Miðvikudagur 08.09.2010 - 07:57 - 22 ummæli

Hin leiðin er engin leið

Nefndin sem einhverjum snillingnum datt í hug að kenna við sættir hefur nú skilað af sér og segist hafa fundið upp tvær leiðir til að framkalla réttlæti og skynsemi í sjávarútvegi. LÍÚ, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur fara fyrir annarri leiðinni, sem hefur fengið hið skáldlega heiti samningaleiðin, en hin er einsog munaðarlaus í nefndinni enda heitir hún bara tæknilegu nafni, tilboðs- eða uppboðsleið.

Með síðarnefndu leiðinni er gert ráð fyrir innköllun og endurúthlutun aflaheimilda á löngum tíma þannig að enginn lendi í vandræðum en að lokum náist það mark að þjóðin eigi sjávarauðlindina í raun og fái sanngjarnt gjald fyrir nýtingu hennar. Nýliðun er tryggð og alþjóðakröfum um mannréttindi á Íslandi fullnægt. Þetta er ágæt útgáfa af fyrningarleiðinni (æ, fyrirgefðu Gutti ég skuli vera svo ódannaður að missa útúr mér þetta orð).

Hin leiðin, leiðin sem LÍÚ bendir á, er eiginlega hvorki fugl né fiskur einsog hún er kynnt í skýrslunni. Þar fer niðurstaðan algerlega eftir útfærslunni. Þeir sem vilja halda áfram núverandi kerfi alveg óbreyttu geta sagst styðja þessa leið, því það er einfaldast að hugsa sér útfærslu sem engu breytti. Aðrar útfærslur gætu vissulega breytt kerfinu og bætt að hluta – en þó varla svo að full mannréttindi næðust að kröfu SÞ-nefndarinnar þar sem núverandi „eigendur“ kvótans hefðu alltaf yfirhöndina. Þessvegna hefur hún meirihluta í þessari hagsmunanefnd. Samningaleiðin“ eða “samninga- og auðlindaleiðin“ eða LÍÚ-leiðin eða hin leiðin – er ósköp einfaldlega engin „leið“ heldur lauslegar hugmyndir utanum núverandi kerfi. Með henni er hægt að halda áfram sama veginn.

Nefndin er búin að vera að í heilt ár rúmlega, og tafir í nefndarstarfinu hafa þegar slátrað tímasetningu sjávarútvegsumbóta í stjórnarsáttmálanum. Samt hefur nánast ekkert gerst í hugmyndavinnu merkilegra en þegar var komið fram í skýrslu auðlindanefndar frá því á öldinni sem leið árið 1999. Þar voru líka tvær leiðir, önnur sem lagði til umbætur með fyrningu/tilboðum og hin sem gerði ráð fyrir því að sömu útgerðarmenn sætu áfram að miðunum gegn ofurlítilli borgun. Við erum í sömu skrefunum núna og fyrir ellefu árum.

LÍÚ vann þessa lotu – einsog sjá mátti á fulltrúa þeirra í Kastljósinu í gær, hinum hlakkandi Einari K. Guðfinnsssyni. En næsta leik á ríkisstjórnin og það bandalag gegn óréttlæti og rugli í sjávarútvegi sem lengi hefur notið meirihlutafylgis meðal þjóðarinnar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Friðrik Sig

    Nú er að sjá hvort V og S hafa hryggsúluna í lagi! Ykkur ber að standa við gefin loforð um að breyta þessu skelfilega kerfi sem er að leggja landið okkar í eyði.

  • sverrir b

    Rétt hjá þér Mörður! Samfylkingin verður að standa sig í stykkinu. Það má ekki láta sem LÍÚ mafían hafi einhvern tímann átt eitthvað sem þjóðin á (og ríkið fer með forræði yfir).

  • Margrét

    Í Kastljósinu voru báðir viðmælendur talsmenn LÍÚ. Það mátti ekki á milli sjá.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Ég er farinn að verða hættulega oft sammála þér…

  • sigthor jonsson

    Ef þetta verður rauninn eru þetta kosningasvik.

    Og augljóst að samfylkingin og VG hafa engan áhuga á að hafa auðlindir í þjóðareign, samanber Magma málið sem þeir höfðu rúman tíma til að stöðva, en ekkert fór að gerast fyrr en það var of seint.

  • Garðar Garðarsson

    Góður pistill Mörður og gott að sjá að þú stendur í lappirnar í þessu máli. Nú er spurningin hvort aðrir samflokksmenn þínir og Vinstri Grænir geri það sama?

    Fyrir hvaða hagsmunum talar meirihluti endurskoðunarnefndar um fiskveiðistefnuna og þar á meðal hinn ágæti Guðbjartur? Ekki fyrir meirihluta þjóðarinnar vil ég fullyrða?

    Hvers vegna er tilboðsleið doktors Jóns Steinssonar ekki farin?
    http://www.columbia.edu/~js3204/greinar/tilbodsleidinglaerur.pdf

    Leyfum þjóðinni að kjósa á milli tilboðsleiðarinnar og samningaleiðarinnar, það er lýðræði.

  • kannski ekki skrýtið að Katrínu Júll. finnist ekkert ganga vegna þess að stjórnarandstaðan sé alltaf „að þvælast fyrir“. Stór hluti þingmanna stjórnarflokkanna eru meira eða minna á móti flestum málum sem ríkisstjórnarflokkarnir leggja til.

    Það var ríkisstjórnin sem setti þessa sáttanefnd á laggirnar. Ólína Þorvarðar hótaði að taka fiskinn af útgerðarmönnunum ef þeir myndu ekki setjasta við borðið í þessari sáttanefnd.

    Svo loksins þegar sáttanefndin sest niður, kemst að niðurstöðu um leið sem flestir geta orðið ásáttir um, þá er það eins og venjulega samfylking sem rís upp á afturlappirnar. Hvers vegna? Heldur Mörður og co. virkilega að flokkur eins og Samfylking, sem er á góðri leið með að verða flokkur sem mælist í léttvínsfylgi hafi eitthvað um málið að segja einn og sér?

    Þessi sáttanefnd var sett á laggirnar itl að koma á sáttum, svo hægt væri að setja upp eitthvert system til frambúðar. Nú er nefndin búin að koma með tillögur sem hægt er að sætta sig við. Af hverju er þá Samfylking að setja sig upp á móti? Verður flokkurinn ekki einfaldlega að beyjga sig undir álit meirihlutans og samþykkja þessar tillögur?

  • Mr. Crane

    Byggist sátt Marðar á því að allir verði sáttir nema þeir sem hafi greinina að atvinnu?

    Byggist sátt Marðar á að allir sem að greininni koma kokgleypi hugmyndir Marðar Árnasonar um fiskveiðistjórnun?

    Þetta hljómar nú eins og það sé að brjótast fram persónulegt hatur Marðar á útgerðarmönnum frekar en leit að sátt. Ofbeldi frekar en sátt. Margir í Samfylkingunni tala eins og þeir hati útgðerðarmenn. Þetta þekki ég af því að hafa starfað innan Samfylkingarinnar. Mörður og fleiri þurfa að slá á þessar tilfinningar sínar, telja upp að tíu og þá er hægt að ná sátt um stjórnun fiskveiða hér við land.

  • Sævar Helgason

    Takk fyrir góðan pistil,Mörður.
    Nú reynir á Samfylkinguna. Að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu tengt fyrningaleið var ein af höfuðáherslum í síðustu kosningum.

    Þessi sáttanefnd sem skipuð hefur verið hagsmunaaðilum- að mestu -hefur skilað tveimur tillögum að útfærslu-samningaleið og tilboðsleið.

    Svo mikið sem leiðirnar hafa verið kynntar virðist saningaleiðin fela í sér nær óbreytt kerfi og er henni haldið mjög á lofti af sægreifum og LÍÚ.

    Tilboðsleiðin er nær markmiðum Samfylkingarinnar.

    Nú fer þetta nefndarálit inn á borð stjórnarflokkanna til pólitískrar umræðu og ákvörðunar. Við fylgjumst grant með.

    Mín skoðun er sú að þessi samningaleið sé með öllu óásættanleg. Hún breytir litlu sem engu frá því sem nú er.

    Náist ekki fullnægjandi sátt- þá er sú leið studd að setja málið í þjóðaratkvæði…

  • Grundvallaratriðið í þessari svokölluðu samningaleið er að aflaheimildirnar eru í reynd innkallaðar á einu bretti og svo er tímabundum nýtingarrétti úthlutað af fulltrúum eigenda auðlindarinnar (þjóðarinnar) gegn afgjaldi. Niðurstaðan hvað varðar eignarhald þjóðar á auðlindinni og afnám kerfis þar sem útgerðir geta gert aflaheimildir að féþúfu er að lokum sú sama. Enda þarf í framhaldinu að ná niðurstöðu í hvernig staðið verður að úthlutun og verðmyndun á nýtingarrétti.
    Þetta er fullur sigur gagnvart eignakvótanum og framsalinu ef rétt er á málum haldið.
    Leiðin til að selja útgerðinni þessi grundvallaratriði virðist vera að stórum hluta aflaheimildanna verði úthlutað til þeirra aðila sem þegar hafa fjárfest í greininni. Þetta á hins vegar eftir að útfæra, m.a. sjálfa samningana, tímalengd og fleira.
    Hins vegar er aldrei hægt að jafna slíkum nýtingarsamningum við núverandi „eignarrétt“ með framsalsmöguleikum.
    Við eigum að sameinast um að líta á sóknarfærin í niðurstöðunni.

  • Adalsteinn

    MÖRÐUR, þú lofaðir okkur frjálsum handfæraveiðum,
    stattu við það. Þúsundir manna gætu þá skapað
    sér og öðrum vel launuð og skemmtileg störf.
    Þetta gæti orðið næsta stóriðja, og ríkið
    leggur ekki út krónu, þetta fer líka vel með miðin.

  • Unnur G. Kristjánsdóttir

    Takk fyrir þennan pistil og hvet þig til frekari dáða í þessari umræðu Mörður, mér líst ekkert á ef félagar okkar ætla að taka þátt í þessu drullumalli.
    Samfylkingin getur ekki samþykkt neitt í sjávarútvegsmálunum nema það innifeli
    a) örugga eign þjóðarinnar á auðlindinni
    b) greiðslu til þjóðarinnar fyrir nýtingu
    c) framsal nýtingaheimilda á hendi ríkissins (og engra annarra)
    d) nýkliðun í atvinnugreyninni sé tryggð og að lokaður hópur eigi ekki forgang.

    Hvað vill Vg í þessu máli?
    Óbreytt ástand?
    Fyringaleið eða samningaleið?

  • „Þessi sáttanefnd var sett á laggirnar itl að koma á sáttum, svo hægt væri að setja upp eitthvert system til frambúðar. Nú er nefndin búin að koma með tillögur sem hægt er að sætta sig við.“

    Hverjir geta sætt sig við þessar tillögur? LÍÚ?

    Ég er bara ekkert sammála því að það eigi að leita sátta í þessu máli ef sáttin felur í sér að þeir sem hafa farið fram á leiðréttingu á ranglæti sætti sig við óbreytt kerfi. Við hljótum að vera að kalla eftir niðurstöðu sem vegur að hagsmunum LÍÚ því þeirra hagsmunir virðast felast í áframhaldandi ranglæti. Bara það að Einar K. Guðfinnsson og LÍÚ eru sáttir við þetta gerir mann óneitanlega tortrygginn á niðurstöðuna. Ekki síst þar sem Einar virðist mótfallinn þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta.

  • Þráinn Guðbjörnsson

    Afhverju get ég ekki nálgast fínt glærusjóv fyrir samningaleiðina líkt og með tilboðsleiðina? Er verið að fela eitthvað ? Er ekki hægt að tala efnislega um málið?

    Annars mér sýnist fulljóst að tilboðsleiðin tryggi að ríkið fær markaðsverð fyrir aflaheimildir.

    Hvað annað gæti sannur kapítalisti viljað?

    Jú, hann vil eiga auðlindina og skapa einhverskonar framsalsmarkað væntanlega.

    En ríkisstjórnin lofaði þessu fyrir síðustu kosningar einnig sem nýjar áherslur kveða skýrt á um að þjóðin eigi auðlindina þ.a. ég þarf væntanlega ekki að hafa áhyggjur … eða hvað ?!?

  • Uni Gíslason

    a) örugga eign þjóðarinnar á auðlindinni
    b) greiðslu til þjóðarinnar fyrir nýtingu
    c) framsal nýtingaheimilda á hendi ríkissins (og engra annarra)
    d) nýliðun í atvinnugreyninni sé tryggð og að lokaður hópur eigi ekki forgang.

    Fyrir utan þá sem eru að verja hagsmuni LÍÚ, þá eru nær allir Framsóknarmenn, ekki síst ungir Framsóknarmenn, fullkomlega sammála ofangreindu – og því sorglegt að sjá hvernig umboðsmenn flokksins í þessari sáttanefnd klúðra hlutunum.

  • Skil ekki hvernig hægt er að fá út að samkvæmd þessari „samningaleið“ hafi „núverandi eigendur kvótans“ alltaf yfirhöndina frekar en t.d. í fyrningarleiðinni þar sem gert var ráð fyrir að innkallað yrði um 5% aflaheimilda á ári í 20 ár. Sumsé 95% í höndum „eigenda kvótans“ fyrsta árið, 90% annað árið og svo framvegis. Á áttunda ári væru enn 60% kvótans í höndum „núverandi eigenda kvótans“ og miklar líkur á að stór hluti endurúthlutunar á 40% hafi farið til sömu aðila.

    Með samningaleið eru allar aflaheimildir innkallaðar til þjóðarinnar á einu bretti og samið um tímabundinn nýtingarrétt gegn gjaldi.

    Hin smáu skref fyrningarleiðarinnar voru til að mæta gagnrýni á að ekki mætti kippa rekstrargrundvellinum undan greininni og virða ætti fjárfestingar sem lagt hefði verið í. Tímabundinn forgangur núverandi kvótahafa að samningum um nýtingarrétt á tilteknum meirihluta endurúthlutaðra aflaheimilda þjónar nákvæmlega sama tilgangi.

    Svarið mér endilega af hverju önnur leiðin er meiri uppgjöf gagnvart núverandi kvótahöfum en hin?

  • Garðar Garðarsson

    Arnar, á ekki að semja við sömu aðila og hafa kvótann í dag og því verður ekki nægileg nýliðun í greininni? Það er verið að mismuna fólki með samningaleiðinni með því að úthluta sömu aðilum kvótann (semja) og eru með hann í dag, og ekki fæst markaðsverð á kvótann eins og með tilboðsleiðinni.
    Samningaleiðin býður upp á rangt verði kvótans og spillingu í samningaviðræðum, þar sem það á að gera einhverskonar mat á fjárhagslegri stöðu atvinnugreinarinnar sem getur orðið flókið.

    Með tilboðsleiðinni mun einfaldlega markaðurinn ráða verði kvótans og er það ekki það sem við flest viljum?

  • Skúli E

    Ég þakka góðan pistil. Mörður, komdu vitinu fyrir aðra þingmenn Samfylkingarinnar.
    Tilboðs- eða uppboðsleiðin á að vera leið Samfylkingarinnar og annarra sem aðhyllast heilbrigða samkeppni, markaðsvæðingu í þágu almennings og jafnræði borgaranna.
    Alþingi ræður, ekki nefndin.

  • Hrafn Arnarson

    Góður pistill. Þjóðin verður að fá að greiða atkvæði um afnám kvótakerfisins.

  • Trausti Þórðarson

    Takk Mörður.
    Sérhver stjórnmálaflokkur þarf að eiga órólega deild svo hann detti ekki í sama foraðið og sjálfstæðis og framsóknarflokkurinn þar sem foringinn talar en hinir klappa.
    Ég átta mig ekki á hvaða ódannaða orð það var sem þú óttaðist að færi fyrir brjóstið á Guðbjarti:mannréttindi eða fyrningarleið?ég hélt að hann væri hlynntur hvorutveggja.
    Láttu ekki deigan síga.

  • Góður pistill Mörður, held ekki að þú sé að hatast við útgerðarmenn, en hitt er augljóst að margir eru orðnir hundleiðir á að kvótagreifar til lands og sjávar stundi nánast sjálftöku á verðmætum í boði þjóðarinnar. Því er löngu tímabært að ljúka. Augljós ánægja Einars K. Guðfinnssonar með ,,samningaleiðina“ segir allt sem segja þarf, þ.e. hún hugnast útgerðarmönnunum sem hann er fulltrúi fyrir á þingi.

  • Mörður, það ert þú og Alþingi sem ákveðið þetta á endanum. Vilji þjóðarinnar hefur komið skýrt fram undanfarin ár. Mönnum misbýður framsalsbraskið og ruglið sem viðgengist hefur kringum þetta viðbjóðslega kerfi. (Við sjáum hluta afrakstursins í aðaleiganda Morgunblaðsins).

    Það verður að fara fyrningarleiðina (finnið bara fínna orð á hana, ef þetta fer eitthvað fyrir brjóstið á mönnum). Fimm prósent á ári er passlegt. Ef menn velta því fyrir sér hverjir verði í stakk búnir til að bjóða í þau 5% sem bætast við í tilboðspottinum á hverju ári, þá blasir það við, þ.e. þeir sem þegar búa yfir skip, mannskap og veiðireynslu. Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna meintir kapitalistar eru á móti FRJÁLSUM UPPBOÐSMARKAÐI (þarna er kannski komið nýja heitið á fyrningarleiðinni).

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur