Fimmtudagur 30.09.2010 - 09:33 - 44 ummæli

Júdas ráðinn á Moggann

Alþingi komst að þeirri niðurstöðu með þrjátíu og þremur atkvæðum gegn þrjátíu að sakarefni á hendur forsætisráðherra stjórnarinnar 2007–2009 væru nægileg og líkleg til sakfellingar fyrir landsdómi, sem samkvæmt stjórnarskrá dæmir um brot ráðherra.

Það er algerlega eðlilegt að ýmsar skoðanir séu uppi um þessi málalok á þinginu. Mikil umræða hefði komið upp í samfélaginu um hverja þá niðurstöðu sem alþingi hefði komist að um málshöfðun eftir þann feril sem það ákvað sjálft í desember í fyrra þegar samþykkt voru einróma lögin um þingmannanefndina. Hvernig ímynda menn sér að tónninn væri í umræðunni ef meirihluti alþingis hefði fellt allar tillögurnar um málshöfðun á hendur fyrrverandi ráðherrum?

Líka eðlilegt að mörgum sé heitt í hamsi þegar mál er í fyrsta sinn höfðað gegn ráðherra fyrir þessum dómi. Spurningarnar um sök og ábyrgð eru margslungnar. Enginn einn er algerlega sekur í þess orðs daglegu merkingu, og fáir geta með öllu vikið sér undan einhverri ábyrgð.

Að gera reiðina að dagskipan í heilum stjórnmálaflokki er þó varla skynsamlegt eða hollt fyrir sálarlífið, hversu viðkvæmur sem valdahópurinn í Sjálfstæðisflokknum kann að vera fyrir því að geta ekki lengur sagt fólki á Íslandi að sitja og standa einsog honum einum sýnist.

Allavega veltir maður aðeins vöngum yfir orðbragði forystumanna flokksins, einstakra þingmanna hans (þar á meðal í undarlegum persónulegum hótunarbréfum) og ekki síst gamla flokksmálgagnsins sem nú er samið uppi í Hádegismóum. Hér eru gullmolar úr Morgunblaði dagsins frá þríeykinu mikla, Davíð, Agnesi og Kolbrúnu, í leiðara, pistli og „frétt“, lauslega tengt saman til frekari ánægju og yndisauka.

Agnes:

Þungt hljóð í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem eru ævareiðir og hafa megna fyrirlitningu á þingmönnum úr Samfylkingunni og Framsóknarflokknum sem standa nú fyrir pólitískum réttarhöldum og pólitískri aðför, sviku í leiðinni sitt eigið fólk og eru þessvegna niðurlútir og skömmustulegir, enda óalandi, óverjandi og óferjandi eftir að hafa afhjúpað sitt rétta eðli með sínum aumingjalegu jáum, tvískinnungi og ómerkilegheitum.

Kolbrún:

Þetta er algjör niðurlæging og Samfylkingin sek um ákærugleði og ómerkilegheit enda tapað skynsemisglórunni, og útatað samvisku sína með subbuskap en fyrirlitlegust af öllu er sú skömmómerkilegir pólitískir loddarar standi fyrir þessari fórn til að friða lýðinn með himinhrópandi óréttlæti.

Og Davíð, sem kann sínar Biblíusögur:

Margt ógeðfellt á þinginu sem samþykkti samhljóða froðusnakk Atlanefndarinnar (þingsályktunartillöguna um samfélagsúrbætur eftir hrunið) en síðan komu siðleysingjarnir og kóngarnir í drafinu sem toppuðu viðbjóðinn þannig að Júdas hefði öfundað þá.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (44)

  • Höfðu líkleg eða möguleg viðbrögð almennings sem sé áhrif á afstöðu þína?

  • Ákæra Geir en ekki Björgvin. Það er skrípaleikur á við „stríð er friður“ að sjá ykkur Skúla Helgason reyna að réttlæta sjálfa ykkur. Oft hefur pólitíkin á Íslandi verið á lágu plani, en það má fullyrða að pólitískar ofsóknir í formi réttarhalda er nýtt met í þeim efnum. Það verða ekki nógu sterkt orð höfð um þann ógeðisverknað sem þið hafið framið.

  • Jóhannes Laxdal

    Ég vona bara að þið samþykkið ekki fjölmiðlalög Katrínar Jakobsdóttur útaf þessum gusugangi Mörður.

  • Mörður Árnason

    Rósa: Nei. Við þessa ákvörðun varð að horfa bæði fyrst og fremst á þetta sem lögin og spekingarnir bjóða: Eru sakarefni næg og líkleg til sakfellingar? Öll önnur sjónarmið hlutu að víkja þangað til þessu væri svarað.

    Bendi annars á góðan pistil eftir Jón Ólafsson — í miðdálki Eyjunnar, og hér: http://www.jonolafs.bifrost.is/2010/09/30/abyrg%C3%B0-sekt-og-s%C3%A6ttir/

  • Bragi Páls

    Tek ekki þessari röksemd þinni né samflokksmanni þínum þessum prófessor á Bifröst, en þar er hann að reyna að „réttlæta“ það að Geiri fari fyrir landsdóm.

    Jón er hreinlega að réttlæta það, að það sé rétt að henda Geir einum fyrir ljónin, en ekki hinum þremur.

    Og svo spyr maður sig; af hverju ekki Jóhanna og Össur þá líka?
    Þau voru í hrunstjórninni og léku þar veigamikil hlutverk.

    Aumlegt yfirklór hjá Jón þessum, sem verður honum ekki til framdráttar.

  • Marbendill

    Hvað ætlar þetta fólk að segja ef Geir verður fundinn sekur?

    Varla er það of mikil ákærugleði ef hann er í rauninni sekur eins og skýrsla rannsóknarnefndarinnar bendir til. Skynsamir menn sjá að þvert á móti eru alþingismenn þjakaðir af ákærufælni og hefði verið gott að fá úr því skorið hvort fleiri hafi brotið landslög með því að gera þjóðina gjaldþrota.

    Hitt er annað mál, að þessu máli er ekki lokið frá sjónarhóli þjóðarinnar. Það gerist ekki fyrr en rannsóknarnefnd verður sett á laggirnar sem fær það hlutverk að greina orsakir hrunsins og gerir það á jafn sannfærandi hátt og fyrri rannsóknarnefnd hverrar hlutverk náði því miður einungis til þess tímabils þegar hrunið var orðið óumflýjanlegt.

    Er ekki orðið tímabært að landsmenn fari að hugsa um eigin hag en ekki hag stjórnmálaflokkanna sem hafa traðkað á okkur og komið okkur í þá hörmulegu stöðu sem raun ber vitni?

  • Þið á þingi skituð allhressilega upp á bak.

    Þið sjáið það á morgun í mótmælunum.

  • Drífðu þig að koma þessu á netið Mörður, áður en þú skiptir um skoðun

  • Þakka svarið.

    Eftirfarandi orð þín mátt skilja á þann veg að þú hefðir haft áhyggjur af hugsanlegum viðbrögðum almennings:

    „Hvernig ímynda menn sér að tónninn væri í umræðunni ef meirihluti alþingis hefði fellt allar tillögurnar um málshöfðun á hendur fyrrverandi ráðherrum?“

    En gott er það og vel.

    Í rannsóknarskýrslunni er beinlínis fullyrt að allt hafi brugðist hér á landi og þá er Alþingi ekki undanskilið.

    Því spyr ég: Hver var og er siðferðisleg staða þingsins til að taka ákvarðanir um ákærur á hendur fulltrúa framkvæmdavaldsins þegar ljóst er að þingið sjálft brást ekki síður?

    Bar þingmönnum ekki að standa vörð um hagsmuni almennings? Er ekki alveg dagljóst að það gerðu þeir ekki?

    Ég tek fram að ég taldi sjálfsagt að allir fjórir fyrrum ráðherrar yrðu ákærðir og raunar miklu fleiri en þeir.

    En ég tel að allir þeir sem sátu á þingi í aðdraganda hrunsins í og í því sjálfu hafi verið með öllu óhæfir til að fara með ákæruvald í málefnum tengdum hruninu.

    Og þannig hlýtur það að vera enn. Því tel ég kosningar nauðsynlegar.

    Fróðlegt væri að fá sjónarmið þitt fram um þetta.

    Kveðja,
    Rósa

  • Framferði sumra ykkar Samfylkingarmanna hefur gengið fram af mörgum í ykkar eigin flokki og sér í lagi hefur framganga þín hneykslað marga krata. Að sjá Samfylkinguna yfirtekna af ofstækisfólki er sorglegt og fylgi flokksins mun hrynja í næstu kosningum. Þrátt fyrir reiðina í samfélaginu eru flestir íslendingar borgaralega þenkjandi fólk sem hefur óbeit á illgjörnum ofstopamönnum eins og þér.

  • Sigurður Tómasson

    Sæll Mörður, að mínu viti var þessi atkvæðagreiðsla hjá þér og nokkrum öðrum þingmönnum merki um heigulshátt og aumingjaskap. Mér þykja eftirfarandi orð Kolbrúnar Bergþórsdóttur í morgunnblaðinu í dag lýsa þessu vel:

    “ Ómerkilegheit Samfylkingarinnar í þessu máli blasa við. Þingmennirnir sem vildu sakfella Geir Haarde einan geta mætt grátklökkir í fjölmiðla og reynt að telja þjóðinni trú um hversu erfitt það var að greiða atkvæði með því að sakfella fyrrverandi forsætisráðherra. Og aðrir þingmenn Samfylkingar sem greiddu atkvæði með ákærum á hendur fyrrverandi ráðherrum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar geta endalaust talað um það hversu mikla sálarkvöl það hafi kostað að taka þá ákvörðun. Það breytir engu um skömm þeirra allra. Þeir hegðuðu sér eins og ómerkilegir pólitískir loddarar. Og því er engin ástæða til að gleyma“

    Mér sýnist þetta vera ákkúrat það sem þú ert að gera núna, skrifar hér inn dag eftir dag til að reyna að friða samviskuna, og ég held að þú ættir að líta í eigin barm þegar þú talar um Júdas! Skömmin er þín.

  • Rétt er það, að reiðin er hættulegur húsbóndi. Reiðin er mikil í samfélaginu núna og margir vita ekki hvert þeir eigi að beina reiði sinni og hafa tekið þá afstöðu að stjórnmál og stjórnmálafólk séu hin illu öfl. Það geta þau vissulega verið og þau, sem gera þau að lífsstarfi sínu verða sífellt að hafa það í huga. En við getum ekki rekið lýðræðissamfélag án stjórnmála og stjórnmálafólks. Það er óframkvæmanlegt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur um öll mál, hversu smá eða stór sem þau eru. Til þess að höndla það höfum fulltrúalýðræðið. Fólk, sem hefur sömu eða svipaða sýn á hvernig leysa eigi hin samfélagslegu verkefni, safnast saman í hópa, sem við köllum stjórnmálaflokka. Það er hinsvegar hlutverk okkar, almennings, hvaða stjórnmálaflokki sem við svo tilheyrum, að taka þátt í starfi okkar flokka og láta hina kjörnu fulltrúa okkar hafa aðhald, ef okkur þykir þeir hafa farið út af sporinu. Það hefur ansi mikið skort á hjá okkur að við höfum sinnt því hlutverki okkar, Tómlæti okkar á þessu sviði hefur án efa leitt til þess að stjórnmálamenn hafa farið og fara út af því spori, sem við höfum markað þeim og viljum að þeir fylgi.

  • María Kristjánsdóttir

    Eftir að hafa lesið sumar af þessum athugasemdum, þá skil ég loks hvaðan ótrúlegustu athugasemdirnar geta komið hér á blogginu. Þær eru sennilega skrifaðar af þessum þrem sem þú vitnar í.

  • Svíkja þjóð um mikið fé
    saurga um leið vor helgu vé
    Alþingi fólksins viljum fá
    nú sextíu og þrír, lízt þér á?

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Ætlar þú að birta hótunarbréfið frá Tryggva Þór?

    Ég hugsa að flestum, nema sjöllum, þætti fróðlegt að lesa það. Ég skora þessvegna á þig að birta það á blogginu þínu.

  • þú segir
    „. Við þessa ákvörðun varð að horfa bæði fyrst og fremst á þetta sem lögin og spekingarnir bjóða: Eru sakarefni næg og líkleg til sakfellingar? Öll önnur sjónarmið hlutu að víkja þangað til þessu væri svarað.“

    Finnst þér virkilega líklegt að forsætisráðherra verði dæmdur sekur fyrir verknað sem var á ábyrgð viðskiptaráðherra,,, nefnilega Icesave ???????

    Ef svo er … þá er eitthvað mikið að.

  • Þórður Ingi

    Þessi orð þín vöktu athygli mína.
    “ hversu viðkvæmur sem valdahópurinn í Sjálfstæðisflokknum kann að vera fyrir því að geta ekki lengur sagt fólki á Íslandi að sitja og standa einsog honum einum sýnist.“
    Nú ert þú fulltrúi stærri flokksins í ríkisstjórn. Er þetta byggt á þinni reynslu sem stjórnarþingmaður? Er þetta hugarfar Samfylkingarmanna? Nálgist þið ríkisstjórnarstarfið svona?

  • Mörður segir hér að ofan

    „Rósa: Nei. Við þessa ákvörðun varð að horfa bæði fyrst og fremst á þetta sem lögin og spekingarnir bjóða: Eru sakarefni næg og líkleg til sakfellingar? Öll önnur sjónarmið hlutu að víkja þangað til þessu væri svarað.“

    Það er skrýtið, þú sagðir í pontu að það sem hefði ráðið því að Björgvin skyldi ekki ákærður var að Árni Matt hefði ekki hlotið ákæru. Það myndi enginn lögspekingur fallast á slík ömurleg rök til að ákvarða kæru.

  • Finnst einkennilegt að ráðast að Merði svona heiftarlega fyrir sína skoðun. Þetta eru aðilar sem úthrópa Samfylkingu sem spillingarflokk og eiginhagsmunasegi og öll þessi ljótu orð sem skrípalingarnir upp í Hádegismóum höfðu um flokkinn. Ég tek það fram að ég kýs ekki Samfylkinguna eða Sjálfstæðisflokk. Ég á afar erfitt reyndar að velja flokk mér við hæfi, en ávallt kýs ég þá sem mér líst skást á hverju sinni.

    En sú hystería sem Sjallar og fylgismenn þeirra koma með þessa dagana er virkilega aumkunarverð og sorgleg. Jenný Anna bloggari á Eyjunni er með frábæran pistil um þetta, þar sem í grunninn kemur fram að hún sé sátt við þessa reiði sem blossar upp og þessa einlægni þegar Sjallar virðast hálfgrátandi yfir óréttlætinu vegna landsdómsmálsins, en hún biður sömu þingmenn um – og takið eftir: Viðhafið sömu reiði og sama áhuga þegar um er að ræða skuldasúpu landans, fátækt fólk og hvernig staða heimilanna er í dag.

    Málið er einfalt: Þessi viðbrögð eru SKAMMARLEG hjá Sjöllum og fylgismönnum þeirra, sem og þeim Samfylkingarmönnum sem kvarta. Þetta er einstaklingur sem verður dreginn fyrir dóm og ALDREI hafa Sjallar verið jafn ákafir og fúlir og talandi um spillingu í Samfó og fleira í þeim dúr. ALDREI!!!

    HVAR ER ÁHUGINN Á AÐ STARFA FYRIR FÓLKIÐ Í LANDINU?? Nei, nei, nú skal bara reyna að komast til valda og drulla yfir lýðinn í leiðinni. Það versta sem til er í íslenskum stjórnmálum er Sjálfstæðisflokkurinn!

  • @Loki
    Þú spyrð:
    „Finnst þér virkilega líklegt að forsætisráðherra verði dæmdur sekur fyrir verknað sem var á ábyrgð viðskiptaráðherra,,, nefnilega Icesave ???????“

    Svarið myndir þú sjá ef þú læsir ákæruna og viðeigandi kafla í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í síðarnefndu heimildinni stendur m.a.:

    „Geir H. Haarde tók við embætti forsætisráðherra í júní 2006. Í aðdraganda falls íslensku bankanna fór hann stöðu sinnar vegna m.a. með mál sem vörðuðu hagstjórn almennt. Af því leiddi að meginábyrgðin á því að tryggja efnahagslegan stöðugleika, að því leyti sem sú ábyrgð var falin ráðherrum, hvíldi á honum sem forsætisráðherra. Forsætisráðherra fer jafnframt með tilteknar skyldur vegna fyrirsvars og almennrar verkstjórnar í störfum ríkisstjórnarinnar.
    Undir forsætisráðherra heyrðu einnig á þessum tíma málefni Seðlabanka Íslands, samkvæmt þágildandi ákvæðum laga um bankann. Af því leiddi m.a. að samráð og upplýsingagjöf Seðlabankans gagnvart ríkisstjórninni um efnahagsmál, og þar með málefni bankanna, fór að meginstefnu fram fyrir milligöngu forsætisráðherra. Þá var forsætisráðherra á grundvelli þessara tengsla embættisins við Seðlabankann sá ráðherra sem hafði helst færi á því að kalla eftir sérstökum upplýsingum og tillögum frá Seðlabankanum um einstök málefni. Einnig er á það að líta að fulltrúi forsætisráðherra, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, stýrði starfi samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Hann bar því framar öðrum fulltrúum í hópnum ábyrgð á að starf hópsins yrði skilvirkt og næði tilætluðum markmiðum og áföngum sem unnið var að hverju sinni. Jafnframt bar fulltrúi forsætisráðherra í samráðshópnum umfram aðra ábyrgð á áherslum og forgangsröðun í starfi hans og því hvort og þá hvernig hópurinn nýtti þá sérþekkingu sem til staðar var innan hans og þau úrræði sem hann hafði eftir atvikum aðgang að. Líta verður svo á að forsætisráðherra hafi gegnum fulltrúa sinn að meginstefnu haft upplýsingar um framvindu og áherslur í störfum samráðshóps stjórnvalda hverju sinni. Þar sem fulltrúi hans stýrði starfi samráðshópsins verður því að telja það hafa verið á ábyrgð forsætisráðherra umfram önnur stjórnvöld sem aðild áttu að hópnum að hafa ef með þurfti frumkvæði að viðbrögðum til að gera störf hópsins markvissari og/eða hafa áhrif á áherslur sem þar var unnið eftir.“
    7. bindi skýrslu RNA bls. 312 og áfram

  • Garðar Garðarsson

    Mörður þú stendur þig vel, og ert kjarkaður að hafa algerlega opið fyrir athugasemdir inn á þitt blogg.

    Ég held að flestir ættu að gagnrýna þá þingmenn sem vildu fría alla ráðherrana fjóra frá ákærum, því það var furðulegt miðað við skýrslur ransóknarnefndarinnar og þingmananefndar vegna hrunsins, því að í skýrslunum voru rök færð fyrir hugsanlegum brotum þriggja til fjögura ráðherra.

  • Það þurfti mikinn kjark til að segja „Já“ og vera í alvöru sjálfum sér trúr. Það þarf hinsvegar ekkert nema lydduskapinn til að segja „nei“ þó ég ætli með þeim orðum alls ekki að ætla hann öllum sem sögðu „nei“.
    – Í sögunni munu þeir sem sögðu „Já“ gnæfa hátt yfir hina um heilindi og tryggð við skylkdur sínar og þá sérstaklega þeir sem ekki höfðu allan sinn þingflokk með sér um ábyrgð á já-inu.
    – Þakka þér kjarkinn og heilindin Mörður.

  • Hreinn Sigurðsson

    Merkileg atkvæðahönnun hjá samspillingunni að telja að forsætisráðherra sé ábyrgur fyrir bankahruninu en ekki viðskiptaráðherra.

    Mætum í mótmælin á morgun og fordæmum ráða og aðgerðaleysi helferðarstjórnar vg og samspillingar.

  • Valur B (áður Valsól)

    Þú stendur þig vel og mættu margir þingmenn Samfylkingarinnar taka þig til fyrirmyndar. Ég hef t.d. orðið fyrir svo miklum vonbrigðum með Guðbjart Hannesson, mann sem ég studdi bæði í prófkjöri og í kosningum, að ég mun ekki kjósa Samfylkinguna aftur á meðan hann er í framboði í Norðurlandi Vestra. Vinna hans í sambandi við kvótakerfið segir allt sem segja þarf.

  • Það kom klaufalega út, þegar Mörður skilaði auðu í lokin.
    En það breytir því ekki, að mér finnst Mörður vera að nálgast málið
    á heiðarlegri hátt en flestir þingmanna 4-flokksins.
    Það lifir enn í honum þokkalega heiðvirð jafnaðarmanna-glóð.

    Óbreyttur almenningur blæs í þá glóð til mikils og nýs báls:

    13:30 … Austurvöllur … 01.10.2010 ! ! ! !

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Samfylkingarþingmennirnir geðþekku eru eðlilega komnir á spjöld sögunnar sem „gungur og druslur“ eins og hlaupatík ykkar Samfylkingarmanna Steingrímur J. Sigfússon orðaði það svo smekklega á þingi. Þetta sæmdarheiti munu þeir bera um alla framtíð með hinum, þó óvíst er hvort að einhverjir silfurpeningar hafa fylgt frá þeim sama og Vg? Svona til að aumasta ríkisstjórn Íslandssögunnar getur stundað misnotkunina á þjóðinni í einhverja daga lengur?

    Páll Vilhjálmsson fyrrum formaður Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi (sem sagði sig úr henni þegar Jón Ásgeir keypti flokkinn eins og þið Össur hafið skýrt frá), og fyrrum ritstjóri Þjóðviljans og núverandi atkvæðagjafi Vg, orðaði afrek ykkar afskaplega vel og vart verður betur gert.:

    „Samfylking afhjúpar sig sem druslu

    Sjálfstæðisflokkur tók prinsippafstöðu og var á móti að ákæra ráðherra hrunstjórnarinnar. Vinstri grænir tóku prinsippafstöðu og vildu ákæra forkólfa ríkisstjórnar Geirs H. Haarde. Samfylkingin lagðist í plott og fann út að Geir H. Haarde skyldi bera syndir Ingibjargar Sólrúnar og Björgvins G. Sigurðssonar.

    Á alþingi í dag sýndi og sannaði Samfylkingin að flokkurinn er úrhrak, stjórnað af siðspilltum og prinsipplausum hugleysingjum.

    Á meðan töluð verður íslenska er Samfylkingin og druslupólitík samheiti.“

    Ætla að óska þér og ykkur til hamingju með afrekin, sem og þingflokknum og Vg fyrir afhjúpunina, sem á sennilega að verða ykkur afar dýr eins og Jóns Ásgeirs og auðrónaþjónkunin. Það góða við þetta er, að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin eiga aldrei aftur eftir að misbjóða þjóðinni saman í stjórn, sem og að engin ykkar munið setjast í nefndir með þeirra þingmönnum, ef einhver ærleg taug má í þeim finna? Það er löngu kominn tími á að heiðarleiki stjórnmálamanna þurfi að vera eitthvert atriði á þingi.

    Það er afar leitt fyrir þjóðina að aldrei tekst að stofna ærlegan jafnaðarmannaflokk. Aðeins pólitískt bjórlíki er og hefur verið í boði. Var kastað upp silfurpeningi hverjir ættu að leika Júdasana?

    PS. Er Davíð Oddsson farinn að skrifa undir nafni, og geturðu gefið slóð inn á slík skrif í Morgunblaðinu?

  • Erlendur Fjármagnsson

    Hef aldrei kosið krata, en sé, að
    Mörður hafði kjark til að krefjast stjórnarslita Samf. við FLokkinn í Hrunstjórn.
    Mörður hefur nú aftur sýnt kjark og rökrétta hugsun í umræddri atkvæðagreiðslu.

    „Af gnægð hjartans mælir munnur“ siðspilltra úr FLokki Sigurðar bílstjóra, Guðlaugs styrkþega, Þorgerðar 7h., Illuga 9., Árna mistæka o.s.frv.

    Vonlegt að þeir hafi mikla þörf fyrir að tjá sig í leiðurum og með bréfasendingum sem sjá Geir nú ákærðan Í SINN STAÐí fyrir að hafa ekki vikið frá – þeirra og FLokksins – stefnu eftirlitsleysis.

    Orð og gerðir nú gefa vísbendingu um vilja þeirra til þes að þeir sem „voru í kallfæri við FLokkinn“ verði látnir svara til saka.
    En viðbrögð Marðar gefa hins vegar fyrirheit um að hann vilji ekki hlífa „auðmönnum“ hliðhollum Samfylkingunni.

  • Niðurstaða Rannsóknarskýrslunnar var að ekki hafi verið hægt að afstýra hruninu eftir árið 2006, þannig að ráðherrar sem settust fyrst á ráðherrastól 2007 (Ingibjörg og Björgvin) gátu í raun ekkert gert til að koma í veg fyrir hrun.

    Geir H. Haarde hinsvegar varð forsætisráðherra á miðju ári 2006. Hann var þar á undan fjármálaráðherra og var því ráðherra á þeim tímum þegar enn var hægt að gera eitthvað til að afstýra bankahruni.

    Sem hagfræðingur hafði Geir meiri möguleika en til dæmis heimspekingurinn Björgvin, sagnfræðingurinn Ingibjörg eða dýralæknirinn Árni til þess að átta sig á því í hvað stefndi, og sem forsætisráðherra bar Geir mesta ábyrgð.

    Þannig að það er í sjálfu sér ekkert órökrétt að Geir sé einn kærður.

  • Við mótmælum öll saman-súrruðum vafningi og slagtogi 4-flokksins
    með fjár-glæpamönnum, ál-furstum, sæ-greifum og hrægömmum.

    Við mótmælum öll helferð 4-flokksins gegn landi og heimilum þjóðar.

    Við mótmælum öll viðbjóðnum sem enn er leyft að viðgangast
    í helgislepju skjaldborgarinnar … um glæpamennina
    sem enn fá að valsa um allt á skítugum og blóðugum skóm
    slátraranna sem skella á krók -glaðbeittir í uppgripum og ati-
    skera á háls, rista fyrir og taka innan úr, afhausa og flá
    meðan skrokkar okkar bíða stirðnandi eftir vottunar-stimplum
    auðvalds fógeta – AGS. Og á meðan þau gagga undir hátttvirt,
    hæstvirt geldhænsnin – laga-og stjórnsýsluvaldið –
    og embættismannahyskið fær sér blundinn … sem fyrr
    með blinda augað á kíkinum … fjár-valdboðum samkvæmt.

    Nú mótmælum við öll helferð 4-flokksins gegn landi og heimilum þjóðar:

    13:30 … Austurvöllur … 01.10.2010 ! ! ! !

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Þetta mun vera bréfið frá Tryggva.

    „Það var mikil reisn yfir ykkur í dag.

    Á von á að þess muni sjá stað í framtíðinni!

    Með virðingarleysi

    Tryggvi Þór“

    Sumir eiga bágt.

  • Maður trúir því varla að fullorðið vel gefið fólk tjái sig á þennan hátt, alveg með ólíkindum. Og með meiri ólíkindum að fólk komist um með svona „málflutning“, eiginlega bara orðlaus og miður mín.

    Og er þetta ekki fólkið sem hefur verið að hneykslast á nafnlausum bloggurum, slá flesta þeirra vel og vandlega út 😮

  • Jón Jónsson

    Um fúkyrði og hótanir Sjálfstæðismanna er lítið að segja.
    Siðleysi Sjálfstæðisfólks virðist af þeim toga að ekki má gera ráð fyrir því að það fólk kunni að skammast sín hvað þá að halda kjafti. Dæmdir þjófar, skattsvikarar, kennitöluflakkarar og vafningar af ýmsum stærðargráðum fara fremstir í FLokknum undir öryggri srjórn þess aðila sem ber mesta ábyrgð á þeim ósköpum sem þjóðin er nú í. Það er athyglisvert að hans hátign DO sem gjarnan ber sjálfan sig saman við Jésú Jósepsson meintan guðson ( http://www.youtube.com/watch?v=KWf-qE4YID0 )dregur aðra biblíupersónu fram í dagsljósið til að fullkomna mikilmennskubrjálæði sitt.
    Manni verður óglatt.

  • Vinnan við að skófla þér og fleirum ónytjungum út af spilltu getulausu alþingi hefst formlega á morgunn, væntanlega stendur Davíð Oddson fyrir þeirri landhreinsun í þínum augum…..

  • @Arnar

    Takk fyrir þetta svar.. En nei þetta svarar engu, Iceave var auðvitað á ábyrgð FME og viðskiptaráðuneytisins.

    Ég hef engan heyrt þræta fyrir það áður. og þetta paste þitt bætir engu við

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Það er ekki ýkja flókið þó svo það þvælist fyrir Merði og kvartettnum sem framdi sitt pólitíska sjálfsmorð að skilja ef að einhver átti að fara fyrir landsdóm með Geir, þá voru það örugglega Björgvin G. og Ingibjörg Sólrún. Að Árni M. hafi rétt sloppið á 1 atkvæði á meðan það vantaði 8 atkvæði fyrir Björgvin og 5 atkvæði fyrir Ingibjörgu. Niðurstaðan er þveröfug við alla heilbrigða skynsemi, enda kemur hún úr þeirri stofnun, Alþingi, sem hýsir starfsmenn sem njóta 10% trausts þjóðarinnar, og hefur örugglega minkað eftir þess uppákomu.

    Samfylkingarflokkshestur reynir að ljúga ábyrgð Björgvins G. yfir á aðra, sem er regla en ekki undantekning þegar hestar úr samfylkingarhesthúsinu eru annarsvegar. Þar er ekki riðið út með sannleikanum frekar en fyrr.

    Samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð ber ráðherra einn ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum þess ráðuneytis sem undir hann heyrir eftir því sem mælt er fyrir í stjórnarskrá og lögum um ráðherraábyrgð. Í 6.gr. laga um ráðherraábyrgð segir að.:

    „Hver ráðherra ber ábyrgð á stjórnarerindum þeim, sem út eru gefin í hans nafni, nema ákvörðun sé án hans atbeina tekin af undirmanni, sem til þess hefur heimild samkvæmt venju, eða eðli máls, eða starfsmaður hafi vanrækt að leggja erindi fyrir ráðherra. Ráðherra verður þó einnig sóttur til ábyrgðar fyrir þvílíkar ákvarðanir, ef honum hefur verið um þær kunnugt og hann hefur látið þær viðgangast án þess að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir þær“.

    Samkvæmt 5.gr. laga um ráðherraábyrgð þar sem segir að.:

    „Sé um að ræða embættisathöfn í ríkisráði eða ráðherrafundi, sbr. 16. og 17.gr. stjórnarskrárinnar, bera allir viðstaddir ráðherrar, sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn, ábyrgð á henni“.

    Og Mörður og félagar reyndu allt sem þeir gátu að hengja Árna M. sem enga sök ber miðað við hin tvö, og leyfa sér að reyna að telja þjóðinni trú um að ekki hafi verið um skipulagt samsæri að ræða, sem hefur ekkert með réttlæti að gera.

    Viðskipta og bankamálaráðuneytið og ráðherrann ber lögskipaða ábyrgð Fármálaeftirlitinu, sem og öllum bönkum nema Seðlabankanum sem var og er á ábyrgð forsætisráðuneytisins.

  • Þið verðið dæmdir á endanum,saklaus maður er sendur fyrir dóm til að svara fyrir misgjörðir ykkar Viðskiptaráherra var Samfylkingarmaður ekki Geir Haarde.Skömm ykkar kommúnista er mikill

  • Ótrúlegir vesælingar eru Sjálfstæðisflokksmenn og Grey H Haarde.
    – Þá skortir allan manndóm og reisn.

  • Davíð hefir eigi þenna leiðara ritaðan; hann veit að hvorugkynsorðið froðusnakk er ekki-ízlenska.

  • Fjölmiðlum hefur tekist að magna upp mikinn dramabyl. Það má ekki á milli sjá hvort eru dramatískari leikræn tilþrif innan veggja alþingis og hjá fyrrverandi ráðherrum eða á fjölmiðlunum. Og á vefnum gelta blogg-rakkarnir sem aldrei fyrr.

    Fjórir flokkar á þingi, tveir klofna, tveir kjósa sem einn maður (afsakið hreyfing ég tel ykkur ekki með). Auðvelt að halda því fram að „hefndarþorsti“ ráði för hjá öðrum en „blygðunarlaus samtrygging“ valdaelítunnar hjá hinum. En reiðin beinist ekki gegn þessum flokkum.

    Flokkarnir sem „klofna“ (eða leyfa þingmönnum sínum að greiða atkvæði eftir eiginn sannfæringu) eru gagnrýndir harkalega en þó annar miklu meira en hinn? Og í þeim flokki sem hvað harklegast er ráðist á eru þó nokkrir þingmenn sem greiða því atkvæði að ráðherrar úr þeirra eigin flokki verði ákærðir. Eru fordæmi fyrir þessu einhvers staðarí heiminum ?

    Það er búið að tromma upp einhvern sameiginlegan skilning um að annahvort yrðu allir ákærðir eða enginn. Það er réttlæti! Það er sanngjarnt! Fyrir þessu hef ég ekki heyrt nein haldbær rök. Ég get ekki séð að orð S. Líndal um að „ákæruefnin“ væru nær samhljóða í öllum tilfellum haldi vatni. Ábyrgðarsvið ráðherranna var mjög mismunandi og það hlýtur að hafa mest að segja um „líkur á sakfellingu“ í hverju tilviki fyrir sig. Ábyrgðarsvið má skoða lagalega eða frá verklagi viðkomandi stjórnar.

    Þetta er ekki versta niðurstaðan heldur ein af tveimur eða þremur eðlilegum niðurstöðum. Forsætisráðherra lét það því miður viðgangast að það rofna öll tengsl milli hans og ráðuneytis hans og SBI. Við þessu varð hann að bregðast, en gerði ekki. Hann einn bar ábyrgð á SBI sem varð tæknilega gjaldþrota á hans vakt. Kannski skýrir það heiftina í hádegismóum.

  • Margrétj

    Almenningi er nokk sama um þessar erjur flokkanna. Hver móðgaði hvern er ekki eitthvað sem okkur er ekki hjartanlega saman um.
    Það eru hins vegar „Skjaldborg“, sem þessi, sem vekja viðbjóð, óþol, fyrirlitningu og ógeði þjóðarinnar á Samfylkingunni og VG

    http://eyjan.is/2010/09/30/fjolskyldufyrirtaeki-halldors-asgrimssonar-faer-26-milljarda-afskrifada/

    ÞETTA er dropinn og ÞETTA mun verða til þess að ríkisstjórnin hrökklast frá með fyrirlitningu okkar sem kusum og bjuggumst við vinstri stjórn.

  • Gagarýnir

    Leikrit: Samfylkingin er eins og óánægð eiginkona með sambúðina með Sjálfstæðisflokknum sem setti heimilið á vonarvöl með andvaraleysi.
    Frúin var í útlöndum að versla í SÞ. Strákfíflið sem enginn treysti var að gæta búsins. Annað strákfífl og aftursætisráðherra gerði það sem hann hélt að afi gamli vildi. Og svo er múmínpabbi settur á svið í lokaatriðinu.
    Þetta heitir að dreifa athygli háttvirtra kjósenda sem eru mest að hugsa um þann heim sem bíður eftir að leikriti er lokið.

  • Mið-hægrimaður

    Þessi ríkisstjórn er búin á því. Á morgun hefjast mótmæli sem verða móðir allra mótmæla hér á landi, svo vitnað sé óbeint í Saddam heitinn Hússein.

  • zerodtkjoe

    Thanks for the info

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur