Miðvikudagur 13.10.2010 - 09:48 - 38 ummæli

Rústum kjördæmakerfinu!

Það eru fjöldafundir víða um land til að verjast „árás á landsbyggðina“ – greinilega öflug hreyfing að verja nærsamfélagið og forystumenn í héraði láta falla þung orð. Þeir fyrir sunnan eru ekki vinsælir þessa dagana, bandalag sameinaðra heimamanna neitar allri uppsuðu frá ráðuneytaliði um sín mál. Vissulega áhrifamikið.

Undan því verður ekki vikist að opinber þjónusta af margvíslegu tagi er ólítill þáttur í þeim vef sem byggð á hverjum stað þarf á að halda. Þau sjónarmið verður að taka með í reikninginn og víkja þessvegna frá ströngu höfðatöluviðmiði.

Ekki er það heldur heppilegur siður að tengja saman niðurskurð og skipulagsbreytingar. Best er að breyta kerfinu í góðæri þegar samfélagið hefur efni á allskyns títtnefndum mótvægisaðgerðum. Gallinn er bara sá að þá hefur enginn áhuga á því, ekkert knýr til verka.

Heilbrigðisumræðan núna sýnir reyndar að það er ansi langt frá því að í þessum efnum komist að nokkur höfðatala, frekar en í til dæmis samgöngumálum eða langvinnum styrkjum til atvinnufyrirtækja gegnum sérstakar byggðastofnanir. Kannski á svokölluð landsbyggð ekki eins bágt og hún lætur ef menn hætta sér í samanburðinn fyrir alvöru. Hún á sér hinsvegar fjölmargar grátkonur, hetju á hetju ofan: Rústum fjárlögunum! æpti einn af þingmönnum Norðurausturlands vígreifur á einum þúsundafundunum og uppskar ákaft lófatak og hyllingaróp. Þetta var einmitt varaformaður fjárlaganefndar á tímum hrunstjórnarinnar 2007–2009. Rústum fjárlögunum!

Þegar nánar er að gáð kemur svo í ljós veruleg mismunun á landsbyggðinni í heilbrigðismálum. Byggðir þar sem hetjur ríða um héruð hafa miklu betri þjónustu en þar sem meðalmenn einir ráða ríkjum.

Sjálfsagt er að athuga hvort hægt er að gera þessar breytingar á lengri tíma og í betra samráði við fólkið á hverjum stað – en mér sýnast breytingarnar sjálfar sem nú eru boðaðar á heilbrigðisþjónustunni um landið vera skynsamlegar og alveg nauðsynlegar í yfirstandandi harðindum. Aukin áhersla á heilsugæslu en uppbygging sjúkrahúsa á einkum tveimur þéttbýlisstöðum þar sem má nálgast alla tengda þjónustu. Ein meginforsendan er auðvitað að á Íslandi hefur orðið samgöngubylting á Íslandi síðustu 15–20 árin, og henni fylgdi tenging byggða og héraða sem áður urðu að una ein við sitt – með nokkrum hætti keyptu landsbyggðarmenn samgöngubæturnar (meðal annars á kostnað höfuðborgarsvæðisins) því verði að þurfa að hagræða í öðrum innviðum. Sjáiði hvað er að gerast við Eyjafjörð norðvestanverðan eftir Múlagöng og Héðinsfjarðargöng – samvinna, hagræðing og vonandi blómstrandi byggðir.

Við eigum annars að hætta þessu eilífa karpi um höfuðborg og landsbyggð. Hvert byggt ból hefur sína kosti og sína ókosti – og við jafnaðarmenn teljum að innan vissra marka eigi að ríkja jafnræði um allt land um aðgang að grunnþjónustu. Til þess er sjálfsagt að við leggjum ýmislegt á okkur.

Á þeim örlagatímum sem við lifum nú í landinu gengur hinsvegar ekki að setja enn einusinni af stað þennan kunnuglega væl þar sem breitt er yfir innri mistök, mótsagnir og óstjórn með sameiginlegu bauli á allt og alla „fyrir sunnan“. Og svo kveikt í rakettunum sem ganga undir nafninu þingmenn landsbyggðarinnar og ráða úrslitum á alþingi óháð almannahag – sem oftast fer hinsvegar saman við hagsmuni þeirra rúmlega sex af hverjum tíu Íslendingum sem sagan og forlögin hafa valið bústað í Reykjavík og stórnágrenni.

Rústum fjárlögunum! hrópaði hetjan mikla úr fjárlaganefnd hrunsins. Það verður nú ekki, háttvirtur þingmaður Kristján Þór Júlíusson. Þau eru okkur lífsnauðsynleg nokkurnveginn einsog þau eru nú, og ekki síður næstu kynslóðum syðra og nyrðra. En kannski væri það skynsamleg hagræðing að rústa kjördæmakerfinu?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (38)

  • Reyk víkingur

    Hve oft er hægt að kljúfa örþjóð?

  • Heyr, heyr!

    Innilega sammála, sennilega í fyrsta skipti á ævinni.

    Landið verði eitt kjördæmi og þannig vægi atkvæða hið sama.

    Þetta er mannréttindamál.

    Núverandi fyrirkomulag er til skammar og sæmir ekki jafnaðarmönnum að verja það.

  • Hrafn Arnarson

    Kristján Þór er og verður ómerkilegur lýðskrumari. Vonandi sér hann um að rústa sér og sínum flokki. Hugsun hans er ekki flókin. Rústum fjárlögunum og minn flokkur og kannski jafnvel ég kemst í ríkisstjórn. Kristján Þór er eins og ónefnd dýrategund. Hún breytist með umhverfinu. Í heimabænum er hann hollvinur Samherja. Þar þáði hann einnig laun fyrir óunna bæjarstjórnarvinnu jafnframt því sem hann gaf sér tíma til að sinna þingstörfum. Innan flokksins er hann fulltrúi landsbyggðarinnar og kanditat gegn erfðaprinsi Engeyjarættarinnar. Niðurskurður í heilbrigðirmálum er nauðsynlegur en nú er alltof hratt farið í málin og ekki tekið tillit til annarra erfiða aðstæðna. Lýðskrum er ekki innlegg í erfitt mál.

  • Rústum fjármálakerfinu!

  • Bragi Páls

    Hef stórar efasemdir um Ísland sem eitt kjördæmi.

    Sé fyrir mér, að um 95% þingmanna verði þá af Faxaflóasvæðinu.

    Þessi 95% þingmanna munu verða í litlu sem engum tengslun við þann hluta landsins sem er fyrir utan Faxaflóasvæðinu.

    Sýn þessara 95% þingmanna mun vera byggð á því gildismati sem er ríkjandi á Höfuðborgarsvæðinu, en mun aftur á móti ekki miðast við þarfir og raunveruleika þess svæðis sem er þar fyrir utan.

    Ísland verður þar með eina landið í heiminum sem ekki mun eiga kjörna fulltrúa af neinu ráði nema úr einum hluta landsins.

    Ég sé fyrir mér að með svona kjördæmaskipan, muni Höfuðborgarsvæðið blómstra á meðan að landsbyggðinni muni hnygna. Borgríkið Ísland mun því festast í sessi.

    Þetta er sérstakur draumur Samfylkingarfólks, enda veit það að bróðurpartur atkvæða þeirra er að sækja til Reykjavíkurkjördæmanna, en er að öðru leyti alveg sama um landsbyggðina.

    Þetta lýsir bara sjálfhverfu þess fólks sem svona hugsar og er alls ekki í anda jafnaðarstefnu.
    Hef heyrt frá mörgu Samfylkingarfólki, þar með talið frá þeim sem sitja á þingi fyrir Samfylkinguna, að „það eigi alls ekki að púkka upp á landsbyggðina“.

  • @Bragi Páls: Er hægt að vera á móti mannréttindum? Jafnt atkvæðavægi er eitthvað sem á ekki að þurfa að ræða um hvort eigi rétt á sér. Það verður vonandi eitthvað sem við segjum börnum og barnabörnum frá með aulahrolli að hér hafi viðgengist annað eins óréttlæti og ójafnt atkvæðavægi er.

    Hvar er svo frumvarpið um þetta?

  • En nú erum við Suðurnesjamen fyrir sunnan „sunnan“. Höfum við þá engan andmælarétt? Nú er ég farinn að skilja hvernig í óförum okkar liggur!

  • Adalsteinn Agnarsson

    Fátæk þjóð á frjálsar handfæra veiðar, sýndu þjóðinni að þú
    standir við orð þín!!!

  • Hreinn Hjartarson

    Hvaða rétt hafið þið höfuðborgar á betri heilbrigðisþjónustu enn landsbyggðin ef hægt er að veita þessa þjónustu fyrir svipaðar upphæðir úti á landsbyggðinni. , það er undarlegt að ráðaherra geti ekki sýnt fram á að sjúkrarými sambærileg þeim sem flytja á til Reykjavíkur séu ódýrari þar

    Hvaða rétt hafið þið höfuðborgarbúar á 5000 milljóna kr. framlagi til menningamála í borginni, og ekki má skera niður þar.

    Af hverju er skattpeningum landsbyggðarinnar varið í að halda uppi 150 listamönnum í Reykjavík, á það ekki að vera mál borgarinnar og félagsþónustunnar.

    Af hverju borgar landsbyggðin með sköttum fyrir leikhús borgarinnar, á sama tíma og nánast engin framlög eru til leikhúsa á landsbyggðinni.

    Af hverju er landsbyggðin látin borga stóran part af tónlistahúsi fyrir borgarbúa ?

    Nú á að færa heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni aftur um 50 ár og auðvita á ekkert að skera niður í Reykjavík, borgarbúar verða að fá sýna þjónustu enda áttu þeir engan þátt í hruninu.

    Lýðskrum Marðar er ekki innlegg í erfitt mál

  • Það segir sína sögu um misvægi og misskiptingu að fimm af ellefu nefndarmönnum í fjárlaganefnd eru úr Norðausturkjördæmi, en ekki einn einasti úr Reykjavík norður! Þar eru samtals tveir nefndarmenn fyrir allt höfuðborgarsvæðið, jafnmargir og fyrir norðvestur- og suðurkjördæmi.

    Það er því ekki nema von að Dalvíkurposungurinn finni til sín.

  • Það er merkilegt að lesa það, Mörður Árnason, að þú talar í aðra röndina um að það verði að kveða niður deilur milli landsbyggðar og höfuðborgar en á hinn bóginn tekur þú þér stöðu, kyrfilega sem þingmaður Reykvíkinga og elur á deilunum. Setningar eins og „Kannski á svokölluð landsbyggð ekki eins bágt og hún lætur ef menn hætta sér í samanburðinn fyrir alvöru. Hún á hinsvegar marga grátkonur..“ og „Byggðir þar sem hetjur ríða um héruð hafa miklu betri þjónustu…“ eru ekki innlegg í yfirvegaða umræðu um málið. Skoðaðu aðeins eigin málflutning áður en þú dæmir aðra!

    Sú aðstaða sem nú er komin upp er besta réttlæting á kjördæmakerfinu sem ég hef séð á undanförnum 10-15 árum. Í þessu kerfi kemur berlega í ljós skilnings- og virðingarleysi ráðuneytanna á stöðunni úti á landi. Þess vegna er svo bráðnauðsynlegt að svæði á landsbyggðinni eigi fulltrúa innan löggjafarvaldsins. Það þarf að vernda hinn smáa fyrir ofríki hins stóra. Einhvern tíma hefðu jafnaðarmenn skrifað upp á þá hugmyndafræði.

    Ég skyldi vera tilbúinn að kaupa þá hugmyndafræði að það ætti að minnka sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni og efla í staðinn heilsugæsluna ef a) Það lægi að baki þessari hugmyndafræði einhver raunveruleg athugun á eðli og notkun á sjúkrþjónustu á landsbyggðinni og b) ef þess sæi einhvern stað að það sé verið að efla heilsugæsluna á þessum svæðum, en svo er alls ekki. Öll viðbót sem ég fæ séð í heilsugæslu rennur til höfuðborgarinnar.

    Þessar tillögur eru ekki annað en „shock doctrine“, eins og mér sýnist þú reyndar viðurkenna. Það er verið að nota efnahagsástandið til að réttlæta pólitíska hugmyndafræði sem felst í að fækka opinberum störfum og minnka þjónustu á landsbyggðinni. Hvert er réttlætið í því? Ef þessar breytingar á að gera þá verður að gera það að undangenginni umræðu og athugunum. Ekki bara eftir geðþótta framkvæmdavaldsins.

    Og heróp Kristjáns Þórs Júlíussonar, eins hallærislegt og það kann nú að hafa verið sem slíkt, snerist í raun ekki um að rústa fjárlögunum. Það snýst um að rústa þessari pólitísku hugmyndafræði sem Samfylkingin er að boða. Og það er ósköp skiljanlegt að menn hafi klappað fyrir því.

  • Einar Guðjónsson

    Legg til að við hættum allri samneyslu og hættum að rukka og greiða skatta enda engar forsendur til þess hvorki félagslegar né menningarlegar. Þessi á Akureyri vill fá sína skatta til að nota sjálfur, þessi í Reykjavík vill að bensíngjaldið hans fari til að reka bílinn hans. Útgerðarmaðurinn vill að auðlindagjaldið hans fari í að sýnataka hans afla og hafnarvogina sem hann notar. Læknirinn vill að hans skattar fari í að greiða læknanám barna hans og í hjúkrunarkonuna sem hann býr með og svo frv. Vestmannaeyjamenn að þeirra skattar fari í Herjólf og Heilsugæsluna og framhaldsskólann þar og svo frv.Hugmyndin um sameiginlega sjóði og almannahag er bara enn ekki komin til Íslands því miður.

  • Mörður Árnason

    Einar: Því miður of rétt!

    Stefán Bogi: Skarplega skrifað. Má samt vekja athygli á því að setningin um hetjur sem ríða um héruð á við mismun milli einstakra svæða og byggða á hinni svokölluðu landsbyggð. Gæðaútdeilingarkerfið sem þar ríkir með þingmönnum og (öðrum) smákónga veldur nefnilega miklu ójafnræði milli byggðanna — einsog vel sést í heilrigðismálunum. Skrifaðu flugvöll!-kerfið er nefnilega ekki fyrir alla.

    Fínar umræður. Bragi: Ég held alls ekki. Jóhann Ársælsson, þingmaður Vesturlands og Norðvesturlands af Skaga, studdi hugmyndina um landið allt eitt kjördæmi einmitt vegna þess að þá mundu menn sinna öllu landinu betur. Held að flokkarnir leituðu sérstaklega uppi frambjóðendur með erindi um allt land, og tækju jafnvel meira tillit til sérþekkingar á málefnum ákveðinna atvinnugeina og hópa. En ekki í gamla klassíska pot-stílnum.

  • Mörður, mörður, mörður. Æjæjæ, ósköp er þetta grunnt.

    Kjördæmið sem Kristján kemur úr upplifði 9% samdrátt á sama tíma og Rvk þandist út 50%. Samdráttur hefur verið krónískur á landsbyggðinni, laun þar eru lægri, þjónustustigið lægra en framleiðnin mun hærri. Skv skýrslu sem Vífill Karlsson (SSV og kennari í HA) gerði þá greiðir landsbyggðin tvöfalt meira inn í kerfið en það fær út úr því. Ofan á það bætist á köldum svæðum er orka/rafmagnskostnaður 222% hærri en á svæðum OR skv nýlegri skýrslu. Til að gera þetta enn skemmtilegra eru aðföng almennt dýrari á landbyggðinni þ.m.t. matarkostnaður.

    En þatta kallar þú náttúrulega bara væl.

    Þegar kreppan skall á hafði landsbyggðin all langa reynslu af kreppu. En okkur datt ekki í hug að samdrátturinn yrði hlutfallslega mestur þar sem þenslan hafði alls ekki heiðrað menn með viðkomu sinni. Ég myndi glaður fórna atkvæðavægi mínu og jafnvel fórna atkvæðinu í heild sinni ef við fengjum bara að njóta þess í sama hlutfalli og höfuðborgin hvers við öflum. Menn tala eins og það skipti okkur einhverju máli að hafa aukinn atkvæðarétt. Hér er öllum sama um það. Við viljum hins vegar njóta svipaðra lífsgæða nema skýr rök séu fyrir öðru. Þau hafa okkur ekki verið sýnd, hvorki af þér né öðrum flokkssystkina þinna. Hafir þú þau rök skal ég glaður hlusta.

  • Social Society

    Merkilegt hvernig menn rökstyða vitleysuna. Í gær var uppi í RÚV frétt um að 50% af sköttum landsbyggðarinnar rynnu til höfuðborgarsvæðisins. Í þessu gleymdist að athuga að a) tugir milljarða ganga til þess að styrkja landbúnaðinn, b) tugir milljarðar renna aftur til landsbyggðar í gegn um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga b) landsbyggðin notar þjónustu, sem eðlilega er fyrirkomið á höfuðborgarsvæðinu að minnsta kosti til jafns við þá sem þar búa og c) aldrei myndi nást sátt um að staðsetja ýmsa sameiginlega þjónustu annarsstaðar en í höfuðborginni, til að tryggja sambærilegt aðgengi landsmanna að henni og svona mætti halda lengi áfram. Það hefur til dæmis gengið ágætlega að búa á Hellissandi þótt þar sé ekkert sjúkrahús og heilsugæslan sé í Ólafsvík, svo dæmi sé tekið. Svo eru teknir tugir milljarða og settir í Héðinsfjarðargöng og ýmis rándýr samgöngumannvirki úti á landi meðan t.d. Sundabrautinni er sífellt frestað. Nei, það er kominn tími á að landið verði eitt kjördæmi og það sem meira er, að sveitarfélögin verði lögð niður líka. Mikilvægur þáttur í því er t.d. skipulagsvald sveitarfélaganna, sem tekur oftar mið af músaholusjónarmiðum en almannahag. Við höfum ekki efni á fleiri stjórnstigum en einu. Áfram Mörður.

  • Hreinn Hjartarson

    Höfuðborgarbúar fá einfaldslega of stóran hluta þeirra tekna sem þjóðin aflar í dag og ekki batnar það með því að skera niður heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.
    Landsbyggðin með allar sýnar auðlindir (fisk og orku) væri einfaldlega betur komin án höfuðborgarsvæðisins, eins og skiptingin tekna er í dag.
    Þessari nýlendustefnu höfuðborgarinnar, sem rekin hefur verið undanfarin ár, með um 50% fjölgun opinberra starfa í borginni á síðustu 10 árum verður að ljúka með niðurskurði þar sem ofvöxturinn var.

    Það væri auðvita gott að jafna atkvæðisvægi landsmanna svo framarlega að tryggt væri að allir landsmenn fengju sinn skammt af þjóðartekjunum, Meirihlutinn mun alltaf reyna að kúga minnihlutann í lýðræði.

    Mörður, sýndu fram á hagkvæmni nýs hátæknisjúkrahúss í Reykjavík.

    Mörður, hvernig getur þú stutt það að skattpeningar frá landsbyggðinni eru notaðir í tónlistahús fyrir höfuðborgarbúa.

  • Social Society lýsir í hnotskurn hversu vitlaus þessi umræða er.

    1) Það er að sjálfsögðu búið að leiðrétta fyrir þeim styrkjum sem renna aftur út á land. Vífill Karlss er ekki pínulítið barn.

    2) Við notum þessa þjónustu, sumt já annað ekki. Það er hins vegar ekki sjálfsagt að hún sé öll samankomin á suðvestur horninu. Hvaða rök eru fyrir því að Hafrannsóknarstofnun Ríkisins og Fiskistofa séu í Rvk svo dæmi sé tekið?

    3) Frá Hellisandi eru heilar þrjár mínótur til Ólafsvíkur, það telst ekki hindrun. Það er verið að leggja niður sjúkrahús sem eru fyrst og fremst hjúkrunar og langlegu-endurhæfingarstofnanir. Með því að leggja þær niður er ekki verið að spara eitt eða neitt. Það er verið að færa kostnað til, færa hann frá nærumhverfi og inn á rándýr hátæknisjúkrahús. Hér er ágætisgrein um málið:
    http://www.640.is/news/vitud_ther_enn___eda_hvad_/

    4) Ég get tekið undir með SS um að gangnagerð og verkefnaákvarðanir hafi almennt verið ekki teknar á nægilega faglegum grunni. Það er hluti af stjórnskipulega vandamáli Íslands og bæta þarf alla stjórnsýslu á landinu, ekki bara þennan hluta. Það að landið verði eitt kjördæmi er okkur flestum á landsbyggðinni algerlega að meinalausu, en að leggja niður sveitarfélögin er amk nýstárleg hugmynd.

    Það er almenn ranghugmynd höfuðborgarbúa að landsbyggðin vilji sérréttindi. Alls ekki, við viljum bara njóta þó ekki væri nema þeirra réttinda sem eðlileg geta talist í öllum þjóðríkjum á sanngirnisgrunni. Sé einhver þeirra of dýr til þess að slíkt sé unnt þá munum við beygja okkur undir það, en það er einmitt það sem vantar. Rvk hefur ekkert sýnt fram á að hún sé að gera hlutina ódýrari. Að færa kostnaðinn til er ekki það sama og að spara.

  • Bragi Páls

    Arnaldur:
    Það eru ekki mannréttindi ef nær allir þingmenn landsins koma af einu svæði t.d. Reykjavíkurkjördæmunum og sem myndu alveg láta íbúa landsbyggðarinnar vera afskipta.

    Ég er viss um það að þegar ég segi börnunum mínum þetta sem og barnabörnunum, þá munu þau fyllast réttlátri reiði út af þessu og hatri í garð þeirra þingmanna sem komu þessu á.
    Þau myndu sjá hvernig þjóðfélagsþegnunum væri mismunað eftir búsetu og hvernig réttur þeirra yrði fótum troðið vegna meirihlutavalds sem væri gjörsamlega úr tengslum við íbúa þeirra svæða sem yrðu fyrir skerðingu á lífsgæðum af þeim sökum.

    Mörður:
    Ef þetta sýn þín og þinna flokksfélaga á málefnum landsbyggðarinnar, þá býð í ekki í framtíðina með landið sem eitt kjördæmi.
    Þannig munu þingmenn þá haga sé í framtíðinni. Skera niður á landsbyggðinni og skerða lífsgæði þar af því að ykkur finnst það í lagi, því þið búið ekki úti á landi.

    Landið sem eitt kjördæmi verður skelfileg stjórnsýslueining. Meirihluti þingliðs mun koma frá Reykjavíkurkjördæmunum og fyrir því er einföld regla.

    Í listaprófkjörum stilla menn sér upp til prófkjörs fyrir sinn flokk.
    Að sjálfsögðu munu þingmenn úr Reykjavík verða kosnir í efstu sætin, því meirihluti kjósenda til prófkjörs yrði úr Reykjavík og nágrenni.

    Þetta sýnir að prófkjörskandídatar utan af landi ættu ekki séns, því þeir hefðu svo lítið bakland með sér úr hinum dreifðu byggðum.

    Mér sýnist að viðhorf svokallaðra vinstriflokka til landsbyggðarinnar sé að gera landsbyggðina að einum allsherjar þjóðgarði og útivistarsvæði, sem einungis yrði opinn nokkra mánuði á ári.
    Slíkur þjóðgarður yrði náttúrulega stjórnað frá Reykjavík líkt og Vatnajökulsþjóðgarður, hvað annað, og skað mörg skrifstofustörf þar.

  • Hrafn Arnarson

    Það er afar sérkennileg hugsun að hægt sé að jafna mismunun á einu sviði með mismunun á öðru sviði. Kosningaréttur er mannréttindi. Jafnt vægi atkvæða eru mannréttindi með sama hætti. Íslenskir jafnaðarmenn hafa barist fyrir jöfnu vægi atkvæða í áratugi. Vægi atkvæða er mest á Vestfjörðum. Ekki er hægt að sjá að Vestfirðir hafi notið þess í atvinnuuppbyggingu og í opinberri þjónustu. Bein fólksfækkun er á Vestfjörðum og hlutfall erlendra ríkisborgara hátt. Hver er skýringin á þessu? Eru allir þingmenn Vestfirðinga duglausir? Eftir sem áður eru boðaðar breytingar ekki góðar. Niðurskurður hefur margvíslegar afleiðingar. Sumir missa vinnuna og flytjast burt ásamt fjölskyldu. Þetta þýðir minnkandi eftirspurn á fjölmörgum vörum og þjónustu. Fyrir fámenn byggðarlög er ástandið viðkvæmt. Neikvæð margfeldisáhrif eru mikil. Það er hægt að spara(skera niður) sig í hel.

  • Einar Guðjónsson

    Við skulum einmitt alls ekki skoða þetta rökrétt. Það er ekkert vit í að sameinast um nokkurn hlut. Vonandi getum við sameinast um að halda úti fjórum vitum og um annað ættum við ekki að sameinast. Kannski má koma þeim í fóstur og láta sjófarendur á Atlantshafi greiða hluta af kostnaðinum. Svo greiða menn bara skatta í þau verkefni sem þeim sýnist þegar og ef þeim sýnist svo. Áfram í s l a n d þjóðríki hinna fjögurra vita.

  • Ég held að núverandi kosningakerfi standi ágætlega fyrir sínu.

    Atkvæðamisvægið svíður svakalega fyrir marga á SV horninu en það er engu síður svo að við kjósum flokka í alþingiskosningum og kosningakerfið jafnar atkvæðum flokka mjög vel með svokölluðum jöfnunarþingmönnum. Niðurstaðan úr því er að enginn flokkur á þingi nýtur atkvæðamisvægisins í fjölda þingmanna. Þeir koma bara fleiri úr fámennari kjördæmunum.

    Höfuðborgarsvæðið hefur meirihluta þingmanna (þótt tæpur sé)
    Þar að auki eru alltaf nokkrir „Reykvíkingar“ sem flytja sig um set og bjóða fram í landsbyggðarkjördæmum.

    Ef við spáum aðeins í því (útfrá lýðræðissjónarmiði) hvað myndi gerast ef við héldum núverandi kjördæmaskipan en héldum áfram að fjölga þingmönnum höfuðborgarsvæðisins.

    Þá fengju stærstu flokkarnir enn fleiri menn kjörna í Reykjavík – segjum að áttundi maður á lista einhvers flokks komist á þing. Þá spyr ég hversu margir kusu eiginlega þann mann ? Hann fór í gegnum prófkjör þar sem kannski 4000 manns kusu og flestir þeirra treystu honum illa. Svo rúllar hann inná þing í krafti þeirra atkvæða sem fyrstu menn á lista og stefna stjórnmálaflokksins skila í kjörkassana.
    Staðreyndin er sú að þeir eru ófáir þingmenn S-flokkanna tveggja sem hafa laumast svotil ókynntir á Alþingi í undanförnum kosningum.

    Að því sögðu væri ágætt að fjölga Alþingismönnum og taka þá fjölgun út á fleiri kjördæmum á Höfuðborgarsvæðinu – það gerir engum greiða að fækka bara landsbyggðarþingmönnum og fjölga fólki sem enginn kaus af listum stóru flokkanna á höfuðborgarsvæðinu.

  • já ps. umræddur laumufarþegi fór væntanlega í sameiginlegt prófkjör í Reykjavík og lenti í 15-16 sæti.

    Svo hefur það tíðkast mjög á Íslandi að þing- og sveitarstjórnarmenn segja af sér á miðju kjörtímabili. Við gætum semsagt auðveldlega séð áttjánda mann úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins setjast á þing á miðju kjörtímabili.

    Það lekur af því lýðræðið

  • Adalsteinn Agnarsson

    Stóð fyrir framan Alþingi kl. 13.00 með spjald, Fátæk þjóð á handfæra Veiðar, og þokulúður til að vekja Jóhönnu, þá kom Mörður gangandi,
    hann sagðist styðja þetta mál!!!
    Flottur Mörður, láttu verkin tala!!!

  • Gagarýnir

    Þetta Alþingi okkar er stórbændaþing og hamlaði ásamt öðru einhverjum einum höfðingja frá að drottna yfir öllum hinum.
    Núverandi kjördæmakerfið er djók sem bara sannar að kjördæmakerfi skipta litlu máli.
    Vargurinn á landsbyggðinni má alveg láta í sér heyra í sér.

  • Friðrik Sig

    Þetta er trúlega skelfilegasta grein sem frá þér hefur komið Mörður.

  • Takk fyrir góða grein, Mörður, og mjög skemmtilega. Já, það er togast á um peningana og allt tínt til. Þú minnist á kjördæmakerfið og að því megi rústa. Einmitt, eitt atkvæði á mann og ekkert meira né minna. – En svo er annað, sem ég sé ekki í upptalningunum. Höfuðborgarbúar fá bara brot af vegum eða vegakerfi miðað við aðra parta landsins. Þeir peningar, sem teknir eru af bensíni, er mjög miklir og þeir eru notaðir til að gera vegi um allt land, en það eru höfuðborgarbúar, sem borga brúsann og brúsana af bensíninu. Og þetta eru miklir peningar – mjög miklir peningar.

  • Jónas Bjarnason

    Þessir peningar eru miklir, mjög miklir. Það er rétt – hitt er tóm vitleysa.

    Þú segir: „en það eru höfuðborgarbúar, sem borga brúsann og brúsana af bensíninu.“

    Það er einu sinni þannnig að vegagerðin greiðir fyrir þjóðvegi, hvort sem þeir eru í þéttbýli eða í dreifbýli. Þjóðvegir í þéttbýli eru örfáir í Rvk og fær höfuðborgarsvæðið alveg jafn mikið og allir aðrir, hlutfallslega reyndar talsvert meira, en slíkt er auðvelt að rökstyðja vegna mikillar notkunar. Allir aðrir vegir eru greiddir af viðkomandi sveitarfélagi. Þannig sitja allir í raun við sama borð í þeim efnum. Eða ertu að leggja til að td Akureyringar eigi að greiða veginn sjálfir til Akureyrar? En hver á þá að greiða fyrir akreinina frá Akureyri til Reykjavíkur?

  • Tillögur að niðurskurði í heilbrigðisþjónustu lykta því miður af handbragði excel-kynslóðarinnar (sem ég tilheyri sjálf). Það lítur vel út á blaði að klípa af krónur og aura hér og þar í skipuritinu, en enginn virðist hafa skilning á þeim veruleika sem höndlaður er með þessu fé.
    Engar samgöngubætur fá breytt þeirri staðreynd að í okkar fallega landi geta aðstæður verið þannig að enginn kemst yfir, ekki einu sinni fuglinn fljúgandi. Ég ólst upp í þröngum firði úti á landi þar sem faðir minn sjúkraflugmaðurinn hætti sér út í ótrúlegustu aðstæður til að hægt væri að bjarga mannslífum. Og þannig er lífið víða á landsbyggðinni enn þann dag í dag, þrátt fyrir það þjónustustig sem þó er til staðar.
    Yfirvofandi niðurskurður á eftir að gera stór landsvæði nær óbyggileg fólki sem vill ekki lifa í stöðugum ótta um líf sitt og heilsu. Í dag starfa ég við heilbrigðisþjónustu á okkar ágæta höfuðborgarsvæði. Ég leyfi mér að fullyrða að þjóðinni okkar er enginn greiði gerður með því að neyða fólk til að flýja heimabyggð sína til að leita á náðir stofnana sem ráða illa við að sinna því sem þegar er á verkefnaskránni.
    Það má kannski segja að svona tilfinningasemi og dramatík eigi ekki erindi í markvissa, pólitíska umræðu. En ekki gleyma því í þínu pólitíska amstri að manneskjur eru bara manneskjur. Skynsemin er ekki endilega æðsta valdið í lífi venjulegs fólks. Tilfinningar okkar eiga alltaf eftir að ráða ferðinni þegar okkur er ógnað, þegar öryggi barna okkar er ekki tryggt.

  • Mörður, hefur þú keyrt yfir fjallveg að vetri með fjársjúkan mann í bílnum? Eða þarftu ekki bílpróf af því þú ert enga stund í vinnuna á reiðhjólinu? Finnst þér í lagi að leggja af stórt hlutfall starfa í hinum dreifðu byggðum þar sem ekki er að neinu öðru að hverfa? Eru fjárlögin nauðsynleg að þínu viti: þarf 11 milljarða í utanríkisþjónustu, friðargæslu, varnarmál, ESB umsókn og fleira í þeim dúr frekar en að halda uppi lágmarksheilbrigðisþjónustu í byggðum þar sem þarf um fjallvegi á næsta sjúkrahús? Er rétt að skera niður framlög til framhaldsskóla þegar þörfin er mest fyrir námsframboð og greiða þeim atvinnuleysisbætur sem ekki fá skólavist? Þá vil ég heldur rústa þessum fjárlögum. Svo held ég að kominn sé tími til að hætta þessari flokkapólitík og einbeita sér að vandamálinu sem öllum er ljóst heldur en eyða tíma og fé skattgreiðaenda í skítkast í sölum Alþingis og á bloggsíðum.

  • Ingibjörg Sigurjónsdóttir

    Annan eins hroka hef ég sjaldan lesið. Að talað sé til fólks sem býr á landsbyggðinni sem vælukjóa, segja að verið sé að breiða yfir mistök og óstjórn lýsir þvílíkri fáfræði um málefni þeirra heilbrigðisstofnana sem á að loka. Það var ekki landsbyggðin sem stillti upp þessum samanburði á milli hennar og höfuðborgarsvæðisins þegar kemur að niðurskurði í heilbrigðismálum. Það var ríkisstjórnin sem ákvað að leggja fram fjárlagafrumvarp sem gerði landsbyggðinni að spara 85% af því sem spara á í heilbrigðiskerfinu. Samanburðurinn varð óumflýjanlegur. Að þú skulir leyfa þér að tala svona Mörður, það bara skil ég ekki. Sterkari orð koma upp í hugann en ég læt mér nægja að segja SVEI ÞÉR!

  • Hrafn, KÞJ er ekki lýðskrumari, hann þekkir til á þessum litlu stöðum og blöskrar þessar tillögur eins og flestum og vill breyttar áherslur. Hann er ekki kvóta- eða fyrirtækiseigandi eins og allt of margir alþingismenn og ég veit ekki betur en hann hafi staðið sig með prýði sem bæjarstjóri á Akureyri. Hann er skólabróðir einhverra Samherjafrændanna en ekki beinn hagsmunaaðili eins og margir kollegar hans. Og varðandi flokkshollustu hans þá er hún ekki meiri en svo að hann bauð sig fram á móti varaformanni og kom sér í ónáð hjá Geir fyrir vikið.

  • Guðrún Eiríksdóttir

    Þetta er alversta umræða sem ég hef lesið lengi !! Hvern fjárann er verið að bera landsbyggðina og höfuðborgina endalaust saman. Við erum „eitt“ og það sama skal yfir okkur öll ganga. Við tökum öll á okkur sama niðurskurðinn og reynum svo að andskotast til að standa saman og komast út úr þessari kreppu án þess að fjöldi manns missi vinnu. Landsbyggðin á ekkert að þurfa að spara meira eða minna bara það sama það er bara sanngjarnt !! Ég hef heyrt að höfuðborgarbúar standi alveg með landsbyggðinni í því máli, kannski fyrir utan nokkra glataða þingmenn. Eitt er það líka sem ég er alveg handviss um og það er að fólk vill ekki að heilbrigðisþjónustan minnki, heldur vill fólk borga aðeins meiri skatta þetta er nefnilega eitthvað sem skiptir svo ótrúlega miklu máli. Ekki veit ég hvað Merði gengur til að koma með svona skrif og efna til svona hrepparígs !! Hann er líklega bara ekki betur gefinn.

  • Ingibjörg Sigurjónsdóttir

    Bravó Guðrún!!! Þetta er einmitt sá málflutningur sem við reynt hefur verið að halda uppi. Það er enginn að skorast undan því að taka á sig niðurskurð og sparnað. Það verður bara að vera einhver sanngirni í því hvernig það er gert.

  • Ingibjörg Sigurjónsdóttir

    Mig langar til að benda Social Society á það að þau sveitarfélög sem fá langmest út úr Jöfnunarsjóði Sveitarfélaga núna eru Reykjanesbær og Álftanes. Og þó fólk af landsbyggðinni noti þjónustu á höfuðborgarsvæðinu til jafns við þá sem þar búa þá er ekki hægt að tala um jöfnuð í þeim efnum. Kostnaður í formi beinharðra peninga og vinnutaps er margfaldur fyrir þá sem þurfa að sækja langt. En nú kallar Mörður þetta alveg örugglega væl svo ætli það sé ekki best að hætta núna.

  • Ingibjörg Sigurjónsdóttir

    Ég tek þetta til baka – þessi sveitarfélög eru ekki að fá langmest per íbúa á árinu 2010. Er ekki viss um hvort þessar upplýsingar sem ég fékk um framlög til Álftaness hafi verið fyrir árið 2011. Ég sé það ekki á heimasíðu Jöfnunarsjóðs. Svo ég ætla ekki að fullyrða eitt né neitt. En sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fá töluverðar upphæðir úr sjóði sem ætlað er að jafna hlut sveitarfélaga sem hafa slakari forsendur til að afla sér tekna t.d. vegna mannfæðar.

  • Ingibjörg Sigurjónsdóttir

    Hérna sjáið þig lagagreinina:
    [Jöfnunarframlög skiptast í tvennt, tekjujöfnunarframlög og útgjaldajöfnunarframlög, og skal þeim úthlutað sem hér segir:
    a. Tekjujöfnunarframlögum skal úthlutað til að jafna tekjur sveitarfélaga. Jöfnunin skal miðuð við sambærileg sveitarfélög og fullnýtingu tekjustofna þeirra, þar á meðal framlaga skv. d-lið 11. gr.
    b. Útgjaldajöfnunarframlögum skal varið til að mæta mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaga á grundvelli stærðarhagkvæmni og tekna þeirra, að teknu tilliti til þeirra þátta sem áhrif hafa á útgjaldaþörf, svo sem íbúafjölda, fjarlægða, skólaaksturs úr dreifbýli o.fl.
    Álftanes er vissulega lítið sveitarfélag og það er sjálfsagt að hjálpa þeim í þessum efnum. En Social Society verður að muna hvaða tilgangi sjóðurinn þjónar.

  • Guðrún Árný Guðmundsdóttir

    Kæri Mörður

    Einu sinni var…. einu sinni minnir mig að þú hafir gengið við hlið foreldra minna í baráttunni fyrir jafnrétti, réttlæti og jöfnuði fyrir alla! Barðist gegn hroka yfirstéttarinnar og heimtaðir réttlæti fyrir lítilmagnann. Hvar ertu nú? Ert þú núna kominn í hóp þeirra möppudýra og kerfiskarla sem þú gagnrýndir áður?
    Ummæli þín á bloggsíðu þinni er varða heilbrigðismálin lýsa hroka og þröngsýni. Lýsir skoðunum manns sem sér ekki fram fyrir nef sitt. Lýsir skoðunum höfuðborgarbúa sem hefur enga innsýn í líf og störf á landsbyggðinni. Kannski er þér líka bara alveg sama um landsbyggðartútturnar. Getur þetta lið ekki bara flutt í borgina. Þar er líka miklu merkilegra að búa gæti maður lesið úr orðum þínum.
    Einu sinni var ég borgarbarn í Reykjavík 101. Ég sá ekkert merkilegra en borgina mína. Flytjast út á land? Það var ekki í myndinni! Frekar hallærislegt fólk sem býr úti á landi… En svo tóku örlögin í taumana, ég kynntist manni, eignaðist börn, gerðist hjúkrunarfræðingur…. og flutti með mína fjölskyldu út á land! Nánar tiltekið í smábæ norður í landi, 2500 manna bær. Þar opnuðust augu mín fyrir hvernig það er að lifa og starfa á landsbyggðinni. Ég gerðist víðsýnni og hef nú aukin skilning á ýmsum þáttum sem hafa áhrif á líf okkar landsbyggðarfólks; ófærð, minna úrval í verslunum, fjarlægðir til að sækja vörur og þjónustu, flutningskostnaður, ferðakostnaður, takmarkað framboð af störfum, versnandi atvinnuástand og fjarvinnu maka. Ég kynntist líka þeirri hugsun að það er miklu lengra úr borginni til Húsavíkur en frá Húsavík í borgina. En ég kynntist líka mikilvægi hvers einstaklings í samfélaginu, samstöðu, samheldni, umhyggju fyrir náunganum, mikilvægi náttúrunnar, byggðarinnar og þess að búa nálægt sínu fólki og sínum uppruna. Mikilvægi þess að fá að vera í sinni heimabyggð og nálægt sínu fólki þegar maður er veikur og fá að deyja í sinni heimabyggð umvafinn sínu fólki.
    Mér þykir ennþá vænt um borgina mína en hér líður mér vel og hér vil ég fá að búa og starfa. Ég tel mig vera víðsýnni í dag en áður. Ég þroskaðist!! En kæri Mörður, hefur þú ekki upplifað þennan þroska?

    Þú ert að tala um hluti sem þú hefur ekkert vit á. Heilbrigðisþjónusta snýst ekki um excel skjöl og rúðustrikuð blöð, kílómetra og hausatölu. Hún snýst um fólk! Um manneskjur! Um manneskjur eins og þig og þína fjölskyldu, um manneskjur eins þú vildir réttlæti og jafnrétti fyrir. Skipulagsbreytingar og niðurskurður er ekki réttlætanlegur án samvinnu við íbúa landsins, þá sem nota þjónustuna og þá sem starfa við hana. Þú talar um að “ innan vissra marka” eigi að ríkja jafnræði um allt land um aðgang að grunnþjónustu. Jafnræði fyrir suma? Áttu við með því að það sé réttlætanlegt að leggja niður hagkvæma sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni og senda alla sjúka og aldraða um langan veg á hátæknisjúkrahús til að fá þjónustu, sama hvort þörf er á hátækniþjónustu eða ekki? Ég er ekki viss um að Reykvíkingar myndu sætta sig við að leita svo langan veg eftir þjónustu eins og landsbyggðarbúum er ætlað að gera. En það er allt annað mál! Það er almannahagur!
    Á Heilbrigðistofnun Þingeyinga er veitt persónuleg og góð þjónusta. Þjónustan þar er líka tvöfalt ódýrari en í Reykjavík. Þar sinnum við bæði bráðum og langvinnum sjúkdómum. Þar kemur fimmtugi maðurinn með brjóstverk og er undirbúinn fyrir sjúkraflug til Reykjavíkur. Þar kemur krabbameinsveika konan til að fá blóð og til verkjastillingar. Þar kemur hjartveiki maður til að fylgst sé með honum á meðan gerðar eru lyfjabreytingar. Þar kemur gamla konan með lungnabólguna. Þar kemur einstaklingurinn með taugasjúkdóm til að fá endurhæfingu og hvíld. Til þess að einstaklingurinn komist sem fyrst aftur út í samfélagið er mikilvægt að hugað sé að andlegu hliðinni líka. Það er mikilvægt fyrir þetta fólk að fá heimsóknir sinna nánustu, að þurfa ekki að ferðast um langan vel til að liggja á stóru og ópersónulegu sjúkrahúsi, langt frá aðstandendum sínum. Í mun dýrara sjúkrarúmi.
    Þetta form af sjúkrahúsþjónustu er hagkvæmt og árangursríkt.
    Þú segir: “Þegar nánar er að gáð kemur svo í ljós veruleg mismunun á landsbyggðinni í heilbrigðismálum. Byggðir þar sem hetjur ríða um héruð hafa miklu betri þjónustu en þar sem meðalmenn einir ráða ríkjum.”Kannski ertu bara öfundsjúkur af því að geta ekki fengið svona góða þjónustu? Er það þá kannski þannig að fyrst að höfuðborgarbúar hafa ekki völ á svona góðri og persónulegri þjónustu þá ætti engin að fá hana? Mörður, þú ert velkominn til okkar á Húsavík til að fá góða sjúkrahúsþjónustu þegar þú þarft á henna að halda.
    Bestu kveðjur frá Gunnu litlu dóttur Elínar og Gvendar.

  • Ingibjörg Sigurjónsdóttir

    Heyr heyr Gunna!!! Flott hjá þér!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur