Sunnudagur 12.09.2010 - 20:58 - 11 ummæli

Kem af fjöllum

Var að koma af fjöllum – núna rétt fyrir kvöldmat, úr frábærri ferð með Sigmundi Einarssyni um hugsanleg virkjunarsvæði í eldsveitunum – og heyri ljósvakafréttir um tillögur þingmannanefndarinnar:

Þar eru þau heiðurshjúin Margrét Frímannsdóttir og Þorsteinn Pálsson sammála, fyrrverandi formenn Alþýðubandalagsins og Sjálfstæðisflokksins. Lögin um landsdóm eru úrelt og aldeilis fráleitt fyrir núverandi alþingismenn að taka á þeim nokkurt mark. Fráleitt að kæra ráðherrana, segja flokksformennirnir gömlu.

Athyglisvert.

Margrét Frímannsdóttir starfaði á alþingi frá 1987 til 2007, samtals tuttugu ár. Þorsteinn Pálsson starfaði á alþingi frá 1983 til 1999, samtals sextán ár, þar af ellefu ár sem ráðherra.

Og breyttu aldrei lögunum um landsdóm.

Sumsé: Kem af fjöllum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Hugsuðu fleiri en þögðu þó.

  • Mörður Árnason – ofurþingmaðurinn sem eftir vandlega yfirferð á Lagasafninu hefur lagt til að afnema öll lög sem hann telur tímaskekkju.

  • Sauradraugur

    Okkur einföldu sálunum úti í þjóðfélaginu finnst undarlegt, að þeir ráðherrar í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar, sem mest stuðluðu að því að búa til þá fjármálalegu hringiðu, sem leiddi til hrunsins, skuli sleppa við að vera nefndir í þessu samhengi, hvað þá meira. Það er ekki minnst á viðskipta- og bankamálaráðherrana, sem unnu hvað mest að einkavæðingu bankanna, þau Finn Ingólfsson og Valgerði Sverrisdóttur. Maður segir nú bara eins og Bart Simpson: „How come?“

  • Það sem er verst við ráðherraábyrgðina er hvað afglöp ráðherra fyrnast fljótt.

    Það bara aumingjaskapur hjá ráðamönnum að búa við svo máttlitla og lélega löggjöf sem varðar þeirra eigin ábyrgð.

    Hins vegar vantar ekki að réttindi embættismanna séu skýrt tryggð í stjórnarskrá.

  • Kjartan Emil Sigurðsson

    Það sem kom fram hjá Svavari Halldórssyni í Silfrinu er rétt. Stjórnmálin eru að færast inn á valdsvið dómstóla. Stjórnmálamenn nota alþingi og dómstóla til að koma höggi á pólitískum andstæðinga í nafni laga og réttar. Ekki er lengur greint þarna á milli heldur tekur þingmannanefnd sér vald til að rannsaka og ákæra og ætlast til þess að dæmt verði í kjölfarið. Þetta allt saman vekur ugg og er hárrétt pólitísk greining hjá Svavari.

  • Hrafn Arnarson

    Lög um landsdóm urðu skyndilega úrelt þegar ákærurnar voru settar fram. Lögin munu heldur ekki standast fyrir erlendum dómstólum vegna mannréttindabrota. Margrét og Þorsteinn voru á þingi í samtals 36 ár en gátu þó ekki komið grafalvarlegum athugasemdum sínum á framfæri.

  • Gagarýnir

    Var að horfa á Þorvald Gylfason í Silfri Egils sem hvað eftir annað sagði það sakfellingu að beina máli til Landsdóms. Er ekki um að ræða varnir og að leiða fram staðreyndir? Er það ekki andi laganna, fremur en að refsa?

  • Kristján Sveinsson

    Nei, þau gerðu það ekki, Margrét og Þorsteinn. Og sjálfsagt ýmslegt fleira sem þau hefðu alveg mátt gera. Ætli það sé ekki svo um flest okkar þegar litið er um öxl.
    Það breytir auðvitað engu um það að landsdómslög og allt þeirra umhverfi er grábölvað og ekki í samræmi eða samhengi við réttarfar nútímans. Vissulega eru þau því úrelt. Aldrei verða annað en skítamál úr pólitískum málaferlum, enda snúast þau ekki um réttarfar, og málarekstur samkvæmt landsdómslögum gæti ekki orðið annað. Það er aldrei nein þörf fyrir slíka misbeitingu og allra síst nú. Vonandi tekst ykkur þingmönnum að sneiða hjá þvílíku flani.

  • Mörður, eru það ekki fleiri sem setið hafa á alþingi , sem hafa talað mikið og lengi, en ekkert gert eða unnið ?

    Það eru því miður mörg andlitin , sem því miður eru bara andlit en ekkert annað !

    Taktu þessi andlit með á fjöll, þau gera þá ekkert af sér á meðan !

  • Kjartan Emil Sigurðsson

    Þessi Landsdómur er ekkert annað en tilraun til að dómstóla-væða, sérfræðinga og lögfræðivæða íslensk stjórnmál. Sama óheillaþróun á sér stað í nágrannalöndum okkar og þenna auma pytt eigum við að varast. Lýðræðið mun ekki standa það af sér að fá fleiri lögfræðinga í hausinn eins Atlanefndin leggur til og það reunar í fúlustu alvöru. Aðra fiðlu í þeim sama konsert leikur lögfræðingur Framsóknar og er ekki hugmyndaauðginni fyrir að fara.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur