Mánudagur 27.09.2010 - 18:53 - Lokað fyrir ummæli

Ábyrgð

Hér er þingræða um málshöfðunartillögurnar – flutt um sexleytið á mánudegi, fyrst og fremst íhuguð störf ríkisstjórnarinnar 2007 til 2009:

Heill þingflokkur og nokkrir einstakir háttvirtir þingmenn að auki hafa í þessari umræðu og hinni fyrri efast um formsþætti málsins, fullyrt að lögin um landsdóm væru nánast úrelt og haft miklar áhyggjur af mannréttindum þeirra sem kynnu að standa í sporum sakborninga fyrir dóminum, ennfremur átalið þingmannanefndina fyrir vinnubrögð í þessum málum sem hér eru til umræðu.

Tvennt um þetta áður en kemur að meginþætti málsins: Annarsvegar að mér finnst nokkurnveginn nýkomnum til þings afar undarlegt að hlusta á þessa umræðu núna í september 2010. Þessu verki var hrundið af stað í desember í fyrra, á sama löggjafarþingi og nú stendur ennþá – og þegar maður les þrjár umræður um frumvarpið um þingmannanefndina sést að það koma ekki fram í einni einustu ræðu efasemdir um þetta efni. Ekkert töluðu þá um þetta háttvirtir þingmenn Birgir Ármannsson, Ólöf Nordal, Unnur Brá Konráðsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Bjarni Benediktsson, hvað þá aðrir.

Hinsvegar að ég tel enga ástæðu til efasemda eftir talsverða vinnu einmitt í formsþættinum, hef hlustað á miklar sveitir lögfræðinga tala um þetta meðal annars, annarsvegar í þingflokki Samfylkingarinnar og síðan í allsherjarnefnd hér á dögunum, og sé engin þau sannfærandi rök – í ritum fræðimanna eða dæmum frá öðrum ríkjum – sem hér ættu við. Fordæmi hér heima eru ekki til einsog allir vita.

Í þriðja lagi, forseti, las ég aftur nákvæmlega þá þingsályktunartillögu sem oft hefur verið vitnað til síðustu daga, sem núverandi hæstvirtur forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, flutti á fjórum þingum, frá 2001 til 2005, síðast ásamt mér meðal annarra. Þar er ekki að finna neinar efasemdir um þau efni sem okkur varða – en fitjað upp á ýmsum breytingum, sem ég er reiðubúinn að kynna og ræða hér síðar ef óskað er. Margt merkilegt þar en á ekki við okkar stöðu. Auk þessa er rétt að nefna svar forseta alþingis við fyrirspurn um landsdóm og ráðherraábyrgð frá 21. desember 2009 – þar er heldur ekkert talið sem ætti að hindra það ferli sem nú er farið af stað.

Það er auðvitað ýmislegt sem þarf að skoða seinna í þessum efnum. Til dæmis erum við hér í þeirri furðulegu stöðu í máli sem snýst um störf 4 ráðherra í ríkisstjórninni 2007 til 2009, að hér greiða atkvæði 7 aðrir ráðherrar úr sömu ríkisstjórn. Og sé staðan í málinu sú sem rætt er um hér í hliðarsölum og í fjölmiðlum, þá eru það einmitt þessir sjö ráðherrar sem ákveða hvort málshöfðunin nær fram að ganga. Gömlu ráðherrarnir úr síðara ráðuneyti Geirs H. Haarde hafa sumsé málið í höndum sér, núverandi þingmenn og ráðherrar hátt- og hæstvirtir Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján L. Möller, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Össur Skarphéðinsson. Þetta er auðvitað ekki eðlilegt, en það verður að gera þá kröfu að þessir núverandi þingmenn og ráðherrar skýri mjög vel út fyrir þingi og þjóð hér í umræðunni á hvaða forsendum þeir taka afstöðu í málinu um fyrrverandi samráðherra sína og verkstjóra.

Forseti

Ég hef kappkostað að vinna að minni afstöðu í þessu máli eins vandlega og heiðarlega og mér er unnt. Ég lít svo á að hér verði hver alþingismaður að hugsa óvenjulega fast um tvennt það sem markar farveg störfum allra þeirra: Í fyrsta lagi drengskaparheit mitt að stjórnarskránni, í öðru lagi sá áskilnaður sömu stjórnarskrá að leiðarljós í störfum mínum fyrir þjóðina sé fyrst og fremst sannfæring mín.

Þetta mál – flókið sem það kann að virðast – er í raun og veru einfalt. Stjórnarskráin skipar mér að athuga hvort þau sakarefni sem hér eru talin séu nægileg og líkleg til sakfellingar þeim ráðherrum fjórum sem um ræðir.

Fyrst nokkur orð um afmörkun þessara fjögurra. Afhverju fjórir, hafa menn spurt, afhverju ekki allir tólf – eða að minnsta kosti líka þessi ráðherra og hinn ráðherrann. Svarið af minni hálfu er einfaldlega það að það voru þessir fjórir sem báru ábyrgð á efnahagsmálum og hagstjórn í ríkisstjórninni 2007–2009. Aðrir voru athugaðir í rannsókn þingmannanefndarinnar, en þóttu ekki koma til álita, og ég er því sammála svo langt sem nef mitt nær.

Ég harma það á hinn bóginn að hverjar sem sakir þessara fjögurra stjórnmálamanna kunna að vera þá nær alþingi og hugsanlegur landsdómur ekki til þeirra sem bera enn meiri ábyrgð og hafa jafnvel enn meira erindi í landsdóm að verja sig. Þetta eru forystumenn ríkisstjórnanna sem hér sátu frá árinu 2003 til 2007, þeir sem fá þá einkunn í skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis að á þeirra vakt, í síðasta lagi árið 2006, hefði verið hægt að koma í veg fyrir fall bankanna haustið 2008. Þessir menn og þessir flokkar brugðust þjóð sinni með skaðlegum aðgerðum og skaðlegu aðgerðaleysi, ekki síst með því að skipta ríkisbönkunum milli vina sinna og vanrækja vegna kreddukenninga að hafa með þeim eftirlit af hálfu almannavaldsins – og gerðu svo illt verra með hagstjórn sem ýmist einkenndist af villtri frjálshyggju eða rakalausum popúlisma – samanber íbúðarlánin sem áttu verulegan þátt í fasteignaverðsbólunni.

Þetta fólk er undanþegið hugsanlegri ákæru vegna fyrningarfrests landsdómslaganna. Sumum finnst – og það er alveg skiljanlegt – að þar með eigi að láta aðra í friði. Það lýsir vissulega ákveðinni sanngirni og hjartahlýju – en stendur þvert á réttarfarsvenjur í nútímasamfélagi. Við alþingismenn höfum ekkert val í því efni: Þessir fjórir – plús eða mínus– eru þeir sem standa núna fyrir framan okkur – það eru sakarefnin á hendur þessum fjórum sem hér eru til rannsóknar. Það alvarlega í þessu sambandi er það að ef við bregðumst við þetta verk – þá höfum við um leið fríkennt þá sem áður komu. Sýkna nú á einhverskonar mér-finnst-forsendum frá þeim sem stjórnarskráin hefur falið málshöfðungegn brotlegum ráðherrum – slík sýkna er um leið sýkna yfir þeim fyrri foringjum sem hér bera vissulega mesta sök.

En hér þarf að sjálfsögðu að fara gætilega. Að lokum er spurt um sakarefnin og líkindi á sakfellingu, sem við þurfum að vera sannfærð um að séu að minnsta kosti jafnar og sýkna – að minnsta kosti 50% líkur. En það nægir líka, segja saksóknarar og fræðimenn í refsirétti.

Þau sakarefni sem felast í alvarlegri vanrækslu gagnvart váboðum árin 2007 og 2008, og felast í því að hafa ekki brugðist við innan ríkisstjórnarinnar, á hinum svonefndu ráðherrafundum, þegar ráðherrana átti að renna í grun hver háski vofði yfir. Þetta er niðurstaða sjö af níu fulltrúum í þingmannanefndinni – og í þessu styðjast fulltrúarnir sjö rækilega við rannsóknarskýrsluna. Menn gera mikið úr ágreiningi og klofningi, og mismun skýrslu og ákæru. Fyrir því tali er vissulega fjöður – en meginatriði eru þó alveg ljós í þessu gagnvart ábyrgðarmönnum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Sjálfur hef ég ekki komist að endanlegri niðurstöðu um þetta gagnvart öllum fjórum ráðherrunum, og ég geri ráð fyrir að nota til þess allan þann tíma sem við höfum fram að atkvæðagreiðslunni. Á þessu stigi get ég þó sagt að mér þykja öll vötn falla til þess fjarðar að í síðara ráðuneyti Geirs H. Haarde hafi verið sýnt stórkostlegt gáleysi og alvarleg vanrækt í efnahagsmálum. Það má vera rétt hjá rannsóknarnefndinni að ekki hafi verið hægt að koma í veg fyrir fall bankanna eftir árslok 2006. Þá er að minna á þau orð í skýrslu hennar að sú ríkisstjórn sem tók við greip heldur ekki til þeirra ráða sem hugsanlega hefðu getað dregið úr afleiðingunum af fallinu, afleiðingunum sem við sjáum allt í kringum okkur og þarf ekki að rekja hér.

Ég er með öðrum orðum kominn að þeirri niðurstöðu að forsætisráðherrann fyrrverandi, og eftir atvikum aðrir ráðherrar, annaðhvort gátu vitað eða máttu vita og að minnsta kosti áttu að vita hvað var á seyði í bönkunum og hversu fátæklegur viðbúnaðurinn var af hálfu stjórnsýslunnar. Þetta sýna öll málsgögn. Forsætisráðherrann er skipstjórinn á þjóðarskútunni. Hann er – eftir atvikum ásamt áhöfn sinni – ábyrgur fyrir siglingunni.

Menn láta hér sumir einsog ráðherrarnir í ríkisstjórninni 2007–2009 séu fórnarlömb. Þeir hafi ekkert getað áttað sig á náttúruhamförunum sem yfir riðu frá útlöndum. Vondu kallarnir i bönkunum hafi platað þá – og sumir félagar mínir bæta því við að hinn plataði Sjálfstæðisflokkur hafi svo vikið úr vegi til að plata Samfylkinguna. Ég legg til að þeir sem halda þessu fram fari vandlega yfir atburðarásina árið 2008 sem lýst er hjá þingmannanefndinni bls. 105 og áfram, bara tíu-fimmtán síður, í umfjöllun um 6. bindi rannsóknarnefndarskýrslunnar. Skal fara yfir þetta í síðari ræðu ef áhugi er á og tími gefst til.

Ég hvet þá til að skoða sérstaklega sögu Icesave-reikninganna og viðbragða hvers og eins ráðherranna við þeim. Dótturfélagið í Bretlandi og upphaf útlána í Hollandi á starfstíma ríkisstjórnarinnar. Ég hvet þá til að íhuga hverskonar andvaraleysi, gáleysi, vanrækt það er sem felst í því að þáverandi utanríkisráðherra, oddviti Samfylkingarinnar í stjórnarsamstarfinu og talsmaður Samfylkingarinnar í efnahagsmálum, sagði úr þessum ræðustól hér hinn 2. september 2008, mánuði fyrir hrun, í umræðu um skýrslu forsætisráðherra um efnahagsmál, að eitt af ráðunum til að leysa lausafjárvanda bankanna, sem ríkisstjórnin taldi þá eitt helsta úrlausnarefni í hagstjórninni, væri það að bankarnir ættu að stofna fleiri Icesave-reikninga í útlöndum. Með leyfi forseta: „Þeir geta haldið áfram að afla sér innlána á erlendum mörkuðum …“ Hvernig fellur þetta að alvarlegum athugasemdum sem löngu voru komnar fram um þessa starfsemi frá Amsterdam og Lundúnum? Hagstjórnarráðherrar ríkisstjórnarinnar vissu vel af þeim. En þeir vildu meiri innlán í útlöndum, og fyrrnefndur ráðherra gaf sama ráðið í Fréttablaðsgrein tveimur dögum síðar, 4. september haustið 2008, að bankarnir gerðu best í því að auka enn innlán á erlendum mörkuðum.

Það er líklega margt til í því að ekki hafi verið hægt að bjarga bönkunum eftir 2006. En kannski var hægt að bjarga öðrum? Hindra tjón fyrirtækja og almennings sem grunlaust og án nokkurrar aðvörunar af hálfu stjórnvalda héldu áfram að fjárfesta í tækjum og bílum og húsum allt árið 2008 fram að mánaðamótum september-október, héldu áfram í þeirri góðæristrú sem ríkisstjórnin hélt leynt og ljóst á lífi erlendis og innlendis, meðal annars með hástemmdum en algerlega innihaldslausum yfirlýsingum um traust bankakerfi á Íslandi. Hvaða skjól er þessu fólki og þessum fyrirtækjum í þeirri afneitunarmöntru að við í ríkisstjórninni seinustu gátum ekkert gert eftir 2006? Ekkert skjól – enda bregst það við með reiði – sannarlega réttlátri reiði – en því miður miklu heldur með fálæti, jafnvel uppgjöf – gagnvart þessu samfélagi sem ekkert vit virðist vera í,þessu samfélagi þar sem enginn virðist bera ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut.

Forseti

Spurningin sem við alþingismenn stöndum frammi fyrir, hún er í rauninni sú hvort athafnir ríkisstjórnarinnar 2007 til 2009  og athafnaleysi hennar – hvort þetta lýsir eingöngu vanrækt og gáleysi, einsog háttvirtur þingmaður Birgir Ármannsson taldi hér fyrr í dag, eða hvort þetta er til merkis um alvarlega vanrækt og stórkostlegt gáleysi? Þetta er það sem við eigum að skera úr, miðað við sannfæringu okkar og miðað við drengskaparheit okkar unnið að stjórnarskránni. Sem betur fer dæmum við ekki. Það gera aðrir og það er mikil ábyrgð. En þá verðum við að gá að því, einsog Sigurður Tómas Magnússon fyrrverandi saksóknari sagði í útvarpinu og síðar í allsherjarnefnd, að í raun kveður saksóknari upp sýknudóm með því að falla frá ákæru. Í slíkri ákvörðun felst líka mikil ábyrgð gagnvart samfélaginu og ggnvart framtíðinni.

Ríkisstjórn Geirs Haarde tókst kannski ekki upp sem skyldi, segja ýmsir flokksfélagar mínir, en sakirnar hafi þegar verið fyrir hendi þegar sú stjórn tók við. Óháð sakarefnum einstakra ráðherra hvet ég þá Samfylkingarmenn sem telja að flokkurinnn hafi verið fórnarlamb í ríkisstjórninni 2007–2009, einkum þá hér á þinginu sem sátu í þessari sömu ríkisstjórn, studdu hana eða störfuðu á hennar vegum, til að rifja upp grundvallarrit flokksins fyrir kosningarnar 2007, rit hagráðsins okkar um Jafnvægi og framfarir. Þar höfðu menn að vísu ekki hugmyndaflug til að spá fyrir um fall bankanna en í þessu riti er því lýst í greinilegu og rökstuddu máli að hagkerfið var orðið fársjúkt veturinn 2006–2007, þannig að næsta ríkisstjórn yrði að grípa til róttækra ráðstafana. Hvað var gert við þetta rit um Jafnvægi og framfarir? Það var ekki mikið. Sjálfstæðisflokknum var eftirlátin efnahagsstefnan, og við skiptingu ráðuneyta fékk Samfylkingin aðeins einn hagstjórnarpóst, viðskiptaráðuneytið, sem var klofið út úr öðru ráðuneyti og sett af stað með fámennt starfslið, auglýst eftir ráðuneytisstjóra. Yfir það var settur stjórnmálamaður án sérþekkingar eða reynslu á þesu sviði, nýliði við framkvæmdavaldsverkefni. Á meðan sat gamli Sjálfstæðisflokkurinn í forsætisráðuneytinu, í fjármálaráðuneytinu og í Seðlabankanum. – En auðvitað tókum við í Samfylkingunni að okkur það stórmerkilega verkefni fyrir lýðveldið að koma íslenskum diplómat í Öryggisráð hinna Sameinuðu þjóða.

Forseti

Það er eðlilegt að við tökum hér almennt til umræðu verk ríkisstjórnarinnar 2007 til 2009, sem hóf feril sinn sem Þingvallastjórnin en er nú einna helst kölluð hrunstjórnin. Menn hafa sumir kallað eftir því til hvaða ráða hún hefði átt að grípa. Einn ræðumanna í fyrri umræðu, ráðherra, taldi að hún hefði ekkert getað hreyft sig vegna hugsanlegrar skaðabótaábyrgðar. Það er stórt orð, skaðabótaábyrgð, og ekki von að nokkur ráðherra þori í námunda við slík ósköp. Tveimur árum síðar gefur á að líta um skaðabótaábyrgðina. Skaðinn er skeður. Bótina vantar. Og ábyrgðin er útí móa.

Málflutningur af þessu  tagi – að ríkisstjórn Geirs Haarde hafi í raun ekkert getað gert – þessari umræðu er eiginlega lokið, að minnsta kosti á hinum pólitíska vettvangi. Hún fór fram í desember, janúar og febrúar 2008 til 2009. Þessi málfutningur var hrópaður niður hér úti á Austurvelli fyrir tveimur árum. Sú bylgja sem þar hófst svipti gömlu ríkisstjórninni frá völdum og kom á nýrri ríkisstjórn. En kannski var það alltsaman bara misskilningur?

Samfylkingin – ég á við sjálfan stjórnmálaflokkinn með uppundir tuttugu þúsund félaga –  hún hefur af sinni hálfu svarað þessari spurningu um verk ríkisstjórnarinnar 2007 til 2009, hvað sem sumir fulltrúar þess flokks hér á þingi kunna að vera að segja og hugsa og gera. Það svar var veitt á flokksstjórnarfundi – æðstu stofnun flokksins milli landsfunda – í Garðabæ laugardaginn 17. apríl þessa árs, þegar fundurinn samþykkti erindisbréf handa sérstakri umbótanefnd sem nú er störfum í flokknum. Að gefnu tilefni og með leyfi forseta ætla ég að ljúka máli mínu hér með upphafi þessa erindisbréfs sem var samþykkt einum rómi á um tvöhundruð manna áhrifamiklum fundi:

Samkvæmt ítarlegri og vandaðri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði má rekja rætur hrunsins til þess hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna og markvissri stefnu um afskiptaleysi þar til svo var komið í ofvexti bankakerfisins að grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi árið 2006 til að forða hruni. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar var því þegar of seint að bjarga bönkunum frá falli þegar Samfylkingin settist í ríkisstjórn 24. maí 2007. Hins vegar kemur afdráttarlaust fram í skýrslunni að grípa hefði mátt til margvíslegra aðgerða til að draga úr tjóni samfélagsins eftir að Samfylkingin tók sæti í ríkisstjórn. Þar liggur ábyrgð Samfylkingarinnar.

Ég endurtek:

Hins vegar kemur afdráttarlaust fram í skýrslunni að grípa hefði mátt til margvíslegra aðgerða til að draga úr tjóni samfélagsins eftir að Samfylkingin tók sæti í ríkisstjórn. Þar liggur ábyrgð Samfylkingarinnar.

Forseti

Að minnsta kosti þar liggur ábyrgð þeirra ráðherra sem nú er rætt um hér á alþingi. Og nokkurnveginn þar liggur líka ábyrgð okkar sem hér stöndum og getum ekki annað.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Thrainn Kristinsson

    takk takk!

  • Flott og greinargóð ræða.

    Hafðu þökk fyrir þetta.

  • Pétur Tryggvi

    Sá og heyrði af og til frá Alþingi í dag. Leið illa.
    Eftir að hafa lesið þitt innlegg, færðist yfir mig ró.
    Takk fyrir.

  • Eiríkur Beck

    Þegar ég tók dópara nefndi hann gjarnan að hann hefði keypt það af öðrum og að það væru allir að nota dóp. Málið var einfallt. Ég tók hann með dóp og fyrir það skyldi hann fyrir dómara sem rannaskaði mína rannsókn. Fíkninefnaneysla á Íslandi var þar ekki til rannsóknar. Málið er týpíkst íslenskt. Austu drullunni í allar áttir í von um að það sjáist drulla á öllum og ekkert sé hægt að gera. Það fer okkur Íslendingu svo vel að gera ekki neitt en bulla. Er búinn að hlusta á alþingi síðustu daga og mér ofbýður. Vertu ekki að vorkena sjálum þér að þurfa að taka ákvörðun. Þú bauðst þig fram í það. Eiga ekki að fara fram sjópróf af því dallurinn liggur ónýtur upp í fjöru hvort sem er.

  • Stórkostlegt gáleysi er það að kynna sér málin ekkert þó að rík ástæða sé til þess. Og þar af leiðandi gera þá engar ráðstafanir.

    Að vita betur en vona að allt fari vel – er hins vegar lægsta stig setnings.
    Kallað dolus eventualis á latínu.

    Dæmi um það væri útgerðarmaður sem veit að botnlúga í skipi hans er ótraust en sendir skipið engu að síður á sjó og vonar að það komist alla leið.

    Að senda skipið á sjó er fullframið ásetningsbrot, lægsta stig af þremur.

  • í enda þriðju línu á að standa ásetnings en ekki setnings.

  • fridrik indridason

    góð ræða mörður

  • Eiríkur Brynjólffsson

    Allt satt og rétt Mörður.

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur