Föstudagur 03.09.2010 - 18:57 - 12 ummæli

Velheyrandi

Nú hef ég tekið mér viðurnefnið Velheyrandi. Heyri í Lindu gegnum þrennar dyr. Heyri í símanum inní stofu. Heyri allt sem allir segja á nefndafundunum. Heyri suð og hvísl og vindinn hvína í lauftrjám hinumegin götu. Heyri skýrt hvellar athugasemdir og lágmæltar spurningar frá stuðningssyninum sem varð sex ára síðustu helgi. Heyri dyn kattarins og anda fisksins. Grasið gróa.

Þetta hófst fyrir svona tólf árum í sumarfríi í Frans, í smábænum Argentat við Dordogne-fljót í sunnanverðu Mið-Frakklandi. Indælt frí og eitt kvöldið erum við að ganga heim í miðaldahúsið okkar í bæjarjaðrinum eftir kyrrlátum trjágöngum að kvöldi og Linda fer að tala um hvað engispretturnar séu óvenjulega háværar – en ég heyrði engin engisprettuhljóð og neitaði staðfastlega tilvist engisprettna í Corrèze-héraði. Þetta væri bara einhver ímyndun í henni.

Og lauk um daginn þegar var að byrja framhaldsmynd á Stöð tvö um halastjörnu á leið til jarðar með tilheyrandi vesini og útrýmingarhættu fyrir mannkynið – ég hafði horft á fyrrihlutann kvöldið áður við litla hrifningu á heimilinu en var núna að dunda við stofuborðið, og alltíeinu fer Linda að tala eitthvað um hundasund mannkynsins. Það þótti mér sérkennilegt. – Ha? Hundasund mannkynsins? spyr ég. En þá hafði hún verið að tilkynna mér að nú væri á Stöð tvö runnin upp hinsta stund mannkynsins.

En auðvitað byrjaði þetta miklu fyrr, í sjálfum Dalagenunum. Pabbi er kominn með heyrnartæki fyrir löngu og við þurftum alltaf að tala hátt við hana ömmu mína í gamla daga – einn föðurbróðir minn var sífellt að nudda í mér þegar ég var í Útvarpsráði og fannst hálfgerður aumingjaskapur að ég skyldi ekki ráða við að láta texta allt í Sjónvarpinu, heyrði ekki bofs. Og sá þeirra bræðra sem stóð mér næst var svo slæmur undir lokin að við bara sátum og horfðumst í augu.

Eftir hundasundið dreif ég mig loksins til heyrnarfræðingsins Ellisifjar Katrínar Björnsdóttur í Kópavogi – mæli með henni, ákaflega fær og líka ljúf við skilningssljóa karla á miðjum aldri. Hún mældi í mér heyrnina og hampaði svo línuriti þar sem vantaði eitt hornið. Jamm – ég skil þetta – en þarf ég nokkuð heyrnartæki? Spurði ég og hún sagði já, að sjálfsögðu. Spurði þrim sinnum í samtalinu, fékk þrim sinnum sama svarið.

Vill til að þessi tæki eru bæði létt og meðfærileg – og ber næstum ekkert á þeim, bara svolítill glær þráður niður í hlustina. Þetta er sumsé nokkuð langt frá öfuga lúðrinum á skrípamyndunum. Samt leið mér einsog þetta væri einhverskonar ósigur, og þegar ég gekk með tækin til reynslu næstu daga – gekk og keyrði og hjólaði og talaði og horfði á sjónvarpið og fór á völlinn og hlustaði á vind og regn og börn og konur – þá fannst mér að alltíeinu færðist yfir mig ógnarlega mikill aldur. Hvað er ég eiginlega orðinn gamall? Ég sem er alltaf ungur! Ég sem hélt ég væri svo allt öðruvísi en þetta léttsjúskaða og þreytulega lið sem var með mér í skóla í gamla daga!

En þetta er auðvitað ekki aldur, og á ekki heldur að vera nein skömm, frekar en gleraugu eða önnur verkfæri sem nútímafólk notar til að lifa heilu lífi. Hef tekið gleði mína. Eftir að ég gerði þá tilraun að skilja tækin eftir einn morguninn og fara gegnum daginn án þeirra – og uppgötvaði að það vantaði allt í einu eitthvað – hljóðheimurinn var bara hálfur.

Og tók þá einu ákvörðunina sem til greina kom.

Svo er önnur saga hvað þetta er dýrt – og hvað það kemur lítið úr sameiginlegum sjóðum til fólksins sem þarf á þessu að halda. Ég valdi á milli tækja uppá 250 og 350 þúsund – að framlagi TR frádregnu, en það er um 60 þúsund sama hvað tækin kosta og sama hvaða tekjur kaupandinn hefur. Ég get auðvitað borgað, en hvað um gamla fólkið og þá atvinnulausu og námsmennina? Þarf að ræða þetta við Guðbjart.

Þetta var ekki spurning eftir tækjalausa tilraunadaginn með hálfa heyrn. Bara að deila kostnaðinum niðrá alla dagana sem fyllast af týndum hljóðum – og svo er að átta sig á því ef manni finnst skammarlegt að vera heyrnarlaus – að það er einmitt liðin tíð. Það var þá. Nú er ég Velheyrandi.  Bróðir Velvakanda og Velhöggvanda og Velbergklifranda. Heyri allt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

 • Elín Skeggjadóttir

  Til haningju Mörður með breytt og betra viðhorf. Það er nefnilega fráleitt að biðja afsökunar á aldri sínum.(Þótt þú sért mög ungur!) Það eru forréttindi að fá að eldast.Og nú fer fólk að velja sér smart heyrnartæki sbr.gleraugu.Gott.

 • Gagarýnir

  Heyrnarleysi er ein alvarlegasta fötlun sem til er. Það er nokk dálítið merkilegt hvað heyrnin skiptir miklu máli. Er það ekki málið sem heyrnleysingjar missa af? Flestir þekkja þá einsemd að vera á skemmtistað og hávaðinn er svo mikill að manni finnst maður týndur og einn, þó í þvögunni miðri.
  Sérlega eru mál barna sem ekki hafa heyrn bara sorgleg. Málefni eldra fólks eru af örðum toga.

 • Takk fyrir þetta, Mörður, læt pabba lesa sem er tregur til að fá sér tæki þótt hann sé orðinn 84 ára gamall og farinn að heyra illa.

  Kannski ég fari líka aftur til læknis, sjálfur lenti ég nefnilega í því á hægra eyra að verða fyrir skyndilegu, óútskýranlegu heyrnartapi.

  Enginn minntist á tæki, enda ég jafnvel bráðyngri en þú.

 • Hallgerður langbrók

  Fegurð. Jafnvel örljóð? Takk, það er svo mikil hvíld í raunveruleikanum.

 • Serafina

  Takk fyrir þetta, Mörður. Heyrnartap er því miður ekki eingöngu tengt aldri, þótt það sé algengara. Mörg manneskjan hefur þurft að sæta því að verða fyrir heyrnarskaða t.d. við vinnu sína, þótt nú orðið sé farið að leggja fólki til heyrnarhlífar á hávaðasömum vinnustöðum. Þá hefur reyndar komið til ný hætta, en það er þegar útvarpsviðtæki eru byggð inn í heyrnarhlífarnar. Mörgum hættir til að stilla viðtækin það hátt, að þau eru farin að valda skaða sem slík.
  En takk fyrir góðan pistil, enn og aftur.

 • Margrétj

  Mörður minn – VERÐIÐ er í anda íslenskrar „Norrænnar velferðarstjórnar“.
  Talaðu við Jóhönnu – athugaðu hvort hún væri nú ekki til í að hætta að vera svona agndofa yfir öllu og snúa sér að því að standa við stóru loforðin.
  Þá fengirðu svona heyrnatæki á 50 þúsund eins og í Danmörku eða frítt ef þú værir atvinnulaus eða gamall – jafnvel fengir þú fá nokkrar tennur í kauptbæti ef á þyrfti að halda.
  Eitthvað annað en í þessu okurbananalýðveldi, sem þið kallið „Nýja Ísland“.
  Ég skil hins vegar alveg að við séum enn blankari en áður eftir að þjóðin var svo höfðingleg við Björgólf Thor að gefa honum eftir aææar milljarðaskuldirnar hans.

  ÞAÐ kalla ég flotta „skjaldborg“ hjá frúnni!!

 • Dofri Hermannsson

  Má ekki taka peningana sem fer í útlenskan fótbolta og sambærilegt efni á Rúv, gera íslenskt efni og texta allt fyrir afganginn?

 • Unnur G. Kristjánsdóttir

  Til hamingju með heyrartækin Mörður, gott til þess að vita að meðalheyrn þingmanna sé að aukast.
  Þú ert til fyrirmyndar að bæta fyrir skort á hlustun – sem var sérstaklega gagnrýnt í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.
  Með fjármálin, er þetta ekki atvinnutæki fyrir þig og því frádráttarbært frá skatti?
  Passaðu að fara ekki með heyrnartækin í sund (Sturla fór einu sinni í sturtu með sín en þau lifðu af).
  Mundu líka að það er sniðugt að taka þau af sér þegar einhver fer í taugarnar á þér!

 • Adalsteinn

  Velheyrandi, gott þú ert farinn að heyra almennilega vel.
  Fallegt væri af þér að lána félögum þínum inni á þingi
  heyrnartækin, svo þeir heyri að fólk vill frjálsar handfæra veiðar,
  eins og þú lofaðir einu sinni.

 • Þorsteinn Úlfar Björnsson

  Það má líka segja að þeir sem fá sér heyrnartæki séu þar með búnir að taka „bullshit“ filterinn úr sambandi. Og þú vinnur á Alþingi!

  Eina ástæðan fyrir því að ég fæ mér ekki heyrnartæki er sú að án þess hef ég bullshitfilter sjálfrar náttúrunnar.

 • Maður hlýtur að samgleðjast en mikið ofboðslega þætti okkur hjónaleysunum gott að fá 60þús.hvort úr ríkiskassanum til að endurnýja 15 ára gömul gleraugu sem varla sér í gegnum lengur. Úr því að þar er eitthvað til.
  Langflestir notendur heyrnartækja eru komnir á miðjan aldur með fækkandi kostnaðarliði en nærsýni/sjónskekkja brestur á mun fyrr og getur orðið kostnaðarsöm fyrir stórar fjölskyldur.
  Og nú þekki ég sæmilega til heilbrigðismála og veit vel að allmörg þessara tækja sem TR hefur fjárfest 60þús. í enda uppi á hillu og safna þar ryki (ólíkt gleraugum sem flest lifa lífinu á nefi eigendanna – enda allar athafnir daglegs lífs ómögulegar án þeirra).
  Þingmaðurinn verður að afsaka en þegar hann gefur i skyn að auka eigi niðurgreiðslur sérstaklega á þessu sviði fer blóðið að renna aðeins hraðar hjá mér. Ég tilheyri þeirri stétt sem ákveðið hefur verið að skuli borga fyrir bankahrunið fremur öðrum (borgunarmaður, ein fyrirvinna, ágætar tekjur, stór fjölskylda og nú síðast: Aðeins verðtryggð íbúðalán í krónum) og er umhugað um að skattféð nýtist vel.
  Það eitt að hátækni-heyrnartæki skuli nokkuð vera niðurgreidd er bara býsna vel boðið, og eins og ég er að benda á ekki alls kostar sanngjarnt í samanburði. Tannlækningar, einhver?
  Má einnig benda þingmanninum á að sami aðili og greinir hjá þér heyrnartapið býður þér heyrnartækið til kaups (eins og ég skil það). Og þiggur væntanlega greiðslu fyrir söluna. Slíkt þætti vafasamt víðast hvar nema í þessum geira.
  Takk samt fyrir snjalla og fróðlega pistla.

 • Baldurkr

  Takk fyrir pistilinn. Annar Dalamaður ætlar að athuga málið. Kv. B

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur