Miðvikudagur 15.09.2010 - 10:55 - 33 ummæli

Ég er dóni

Það vissu þetta auðvitað margir en nú hefur formaður Arkitektafélagsins slegið því föstu frammi fyrir alþjóð: Mörður Árnason er dóni.

Það er „argasti dónaskapur“ að finnast arkitektar bera sína ábyrgð á ástandi byggingarlistarinnar í landinu. Enda er leitun að ljótum húsum og illa skipulögðum hverfum eftir arkitekta. Það er öðrum að kenna, verkfræðingum og tæknifræðingum og byggingarfræðingum og skipulagsfræðingum – og auðvitað stjórnmálamönnum og bisnessmönnum. En ekki arkitektum. Eða þá að húsin eru alls ekki ljót heldur er nágrenni þeirra vitlaust, sem er auðvitað ekki húsaskáldunum að kenna.

Ég vona það sé rétt. Kannski eru arkitektarnir alsaklausir af klessuhúsum og hrokabyggingum, burtruðningi fornra húsaverðmæta, fáránlegu Ameríkuskipulagi höfuðborgarsvæðisins, smekkleysi, stílrugli, lýtum í daglegu umhverfi okkar.

Og það eru mörg dæmi sem betur fer um fallegar nýjar byggingar, glæsilegar, hlýlegar, stílfagrar, sem falla inn í umhverfi sitt, virða gamla tímann og fyrri snillinga – og lyfta þeim jafnvel til vegs. Margir frábærir arkitektar íslenskir að störfum þrátt fyrir opinbert sinnuleysi um þessa list- og fræðigrein.

Vonandi er dónayfirlýsingin merki um það að faglegur metnaður sé að glæðast meðal arkitekta, að í stéttinni verði til einskonar „innra eftirlit“ sem sér um að skussum og gróðapungum er settur stóll fyrir dyrnar, setur höft á blinda þjónustu við verktakana.

Viðbrögð formanns Arkitektafélagsins við sakleysislegum ummælum á nefndarfundinum sýna að minnsta kosti að arkitektum er annt um heiður sinn. Fari þess að sjást frekari staður í borg og bæ og sveit í kringum okkur hin skal ég glaður gangast við dónaheitinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (33)

  • Vissu fleiri en þögðu þó.

  • „Brezkir arkitektar hafa unnið meira tjón í brezkum borgum en Luftwaffe“ Karl bretaprins fyrir ca 25 árum.

  • Já, það ertu ábyggilega.

    En hafðu þökk fyrir að vekja athygli á því hversu ljótur og leiðinlegur íslenskur arkitektúr er.

    Man þó ekki eftir því að þinn flokkur hafi breytt miklu á löngum valdatíma sínum innan R lista í höfuðborginni.

    Þurfa ekki skipulagsmistökin og ósmekklegheitin samþykki stjórnmálamanna og valdra fulltrúa þeirra?

  • Gunnar St

    Arkitektar eru viðkvæmasta stétt landsins þegar kemur að gagnrýni. Það má varla tala um byggingar, hvað þá nota þær áður en grátkórinn fer af stað.

  • Hrafn Arnarson

    Viðkvæmni fyrir gagnrýni má ekki verða að ofurviðkvæmni. Það kemur í veg fyrir alla eðlilega samræðu eða rökræður. Eigum við ekki bara að segja að formaður félagsins hafi hlaupið á sig. Það er hins vegar óheppilegt ef formaðurinn telur sig vera að tala í nafni stéttarinnar en ekki sjálfs sín.

  • Það má vera að þú sért almennt dóni, en auðvitað bera arkítektar sína ábyrgð á viðbjóðslegum arkítektúr á Íslandi. Það er ekki endalaust hægt að kenna öðrum um, þó vissulega megi skamma andlausu gróðafíklana og braskarana sem voru bara að hugsa um að kaupa og selja.

    Að vera arkítekt er ábyrgðarstarf gagnvart framtíðinni. Ljótar og ósmekklegar byggingar geta af sér þunglyndi og leiðindi. Skammist ykkar metnaðarlausir arkítektar. En hrós til þeirra sem hafa hannað vel.

  • Bjarni Kjartansson

    Í mér býr fól

  • Stend með þér í þessu. Svo virðist sem því nýrri sem hús og hverfi séu, því ljótari verða þau. Arkitektar nútímans bera ábyrgð á hræðilega ljótum húsum nútímans. Hvernig væru að þeir skoðuðu vistleg hverfi í eldri hverfum borgar og bæja landsins og reyndu að líkja eftir hlýlegu útliti þeirra? Það væri mín ósk.

  • Ja, það segirðu satt og frægur að endemum fyrir óstöðvandi mótorkjaft.

    En varðandi ummæli þín um arkitekta þá er ég algerlega sammála þér, Arkitektar hafa verið alveg ógurlegir skaðvaldar í íslensku samfélagi.

  • Auðvita ertu dóni þegar þú talar um Arkitekta nútímans annar finnst mér þú vera prúðmenni þegar þú talar um annað þó ég sé ekki alltaf sammála.

  • Nú ferð þú of mikinn Mörður. Ég þekki málið nánast eingöngu af því sem ég las í Fréttablaðinu í morgunn og ég verð að segja að mér var nokkuð brugðið.

    Mér var brugðið vegna þess að ég vissi að þrír arkitektar voru gestir umhverfisnefndar til þess að fjalla um frumvarp að nýjum Mannvirkjalögum. Þeir voru boðaðir af nefndinni og til að veita henni þjónustu, ríkinu að kostnaðarlausu. Þarna var statt frammi fyrir nefndinni fólk sem var að vinna að hugsjónastörfum til þess að ræða frumvarpið að ósk Umhverfisnefndar.

    Þarna var arkitektúr ekki á dagskrá og þetta var ekki stund fyrir aulabrandara.

    Þá bregst þú við með því að tala niður til gesta þinna og vanvirða þeirra starf og stétt með götustrákahúmora að mér skilst á Fréttablaðinu.

    Það kann að vera að þú hafir einhverjar skoðanir á íslenskum arkitektúr og þér er velkomið að hafa þær. Hitt er auðvitað rétt hjá formanni arkitektafélagsins að framkoma þín þarna við gesti þína á þessum fundi var auðvitað ekkert annað en dónaskapur.

    Þú átt ekki að verja þennan dónaskap heldur að brjóta odd af oflæti þínu og biðja gesti þína, sem þú misbýður, afsökunar á framferðinu. Þú værir maður að meiru fyrir það. Þú átt ekki að verja þennan dónaskap.

    Ég endurtek að mér var brugðið vegna þess að ég veit að þú ert menningarlega sinnaður og vilt fólki vel. Ég vissi ekki heldur að svona væri andrúmsloftið í þingnefndum.

    Vafalaust hefur þú þér eitthvað til varnar. En það kemur ekki fram í færslu þinni í dag, heldur velur þú að halda áfram á sama hátt sem gefur auðvitað vísbendingu um hvernig þú hagaðir máli þínu á fundi Umhverfisnefndar þar sem frumvarp um Mannvirkjalög voru til umfjöllunar.

    Annars, ef er er ekki kunnugt um það, þá er allt djöfulegt að frétta í atvinnumálum arkitekta. Sennilega er um 80% atvinnuleysi þar. Ég treysti þér, þingmanninum, til þess að liðsinna stettinni og leita lausna á því vandamáli.

  • Til lykke með nafnbótina.

  • Sigurður

    Þú varst auðvitað enginn dóni þegar þú kallaðir Geir Haarde og Þorgerði Katrínu „vindhana“ og það úr ræðustóli Alþingis!

    Og þú varst auðvitað enginn dóni þegar þú reyndir að eigna ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar upphaf útrásarinnar og „uppganginn“ í efnahagslífinu.

  • Ágæti Mörður,
    það er oft gott að kynna sér málin áður en maður gasprar. Innan við 20% bygginga í Reykjavík eru hannaðar af arkítektum. Restin af tæknifræðingum, verkfræðingum og fólki sem þykist geta allt.

    McCarthy

  • Adalsteinn

    Mörður, ertu ekki að verða þjóðníðingur líka ?
    15 TIL 20.000 manneskjur án vinnu í 2 ár, þú
    og samf. lofuðu frjálsum handfæraveiðum.
    Hvernig getur þú horft upp á þetta, ´
    í hvaða heimi lifir þú maður ?

  • Sauradraugur

    Hilmar Þór arkitekt er móðgaður. Að sjálfsögðu. Þannig er búið að koma fyrir íslensku lagaumhverfi, að arkitektar hafa alltaf á réttu að standa. Jafnvel þótt þeir upp til hópa hanni byggingar þannig, að það sé útilokað að þau standist íslenskt veðurfar. Það er nefnilega ekki þeirra mál, þau eru að reisa sér minnisvarða og því fáránlegri sem byggingar þeirra eru, því betra.

  • Mörður Árnason

    Takk fyrir athugasemdir. Rósa — jú, það er rétt, mínir menn í Reykjavíkurlistanum stóðu sig hreint út sagt illa í skipulagsmálum, byggingarlist og húsavernd, og beygðu sig um of fyrir verktökum og bisnessmönnum með hendur fullar fjár (að því er virtist). Nú hafa menn vonandi lært — ég trúi því að ÆS-meirihlutinn standi sig betur, með Hjálmar Sveinsson í fararbroddi. // Sigurður — Vindhana-dónaskapurinn — leitaði að gamni í ræðiparti þingsins og fann þetta hér úr umræðunnu um fjölmiðlalögin hér um árið. Auðvitað mjög dónalegt, en kannski ekki alveg úr tengslum við samtímaviðburði:

    ,,Forseti. Var það ekki hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem sagði að útkominni fjölmiðlaskýrslunni að þarna hefði fengist söguleg sáttargjörð? Mig minnir það. En einn mann virðist hafa gleymst að sætta við þessa skýrslu, Davíð Oddsson, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Þegar Davíð Oddsson sagði á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að þessi skýrsla væri handónýt og öll sú vinna sem í hana hefði verið lögð, handónýt, og það þyrfti að taka þetta mál upp aftur, já, þá snerust tveir vindhanar í rétta átt. Þeir voru hæstv. utanríkisráðherra Geir Haarde, nýorðinn formaður Sjálfstæðisflokksins, og hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ráðherra hinnar sögulegu sáttargjörðar. Þá snerust þau 180° vegna þess að enn þá stjórnar Sjálfstæðisflokknum Davíð Oddsson.“

  • McCarthy, ég held að þú sért nú að fara með fleipur þegar þú heldur því fram að 20% bygginga í Reykjavík séu hannaðar af öðrum en arkitektum. Ég reyndar held ekkert um það , ég veit að það er óravegu frá sannleikanum.

    Það er hinsvegar umhugsunarvert hvað pólitíkusum virðist alltaf tampt að kenna öllum öðrum en sjálfum sér um það sem aflaga fer í skipulagsmálum. Ég veit ekki betur en skipulagsvaldið sé alfarið í höndum pólitíkusa og hafi þar farið eitthvað úrskeiðis er tilgangslaust að kenna öðrum um. Vondir verktakar, fjárfestar, braskarar eða hverjir það nú eru sem eiga að hafa eyðilagt borgina eru ekki ábyrgir fyrir deiliskipulagi. Það gera pólitíkusar. Og það eru pólitíkusanna að sjá til þess að markmið skipulagsáætlana gangi eftir en séu ekki gleymd daginn sem nýtt skipulag er auglýst í Stjórnartíðindum.

  • Saga uppbyggingar á hönnunarstarfsemi hérlendis er öllu styttri en í t.d. í Finnlandi. Menningarleg sjálfsmynd og ímynd Íslendinga tengist bókmenntum fremur en hönnun og arkitektúr. Það vill þó oft gleymast að íslensku handritin voru ekki aðeins stórmerkar heimsbókmenntir heldur oft á tíðum afar vönduð hönnun eins og sést t.d. á Skarðsbók og öðrum handritum.

    Hér hefur skilningur og virðing fyrir hönnun og arkitektúr lengst af verið af skornum skammti og hönnunarnámi og annarri hönnunarstarfsemi ekki verið sinnt sem skildi. Hið byggða umhverfi ber þess víða merki og hönnunarvörur hafa til skamms tíma verið lítið brot af heildarúflutningi landsmanna. Byggingarlistadeild Listasafns Reykjavíkur og Form Ísland, félag áhugamanna um hönnun, hafa um áratugaskeið unnið að auknum skilningi á gildi arkitektúrs og góðrar hönnunar svo og hin 9 félög hönnuða og arkitekta sem nú eiga og reka Hönnunarmiðstöð Íslands.

    Margt bendir til þess að hér séu nú að verða sinnaskipti. Með tilkomu hönnunar- og arkitektúrdeildar við Listaháskóla Íslands 2001-2002, stofnun Hönnunarsafns Íslands 1998 og Hönnunarmiðstöðvar Íslands 2008 hafa á skömmum tíma skapast alveg nýjar aðstæður hérlendis. Árið 2007 var jafnframt gefin út stefna stjórnvalda í byggingarlist og nú er von á stefnu stjórnvalda í hönnun.

    Í fyrsta sinn er verið að mennta hönnuði og arkitekta hérlendis á háskólastigi. Markviss söfnun, og skrásetning hönnunar hefur jafnframt hafist í Hönnunarsafninu sem flytur á næstunni í nýuppgert húsnæði í Garðabæ. Síðast en ekki síst hefur Hönnunarmiðstöðin á skömmum tíma tekist að setja mark sitt á umræðuna þannig að eftir hefur verið tekið. Meginmarkmið Hönnunarmiðstöðvarinnar er að efla hönnun og arkitektúr í atvinnulífi og menningu landsmanna, hlúa að nýsköpun og vera hvati til framfara í hönnunarmálum almennt.

    Eftir bankahrunið 2008 stendur atvinnu- og efnaghagslíf Íslendinga á tímamótum nýrra tækifæra. Með tíð og tíma tekst vonandi að byggja hér upp öflugt menningar- og atvinnulíf sem byggir í auknum mæli á hönnun og öðrum skapandi greinum. Af 140 ára reynslu Finna getum við ýmislegt lært m.a. það að uppbygging hönnunarsamfélags er langhlaup sem gerir kröfur um úthald, öguð vinnubrögð og gagnrýna hugsun. Ef rétt er haldið á málum bendir því margt til þess að hönnun og arkitektúr gætu skipað veglegri sess í íslensku samfélagi en verið hefur.

  • Gammur,
    Ég sagði akkúrat öfugt. Að 80% bygginga eru ekki hannaðar af arkítektum.

    MacCarthy

  • Alexander Stefánsson sem á sínum tíma veitti hópi byggingafræðinga heimild til að leggja fram bygginganefndarteikningar. Móðir eins þeirra heimsótti víst Alexander næstum daglega í ráðuneytið og þrýsti á um það og Alexander taldi sig þurfa fá frið frá konunni.
    Var ekki sagan svona?

  • McCarthy, ég skildi þig alveg rétt. Ég er bara að benda þér (og öðrum) á að þú hefur rangt fyrir þér.

    Ég er reyndar ekki á því að íslensk byggingarlist sé á eitthvað lágu plani. Það hefur margt verið mjög vel gert síðustu árin á því sviði og annað miður eins og gengur. Öðru máli gegnir með skipulagsmálin og þar verða pólitíkusar eins og Mörður bara að taka á sig sök. Alla sök. En ég er sammála dónanum að það má binda vonir við aðkomu manna eins og Hjálmars Sveinssonar (þó ég sé ekki alltaf sammála honum) og reyndar Páls Hjaltasonar líka að skipulagsmálum.

    Svo ættu menn að varast alhæfingar um hvaða leiðir á að fara í skipulagi nýrra svæða eða endurskipulagi gamalla. Það er til dæmis alls ekkert að því að einkaaðilar taki að sér skiðulag einstakra svæða og ég tel reyndar að margt af því besta sem gert hefur verið í skipulagi síðustu ára sé unnið af einkaaðilum. Sem dæmi má nefna skipulag Urriðaholts, sem því miður virðist ætla að verða kreppunni að bráð og Sjálandshverfið í Garðabæ og fl.

  • OK Gammur,
    Þá hef ég rangt fyrir mér. En hverjar eru þá tölurnar? Það er ekki nóg að segja bara að þú vitir eitthvað sem ég ekki veit. Vinsamlegast vísaðu í gögn og upplýsingar.

    McCarthy

  • McCarthy, þú getur fengið upplýsingar hjá byggingarfulltrúum um hverjir hafi lagt inn byggingarnefndarteikningar til samþykkis.

    Hefði staðhæfing þín komið fram fyrir 20 árum hefðir þú verið miklu nær sannleikanum. Þá held ég (vil taka fram að ég hef ekki haldbærar tölur) að mun hærra hlutfall nýbygginga, sérstaklega íbúðarhúsnæðis, hafi verið teiknaðar af öðrum en arkitektum en það hefur mikið breyst.

  • Sannleikanum er hver sárreiðastur.

  • Finduilas

    Ég ætla að vona að forljóti glerkassinn sem á að heita listaháskóli verði
    aldrei reistur við Laugarveginn. Burt með kalda og gelda naumhyggjustílinn
    sem arkítektar hafa þröngvað upp á landsmenn.

  • Er eitthvad athugavert vid thad, Jón, ad byggingafrædingar leggi fram teikningar?

  • En Gammur,
    Upplýsingar um það hverjir eru að leggja inn teikningar í dag segir ekkert um það hverjir byggðu Reykjavík. Reykjavík var ekki, frekar en Róm, byggð á einum degi. Ég er alls ekki viss um að stærsti hluti bygginga í Reykjavík séu hönnuð af arkítektum. Vil leyfa mér að efast um það og held því að gagnrýni Marðar sé á misskilningi byggð. En þar sem þú ert svo viss um að ég hafi rangt fyrir mér, væri gaman að sjá tölur. Hvað er hlutfall arktítekta-hannaðra húsa í Reykjavík? Einhver?

    Talan sem ég hef heyrt er innan við 20%.

    McCarthy

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

  • Mörður Árnason er velheyrandi dóni sem kemur af fjöllum.

  • Ég hef komið inn í fjöldann allan af ljótum húsum á höfuðborgarsvæðinu sem voru hönnuð af arkitektum, og séð enn fleiri að utan. Reykjavík er ljót borg og arkitektar hafa ekki gert minna til þess en gegn því að mínu mati.

    En burtséð frá því, þá hlýtur Mörður að mega segja sína skoðun í samtali við fólk. Það er stórhættuleg gryfja að falla ofan í að hræðast dónaskap. Meiri dónaskap segi ég, og um leið minni meðvirkni!

  • Gagarýnir

    Orðið dóni var notað af skólapiltum um óskólagengið fólk og hafði ekki þá sterku merkingu sem það hefur nú. Það merkti bara fólk sem maður talaði á ákveðinn hátt til.

  • Það er allt í lagi að vera ó-meðvirkur „dóni“,
    en að vera hrokafullur dóni er öllu verra. Það hendir þig nokkuð oft Mörður.
    Hugleiddu líka hroka þinn, sem þingmanns
    í þessu máli. Þar liggur „dóni“ þinn grafinn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur