Þriðjudagur 24.08.2010 - 09:09 - 16 ummæli

Traustur vinur

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur fundið út að samningaviðræðurnar við Evrópusambandið séu allsekki samningaviðræður heldur sé Evrópusambandið undir yfirskini samninga að véla Íslendinga til hættulegra breytinga á stjórnkerfinu – sem einmitt hefur reynst okkur svo vel – undir yfirskini samninga. Ætlunin sé að fimmta herdeildin veiki svo varnirnar innan borgarmúra stjórnarráðsins að ekki verði nein fyrirstaða þegar áhlaupið loksins hefst.

Í Mogganum í dag leggur ráðherrann fram sönnunargögnin sem sýna að svona er í pottinn búið.

Til er nefnilega minnisblað þar sem segir að vegna samninganna verði að „undirbúa aðlögun landbúnaðarstefnu Íslands að landbúnaðar- og dreifbýlisstefnu ESB“. Vitnað er í ályktun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að tilteknar breytingar þurfi í landbúnaði „áður en aðild Íslands að ESB tekur gildi“ (rammagrein í Mbl., bls. 6). Ekkert kemur frekar fram um minnisblaðið – nema sú túlkun ráðherrans að hér með sé „aðlögunarferlið“ hafið.

Já – sjálfsagt er það svo að ef við ætlum okkur aðild þarf að gera ákveðnar breytingar, hér heima og í regluverki ESB – „áður en aðild Íslands að ESB tekur gildi“. Og hvað með það?

En hvaðan er nú þetta góða minnisblað? Frá fræðimönnum um ESB og íslenska hagsmuni? Frá samningamönnum okkar? Frá óháðri rannsóknarstofnun, hér eða ytra?

Nei. Hið umrædda minnisblað er frá ráðuneytisstjóranum í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, næsta undirmanni Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Endurtek: Heimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um aðlögunarhættuna er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisstjóri.

Það er örugglega ágætur maður, fyrrverandi framkvæmdastjóri Bændasamtakanna og þaráður aðstoðarmaður Halldórs Blöndals landbúnaðarráðherra, Sjálfstæðismaður af Heimastjórnar- og Heimssýnarskólanum. Hlýðinn yfirboðurum sínum. Traustur vinur. Og getur greinilega gert kraftaverk.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Ad Hominem

  • Ekki er öll vitleysan eins.

  • lydurarnason

    Sæll, Mörður.
    Málið er þetta: Þjóðin stendur frammi fyrir stórri ákvörðun sem sumum þykir sjálfsögð, öðrum fráleit. Útkoman er því óviss. Jón er einungis að benda á að skíra ei krógann fyrr en út er kominn. Það finnst mér skynsamleg afstaða, minnisblað eða ekki breytir engu þar um.
    Kveðja, LÁ

  • Það er eðlilega gengið út frá því þegar ríki samþykkja að hefja aðildarsamninga við ESB að það sé þingræðislegur meirihluti á bak við að ganga í sambandið og því sé vilji til að fara í þær breytingar á stjórnkerfinu sem geta sýnt sambandinu fram á að við getum ráðið við að vera fullgildur meðlimur.

    Hérna á Íslandi fékkst hinsvegar bara meirihluti fyrir því að sækja um, en ekki var meirihluti á þingi fyrir að fara inn, eins furðulegt og slík kann að hljóma. Þess vegna er ekki sami sjálfsagði meirihlutinn fyrir að fara í þær breytingar sem innganga myndi krefjast fyrir kosningar, því meirihluti þingheims mun vinna að því að fá samninginn feldan þegar hann kemur til atkvæðagreiðslu.

    Slík staða hefur ekki komið upp fyrr og er einstaklega íslensk þversögn sem kallar á alskonar vandamál í þessu ferli sem ekki hafa verið uppi í öðrum aðildarferlum. Þessi Sirkus mun halda áfram þangað til meirihluti skapast fyrir inngöngu, aðildarumsóknin verður dregin aftur eða hún afgreidd.

  • Já, það er bara þó nokkur fyrirhöfn að gera eitt lítið bjölluat í Brussel.

  • Rafn Gíslason

    Sæll Mörður.
    Ykkur samfylkingarmönnum er vel kunnugt á hvaða forsendum þið fenguð þessa umsókn í gegnum alþingi og það þarf svo sem ekki að hafa mörg orð um það, en Jón Bjarnarson var á meðal 5 þingmanna VG sem létu bóka andstöðu sína við ESB umsóknina áður en þessi ríkisstjórn var hleypt á stokk og það þarf því ekki að koma þér né öðrum í Samfylkingunni á óvart að hann sé málinu fráhverfur.

  • Ómar Kristjánsson

    Já já, en menn taki eftir því samt að umrætt hefur átt nokkurn aðdraganda. Búið að fara í nokkra hringi hjá andsinnum: Þ.e. ,,aðlögunnarferli“ ba bla ,,aðlaga esb lög“ bla bla – þar sem hver andsinninn hefur vitnað í annann hring eftir hring.

    Eg hef margkallað eftir heimildum. Bingó! Minnisblað ráðuneytisstjóra! Og varðandi aðallega landb. þá. (En fram hafa komið vissar athugasemdir við stúktúrinn þar frá ESB)

    Og hvað? Er þetta nú fullkomnað eða? Moggi búinn að geirnegla þetta?

    Þvílíkt rugl alltaf í andsinnum. Afhverju komiði aldreigi með neitt bitastætt gegn aðild að ESB? Er það kannski af því að þið finnið ekkert? Held það. Finnið ekkert sem mælir í mót því sjálfsagða og elilega framfaraskrefi að Ísland gerist aðili að sambandi fullvalda lýðræðisríkja Evrópu – og því eruði endalaust í einhverri lóuspóaþvælu í samfloti við Dabbapóst. En jú jú, sérhver velur sinn félagsskap við hæfi auðvitað.

  • Einar Guðjónsson

    Jón Bjarnason er aðalástæða þess að ég vil að Ísland gangi í Evrópubandalagið. Frábært framtak hjá Jóni.

  • Það má taka undir með Einari hér að ofan. Jón er orðinn besti áróðurspunktur þeirra sem vilja inn í ESB. Sennilega væri sniðugt að útbúa postera og sjónvarpsefni þar sem ráðherrann Jón ruglar einhverja steypu gegn ESB og ratar ekki inn í rétta bíla – og á eftir kæmi traust rödd sem segði: „Veljum fagmennsku, ekki fúsk. Já við ESB“.

    Það er reyndar orðið augljóst að VG-liðar eru lítið skárri en Sjálfstæðismenn hvað varðar nepotisma. Skoðið hverja VG tilnefna í nefndir og ráð: lítt hæfa einstaklinga með takmarkaða þekkingu á málum. JB útnefnir Ásmund Daða sem stjórnarformann vísindasjóðs. Þetta er algert nono af tveimur ástæðum: 1) Yfirgnæfandi og algerum þekkingarskorti viðkomandi á málaflokknum. 2) Hann er þingmaður og á sem slíkur ekki að hafa aðgang að sjóðum eða fjármunum hins opinbera. Sannið til: hann mun tryggja mikið „Rannsóknafé“ til síns kjördæmis og til að greiða fyrir skipunina sem formann mun hann láta mikið fé renna til Skagafjarðar, einkum til Matís.
    Skoðið einnig hverja Katrín Jakobs hefur skipað í háskólaráð. Gamla Allaballa með enga þekkingu á háskólamálum.

    Joe

  • Ómar Kristjánsson

    Það er nóg með að hann eigi að teljast þingmaður formlega – heldur er hann úr sama kjördæmi og Hr. Bjarnason Ráðherra. o.þ.a.l. sterkar línur þeirra á millum. Bjarnason hefði nánast getað skipað sjálfan sig í þetta.

    Auðvitað er þetta algört nono. Þetta er big nono.

    Ætlið það sé ekki þetta sem esb vill ,,aðlaga“ að nútímanum.

    En mao. er bara þetta sem stendur á þessu minnisblaði sem Bjarnason fann uppí Ráðuneyti?

  • Djöfull eruð þið orðnir sorglegur. Shit! ..og Mörður, drullaðu þér bara af Alþingi. Landráðapakk.

  • Ómar Kristjánsson

    Edit: ,,Það er ekki nóg með“ o.s.frv.

    Annars er staðfest það sem eg sagði strax í byrjun. Lóuspóaþvæla par exelance!

    Hahaha þvílíkir bjálfar þessir andsinnar. Láta dabbalinga og almenna öfgamenn samt fáfræðinga hringspila svo með sig .

  • Það er ekki hægt að prumpa nógu hátt til að lýsa þínum vitsmunum, Ómar.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Finnst vikilega einhver sem tekur mark á Jóni?

    Ég ætla ekki að halda því fram að Jón sé idjót, en mikið rosalega gerir hann í því að fá fólk til að halda það. Það hlýtur að vera töluverð vinna fyrir hann.

  • Kristján Kristinsson

    En um hvað snýst málið? Hverjar eru þessar meintu breytingar á stjórnkerfinu?

  • Hversu heimskt er fólk, hvað er að því að skoða samninga, svo kjósa um þá í kosningu… hvað er að því að reyna það?

    Ótrúlegt þykir mér ávallt hvað Íslendingar eru auðveldlega plataðir af sporinu, hér fá þeir tækifæri til þess að sjá hvað ESB hefur að bjóða Íslendingum en hluti Íslendinga er ekki einu sinni tilbúin að leyfa þeim að tala.

    Það er nú sérstaklega bundið við Sjálfstæðisflokkinn en það kannski kemur ekki á óvart því sá flokkur að miklum meirihluta í blindni sinni tekur á móti skipunum frá einhverjum stærsta fasista Íslandssögunnar DO sem situr sem kóngur í kastala sínum við rauðavatn..

    Þessi umræða er með öllu óþörf því öllum sem þykir eilítið vænt um lýðræði ættu að samþykkja það að sjá hvað ESB býður okkur, svo er hægt að rífast um það hvort samningurinn hennti okkur eður ei.

    En að slá samninginn af borðinu áður en hann er tilbúin er einfaldlega slæmt fyrir lýðræðið

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur