Fimmtudagur 09.09.2010 - 16:09 - 14 ummæli

Agnes og Davíð – túkall

Agnes Bragadóttir á að njóta sannmælis. Hún er duglegur og óttalaus blaðamaður með ágæt sambönd – vel tengd – og þessvegna oft fyrst með fréttirnar. Agnes kann líka að taka viðtöl, getur kallað fram persónuna í viðmælendum sínum og gengur oft nokkuð nærri þeim án þess að samband bregðist milli blaðamanns, lesanda og viðmælanda.

Því miður er Agnes Bragadóttir líka feikilega vondur blaðamaður þegar kemur að faglegum frumatriðum kringum heimildarýni og þeirri grundvallarforsendu í almennilegri fjölmiðlun að blaðamaðurinn sé fyrst og síðast fulltrúi lesanda síns, áheyranda eða áhorfanda – en ekki undir annarlegum áhrifum við að hagræða fréttaflutningi eða hanna atburðarás.

Sennilega urðu einmitt báðar þessar hliðar á Agnesi til þess að Davíð Oddsson gerði hana að meginstjörnu á Morgunblaðinu eftir að hann tók þar við – og sleppti við hana öllum þeim faglegu kröfum sem Styrmir Gunnarsson hafði uppi.

Frétt Agnesar í morgun um Samfylkinguna og þingmannanefndina er fróðlegt dæmi um samspil gallaða stjörnublaðamannsins og pólitíkussins í ritstjórastóli. Þar er tilkynnt að þinglið Samfylkingarinnar sé að bræða með sér hverja eigi kæra fyrir landsdómi – og séu að myndast tveir armar utanum tiltekna sakborninga – allt hafi svo farið í hund og kött á þingflokksfundi í gærdag.

Það skiptir eiginlega minnstu máli hversu vitlaus þessi frétt er – að hvorki brá fyrir hundi né ketti á þingflokksfundi gærdagsins, þar sem rætt var um störf þingsins og skil þingmannanefndarinnar (ekki einusinni honum X sem oftast dormar útí horni, labradornum hans Helga), – að fulltrúar flokksins hafa í engu brugðist trúnaðarskyldu sinni innan þingmannanefndarinnar og ekki flutt þaðan neinar fréttir nema um hugsanlegar tímasetningar fyrir niðurstöðu og umræður, – að formaðurinn og utanríkisráðherrann hafa hvorugt lýst neinni skoðun á kærumálunum og ekki vitað að þau hafi neina slíka áður en þeim verður einsog öðrum þingmönnum gert að taka afstöðu til tillagna þingmannanefndarinnar. Sem ekki verður auðvelt verk fyrir nokkurn alþingismann. 

Agnes hefur auðvitað heyrt eitthvað haft eftir einhverjum öðrum sem segist hafa talað við þann þriðja – og einsog venjulega litið á það sem fullnægjandi heimild fyrir gamla stórveldið á blaðamarkaðnum. Það skiptir sosum ekki máli heldur.

Það athyglisverða við Moggafréttina er að nú, tveimur dögum fyrir skil þingmannanefndarinnar, telja þau Agnes og Davíð rétt að beina kastljósinu að Samfylkingunni – og ekki síður: Reyna að gera þennan feril að tómri flokkapólitík, jafnvel þannig að einstakir armar takist á um það hvern eigi að senda fyrir dómarana og hverja ekki.

Þetta spáir ekki góðu um viðbrögð Davíðsvina á þingi og annarstaðar í samfélaginu við niðurstöðum þingmannanefndarinnar. En kannski er leikurinn til þess gerður að draga athyglina frá hinu augljósa:

Hvernig sem bekkur sakborninga verður skipaður eftir að alþingi hefur fjallað um niðurstöður þingmannanefndarinnar er fyrirfram ljóst að þar vantar þann eina mann sem ábyrgð hans er meiri en allra annarra á þeim ósköpum sem yfir okkur hafa dunið frá því á haustdögum 2008.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Pétur G.

    Við hvern áttu, Mörður?

    Össur?

    Jóhönnu Sig.?

    Árna Matt?

    ….eða manninn sem allt Samfylkingarfólk elskar að hata, Davíð Oddsson?

  • Nei, maður hefur einmitt heyrt að það sé engin áhugi á þessu í Samfylkingunni.

  • Heyr heyr –

    heyrst hefur að verið sé að kanna hvort hægt sé að fara í einkamál við manninn og draga hann fyrir dómstóla.
    Vonandi tekst það

  • Frá upphafi var ljóst, að starf þingmannanefndarinnar yrði ekkert annað en hálfkák og sjónarspil. Sett á svið til þess að þjóna almenningsálitinu og slæva aðeins reiði fólksins. Þingmenn sem meira og minna brugðust allir í aðdraganda hrunsins fengu það hlutverk að finna sökudólga, blóraböggla í eigin röðum og hafa nú komist að niðurstöðu. Fjórir hafa verið tilnefndir til þess að mæta örlögum sínum fyrir landsdómi. Þar með geta aðrir þingmenn og ráðherrar andað léttar. Þjóðin er á góðri leið með að fá reiði sinni svalað. Þingið hefur talað og smiðir kallaðir til að reisa aftökupallinn. Þvílík hræsni.
    Og hverjar eru svo sakir Geirs Haarde, Ingibjargar Sólrúnar, Björgvins Sigurðssonar og Árna Matthiesen. Þau voru við stjórnvölinn þegar bankakerfið hrundi og ósköpin dundu yfir. Dettur nokkrum manni í hug, að þessir ágætu einstaklingar hafi einir og sér og viljandi komið þeirri skriðu af stað. Því fer fjarri. Staðreyndin er sú, að fjölmargir samverkandi þættir leiddu til þessara ófara og þeir eru kortlagðir í rannsóknarskýrslunni.
    Nær væri að þingið tæki á sig rögg og ræddi skýrsluna í þaula og reyndi síðan að finna leiðir til að koma veg fyrir að sagan endurtaki sig. Bankaheimurinn er við sama heygarðshornið og var í aðdraganda hrunsins, Fjármálaeftirlitið virðist lamað og nær ónýtt, Samkeppnisyfirvöld einskis virði og afsaka vesöldina með því að hafa ekki lagaheimildir til aðgerða.
    Alþingi Íslendinga er að breytast í rannsóknarrétt þar sem aðalatriðið er að finna einhverja til þess að hengja svona til að gleðja lýðinn.
    Að finna leiðir til að fyrirbyggja að sagan endurtaki sig; hefja Ísland til vegs á nýjan leik með þróttmikilli atvinnuuppbyggingu virðist vera aukaatriði. Störf þingsins síðustu daga eru til vitnis um það.

  • En Davíð er alsaklaus hann varaði vi þessu.

  • Agnes Bragadóttir er málaliði, líkt og Davíð Oddsson og Hannes Hólmsteinn.

    Það er því mjög eðlilegt að þetta fólk plotti og plani saman enda eru þau öll á sama undirmálssvæðinu og eiga hvort annað skilið.

    Sagan sér um þau öll.

    Hvað varðar Agnesi sérstaklega þá er hún enginn blaðamaður og hefur aldrei verið. Blaðamaður er frjáls og óháður og vinnur fréttir af einurð og samviskusemi, er óhræddur við ríkjandi öfl og haldinn sannleiksþrá og mikilli réttlætiskennd.

    Ekkert af þessu á við Agnesi. Hún vinnur á vernduðum vinnustað eins yfirmaður hennar Davíð gerir líka. Hannesi var plantað í Háskóla Íslands og er ævistarf hans falið í því að þakka fyrir það með því að fórna fræðaheiðri sínum (ef hann hafði hann þá).

    Ef Davíð sér ekki um Hannes og Agnesi hver gerir það þá?

    Enginn.

    Þau væru munaðarlaus og ættu engan verndaðan vinnustað vísan.

    Hver verndar Davíð?

    LÍU.

    Hver verndar LÍÚ?

    Davíð.

    Þetta er kerfi samtryggingar og spillingar, sama kerfi og setti Ísland á hausinn.

    Ekkert nýtt hér 🙂

  • Guðmundur

    Gaman að Baugstrúðarnir hafa einhvern sem hægt er að kenna um allt.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Næst á eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur er Davíð Oddsson áhrifamesti stjórnmálamaður Samfylkingarinnar frá stofnun.

  • jón snærisþjófur

    Villi Egils varar við þessu og er hræddur f.h. þjóðarinnar. Hann er reyndar sjálfur hrunkvöðull.

  • Mér finnst framsókn sleppa billega frá umræðuni hérna.

  • @Hnefi

    Algjörlega sammála !

  • Pétur G.

    Hver verndar Baug og Jón Ásgeir?

    Samfylkingin.

    Hver verndar Samfylkinguna?

    Jón Ásgeir og Baugur.

    Hver stjórnar helstu fjölmiðlun landsins?

    Jón Ásgeir og félagar hans?

    Fyrir hverja eru þessir fjölmiðlar’

    Fyrir Jón Ásgeir og félaga.

    Til hvers eru þeir notaðir?

    Sem áróðursmaskína Samfylkingarinnar og til að hvítþvo Jón Ásgeir og annað útrásar- og peningasukkhyski.

    Til að mynda minnist málgang Samfylkingarinnar, Fréttablaðið, ekki einu orði á hugsanlega landsdóm í seinustu tveimur útgáfum sínum, enda miklir hagsmunir í húfi fyrir Samfylkinguna.

  • Páll Heiðar

    Öll rannsóknarmennska,réttarhöld og ferli er gjörsamlega gagnslaus ef fyrrum seðlabankastjóri og núverandi ritstjóri mbl. verður ekki látinn sæta ábyrgð

  • Pétur G.

    Ég sé að hefndar þorsti Samfylkingarfólks í garð Davíðs Oddssonar er óslökkvandi.
    Og því mun þetta fólk ekki una sér hvíldar fyrr að það sér hann nánast krossfestan fyrir sakir sem það sjálft skilgreinir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur