Föstudagur 17.09.2010 - 17:11 - 23 ummæli

Umbótanefndarsvarafundarræða

Fyrir hálfum mánuði var yðar einlægur gerður að framsögumanni á einskonar kvöldráðstefnu Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, SffR, um flokkinn og hrunið. Við vorum þrjú, auk mín Helga Vala Helgadóttir og Þorsteinn Helgason, á eftir var svo skipt í hópa um einstaka þætti máls. Beint tilefni fundarins var kall umbótanefndarinnar í flokknum eftir svörum við tilteknum spurningum sem félagið átti að skila um miðjan septembermánuð. Það var úthlutað tíu mínútum á hvern framsögumann, og mér fannst þægilegast að tala í símskeytastíl uppúr punktum – en lenti svo í að skrifa þetta út fyrir félagið  og umbótanefndina. Mér fannst svo að textinn gæti átt erindi við fleiri – með þeim fyrirvara að hér er jafnaðarmaður að tala við jafnaðarmenn um sameiginlegan vanda, og reynir að vera eins hreinskilinn og þarf – ég hefði kannski skrifað fyllra mál ef þetta hefði verið ræða á almennum opnum fundi – og þá getið oftar um það sem vel hefur verið gert í sögu Samfylkingarinnar og um árangur sem þó náðist í „hrunstjórninni“ 2007–2009. En hér er þetta – guðhræddum lesara heilsun:

Samfylkingin og hrunið

Punktar úr framsöguræðu á fundi SffR um efnahagshrunið og ábyrgð Samfylkingarinnar miðvikudaginn 1. september 2010

Upphafsathugasemd er auðvitað sú að þótt við í Samfylkingunni eigum ekki að skorast undan ábyrgð á hruninu og mistökunum í aðdraganda þess er höfuðábyrgðin annarra – bankastjóranna og auðjöfranna að sjálfsögðu, og svo þeirra sem sátu í ríkisstjórn í sextán ár áður en flokksmenn okkar fengu völdin í helmingi ráðuneytanna. Hvorki ríkjandi hugmyndafræði, stjórnskipan né efnahagsstefna þessara tíma er á okkar ábyrgð heldur gagnrýndum við þetta allt alveg frá stofnun flokksins og bárum fram tillögur um breytingar og vildum gera þetta öðruvísi. Oftast – því skýr dæmi eru líka til um einskonar meðvirknistilvik í afstöðu flokksins, þar sem hann réð að vísu sjaldnast úrslitum en elti meirihlutann fremur af taktískum ástæðum en vegna sannfæringar: Kárahnjúkar, lífeyrismálið.

Þegar við athugum frammistöðu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn 2007–2009 og þátt flokksins í hruninu held ég ekki megi sleppa þessum nokkru atriðum sem ég ætla að fjalla hér um, og mynda ýmist svið atburðanna eða eru hluti af atburðarásinni.

Hugmyndafræðilegar sveiflur um 1990 til 2005

Kommúnisminn lagðist af í Evrópu við lítinn orðstír kringum 1990, en sá atburður olli ýmiskonar hugmyndalegu umróti og spennu. Nýir tímar kölluðu eftir frjóum kenningum og öðrum vinnubrögðum en áður. Klassísk vinstriviðhorf duttu „úr tísku“ – og í miðri hinni miklu bylgju nýfrjálshyggjunnar leituðu fræðimenn og stjórnmálamenn á vinstrikantinum nýrra leiða til að virkja markaðinn en draga um leið úr misréttisáhrifum hans. Économie de marché, Já, en société de marché, Nei – sagði Lionel Jospin í Frakklandi – hérna heima fullyrtum við að markaðurinn gæti verið góður þjónn en vondur húsbóndi. Þriðja leiðin byggðist ekki síst á slíkum hugleiðingum – auk kröfu um trygg borgaraleg réttindi og heilbrigða stjórnsýslu.

Við innbyrtum þetta allt, í stjórnarandstöðu við Davíð og Halldór, og með gamaldags þjóðernisíhald „til vinstri“ við okkur, VG. En pendúllinn sveiflaðist stundum of langt í hina áttina hjá forystumönnum og gerendum, þannig að fyrir kom að Samfylkingarmenn misstu sjónar á almannahag í allri þjóðfélagsverkfræðinni og fönguðust af oftrú á markaðslausnunum. Kannski einsog trúskiptingum hættir til.

Þar skiptir líka máli að á mótunartímanum kringum stofnun Samfylkingarinnar voru allra augu á Bretlandi. Þar hafði Nýi verkamannaflokkurinn sigrað með látum 1997 eftir átján ára thatcherisma og hinn ungi Tony Blair var hugljúfi evrópskra sósíaldemókrata/sósíalista. Athygli Samfylkingarfólks beindist að Bretunum langt umfram norrænu flokkana sem næstir stóðu eða samherja sunnar í Evrópu. Til dæmis tók ýmislegt ungt fólk þátt í kosningabaráttunni í Bretlandi 2001, meðal annars Björgvin og Katrín, og kom heim með stjörnur í augunum! Tjóaði lítt að flokksformaðurinn Össur Skarphéðinsson segðist snemma draga meiri dám af frönskum sósíalistum en breskum, einkum vegna áherslu hinna fyrrnefndu á hlutverk almannavaldsins í atvinnulífi.

Hér skal ekki gert lítið úr afrekum breskra jafnaðarmanna framan af valdaferli sínum em nú er nýlega lokið. Aðstæður kunna hinsvegar að hafa villt íslenskum aðdáendum sýn. Bretarnir tóku á sínum tíma við nánast sviðinni jörð í velferðar- og félagsmálum eftir Thatchertímabilið og hlutu að móta nýja pólitík, að mestu án aðstoðar verkalýðshreyfingarinnar eða annarrar félagslegrar kjölfestu – og markaðstilraunir þeirra áttu einfaldlega illa við á Íslandi. Samanber til dæmis skólagjöldin, sem um skeið voru talin til sérstakrar fyrirmyndar sumstaðar hjá okkur.

Ég tel að það hafi verið full þörf á þeirri hugmyndalegu endurnýjun sem flokksmenn af ýmsum uppruna gengu saman gegnum á þessum árum. Ég held hinsvegar líka að þetta umrót hafi leitt til ákveðinnar hægrislagsíðu í flokknum og veikt hann fyrir þá þolraun sem framundan var.

Breytingarnar í viðskiptalífinu: Hrun Kolkrabbans, myndun nýrra bandalaga

Ólígarkar gleyptu SÍS um leið og gömlu Sovétríkin – sem hvorttveggja voru mikil tíðindi á Íslandi. Enn meiri tíðindi þennan áratuginn var svo óvænt hrun gamla Kolkrabbans og ný bandalög á viðskiptavettvangi. Sú saga er ágætlega rakin annarstaðar, en þessar breytingar höfðu sitt að segja fyrir Samfylkinguna.

Skyndilega var komin upp sú staða að meginfyrirtæki landsins skiptust ekki lengur í einungis tvær fylkingar eftir skilum milli íhalds og Framsóknar. Og ennþá óvæntara var svo það að forysta Sjálfstæðisflokksins nánast sleit sambandi við suma helstu forkólfa nýju fyrirtækjablokkanna. Í viðskiptalífinu var orðið til einhverskonar fjölræði í stað gamla valdabandalagsins sem margir héldu að yrði eilíft, og jafnaðarmenn í Samfylkingunni tóku þessum tíðindum fagnandi: Til að það væri hægt að nýta markaðinn þurfti þar að vera  frjáls samkeppni og eðlileg tengsl við stjórnmálin.

Persóna Davíðs Oddssonar og einkennilegir atburðir í samfélaginu urðu svo til þess að milli Samfylkingarinnar og sumra af helstu nýju samsteypunum myndaðist það sem kalla má strategískt bandalag – alliance objective, segja Frakkarnir – sem byggist á því að óvinur óvinar míns er minn vinur. Þetta gilti um samvinnu við að losa um höft og hömlur í viðskiptum, rjúfa kóngulóarvefinn úr Valhöll og Morgunblaðsskrifstofunum, og við það sérstaklega að mæta ofsafengnum árásum frá Davíð og félögum á fjölmiðlun í landinu vegna þess að óæskilegir menn réðu þar of miklu.

Þessi tengsl milli Samfylkingarinnar og nýju blokkanna voru í sjálfu sér eðlileg. Jafnaðarflokki er skylt að halda góðu sambandi við forystumenn í atvinnu- og efnagslífi. Þau urðu þó til þess að deyfa sýn flokksforystunnar og flokksmanna á þróunina í viðskiptalífinu, villa um fyrir okkur gagnvart einkavæðingu bankanna (þótt þar hafi flokkurinn vissulega lagt til skárri leiðir en farnar voru), og slaka á árvekni gagnvart útrás, ævintýramennsku og græðgisvæðingu. Viðurkennum það bara: VG stóð sig betur, með allar sínar gömlu og leiðinlegu lummur.

Ný staða varð líka til þess að raddir fóru að hljóma í flokknum, nálægt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, nýjum og glæsilegum forystumanni í flokknum frá 2003, um að nú ætti Samfylkingin að grípa tækifærið og stilla sér upp sem forystuafli í atvinnu- og viðskiptalífinu, svipað og Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið áður. Hætt er við að slíkar hugmyndir hafi skapað nánari tengsl við ýmsa viðskiptajöfra en heppilegt var, en einkum ollu þær skammsýni og drógu úr náttúrlegri gagnrýni jafnaðarflokks á atferli útrásarvíkinganna.

Ef til vill átti þvílík „nálgun“ hlut að máli þegar Ingibjörg Sólrún gerði tilraun til að sveigja flokkinn af fyrri leið í sjávarútvegsmálum með frægri ræðu hjá LÍÚ – sem hægt var að túlka þannig að það væri mikilvægara fyrir flokkinn að vera á talfæti við atvinnulífið en að halda fram auðlindastefnu í almannahag.

Íslenskt sifjaspell: Tengsl stjórnmála og viðskipta

– Tengslin milli stjórnmálanna og viðskiptanna hjá ykkur hérna eru einsog sifjaspell, sagði við mig hollenskur blaðamaður í miðri búsaáhaldabyltingu fyrir utan Iðnó – incestuous á útlenskunni – og endurtók þetta held ég hjá Agli næstu helgi.

Já, það eru orð að sönnu, og Samfylkingin hefur í sín tíu ár barist gegn allri þeirri spillingu með fundum og upphrópunum og starfshópum og samþykktum og tillögum: Rifjiði bara upp bara þúsund þingsályktunartillögur Jóhönnu, eða hinar rökvísu stjórnfesturæður Bryndísar Hlöðversdóttur.

Og samt var Samfylkingin fátækur flokkur, með skuldir í arf frá fyrirrennurunum, og varð að reiða sig á framlög fyrirtækja, vinveittra eða að minnsta kosti ekki andstæðra. Slíkar gjafir sjá kannski ekki viðstöðulaust til gjalda – en veikja staðfestu flokksins gagnvart gefendum.

Það á ennþá frekar við um einstaka stjórnmálamenn sem þáðu milljónastyrki frá fyrirtækjum fyrir prófkjörin dýru – sumir vissulega af því flokkurinn ætlaðist nánast til þess með því að halda galopin auglýsingaprófkjör sem áttu að vekja athygli og draga að fólk.

Og þetta á því miður líka við annarskonar innanflokkskappleiki – einkum formannsslaginn 2005 þar sem frambjóðendurnir tveir vörðu tugmilljónum til að ná forystu í flokknum. Hvaðan?

Þessi kurl þurfa öll að koma til grafar þegar við skoðum Samfylkinguna og hrunið. Nema okkur nægi ein saman afsögn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur.

Veikir stjórnmálaflokkar – léleg stjórnmálamenning

Margt hefur verið skrifað eftir hrun um stjórnmálamenningu á Íslandi og fátt af því er ofsagt, þótt Samfylkingunni sé óþarft að taka það allt saman til sín. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að síðustu áratugi hafa stjórnmálaflokkarnir sjálfir skipt sífellt minna máli í íslenskum stjórnmálum. Að sumu leyti skyggja stjórnmálamennirnir á stjórnmálaflokkana. Annarsvegar hefur staða stjórnmálamanna breyst með prófkjörum og forvölum ýmiskonar þannig að þeir eiga sér ekki endilega bakland meðal félaga í flokki heldur í einhverskonar prófkjörssveit sem lítið kemur við sögu milli prófkjaranna. Þeim hættir því til að líta á flokkinn fyrst og fremst sem kosningavél og klapplið, og af þessu höfum við ekki farið varhluta í Samfylkingunni. Hinsvegar eru flokkarnir einfaldlega óburðugar stofnanir, peningalitlir með örfáa eigin starfsmenn. Það hefur meðal annars þær afleiðingar að stjórnmálaflokkarnir eru sjaldnast uppspretta stefnumótunar, hugmynda eða lausna. Þar ráða miklu heldur hagsmunasamtök með fjölmennt starfslið og digra sjóði og ýmiskonar þankatankar úr viðskiptalífinu, fjölmiðlarnir, fræðasamfélagið að einhverju leyti, stjórnkerfið sjálft. Nánast allir þessir aðilar fengu falleinkunn í rannsóknarskýrslunni góðu – en á þá hafa stjórnmálamennirnir reitt sig langt umfram skoðanir og viðhorf eigin félaga eða vinnu sem fram hafi farið í flokkunum.

Samfylkingin er veikburða að skipulagi – þótt lög flokksins séu afar umfangsmikil og nákvæm. Hún ber auðvitað ennþá merki þess að þar komu saman ólík stjórnmálasamtök, og skipulagsramminn var viljandi frekar losaralegur þar sem fyrstu árin þurfti að stíga varlega til jarðar og forðast umfram allt að ýfa upp deilur frá umliðnum árum og áratugum. Sumstaðar – í Reykjavík að minnsta kosti – gekk af þessum ástæðum erfiðlega að byggja upp sameiginlegar grunnstofnanir. Þingflokkurinn var svo frá upphafi sterkasti kjarni flokksins. Heilan vetur, 1999–2000, var Samfylkingin hvergi til nema í þingflokknum, og allt fram á ríkisstjórnarárin var málum fyrst og fremst ráðið þar.

Með mikilvægri undantekningu – ESB-atkvæðagreiðslunni haustið 2002 – var það ekki flokkurinn sjálfur sem glímdi við vanda dagsins heldur fámenn forystusveit, einkum í þingflokknum og kringum hann. Og stundum voru stofnanir flokksins sniðgengnar með öllu. Það átti til dæmis við um Kárahnjúkaákvörðunina á útmánuðum 2003. Málið var um veturinn til umræðu á sameiginlegum fundum framkvæmdastjórnar og þingflokks og mátti búast við að það yrði útkljáð á helsta stefnuvettvangi Samfylkingarinnar milli landsfunda, í flokksstjórn. Raunin varð sú að stuðningsmenn málsins gerðu einskonar hallarbyltingu á um það bil hálfri viku með sókn í fjölmiðlum og innan þingflokks, og lauk með því að forystan sneri upp á hendurnar á efasemdarmönnum í þingliðinu nema þeim Rannveigu og Þórunni. Andstæðingar virkjunaráforma voru teknir í bólinu – en mátu stöðuna svo að Samfylkingin sjálf væri í hættu ef  þeir neyttu réttar síns og knýðu fram formleg átök um málið á flokksvettvangi (sem þó bættu ekki spjöllin fyrir austan). Þetta var sumsé í leiðinni einskonar blakkmeil. Það eimdi lengi eftir af þessum viðburði í flokknum og gerir reyndar enn.

Þegar Ingibjörg Sólrún varð formaður leist henni ekki vel á þingflokkinn. Þar voru auðvitað  margir sem ekki studdu hana í formannsslagnum, en hún hefur sjálfsagt líka viljað draga burst úr nefi þingflokksins af fullkomlega eðlilegum pólitískum ástæðum. Leið Ingibjargar Sólrúnar var þó ekki að byggja upp sjálfan flokkinn sem eðlilegt aðhald og mótvægi við þingflokkinn heldur kaus hún að styðjast við elítuhópa á eigin vegum – framhald af framtíðarhópunum (sem unnu margir gott starf ) – og vildi með nokkrum hætti sníða flokkinn utan um sjálfa sig, búa sér til sinn eigin flokk innan og utan við Samfylkinguna, ekki ósvipað og Blair í Bretlandi.

Hlutverk landsfunda og flokksstjórnarfunda var að alltof miklu leyti að skapa ramma fyrir ræður flokksforingja, að vera „sett“ fyrir sjónvarpsvélarnar. Þetta á við fyrstu ár flokksins í formannstíð Össurar, að sumu leyti af nauðung, en færðist í aukana eftir formannsskiptin.  Umræður voru ekkert sérlega æskilegar og óþægilegum málum vikið til hliðar – þar á meðal þeim sem tengdust umhverfismálum og stóriðjuáformum. Stefnan um of unnin í elítuhópunum og síðan stillt af fyrir kosningar með hjálp ókjörinna ráðgjafa sem sumir þurftu talsverð laun fyrir vinnu sína. Samband forystu og grasrótar lítið – í þessu félagi til dæmis, SffR, hefur það (með nokkrum undantekningum) verið viðburður að kjörinn fulltrúi komi á fund nema hann sé þar auglýstur sem ræðumaður. Taktík ákveðin í þröngum hópi. Staða áherslumála óljós, og umboð foringjanna óskýrt.

Flokkurinn var með þessum hætti vanbúinn til hinna erfiðu verka í ríkisstjórninni sem mynduð var vorið 2007.

Stjórnarsamstarfið – uppgjöfin undarlega

Ég ætla ekki að tala hér um sjálft hrunið og framgöngu okkar fólks hinar örlagaríku vikur haustið 2008, eða frammistöðu ráðherra og annarra þingmanna mánuðina og misserin áður. Þau mál eru gerð upp á öðrum vettvangi.

Hvað flokkinn varðar tel ég að afdrifaríkustu mistökin hafi verið gerð við sjálfa stjórnarmyndunina, og að þangað sé einkum að rekja vonda stöðu flokksins í þessu óheilla-stjórnarsamstarfi, sem umbótanefndin er nú að skoða.

Við hófum kosningabaráttuna í lágmarksfylgi, höfðum um 20% frá áramótum og fengum 18% á landsfundinum um miðjan apríl, hækkuðum aðeins eftir það en ekki almennilega fyrren kom fram í maí, náðum að lokum tæplega 27%, sama fylgi og 1999 en töpuðum fjórum prósentustigum og tveimur mönnum frá kosningunum 2003.

Kosningabaráttan var fagmannlega háð af okkar hálfu og í lokin töldu flestir að hér hefði unnist varnarsigur – við töpuðum að vísu kosningunum en unnum kannanirnar, einsog stundum er sagt. Samfylkingin hélt allavega stöðu sinni sem næststærsti flokkur landsins og átti mikla möguleika vegna slakrar niðurstöðu stjórnarflokkanna, einkum Framsóknarflokksins sem beið afhroð. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig, tæplega 3%, en þá er rétt að hafa í huga að þar vann Geir Haarde aftur einungis hluta þess fylgis sem Davíð Oddsson hafði tapað, 7%, í síðustu kosningum sínum vorið 2003.

Ég tel að einkum tvennt hafi skipt máli við þennan árangur. Annarsvegar umhverfisstefna flokksins, Fagra Ísland, sem vakti athygli og vonir í grænum kjósendahópum og meðal ungs fólks. Fagra Ísland gerði okkur að valkosti við VG í umhverfismálum – og tók stefnu VG fram að ýmsu leyti. Umhverfisstefnan braut niður múra og opnaði leiðir í kosningabaráttunni. (Það skiptir svo ekki máli hér að gerð hennar og samþykkt var ekkert alltof lýðræðisleg, sem við sýttum kannski ekki nægilega sem höfðum orðið undir í Kárahnjúkakúppinu.)

Öllu máli skipti hinsvegar efnahagsstefnan sem kynnt var í bæklingnum um Jafnvægi og framfarir. Þar var dregin upp dökk mynd af stöðu efnahagsmála og skipulagi hagstjórnar, lagðar til bráðaaðgerðir og langtímastefna, í efnismiklu en skýrlega skrifuðu og framsettu riti sem Jón Sigurðsson á af mestan heiður. Ritið um Jafnvægi og framfarir hjálpaði okkur ósköpin öll, skapaði frambjóðendum og forystumönnum sjálfstraust, var gott áróðursefni, eins langt frá auglýsingafroðunni og hægt var, og varð hljómbotn fyrir kosningastefnuna alla, velferðarprógrömmin Unga Ísland og Gamla góða fólkið og hvað þetta nú alltsaman hét.

Sjálfur lyfti ég litla rauða ritinu alltaf fyrst á loft á vinnustaðafundunum og sagði að hér væri hinn óþægilegi sannleikur – sem setti ramma utan um öll okkar loforð og fyrirheit. Þetta féll í góðan jarðveg. Fólki fannst við vera að tala í alvöru og ætla að leysa vandamálin. Raunverulegir jafnaðarmenn í norrænum stíl.

„Íslenska hagkerfið er í miklu ójafnvægi um þessar mundir.“ Upphaf formála Jóns Sigurðssonar. Kannski ekki alveg einsog vofan í Evrópu hjá Marx, en áhrifamikið rúmum þremur árum síðar. Grunntónn efnahagsstefnunnar er líka góð lesning:

Jafnvægi í efnahagsmálum á grundvelli traustrar stefnu í fjármálum og peningamálum er í senn forsenda varanlegra framfara í þjóðarbúskapnum og jafnréttis í samfélaginu. Það tjá og tundur sem fylgir stórum og tíðum sveiflum í gengi, vöxtum og verðlagi raskar forsendum fyrir fjárfestingu og rekstri nýrra, hagkvæmra fyrirtækja og verkefna í atvinnulífinu. Óstöðugleiki í efnahagsmálum og verðbólga sem honum fylgir rýrir sérstaklega lífskjör þeirra sem úr minnstu hafa að spila. Ábyrg stjórn efnahagsmála er í reynd undirstaða velferðarríkisins. Það er sérstaklega mikilvægt að stefnan í ríkisfjármálum og peningamálum sé vel samstillt og miði að því að halda verðbólgu í skefjum og skapa umhverfi sem eflir nýsköpun í atvinnulífinu.

Hvernig passar nú þetta við hagstjórnarstefnu Geirs Haarde II?

Þó er hér vissulega ekki spáð fyrir um bankahrunið – en af ritinu er augljóst að þegar þarf að grípa til umfangsmikilla aðgerða í efnahagsmálum. Þeim mun undarlegri er sú uppgjöf að þegar kom að stjórnarmyndun eftir hægt andlát fyrri ríkisstjórnar skipti efnahagsstefnan einsog engu máli.

Ég fékk um það óþægilegan grun um það bil hálfri annarri viku fyrir kosningar að forystumenn flokksins stefndu að samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn – nema þáverandi stjórnarandstaða fengi öruggan meirihluta sem sífellt varð ólíklegra. Nefið sagði mér þetta miklu heldur en ég hefði einhverskonar upplýsingar úr samtölum. Upp í slíka niðurstöðu gengu líka ýmsir atburðir síðustu misserin, sem meðal annars lýstu hlýju milli varaformanns Sjálfstæðisflokksins og formanns Samfylkingarinnar– undir merkjum einhverskonar kvennasamstöðu – og líka tónar frá öðrum áhrifamiklum foringjum okkar, þar á meðal Össuri.

Aðallega lá þó öllum lífið á að komast í ríkisstjórn – og þar er ég sjálfur ekki undanskilinn. Við álitum að flokkurinn þyrfti á því að halda, og að því höfðum við auðvitað stefnt, meðal annars með þeim undirbúningi að leitast við ábyrga afstöðu í þinginu í ýmsum þeim málum sem óábyrgari flokkar við hliðina á okkur nýttu til upphlaupa af hefðbundnu íslensku stjórnarandstöðutagi.

Kaffibandalagið (S-V-F) lifði ekki af kosningaúrslitin, og það gerðist sem verra var: Vinstriflokkarnir tveir brugðust við með því að fara í kapphlaup um samstarf við höfuðandstæðinginn. Vel má vera að ekki hafi annað verið hægt. Aumingi minn hafði þá týnt þingsætinu sínu og leið einsog vönkuðum manni í vegkanti eftir bílslys – en setti þó fram þá kenningu í bloggi nú væri ráðlegast að Samfylkingin og VG mynduðu blokk, kæmu sér saman um nokkrar grunnlínur við hugsanlega stjórnarstefnu og byðu hinum flokkunum – þá einkum Sjálfstæðisflokki – sameiginlega til viðræðna. Ef þeim yrði neitað gætu þeir myndað öflugan stjórnarandstöðupól og beðið þess að helsærð ríkisstjórn gæfist upp með sinn eins manns meirihluta. – Samdægurs predikaði Ögmundur í svipuðum stíl í afmælisveislu í Sigtúni, óháð mér auðvitað, þannig að hugmyndin kviknaði víðar, en þessi sáðkorn féllu í grýttan jarðveg. Sýna þó að aðar leiðir voru a emm ká hugsanlegar en sú sem farin var.

Í stjórnarmyndunarviðræðunum við Sjálfstæðisflokkinn var svo einsog samfelld gleymskuþoka legðist yfir bæklinginn góða um Jafnvægi og framfarir – og fyrri gagnrýni Samfylkingarmanna á hagstjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins. Í stjórnarsáttmálanum má að vísu finna einstakar leifar – en niðurstaðan var meira og minna sú að Sjálfstæðisflokkurinn réð för í efnahagsmálunum. Stundum er samstarf stjórnarflokka sýnt á skopmyndum einsog hjónaband á bóndabæ – mér hefur reyndar aldrei þótt það smekklegt grín – en hér má segja að slík líking hafi gengið upp. Sjálfstæðisflokknum féllu í skaut flest hin karllegu hlutverk í ganmaldags hjónalífi: Að ráða og skaffa og stjórna utanhúss; en Samfylkingin átti að vera húsmóðirin, sjá um að koma fæði og klæðum til heimilisfólksins, sinna börnunum og gamla fólkinu og niðursetningunum.

Þetta sést auðvitað skýrast á ráðuneytaskiptingu flokkanna. Þar tók Samfylkingin nokkurnveginn við fyrri ráðuneytum Framsóknarmanna, þannig að flestir meginráðherrar Sjálfstæðisflokksins sátu áfram á sínum stað. Það sem hér skiptir máli sérstaklega er að Sjálfstæðisflokkurinn réð tveimur af þremur helstu hagstjórnarpóstum stjórnarinnar, forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Þann þriðja, viðskiptaráðuneytið, fékk Samfylkingin. Það var hinsvegar rifið útúr öðru ráðuneyti þannig að þar var fyrsta verk að finna nýtt húsnæði og ráða yfirmenn – og Samfylkingin setti þar til verka mann sem vissulega hafði staðið sig ágætlega í stjórnmálastörfum en var nýliði við meðferð framkvæmdavalds og hafði enga sérþekkingu á sínu sviði.

Og skiptir alveg sérstaklega miklu máli vegna þess að á fjórða hagstjórnarpóstinum í stjórnkerfinu sat sá gamli sjálfur, Davíð í Seðlabankanum, sem svo lék eitt aðalhlutverkið á stjórnarheimilinu og í hruninu.

Innanflokks og í flokksjaðri hvöttu ýmsir til þess að djarfar yrði gengið fram í þessum efnum – að formaður flokksins krefðist þess að fjármálaráðuneytið kæmi í hlut Samfylkingarinnar og tæki þar sjálfur til starfa. Það varð ekki, og var borið við andstöðu í Sjálfstæðisflokknum – en mig grunar að sjálfan áhugann hafi skort, í fullu samræmi við þá húsbónda- og húsfreyjustefnu sem lagt var upp með í stjórnarsamstarfinu. Líka kann að hafa ráðið nokkru um samningsstöðuna að Geir Haarde gat alltaf bent á að í kortunum væri annar meirihluti, 25 frá D og 9 frá V.

Einsog áður segir verður saga ríkisstjórnarinnar ekki rakin hér frekar, en þessi mistök í upphafi stjórnarsamstarfsins reyndust flokknum dýrkeypt – og þó fyrst og fremst þjóðinni.

Ritið góða um Jafnvægi og framfarir sýndi að hagkerfið var sjúkt – og það sýndi líka að Samfylkingin gerði sér grein fyrir að það væri sjúkt. Þótt þar væri ekki spáð þeim ósköpum sem síðar urðu verður að álykta sem svo að efnahagsstefna Samfylkingarinnar hefði átt að gera forystumönnum flokksins  þá atburði að einhverju leyti fyrirsjáanlega. Og þar með að einhverju leyti fyrirbyggjanlega.

–  o –

Þetta allt þurfum við að rifja upp og ræða um. Ekki síst til að valda þeirri ábyrgð sem þjóðin hefur falið okkur með forustu í ríkisstjórninni sem á að reisa landið úr rústunum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Gagarýnir

    Þetta hljómar því miður eins og minningargrein. Og því lengri sem þær verða er efinn meiri.
    Það dönsuðu allir Hrunadansinn og óþarfi að taka upp hnútasvipuna.
    Nú í þessu ástandi er einmitt lag að koma á umbótum eins og mér sýnist Samfylkingin leiða, ég met það.

  • Vel skrifuð og hugrökk grein.

  • Ég er hvorki fylgismaður né síður aðdáandi þinn, Mörður.

    Þú hneigist of mikið til forræðishyggju og and-líberalisma fyrir minn smekk.

    Þú gerist íhaldsamur með aldrinum einsog fleiri.

    Það er vont og næstum því jafnleiðinglegt og rétttrúnaðarliðið í samstarfsflokknum sem þið hafið fært völdin á Íslandi.

    En þessi ræða og þessi greining er framúrskarandi.

    Sú besta sem okkur auðmjúkri alþýðunni sem á allt sitt undir vilja og valdi ykkar sem telja sig vita betur hefur verið boðið upp á.

    Já, tek hatt minn ofan fyrir þér.

    Þetta er mjög í áttina.

  • valdi kaldi

    Djöfuls snilld er þessi greining. Ég er alvarlega gáttaður.
    Þrífst svona skýr , heiðarleg, hugsun í þeim flokki – Samfylkingu?
    Ef flokkspólitískt graslamb mitt hefði sloppið við haustslátrun
    skvetti það nú svartsýninni úr klaufunum.

  • Vel skrifuð og fróðleg grein að lesa. Það er mjög fróðlegt að heyra hvað Mörður er hispurslaus og opinn þegar hann talar um peninga sem koma frá stórfyrirtækjum til Samfylkingarinnar. Eða þegar hann spyr þeirrar spurningar hvar þau Össur og Ingibjörg Sólrún hafi fengið þá milljónatugi sem baráttan um formannsembættið kostaði. Já maður spyr hvaðan komu þeir milljónatugir? Hvað fékk Jón Ásgeir og Baugur Group fyrir greiðann ? Það er líka afar eftirtektarvert sem Mörður segir um tilhugalíf milli Þorgerðar Katrínar og ISG fyrir kosningar sem leiddi til samstarfs Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins eftir kosningar. Þorgerður Katrín er uppalin á krataheimili og er veik fyrir kratisma meðan Ingibjörg Sólrúin hefur aldrei verið krati í hjarta sínu eða athöfnum. ISG er íhald í hjartanu, alin upp á íhaldsheimili og helftin af pólitískum ferli hennar í Kvennalistanum. Þessar konur ná saman af því ISG gerði sér far um að byggja brú til ÞKG. Samstarf þessara tveggja kvenna og þau áhrif sem ÞKG hafði á viljalítinn Geir Haarde varðandi að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum sem svo hefur meira en nokkuð annað gert það að verkum að Geir Haarde er útskúfaður og vinalaus innan síns eigin flokks. Það er ekki nokkur vafi á að Samfylkingin á Geir Haarde og ríkisstjórn hans með Samfylkingunni líf sitt að launa. Ef Samfylkingin hefði ekki komist í ríkisstjórn 2007 hefði hún liðast í sundur sem pólitískur flokkur, Alþýðuflokkurinn er enn til og lítið hefði þurft til að dusta rykið af Kvennalistanum en kommarnir leitað yfir í VG. En hvað um það, grein Marðar er skemmtileg og fróðleg lesning þó mér finnist hann skauta mjög billega yfir svellið í lokaorðum sínum þegar hann talar um forystu í ríkisstjórn „til að reisa landið úr rústunum“. Mörður minnist ekki einu orði á að sú rústabjörgun er alls ekkert að ganga né minnist hann á hversu berlega komið er í ljóst að Jóhanna er alls enginn foringi og því er samfylkingarfólk farið að sjá minninguna um ISG og einnig formennskutíð Össurar í Norður-Kóreönskum hyllingum.

  • María Kristjánsdóttir

    Gott að lesa þetta.

  • Hrafn Arnarson

    Góð grein. Heiðarleg og hreinskilin.

  • Aðalvandamál Samfylkingarinnar er algerlega óhæf forysta sem samanstendur af ábyrgðarlausum tækifærissinnum og sjálfsdýrkendum.
    Nú um stundir eru þar Jóhanna og Össur allra verst. Árni Páll gefur þeim lítið eftir.
    Næst stærsta vandamál Samfylkingarinnar og stjórnmálanna yfirleitt er hæfileikaleysið. Dæmi um það eru Björgvin og Katrín.
    Mörður Árnason er einn af fáum stjórnmálamönnum sem er sannur, er í stjórnmálum af hugsjón og alltaf sjálfum sér samkvæmur.

  • Mín spurning er hversvegna þessi grein núna? Maður hlýtur að setja hana í samband við Landsdómsmálið. Eru átök innan þingflokksins um Landsdóminn? Eru stuðningsmenn Ingibjargar að „hóta“? Fyrst kemur Kristrún Heimis og hótar að stofna kvennaflokk, svo kemur þú með uppgjör og játningar „in hindsight“, en samt bara þín söguskýring. Eða er Samfylkingin að koxa (gefast upp) og hver að hugsa um sig?

  • Erlendur Fjármagnsson

    Er þetta ekki ritstuldur frá Krútsjof 1956

  • Augljóst flestum fyrir löngu. En það líður að haustdögum
    … réttum og sláturtíð.
    Nú freistar margt jarmliðið þess að komast í hóp líflamba,
    … á vetur setjandi?
    Affarasælla væri að tendra bál og plægja sviðna jörð til lífs.

  • Gunnar Jóhannsson

    Sæll Mörður,

    Takk fyrir að birta þennan pistil.

    Ég tilheyri þeim hópi kjósenda sem oft eru kallaðir „lausafylgi“. Ég hef kosið fleiri stjórnmálaflokka en ég kæri mig um að muna. Það er hægt að segja að ég hafi nánast undantekningalaust orðið fyrir miklum vonbrigðum þar sem mér hefur fundist mínir menn/konur breyta þveröfugt við gefin fyrirheit.

    Það er hægt að draga saman þennan fína pistil þinn í eina litla setningu sem er þessi: Stjórnmálamenn eru í eðli sínu prinsipplausar druslur.

  • Takk fyrir þessa heiðarlegu úttekt á atburðarásinni. Aðrir stjónmálamenn mættu taka þig til fyrirmyndar.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Ég þakka fyrir þessa grein. Hún gefur fróðlega en ekki að sama skapi fallega innsýn í störf Samfylkingarinnar á síðustu árum. Lýsingin á því hvernig flokknum tókst að snúa vörn í sókn fyrir kosningarnar árið 2007 og ná fylginu af VG undir merkjum Fagra Íslands er merkileg. Ekki var eftirleikurinn síður merkilegur. Strax eftir kosningar fór plaggið í pappírstætarann og stefnan sniðin að hagsmunum verktaka og orkubraskara. Viðsnúningurinn var slíkur að á landsfundi Samfylkingarinnar árið 2009 munaði engu að opnað væri fyrir allsherjar álvæðingu. Og enn standa ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar gegn því að orkulindir Íslands séu nýttar í þágu almennings á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt.

  • Elfa Jóns

    Afar góður og heiðarlegur pistill.
    Ég tek ofan fyrir hugrekkinu og hreinskilninni.

    Þó hér sé talað um Samfylkingu, er ég nokkuð viss um að margt af þessu á í raun við alla flokkana og stjórnmálin í heild sinni.

    Það væri óskandi að fleiri opnuðu sig á þennan máta, það gæti verið fyrstu skrefin til að breyta stjórnmálaflokkunum innanfrá.

    Enda getur það varla verið gefandi fyrir stjórnmálafólk að leggja upp með hugsjónir og enda sem hlaupatíkur hagsmunaðila. Það hlýtur að vera eilítið dapurleg tilvera.

  • Gunnlaugur Ingvarsson

    Fín grein og heiðalega skrifuð. Hispurslaust.
    Ég vona að þú ásamt fleiri góðum þingmönnum Samfylkingarinnar hafið þann kjark til að bera og þora að samþykkja það að þessir 4 fyrrverandi ráðherrar hrun stjórnarinnar verði dregnir fyrir Landsdóm eins og meirihluti Rannsóknarnefndarinnar leggur til.

    En ég efast um að það verði allir þingmenn Samfylkingarinnar sem hafi kjark til þess að ISG verði í þeim hópi.

    Alla vegana las ég nú blogggrein Ólínu Þorvarðardóttur þar sem hún segist þurfa að djúphugsa þetta mál.

    Ég þykist alveg vita að Frú Ólína sé nú að fara í kafarabúninginn til að kafa eftir einhverri afsökun til þess að undanskilja ISG og kannski Björgvin líka.

    Þá mun nást nýtt bandalag Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á ný.

    Kannski verður þá rétt að leiða hrunkerlinguna Ingibjörgu Sólrúnu aftur til æðstu metorða innan Samfylkingarinna og gera kúlulánadrottninguna og vinkonu ISG að formanni Sjallana.
    Þá væri nú heldur betur hægt að mynda aftur nýja hægri stjórn og setja „Fagra Ísland“ öðru sinni í pappírstætarann !

  • Sigurður

    Góð grein Mörður.

    Hef þó enga trú á því að formannsslagur Össurar og Ingibjargar hafi kostað einhverjar tugi milljóna.

    Kannski 1 eða 2 milljón, og þau eru allveg borgunarmenn fyrir því.

  • Eiríkur Stefánsson Fáskrúðsfirði

    Mörður Árnason er hreinskiptinn stjórnmálamaður að skrifa svona grein.
    Ég vona að Samfylkingin og VG geti losnað úr viðjum fortíðar og endalausra kosningasvika.
    Því miður virðist þrífast inn í báðum flokkum rammur fortíðarfnykur lyga og undirferlis.

  • Takk fyrir þetta

  • Karen Getsdóttir

    Mjög góð grein, takk fyrir.

  • Ágæt ádrepa. Munum að strax 2006 sáust svartar skýrslur erlendra sér-
    fræðinga um ofvöxnu íslensku glæfrabóluna. Það hrikti þegar í öllum stoðum
    haustið 2007. Við vitum nú að hrunádansinn hófst þá, hann entist í ár.
    Vorið 2007 gat hafa orðið óskastund þjóðar, óskastund SF um leið !- Þá
    lifði enn vonarneisti um að afstýra mætti heljarhruni. En partýið var fram-
    lengt undir forystu og í anda Sjálfstæðisflokksins, varð að villtu geimi.

  • ISG eyðilagði líka kvennahreyfinguna á Íslandi. Hún, þessi eldklára kona, notaði kvennakúgunina og Kvennaframboð og Kvennalista til að komast til valda, en um leið og hún náði takmarki sínu, var Kvennaframboð/Kvennalistinn lagður niður.
    Sem borgarstjóri vann hún þann ótrúlega sigur að sameina vinstri menn, en hún hugsaði afar lítið um hag kvenna, neio hún var orðinn sami karlpólitíkusinn og hinir andlega samkynhneigðu karlar.
    Nú, þegar syrtir aftur í álinn notar hún kvennapólitíkina aftur.

  • Mörður. Þetta er góð leið sem þú ferð. Hvorki afneitun, ásökun né undirstrikun heilags sannleika.

    Min langar að krukka í fáin atriði. Ég er reyndar kanski dæmdur úr leik þar sem ég bý í landinu þar sem áhrif sósíaldemokratískra lausna hefur leitt til þeirra áhrifa fjármálakreppunnar að kaupið hefur hækkað og atvinnuleysið minnkað. Hvað um það.

    Þú segir: „…rétt að hafa í huga að síðustu áratugi hafa stjórnmálaflokkarnir sjálfir skipt sífellt minna máli í íslenskum stjórnmálum. Að sumu leyti skyggja stjórnmálamennirnir á stjórnmálaflokkana.“
    Örugglega rétt. Hitt er kanski áhrifameira að samtímis því að flokkar hætta að vera flokkar og stjórnmálin „einkavædd“ er samfélaginu kúvent og frá stjórnmálunum tekin möguleikinn til áhrifa, NEMA þú gerist þjónn áhrifavaldanna. Stjórnmálaöfl sem treysta því að lýðræði og þingræði virki bíða augljóslega ósigur, því þar liggja engin völd. Gott dæmi um þetta er tiltölulegt valdaleysi núverandi ríkisstjórnar, sem starfar enn á sama grunni og hrunveldið. Völd samfélagsins eru ennþá hjá þeim sem róa „kapítalinu“ – í kvótaútgerð, bönkum , skilanefndum etc.

    Þú segir: „Leið Ingibjargar Sólrúnar var þó ekki að byggja upp sjálfan flokkinn sem eðlilegt aðhald og mótvægi við þingflokkinn heldur kaus hún að styðjast við elítuhópa á eigin vegum …“
    ISG beit sem sagt á agnið og fór leið fjrálshyggjunnar. Líklega ekki vísvitandi, enda varð niðurstaðan hvorki fugl né fiskur – hvorki flokkur né þjónar. Það sýndi sig svo að of margir stefndu út á svið stjórnmálanna á vængjum lánuðum eða keyptum af þeim sem nýskeð höfðu fengið afhent fjármálavöld í samfélaginu. Í þessu ríki jafnaðarmennskunnar sem í bý í, myndi ekki einu sinni hægriflokkurinn (systurflokkur Sjálfstæðisflokksins!) láta sig dreyma um að fórna lýðræðinu á þann hátt sem því miður gerðist á Íslandi.

    Þú segir svo: „Jafnaðarflokki er skylt að halda góðu sambandi við forystumenn í atvinnu- og efnagslífi. Þau urðu þó til þess að deyfa sýn flokksforystunnar og flokksmanna á þróunina í viðskiptalífinu, villa um fyrir okkur gagnvart einkavæðingu bankanna (þótt þar hafi flokkurinn vissulega lagt til skárri leiðir en farnar voru), og slaka á árvekni gagnvart útrás, ævintýramennsku og græðgisvæðingu. Viðurkennum það bara: VG stóð sig betur, með allar sínar gömlu og leiðinlegu lummur.“

    Eitthvað skolast til: Halda góðu sambandi. Varð til þess að deyfa sýn etc. Ég held að þetta góða samband hafi alls ekki verið til staðar og hafi verið eitthvað samband þá varð það til aukinna óheilla. Samband jafnaðarflokks við atvinnu- og efnahagslíf hlýtur fyrst og fresmt að vera í gegn um verkalýðshreyfinguna. Þetta ætti að vera sérstaklega augljóst í flokki sem á sér fátæklegar stoðir meðal fólks og leiðtoga sem „styðst við elítuhópa á eigin vegurm“. Mér sýnist samband jafnaðarflokksins við verkalýðshreyfinguna ekki vera upp á marga fiska. Kanski ég sjái þetta öðruvísu héðan út fjarlægð?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur