eða Skjá einum.

  • Sjálfstæðismaður #23

    Þessi þáttur er eitt það leiðinlegasta útvarpsefni sem ég hef kynnst.

    Höfðar til þröngs hóps sérvitringa.

    Væri alveg eins hægt að gera þátt um tækniskilgreiningar í tölvuheiminum fyrir tölvunörda.

  • Ríkisútvarpið hefur sérstakar skyldur við íslenska menningu. Það er skrýtið að þetta virðist vera einhver fótboltabullustöð sem fyllir upp í eyðurnar milli fótboltans með sakamálaþáttum þar sem ofbeldið er dýrkað og upphafið.

    Ég hef fyllsta traust til einkamarkaðarins að sjá okkur fyrir afþreyingarefni, Rúv á að einbeita sér að íslenskri menningu og þar með íslenskri tungu. Þættir eins og þessi sem felldur var niður kostar þar að auki ekki mikið ef notuð er sú greining að hér eru aðföngin bara fólkið, það þarf engan dýran tækjabúnað og spreð á gjaldeyri til að halda uppi þessum þáttum. þar að auki er hægt að nota þá líka í menntakerfinu.

    það er furðulegt að eytt sé í blindni í alls konar atvinnuskapandi verkefni til að halda uppi vinnu en ekki sé hægt að eyða í svona þætti.
    má ekki skilgreina svona þætti sem atvinnusköpunarverkefni?

  • Mörður Árnason

    80 ára — fyrirgefið. Ég var einmitt í hinu forna útvarpsráði þegar 70 ára afmælið var. Breyti þessu snöggvast. Og hlusta vel á þig, Daði.

  • Sauradraugur

    Ríkisútvarp er tímaskekkja og tóm della. Ekki síst þegar svo illa er haldið á málum eins og verið hefur í stjórnartíð Páls Magnússonar. Get til málamiðlunar sætt mig við að ríkið haldi úti Rás 1, en þó með miklu minni umsvifum en nú er og með það að megintilgangi að sinna öryggisskyldu, sem það gerir ekki í dag eins og dæmin sanna.

  • Í tilefni af fyrirsögn:

    Samfylkingin mun beita sér fyrir því að lögum um eftirlaun æðstu embættismanna verði breytt og meira jafnræði komið á í lífeyrismálum ráðamanna og almennings.

    Samfylkingin vill að leitað verði sanngjarnra leiða til að skipta ófyrirséðu tjóni milli lántakenda og lánveitenda vegna efnahagshrunsins og hækkunar verðtryggðra lána því samfara.

  • Því miður verður Rás 1 sífellt aumari. Þar var einu sinni rekið mjög góð morgundagskrá með fréttaskýringum og viðtölum. Nú eru spiluð þar danslög af plötum.
    Rás 2 kemur á engan hátt í staðinn með sínu fíflalega gjammi og flissi milli auglýsinga frá Býkó og Bónusi.
    Tími vandaðs og eðlilegs útvarpsefnis fyrir skynsamt og fullorðið fólk virðist vera liðinn.

  • fridrik indridason

    sælir
    nokkuð sammála annarri tillögu þinni mörður. held samt að það sé borin von að breyta nokkru þarna innanborðs með núverandi stjórnendur. þeir eru fastir í einhverju 2007 markaðssulli

  • Ragnar Thorisson

    Ríkisútvarpið er höfuðsökudólgurinn í hinni stórhættulegu þjóðernishyggju sem gerði íslenskum fjárglæframönnum auðvellt fyrir í útrásinni, og hamlar endurreisn landsins.

  • Mér finnst vert að minna á að á rás eitt starfar margt framúrskarandi fólk enn og þar er enn stunduð mjög góð dagskrárgerð. Á rás tvö raunar líka… Hitt tek ég undir að Orð skulu standa – það er þáttur sem hefði átt að halda áfram lengur.

  • Hallgrímur H Helgason

    Ég skildi reyndar orð Marðar um að „fá til verka á Ríkisútvarpinu fólk sem vill reka almennilegt almannaútvarp og skilur hvað útvarp og sjónvarp snúast um“ þannig að þar væri hann að tala um yfirstjórnina – en ekki tam þann mannauð sem vissulega er enn til staðar á Rás 1 og er sálin í stofnuninni. Þótt þar sé vissulega sífellt verið að höggva í.

  • Mörður Árnason

    Já. Um yfirstjórnina. En að lokum fara limirnir að dansa eftir höfðinu.

  • Haukur Kristinsson

    Orð skulu standa var arfaleiðinlegur þáttur. Tilgerðarlegur eins og stjórmandi þáttarins og lítið fræðandi, allaveganna miðað við tímann.
    Þarna var samankomið sjálfumglatt fólk að geta til um merkingu orða, flissandi og skrækjandi og vissi oftast lítið í sinn haus.
    Frekar alvöru þátt um íslenskt mál.

  • Skúli Thoroddsen

    Ruv gengur út á íþróttaofbeldi. Rás eitt er á „replay“ á gömlu efni allan sólahringinn. Frábært efni er skorið niður eins og orð skulu standa. Andrarímur eru lagðar niður. Á meðan viðgenst látlaust íþróttaofbeldi í sjónvarpinu. Aldrei skorið niður þar. Alltaf til nægir peningar í íþróttir. Aldrei hægt að setja pening i fróðleik og menningu. Hvenær flegja þeir Kiljunni út, til þess að bæta við íþróttaþáttum eða enn einni beinu útsendingunni?

  • Anna María

    Umæddur þáttur er eiginlega það eina sem ég hlusta undantekingalaust á á ruv. Ef ég næ því ekki í rauntíma þá nota ég netið til þess. Frábær þáttur og eiginlega það eina sem maður vill alls ekki klikka á að njóta. Mér finnst þetta óþolandi með öllu. Hvernig væri að ruv léti frekar flakka eitthvað af þessu endalausa bulli sem hvort sem er hljómar á öllum stöðvum sem er í gangi allsstaðar á hinum stöðvunum sem og í sjónvarpinu. Þetta er furðuleg forgangsröðun

  • Þórdís Guðmundsdóttir

    Tólf skref til þess að losna við ríkisrekinn fjölmiðil:

    1. Ráðið yfirstjórn sem lítur á stofnunina sem hvert annað fyrirtæki og telur meira en eðlilegt að líta fram hjá meginmarkmiðum stofnunarinnar.

    2. Rukkið allan skatt af almenningi með einni tölu, utan fjölmiðlaskattinn, merkið hann sérstaklega svo hver þegn sjái fyrir sig hvað hann þarf að borga.

    3. Breytið rekstrarforminu í eitthvað óskiljanlegt s.s. ohf þannig hægt sé að reka hæfastu og reyndustu starfsmennina án málalenginga og bjóða toppum himinhá laun og fríðindi af ýmsu tagi. Varist að hafa konur yfir 30 ára á skjánum, sérstaklega ef þær standa sig í starfi.

    4. Kaupið sorpkvikmyndir frá hinu guðs volaða landi í gámavís og sýnið um helgar. Ef bitastæðar myndir slæðast í hús, sýnið þær þá seint á sunnudagskvöldum.

    5. Haldið leyndum könnunum sem henta illa, s.s. þeirri sem sýnir áhuga landans á bókmenntum og listum sem 60 – 80% þeirra njóta og þyrpast á allt árið um kring á meðan 27% þjóðarinnar sækir íþróttaviðburði.

    6. Takið umsvifalaust af dagskrá allt efni sem mælist með meira en 60% áhorf. Hafið lægra viðmið ef um íslenskt efni er að ræða.

    7. Eflið íþróttadagskrárliði. Haldið áfram að hafa flokk karlmanna á dag- og kvöldvöktum við upptökur um land allt þar sem drengir sparka bolta. Spyrjið áfram grundvallarspurninga s.s. hvernig menn búast við að leikurinn fari og hvers vegna ekki hafi gengið betur. Ræðið við íþróttamenn út í rauðan dauðann þó fimi þeirra sé mestmegnis í líkamspörtum töluvert neðan við talfærin. Hleypið engum fréttatímum í loftið án íþróttaumfjöllunar, látið engan dag líða án íþróttaþátta, grípið hvert tækifæri sem gefst til þess að rjúfa hefðbundna dagskrá ef einhvers staðar finnst myndband með boltaleik karla.

    8. Forðist alla umfjöllun um tónlist. Eitt lag með óþekktu bandi í lok Kastljóss sleppur, ef starfsmannalisti Kastljóss rúllar yfir hljómsveitina í restina. Gleðiglompa í lok kvöldfrétta má innihalda tónlist, en þó aldrei meira en 10-15 sekúntur.

    9. Óheppilegt er að útvarp og sjónvarp sé í sama húsi. Gætið þess að samstarf eigi sér ekki stað á milli þessara miðla. Best er að sjónvarpsvænt efni sé flutt í útvarpi og öfugt. Þannig skal í úvarpi halda úti ferðaþáttum (Út um græna grundu), myndlistarverkum lýst (Víðsjá), ferðapistlar um framandi lönd og kvikmyndaumfjöllun (Kvika). Þá skal áhugafólk um ræktun grænmetis fá sinn þátt í útvarpi þar sem reynt er að lýsa aðferðum og uppskeru svo hlustendur geti af lært. Sjónvarpið skal einbeita sér að upptökum í stúdíói s.s. Kastljós þar sem meginstefið er illa undirbúið rifrildiskarpi milli andstæðinga með „stjórnanda“ sem hefur það hlutverk að tilkynna körpurum þegar tíminn er útrunninn. Forðast skal myndefni.

    10. Varast skal fræðsluþætti frá BBC og Norðurlöndunum, þar sem þeir hafa einatt gott áhorf. Sérstaklega skal forðast efni um náttúru og dýralíf, heilsu og lífsstíl. Full ástæða er til að forðast algerlega fræðsluþætti um listir og listamenn, upptökur frá tónleikum, óperusýningum, ballett- og danssýningum.

    11. Forðast skal efni sem höfðar til allrar fjölskyldunnar s.s. þær þúsundir kvikmynda sem gerðar hafa verið í V-Evrópu sem henta börnum jafnt sem fullorðnum. Notið fyrst og fremst efni úr gámunum sem nefnt var hér í lið 3. á þeim tíma sem börn eru á fótum.

    12. Fallið ALDREI í þá freistni að setja upp sérstaka sjónvarpsrás fyrir íþróttir.

  • Jóhannes Gíslason

    Í lögum um Ríkisútvarpið ohf. lög nr. 6 /2007 er m.a. fjallað um skyldur þess. Þar stendur m.a:

    II. KAFLI
    Hlutverk og skyldur.
    3. gr.
    Útvarpsþjónusta í almannaþágu.
    Hlutverk Ríkisútvarpsins ohf. er rekstur hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu, svo sem hljóðvarps og sjónvarps, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum þessum.
    Útvarpsþjónusta í almannaþágu felur í sér eftirfarandi:
    1.
    Að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

    Að hafa engan sérstakan þátt um íslesnka tungu ber að mínu mati ekki vott um að stjórnendur RÚV séu að sjá til þess RÚV uppfylli þær skyldur sem lagðar eru á það og því ber að sinna skv. lögum.

    Sjórnendum RÚV er sniðinn stakkur í lögunum og þeim ber að halda sig innan ramma laganna. Spunringin er hverær þeir teljast hafa farið út fyrir rammann, Einhverstaðar liggja þau mörk þegar brot telst hafa átt sér stað. Hver dæmir um það, Umboðsmaður Alþingis, Menntamálaráðherra?

    Telst það vera brot á 1. töluluð 3.gr 2. kafla laga 87/2207 að hafa engan þátt um íslenskt mál á dagskrá RÚV ?

    Í drögum að samningi milli Mennamálaráðuneytis og RÚV sem gerður var samhliða lögunum tekur RÚV á sig ýmsar skyldur varðandi dagskrárefni s.s. textun o.fl. Ef menntamálaráðuneytið hefur áhuga á því gæti það hæglega beitt sér fyrir ákvæði um lágmarkstíma í umfjöllun um íslenskt mál/málfar.

    Es.

    Það svo er almennt vandamál hér á landi að stjórnendur stofnana sem bundir eru af lögum virði þau ekki og stjórni að eigin geðþótta sbr. viðingarleysi við fjárlög. Vð þessu virðast ekki vera til nein viðurlög.
    Eftirlitið er í höndun Ríkisendurskoðunar en svo virðist sem skýrslur hennar séu í besta falli lesnar áður en þeim er stungið niður í skúffu. Hér þarf að gera betur. Trúllega þarf hver stofnun að hafa sinn eign reikning og hann í umsjá Ríkisendurskoðunar sem leggur inn á hann það fé sem úthlutað er af fjárlögum/fjáraukalögum. Með þessu móti yrði eftirlitið og aðhaldið mjög skilvirkt og Ríkisendurskoðun yrði fysta stofnunin til að vita ef rekstur einhverrar stofnunnar væri að fara úr böndunum. Þar með væri hægt að bregðast við fyrirsjánlegum vanda strax af fagmönnum áður en skaði/lögbrot hlýst af.Fyrir ytan þetta sé ég marga aðra kosti við svona fyrirkomulag.
    Astæðan fyrir því að Ríkisendurskoðun ætti að hafa þetta hlutverk er sú að hún heyrir undir Alþingi þ.e. löggjavarvaldið sem ákveður fjárlögin. Framvæmdavaldið sem hefur þetta hlutverk í dag þ,e að deila út fjármunum er síður til þessa verks fallið því það vill oftast eyða meiri peningum en eru tll ráðstöfunar. Reynslan hefur einnig sýnt að það hefur ekki geta hamið framúrkeyrslu og jafnvel stuðlað að framúrkeyslu ríkisstofnanna í fjármálum. Með þessum hlutverkaskiptum ætti óábyrg sjórnsýsla hverfa að þessu lleyti.

  • Steinar Indriðason

    Fyrir nokkrum árum síðan horfði ég á 2 gamla þætti úr smiðju BBC, þeir fjalla um og heita a) lista og hámenningarsögu Evrópu – CIVILISATION og b) Scent of A Man – Sögu vísindanna. Aldrei hefur neitt sjónvarpsefni opnað augu mín jafn mikið eins og þessir þættir. Þarna er nefnilega sjónvarpsefni sem skilur eitthvað eftir sig, annað en flest það sem boðið er uppá í íslensku sjónvarpi. Viðhorfið er nefnilega þannig að skemmtun er aðalatriðið, en það er röng stefna að mínu mati. Ríkisútvarpið á að hafa það markmið fyrst og fremst að opna augu fólks í landinu fyrir sem allra flestu sem viðkemur mannlegri tilveru. Það skal gert með því að virkja fólk sem hefur brennandi áhuga og mikla þekkingu á viðkomandi málaflokkum en ekki stamandi muldrandi áhugaleysingjum. Það er kannski ósanngjarnt að bera RÚV saman við BBC með þessum hætti en við getum augljóslega bætt okkur.

  • Some time ago, I did need to buy a house for my firm but I did not have enough money and couldn’t purchase anything. Thank heaven my brother adviced to try to get the loans at trustworthy bank. Thus, I acted so and was satisfied with my auto loan.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur