Miðvikudagur 20.10.2010 - 18:57 - 37 ummæli

Skólinn er sameiginlegur

Leikskólarnir, grunnskólarnir, framhaldsskólarnir flestir og háskólarnir – við eigum þetta öll saman, og einmitt það að skólarnir eru sameiginlegir á ekki minnstan þátt í því að íslenskt samfélag er þó jafn-manneskjulegt og það er.

Í sumu munar okkur, til dæmis í stjórnmálum, lífsskoðun, trúmálum. Þessvegna skiljum við þann ágreining eftir utan skóladyranna en leggjum sameiginlegan grunn að skilningi á þessum fyrirbærum með fræðslu um samfélag, heimspeki, trúarbrögð.

Samfélag nútímans er öðruvísi en einleitt Ísland fyrri alda og þarf ekki að fara langt aftur í tímann eftir verulegum breytingum. Samt er það svo að kirkjuleg ásókn í skólastarf er miklu meiri núna en fyrir nokkrum áratugum – kannski vegna stefnubreytingar hjá kirkjunni sem að sínu leyti væru viðbrögð við þeim breyttu tímum að ekki er lengur sjálfsagt að allir séu evangelísk-lúterskir.

Þegar loksins á að virða borgaralegt eðli skólanna í höfuðborginni rís upp mikil sveit sem telur að með því eigi að eyðileggja jólin og rústa Jesú Kristi – og sumir heimta að nú skuli meirihlutinn ráða. Það er ekki merkilegur lýðræðisskilningur.

Auðvitað er kristin kenning veigamikill partur af menningararfleifð Íslendinga, og það er sjálfsagt að biblíusögur af ýmsu tagi skipi heiðurssess í trúarbragðafræðslu í sameiginlegu skólunum okkar – þar sem nemendur hljóta þó að þjóðlegum hætti að byrja á Þór, Óðni og Freyju – en trúboð og guðsþjónusta einstakra kirkjudeilda á einfaldlega heima annarstaðar í borginni en í skólunum. Sama hvort það eru mormónar, múslimar eða þjóðkirkjumenn.

Þið hafið á réttu að standa, kjörnir fulltrúar í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Ekki gefast upp!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (37)

  • Heyr heyr Mörður.

  • Gagarýnir

    Vil bara benda á að það eru nú blessuð börnin sem allt þetta skiptir mestu. Trúardeilur eru þeim algerlega framandi á þessu þroskaskeiði. Að gera þau að togreipi gerir þeim ekkert gott.

  • Hallfríður Þórarinsdóttir

    Kærar þakkir Mörður. Ég er þér svo innilega sammála.

  • Adalsteinn Agnarsson

    Við eigum líka fiskimiðin, saman, ÓEFNT ER LOFORÐ ÞITT MÖRÐUR,
    FRJÁLSAR HANDFÆRA VEIÐAR, sem mundi leysa atvinnu vanda
    Íslendinga!!!

  • María Kristjánsdóttir

    Ég vona að þau muni líka taka á því að börn í leikskólum eru notuð til að auglýsa fyrirtæki á gönguferðum sínum. Og mannréttindaráð Hafnarfjarðar sjái til þess að yngstu börnin í FH auglýsi ekki Alkóa. Það mætti nú kannski líka bara setja lög um þetta.

  • Andrés Valgarðsson

    Vel sagt Mörður, ég er algjörlega sammála þér í þessu máli.

  • Gísli Ingvarsson

    Ásókn kirkjunnar í skóla og leikskóla? Er þetta dokumenterað? Hefur einhver tölfræði fyrir sér aðra en munnmælasögur? Ertu ekki bara kokhraustur frambjóðandi núna Mörður?

  • Styrmir Barkarson

    Hér er munnmælasaga handa þér, Gísli.
    Ég vinn í grunnskóla og á börn á leikskóla. Gídeonsfélagið sækir í börnin. Sunnudagaskólinn sækir í börnin með auglýsingum. Prestarnir sækja í börnin með fermingarfræðslu á skólatíma. Kirkjan sækir í börnin með árlegum kirkjuferðum. Prestar sækja í leikskólabörn með reglulegum heimsóknum á þá leikskóla sem það leyfa til að segja börnunum sögur af Jesú.

    Auðvitað er þetta engin tölfræði, en eitthvað þó.

    „Gagarýnir“, það er ekki verið að gera börnin að togreipi, heldur er einmitt verið að forða þeim frá slíku. Það er verið að forða þeim frá trúarlegri innrætingu í skólum sem veldur þeim togstreitu varðandi það að falla í fjöldann og trúa eins og hinir.

    Og Mörður… Takk. Ég er pistli þínum feginn.

  • Ásgeir G.

    Tek undir þetta.

    Einnig má athuga ríkisstyrktar trúar-sumarbúðir t.d KFUM þar sem trúarleg innræting á sér stað, á kostnað ríkissins.

    Milljónatugum dælt í þetta af skattfé almennings ár hvert.

    Koma þessu kristilega bákni af ríkis spenanum.
    Aðskilanaður ríkis og kirkju er spurning um hvenær, ekki hvort.

    Bestu kveðjur

  • Heyr heyr.
    Það verður að koma þessu í gegn þrátt fyrir öskrið og lætin á móti þessu. Alveg rétt að það má ekki gefast uppí þessu. Annað er mannréttindabrot í nútíma siðuðu þjóðfélagi. Skólinn skal vera veraldlegur og kirkjan utan hans

  • Rúnar Þór Þórarinsson

    Engan trúarheilaþvott í skólum takk fyrir!

  • Vatnaskógur er ógeð.

    Þar eru eldri drengir gerðir að „foringjum“yngri drengja sem ber að hlýða fyrirmælum þeirra og sýna undirgefni.

    Viðbjóður sem ætti að banna.

  • Gústav A. B.

    @Gísli Ingvarsson

    Hérna má finna skýrsluna sem Mannréttindaráð Reykjavíkur hafði til hliðsjónar við ályktunargerðina: http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skjol/svid/menntasvid/pdf_skjol/utgafur/leikskolar/ymislegt/truar-_og_lifsskodunarh_pa.pdf

    Hérna má líka finna grein Oddnýjar Sturludóttar um málefnið sem er mjög góður lestur: http://oddny.eyjan.is/2010/10/egar-samfo-og-besti-stalu-jolunum.html

  • Starkaður

    Nei, auðvitað er það ekki „merkilegur lýðræðisskilningur“ að meirihlutinn eigi að ráða. Fyrir gamla kommúnista er að sjálfsögðu ekki ástæða til að taka mark á meirihlutanum.

  • Mikið rétt. Góður, Mörður!

  • Björn Erlings

    Merkilegur lýðræðisskilningur hefur fengið nýja merkingu hjá þér. 93% þjóðarinnar tilheyra kristnum trúfélögum og ~80% þjóðkirkjunni. Það sem þeir gera er menning, lifandi starf með fólki, – þegar við getum litið til baka á tímann í dag getum við fjallað um arf í þeim veruleika sem við lifum nú ekki fyrr. Að loka augunum fyrir þessu er afneitun á veruleika sem við borgarar í íslensku samfélagi lifum í. Gæti verið að þið bókmenntafræðingar séuð ekki búnir að líta upp úr skruddunum eða bara fastir á einhverju þröngu tímabili sögunnar? Að fá að tjá trú og fjalla um trú er ekki trú í sjálfu sér. Hver og einn er frjáls af trú óháð því. En að hindra fólk, börn okkar í að iðka það sem fær enga merkingu fyrr en þau öðlast trú er afnám trúfrelsis. Framganga fulltrúa samfylkingarinnar í þessu máli hefur haft áhrif á fjölmarga sem ég þekki til að segja sig úr flokknum. Stjórnmálaflokkur sem berst gegn fólkinu, því kirkjan er fólkið ekki stofnunin, er á villugötum og glatar ræktarlandi sínu og fær sviðna jörð í arf.

  • Árni Svanur

    Til upplýsingar um afstöðu þjóðkirkjunnar varðandi hlutverk skóla og kirkju þá langar mig til að vitna í fræðslustefnu þjóðkirkjunnar (http://kirkjan.is/stjornsysla/stefnumal/fraedslustefna). Þar segir:

    „Samstarf kirkju og skóla er fjölbreytilegt. Gæta þarf að ólíkum hlutverkum þessara tveggja stofnana. Skólanum er ætlað að fræða um trú og lífsgildi. Hlutverk kirkjunnar er að boða kristna trú og lífsgildi þannig að þeir sem henni tilheyra tileinki sér boðskapinn. Kirkjan getur vissulega stutt skólasamfélagið með fræðslu um trú og lífsviðhorf en þá á áðurnefndum forsendum skólans. Samstarf kirkju og skóla er mikilvægt í grenndarsamfélaginu því báðar þessar stofnanir vilja hag barna og unglinga sem bestan.“

    Skólinn fræðir.
    Kirkjan boðar.
    Kirkjan getur stutt skólasamfélagið. Það gerist á forsendum skólans.
    Samstarf er mikilvægt því báðar stofnanir vilja hag barna og unglinga sem bestan.

  • Hilmar Þór

    Ég tek undir með Birni Erlings og tel að þessi umræða sé á villigötum og á engan hátt tímabær. Það er mikil sátt um kirkjuna meðal fjöldans og það ríkir í sjálfu sér friður um hana.

    Það er auðvelt að grugga vatnið með bægslagang eins og gert hefur verið. En gruggið setur sig. Verum róleg.

    Hinsvegar undrar mig að alþingismaðurinn sem ætti að vera í fullu starfi við að vinna þjóð gagn sem er í nauð stödd skuli vera virkur í borgarumræðunni eins og hér mál lesa. Er ekki verk að vinna niður á Alþingi?. Hlustaðirðu, Mörður, á Pál Skúlason í gær? Þar talaði maður af víðsýni og djúpum skilningi.

    Ég held að þú ættir að hugleiða orð Páls og jafnvel hafa nokkrar áhyggjur af þeim. Jafnvel gera eitthvað að gagni í framhaldi af ráðleggingum Páls Skúlasonar heimspekiprófessors.

  • Þorgerður Halldórsd

    „og sumir heimta að nú skuli meirihlutinn ráða. Það er ekki merkilegur lýðræðisskilningur“
    Þetta hefur verið tekið fyrir áður, en ég varð bara að henda þessu inn aftur. Er það ekki einmitt þannig sem lýðræði virkar? Ég er td ekki ánægð með sitjandi ríkisstjórn eða borgarstjór (eða bæjarstjórn þar sem ég bý) því ég kaus ekki meirihlutann, en þeir sem þar sitja, náðu saman vegna þess að það kusu fleiri þá flokka (eða allavegana þann flokk sem er stærri) heldur en kusu minn flokk, og þess vegna ráða þeir – LÝÐRÆÐI!
    Fyrir utan að þessi umræða er bara til þess að kasta ryki í augu fólks, svo það taki ekki eftir því sem EKKI er verið að gera á alþingi. Hættið þessu rugli, það eru brýnni verk fyrir höndum.

  • Atli Örn

    Það sem Mörður er að segja með lýðræðisskilning er líklega sá skilningur hjá sumum að þeir geti nýtt kraft meirihlutans til þess að brjóta mannréttindi.
    Í þeim skilningi væri þrælahald, mismunun eða hólmgöngur án efa í fínu lagi ef meirihluti væri fyrir því.

    En fyrst við erum að tala um meirihluta þá eru þær tölur sem sumir hér virðast gefa sér,sem ganga út á það að allir í kristnum trúfélögum hljóti að kjósa óbreytt ástand sjálfsagt stórlega ofmetnar. Ég hef sjálfur talað við ófáa einstaklinga sem tilheyra þjóðkirkjunni varðandi þetta mál og meirihluti þeirra eru á því að skólinn eigi að vera hlutlaus þegar kemur að trúarbrögðum.

    Tek undir með Merði.

  • Ég hefði haldið að öfga hægrimaður einsog Starkaður væri á móti því að börnum þessa land væri innprentuð trú og arfsagnir Hebrea.

  • Það er ömurlegur skilningur á lýðræðishugmyndinni að meirihluti geti fengið öllum vilja sínum framgengt á kostnað minnihluta. Sú hugmyndafræði hélt ég að tilheyrði dimmri fortíð.
    Skólar eiga að vera secular, lausir við argaþras stjórnmála eða trúarbragða. Það er í raun ótrúlegt að um þetta skuli yfirleitt vera einhver umræða á 21. öldinni. Ótrúlegt.

  • Mjög ósammála þér núna Mörður og ekki er ég nú neitt sérlega iðin við að iðka mína barnatrú í dag.

    Ég vil taka undir með orðum Björns Erlings hér að ofan: „Að fá að tjá trú og fjalla um trú er ekki trú í sjálfu sér. Hver og einn er frjáls af trú óháð því. En að hindra fólk, börn okkar í að iðka það sem fær enga merkingu fyrr en þau öðlast trú er afnám trúfrelsis.“
    Enn talandi af reynslu að missa sína allra nánustu sem barn þá veitti trúin manni sem barni ákveðið haldreipi, ég veit satt best að segja ekki hvert við erum að fara með þessu
    Hefur þetta skaðað einhvert nútímabarnið nýlega í skólum landsins að hlusta á þau gildi sem kristindómurinn stendur fyrir ?
    Veitir nokkuð af að minna börnin okkar á t.d. Gullnu regluna ? Er það kannski úrelt ?

    Enn kannski kemur að því einn daginn að við þurfum að verja „okkar“ trú. Hver veit?

  • Gísli Ingvarsson

    Sem sagt það er ekkert nema froða og hroðvirknisleg munnmælavinna að baki þessu trúarásóknarbrjálæði. Óskhyggja afdankaðra vinstri eitthvað manna. Ekki það að hægra liðið sé eitthvað betra. Bendi á ágæta hugleiðingu Þrastar Ólafssonar í Fréttablaðinu í dag.

  • Þeim til upplýsingar sem hér rita og eru ósammála Merði og vitna í fjölda skráðra meðlima í þjóðkirkjunni fyrir því hversu mikilvægt sé að halda trúboði í skólum og leikskólum. Langflestir sem þar eru skráðir hafa aldrei óskað eftir þeirri skráningu að fyrra bragði, þetta skráningarform er nú ekkert til að hrópa húrra fyrir, börn skráð þar ómálga. Það er nú ein vitleysan sem þarf að endurskoða. Börn sem fermast gera það til þessa að skera sig ekki úr frá fjöldanum og fá gjafir, þetta er augljóst fullvita fólki. Þannig að þessi meirihlutarök, eins vitlaus og þau eru, halda ekki. Síðan hvenær hafa mannréttindi snúist um minni og meirihluta? Skynsamlegra væri að skoða mætinu í sunnudagsmessur á venjulegum sunnudegi sem mælikvarða á áhuga landamanna fyrir þessu þjóðkirkjubákni.

    Mér er hreinlega fyrirmunað að sjá hversvegna prestar og þeirra fylgjendur geta ekki látið skóla og leikskóla í friði. Nú er það þannig að þeir hafa til umráða fínar byggingar sem ég hélt að stæðu öllum opnar sem óska þess að hitta þetta presta. Starfræktir eru sunnudagaskólar sem foreldrar sem vilja innræta börnum sínum þessa vitleysu, geta auðveldlega farið með sín börn í. Er ekki vandamálið að trúáhugi hjá hinum almenna borgara er svo lítill að það mæta örfáir til sinnar kirkju, þess vegna sækir kirkjan í skólanna. Það vita allir sem vilja vita það að þessi stofnum berst nú í bökkum fyrir að réttlæta sjálfa sig og að halda sínum stalli. Þetta hagsmunabarátta í sinni tærustu mynd.

    Það er kolrangt að verið sé að hinda einhver í að leita og iðka trú, slíkt á ekki heima í opinberum skólum. Þeir sem það kjósa geta gert það heima hjá sér eða í kirkjum. Svo ég svari spurninu Heiðar hér að ofan þegar hún spyr hvort einhver hafi skaðast við að þessari mismunun, er svarið JÁ. Þess vegna er verið að fara af stað með þessa leiðréttingu. Ég held að prestar og þeirra blindu fylgjendur þyrftu að rifja upp Gullnu regluna.

    Það verð ég nú að segja Mörður, ég held hreinlega að þetta sé í fyrsta skipti sem ég er þér sammála, það er gleðilegt.

  • Ég er þér algerlega ósammála Mörður, mannréttindaráð hefur ekki rétt til að breyta svona mikilvægum hluti í okkar menningu. Þetta er að mínu mati yfirgangur – minnihlutahóps, sem setur „mannréttindastimpilinn“á þetta til að fá fólk með sér í lið. Hvernig væri bara að spyrja krakkana sjálfa í skólunum? hvort og hvað þeim finnst þegar kirkjur eru heimsóttar osfrv. Svo talar fólk hér um að prestar sæki svo í skólana- alveg eins og skólinn sæki ekki í kirkjuna? þetta er nú oftast á tíðum samvinna skóla og kirkju.
    Afhverju fer ríkið ekki fyrst í að aðskilja ríki og kirkju? þa´fyrst væri grundvöllur fyrir t.d. þessari breytingu, -en að svo stöddu, finnst mér að Margrét Sverrisd.og félagar ættu nú að hlusta á fólkið í landinu og draga þessa tillögu tilbaka um hríð. þetta er í besta falli ótímabært og kemur úr rangri átt. og ég velti fyrir mér, -hver vinnur fyrir hvern? -siðmennt fyrir mannréttindaráð eða öfugt? eða er þetta sami grauturinn?

  • Kristín Sævarsdóttir

    Takk fyrir góða grein, Mörður. Við megum alls ekki gefast upp því þetta er spurning um mannréttindi barnanna. Hljótum að geta fundið leið sem allir geta sætst á.

  • Ásgeir Beinteinsson

    Sæll Mörður

    Ef hugmyndir mannréttindaráðs ná fram að ganga með ákvörun menntaráðs Reykjavíkur og allir fara eftir því sem þeim er sagt, þá verða miklar breytingar á starfsemi grunnskólanna í aðdraganda jólanna. Þó er reynt að draga úr þessu með því að segja: „Þess skal sérstaklega getið að ekki er verið að hrófla við öðrum jólaundirbúningi leik- og grunnskóla.“

    Samþætting húsnæðis og starfsemi stofnana. (skólar + kirkjur)
    94.7% grunnskóla í Reykjavík fara með börn í kirkju fyrir jól og páska hvert ár.

    Hvað segir í hugmyndum ráðsins?: „Kirkjuferðir skulu ekki farnar á starfstíma frístundaheimila og leik- og grunnskóla.“

    Áður segir í sömu grein: „….. sálmasöngur og listsköpun í trúarlegum tilgangi er hluti af trúaruppeldi foreldra en ekki hlutverk starfsmanna borgarinnar. Slík starfsemi á ekki heima í starfi með börnum í opinberum skólum.“

    Þetta merkir að í skólum verða ekki; helgileikir, kirkjuferðir yngri nemenda um jólin, jólastund unglinga í kirkju, Heims um ból, Bjart er yfir Betlehem, Skín í rauðar skotthúfur, Litli trommuleikarinn, Adam átti syni sjö, Þá nýfæddur Jesús, Jólin alls staðar, Á jólunum er gleði og gaman, Snjókorn falla, Boðskapur Lúkasar, Hin fyrstu jól, jólaföndur, jólatré og svo frv.

    Sem sagt, það verður ekkert jólastand í leik- og grunnskólum.

    Þú segir í pistli þínum: „Þið hafið á réttu að standa, kjörnir fulltrúar í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Ekki gefast upp!“

    Ég get alveg verið sammála því að rétt skuli vera rétt og einhverntíma verður þetta svona eins og stefnir í með væntanlegri ákvörðun menntaráðs. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þessar breytingar þurfi að gera á nokkrum árum í sátt við skólasamfélagið. Hvers vegna þurfum við Íslendingar alltaf að gleypa heiminn í einni ausu í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur? Hvers vegna ættu menn að höggva hefðirnar í einu vetfangi núna?

    Svo vilja menn það ekki í raun, því að bæði mannréttindaráðið og kjörnu fulltrúarnir eru að draga í land. Þá kemur annar vandi okkar Íslendinga og það er tvískinnungurinn. Menn ætla sér að setja reglur sem ekki stendur til að fara eftir eða fylgja eftir af hálfu yfirvalda. Svo er nú hitt að við Íslendingar höfum lengi ákveðið það hver fyrir sig hvort að við förum eftir því sem okkur er sagt!

    Breytingarnar á að gera en það þarf að gefa þeim tíma. Það eru nú ekki nema tvö ár síðan við áttum að hætta að stunda kristilegt siðgæði samkvæmt grunnskólalögum en leggja áherslu á kristna arfleifð íslenskrar menningar? Ég held reyndar, áður en við aðhöfumst eða tökum svona afdráttarlausar ákvarðanir, að arfleifðin þurfi að fara út úr lögunum, sem og ákvæði 62. stjórnarskrárinnar: „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

    Flýtum okkur hægt.

    Með kveðju,

    Ásgeir Beinteinsson
    skólastjóri

  • Gísli Ingvarsson

    Kristin menningararfleifð er friðhelg í mínum huga einsog dróttkvæði, rímur, þjóðsögur, þjóðtrú, arfsagnir, álagablettir, tungumálið í allri sinni fjölbreytni. Það kemur því úr hörðustu átt að Mörður sem ætti að hafa þjóðmenningarlegan bakrunn í víðum skilningi tali einsog það sé ekkert í húfi nema eitthvað bögg í prestum og prelátum. Það er hægt að skilja að kirkjuna og ríkið. Menn geta einbeitt sér að því en að skilja að kristni og menningu þjóðarinnar er í fyrsta lagi ekki hægt en tilraunin dálítið klikkuð og pervert. Þarfnast nánast „nýrrar“ lífssýnar fyrir „þjóðina“. Þetta á að gerast eftir fund í nefnd embættismanna borgarinnar.

    Ég held að þegar á botninn er hvolft þá er þessi velmeinta leit að minnsta samnefnaranum í hverju samfélagi fyrir sig sundrandi og óþörf æfing fyrir þá hnattvæðingu sem ég perónulega tel óhjákvæmilega og við verðum að búa ikkur undir með því að standa föstum fótum með kosti og galla menningar okkar andspænis því sem mætir okkur. Ef okkur er sama um arfleifðina sem þessi „smjaðurslega“ ályktun menntaráðs ber í sér þá ber hún í sér dauða íslenskrar menningar einsog ég þekki hana. Auk þess sem hún byggir ekki á neinu nema anektótum ofsóknarbrjálæðra trúleysingja.

  • Takk fyrir þetta Ásgeir Beinteinsson þú orðaðir þetta vel og með góðum rökum.

    Við Íslendingar stærðum okkur yfir því að vera snöggir að taka ákvarðanir í fjármálalífinu sem og annarstaðar hér fyrir nokkrum árum
    og hvar erum við stödd núna ? Það borgar sig ekki alltaf að taka ákvarðanir fljótt.

    Flýtum okkur hægt.

  • Aðrar þjóðir, eins og t.d. Bandaríkjamenn og Frakkar, ástunda aðskilnað ríkis og kirkju, og banna bænahald og trúartákn í skólum. Ekki hef ég orðið vör við að frönsk eða bandarísk menning hafi þurrkast út vegna þessa eða að fólk sæki síður kirkjur í þessum löndum en hér. Þvert á móti.

    Menn detta hér hvern um annan þveran í móðursýkinni yfir því að grunnskólabörn „fái“ ekki að fara í kirkjuheimsókn á skólatíma eða syngja sálma í skólanum. Ég spyr: Til hvers eru börn í skóla? Til hvers eru heimilin? Til hvers er kirkjan?

    Börn eru í lögboðnum skóla til þess að læra að lesa, skrifa, reikna og svo framvegis. Þau eru ekki í skóla til þess að taka trú. Söngur sálma og bænahald á að fara fram inni á heimilum trúaðra og í kirkjum, hafi fólk áhuga á að sækja þær. Ekki í skólum hins opinbera sem öllum börnum er skylt að sækja. Ekki frekar en t.d. að ungliðastarf Sjálfstæðisflokksins eða annarra stjórnmálaflokka fari fram í skólum.

    „Gjaldið keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“ Höldum hlutlausri kennslu í skólunum og trúariðkun heima og í kirkjum, þar sem hún á heima.

  • Takk fyrir greinina Mörður.

    Þetta er hófstillt lýsing á því verkefni sem við í Mannréttindaráði erum að vinna. Hvað varðar tilvitnanir í texta tillögunnar þá er ágætt að hafa í huga þar er um drög að ræða. Svo það er varasamt að draga of sterkar ályktanir af því sem þar stendur orðrétt, eins og Ásgeir Beinteinsson gerir. Margir tala eins og nú eigi að þurrka hlut kristni úr aðalnámskrá grunnskólanna. Það er langt í frá enda ekki í valdi Mannréttindaráðs. Hér er um að ræða stefnu borgarinnar í mannréttindamálum á sviði leik- og grunnskóla, leiðbeinandi reglur sem hver skólastjóri hlýtur að útfæra eftir bestu samvisku og skilningi.

    Annar misskilningur er sá að þetta sé eitthvað sem hafi dottið af himnum í gær. Svo er ekki. Þetta er mál sem hefur verið um þó nokkurt skeið í bígerð, og ætti það ekki að hafa farið fram hjá þeim sem málið varðar, að ég tali ekki um skólamenn.

    Ég er trúaður á að þetta verði til mikila bóta fyrir börnin, starfsmenn skólanna og heimilin. Annars væri ég nú ekki með í þessu, slíkur ágætis maður sem ég er.

    Kær kveðja,

    Sjón

  • Sjón;
    Það sem þið áttið ykkur ekki á, er að þessi breyting, er aðeins byrjunin, þið segið að þetta sé aðeins innan skólanna, þið segið að þið séuð að hlusta á kröfur fólks um þetta, en hvað kemur næst? Hvað verður gert þegar fleiri kröfur koma og kannski um aðra hluti en þessa? er hægt að setja mannréttindastimpil á allt til þess að fólki þori nú ekki að mótmæla af hræðslu við að vera álitið þröngsýnt og ýmislegt annað?
    Mér finnst þetta vera algerlega fyrir utan ykkar verksvið, mér finnst ekki vera forsenda fyrir þessari breytingu- þú segir að þetta verði til mikilla bóta fyrir börnin- ég held bara með fullri virðingu- að þið séuð sko ekki að hugsa um hag barnanna -heldur sé þetta stríð ykkar -fullorðinna.
    til þess að það sé forsenda fyrir þessari breytingu- þarf fyrst, að aðskilja ríki og kirkju. Í kjölfarið, gætu þá risið upp kristnir skólar og fólk þá valið hvort það setti börnin sín í kristinn eða almennan skóla og sú breyting gæti verið bara af hinu góða. En mér finnst þetta – núna, vera ótímabært og mér finnst allur framgangur ykkar í þessu – sýna mikinn yfirgang og eins og þið lítið niður á aðra. Þó svo þetta sé ekki nýtt af nálinni – þá hefur þjóðin aldrei fengið að segja til um hvað hún vill.

  • Sigríður Guðmundsdóttir

    Þetta er áhugaverð umræða og þörf, en þannig er mér farið sem móður 9 ára gamals barns að mér finnst ágætt að hann fái kristnifræðslu í skólanum. Ég er alin upp í kristni, en er löngu búin að segja mig úr kirkjunni og á mér sjálf trú sem er bræðingur úr ýmsum stefnum og byggir fyrst og fremst á eigin reynslu. Soninn el ég ekki upp í kristni né kirkjusókn, les hins vegar fyrir hann barnabækur um gömlu íslensku goðafræðina, sem mér finnst skemmtileg og falleg. Faðir hans er ekki kristinn heldur.

    Mér finnst samt ekkert slæmt að hann fái trúarlegt uppeldi annars staðar frá, því að barnaleg Jesú- og guðstrú er að mínu mati huggunarrík og góð fyrir lítil börn, þó að síðar meir telji ég hollt að fólk vaxi upp úr þjóðsögum upprunnum frá Miðjarðarhafi og tengist Almættinu á eigin forsendum.

    Afdráttarlaus kærleiks- og uppreisnarboðskapur Jesú um milliliðalaust samband mannsins við sinn Guð eða Almætti er mér svo að skapi og í raun í hrópandi mótsögn við allt það stofnanaverk sem hefur verið smíðað í kringum inntak hans. Ekkert slæmt að börnin læri það snemma, þó að þau skilji það ekki fyrr en síðar.

  • Hér kemur hver rangfærslan á eftir annarri fram. Mikið væri nú gaman ef þeir sem tala á móti þessum hugmyndum myndu nú taka sig til og gefa sér tíma til að lesa þessar tillögur. Allt sem í raun er verið að tala um er að útrýma trúboði úr opinberum skólum, enda sér allt heilvita fólk að slík á ekki heima í leik- og grunnskólum. Ekki hefur verið talað um að henda jólum út úr skólum, hvílík fjarstæða.

    Mikið rosalega er ég ánægður að mín börn séu ekki í skóla hjá Ásgeiri Beinteinsyni. Er það ósanngjörn krafa að skólastjórinn kynni sér málið áður en menn fara að þvaðra aðra eins vitleysu. Hvað ertu að leggja til? Taka þessi skref í smáum skrefum, fyrst að banna Adam átti syni sjö, síðan á næsta ári Bráðum koma blessuð jólin. Ef þú hefðir haft fyrir því að kynna þér þetta í stað þess að setja þessa vitleysu fram hefðir þú séð að það er ekkert verið að ræða um að banna það sem þú kallar jólastand út úr skólum. Kirkjuferðir í óþökk foreldra verða hins vegar ekki í boði, eins sjálfsagt og það er. Ásgeir vitnar í stjórnarskrá Íslands, þá er rétt að benda honum líka á að trúfrelsi er líka stjórnarskrábundið. Ásgeiri til upprifjunar bendi ég honum á þessa grein hér úr grunnskólalögum:(nr. 66/1995) 29. gr. Þar segir: „Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar eða stöðu að öðru leyti“.
    Einnig er komið að þessu í aðalnámskrá grunnskóla ef skólastjórinn þekkir það ekki.
    Siðareglur kennara taka líka á þessu: „Kennurum ber að hafa jafnrétti allra nemenda að leiðarljósi í skólastarfi. Kennarar eiga að vinna gegn fordómum og mega ekki mismuna nemendum t.d. vegna kyns, þjóðernis eða trúarbragða“.

    Það sem verið er að leggja til er að kennt verði UM kristni, ekki kenna kristni. Hlutverk skóla er að fræða ekki boða. Er það virkilega svo að fullorðið fólk leggur til að börum verið mismunað í skólum sökum trúar eða trúleysis. Tal um að okkar þjóðfélag byggist á kristnum gildum í besta falli kjánaleg rök. Hver eru þessi kristnu gildi? Er það gildin sem Krossinn boðar, eða gildin sem Vottarnir boða, nú eða þau sem kaþólikkar boða eða heldur fólk að hin einu sönnu réttu kristnu gildi séu þau sem ríkiskrirkjan boðar. Það vita allir sem það vita að okkar siðferði er ekkert komið frá kristni, siðferði var til lögnu áður en kristni kom til. Siðferði þekkjast hjá sumum dýrasamfélögum meira að segja, veit ekki til þess að simpansar séu kristnir eða annarar trúar. Heldur fólk því fram í fúlustu alvöru að þjóðfélagið fari á hliðina ef við hættum að láta börn leika helgileiki í skólum? Heldur fólk að kristni eigi einkarétt á kærleikanum. Kærleikur er hluti af því að vera mennskur. Held að kærleikur þekkist hjá mörgum dýrategundum líka, heitir kannski eitthvað annað þar.

    Fólk má trúa því sem það sjálft kýs, en trúboð á ekki heima í opinberum skólum. Bendi ég aftur á að kirkjur standa öllum opnar og sunnudagaskólar er starfrækir fyrir þá sem það kjósa. Grunar mig að foreldrar nenni hreinlega ekki með sín börn þangað.

    Svona tillögur eru settar fram til þess að allir setji við sama borð. Það er algjörlega ólýðandi að mannréttindi í skólum séu háð persónulegum skoðunum skólastjórnanda, eins og hér sést skrifað frá hendi Ásgeirs Beinteinsonar. Gera á kröfur til stjórnanda að þeir séu betur að sér en þetta.

    Lifið heil.
    Ólafur Kristjánsson

  • Þegar ég var í barnaskóla var hver skóladagur byrjaður með samlestri á versi eftir sér Hallgrím.

    Það var íslenskukennsla.

    Og haldið nú áttum, heimskingjar.

  • Styrmir Barkarson

    Takk, Ólafur Kristjánsson. Þú sparaðir mér langan innslátt því þú sagðir allt sem mig langaði til að segja.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur