Föstudagur 22.10.2010 - 08:05 - 21 ummæli

Ekki dissa stjórnlagaþingið

Mjög merkilegur viðburður í Íslandsögunni: Stjórnlagaþing – í fyrsta sinn frá Vér-mótmælum-allir-þinginu í sal Lærða skólans sumarið 1851, uppsprottið í búsáhaldabyltingunni góðu, fjallar um grundvöll samfélagsskipunar á Íslandi, verkefni sem margar kynslóðir alþingismanna hafa heykst á að ljúka, kosið úr þjóðardjúpinu með aðferðum alveg gagnstæðum því sem okkur þykja ekki hafa heppnast, svar við stjórnmálakreppunni sem menn eru loksins farnir að skilja að hér geisar …

 – og samt gengur á með dissi og drullukasti.

Auðvitað er íhaldið á móti stjórnlagaþinginu, var á móti frá upphafi, er á móti núna, verður alltaf. Bandalag sérhagsmunanna að baki Sjálfstæðisflokknum vill ekki missa völdin á Íslandi, og forsvarsmenn þess standa skjálfandi á taugum frammi fyrir stjórnlagaþinginu alveg einsog vinstristjórninni í landinu og gjörbreyttum viðhorfum almennings eftir hrun. Þetta vissu allir.

En aðrir göfugir skynsamir velmeinandi framfarasinnaðir landar: Hættið öllu þusi – hér er meiriháttar tækifæri sem á að grípa fagnandi.

Nú á að þykja fáránlegt að svona margir skuli bjóða sig fram – en er það ekki þvert á móti merki um almennan áhuga á samfélagsmálunum? Vinnufúsar hendur hvarvetna í samfélaginu að finna lausnir sem við þurfum? Menn kvarta yfir að landsþekktir menn eigi meiri tækifæri en aðrir – og vissulega vildi maður þekkja fleiri af frambjóðendunum fimmhundruð. En ekki hvað? Eru ekki kosningar yfirleitt þannig að fólk kýs frekar þá sem það þekkir en þá sem það þekkir ekki? Ég hef ekki frekar en aðrir séð lista yfir alla frambjóðendur og kynningu á þeim – hlakka til – en er strax kominn með svona 5–10 frambjóðendur sem mér líst vel á, og ekkert endilega af því þeir séu sömu skoðunar innbyrðis, hvað þá að maður ætlist til að þeir hafi nákvæmlega manns eigin viðhorf til allra hluta. Þetta á fyrst og fremst að vera góður hópur, íslenskt úrvalslið.

Næsta frétt er auðvitað að þetta sé svo svakalega dýrt – en ef hér næst árangur má þingið alveg kosta nokkurt fé. Það sparar okkur ærinn vanda síðar. Hefur einhver annars reiknað út hvað allar stjórnarskrárnefndirnar með fínu köllunum hafa kostað í sextíu ár?

Og kosningakerfið er svo flókið … Segir þjóðin sem hefur gripið hvert einasta gaddsjett í heiminum báðum höndum í hundrað ár og hefur ekki af öðru meira gaman en að verða fullnuma í nýjustu torfærubíla- / tölvukerfa- / fjórhjóls- / farsíma- / fótanudds- / heilsuræktarstöðva- / naglalakksþurrkara- / stjórnunarskóla- / handknattleiksmótakerfa- / verðbréfamarkaðsbréfa- / kynlífstækja-/ Icesaveflækjuskjala- / bílskúrshurðafjarstýringa-fræðum! Eitt lítið kosningakerfi? sem er svo eftir alltsaman sáraeinfalt. Frambjóðandinn hefur númer (númer muniði? einsog nafnnúmer og kennitala, einsog stendur aftan á leikmönnum í fótbolta? einsog PIN-númerin fjöldamörgu?) sem maður finnur alstaðar á listum, til dæmis í kjörklefanum, og skrifar svo á seðil með 25 þartilgerðum eyðum á kjörseðilinn. Svo er talið – og aldrei þessu vant þannig að öll atkvæði skipta máli – og allt atkvæði hvers kjósanda skiptir líka máli, meira að segja hvern hann valdi númer 25.

Svo koma á stjórnlagaþingið þessir 25 til 31 (tillit til kynjaskiptingar, athugið, 35 árum eftir kvennaverkfallið mikla). Og þar snýst líklega til góðs það sem margir töldu mikinn galla við skipulag þingsins, að það er ráðgefandi að forminu til en alþingi setur að lokum lögin sem þjóðin kýs svo um: Af því að þá ríður á að stjórnlagaþingmennirnir nái sem breiðastri samstöðu um úrbæturnar. Ef stjórnlagaþingið er einhuga, þá hefur það sterka stöðu gagnvart alþingi – þessvegna verður þetta hvatning til að skiptast ekki í fjölmargar deildir með þrasi og dellumakeríi.

Þetta verður spennandi – og við eigum að styðja þessa lýðræðistilraun, ekki tala hana niður og blanda saman við það leiðinlega bölv og ragn og svartagallsraus sem nú ber hæst í þjóðfélagsumræðu á landinu bláa.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Lítið gagn af stjórnarskrám sem ekkert er farið eftir nema það henti Svínunum.
    Hættu svo að tala niður til okkar, við erum búin að sjá í gegnum þetta rugl.

  • Meistari Orwell vissi vel að engin lög ná til þeirra sem staðsetja sig ofan og handan laganna í krafti valds. Þessvegna eru uppljóstrun og fjöldamótmæli öflugasta aðhald sem þekkist, ekki uppgjöf fyrirfram, ó, Skarpur.

    Góð grein, Mörður.

  • OK.

  • Mörður þú veist mannabest hve tilgangslaust þetta þing er nema til að sefa þjóðina og er þá enn einn blekkingarleikur þessarar ríkistjórnar. Fé er betur varið þar sem þörf er fyrir það.

  • Bragi Páls

    Mörður, allir rétthugsandi menn og konur, eru á móti stjórnlagaþingi og þá ekki endilega íhaldsmenn, þó svo að þið atvinnupólitíkusar láti líta svo út til að reyna að gengisfella skoðanir Sjálfstæðismanna.

    Það mun einfaldlega ekkert koma út úr þessu stjórnlagaþingi. Ekkert.

    Þetta er ekkert annað dægrastytting Samfylkingarfólks, gert í anda tæknikatisma.

    Þeim fjármunum sem varið er í stjórnlagaþingið, er fjármunum kastað á glæ.

    Hér er um að ræða 600 mio.kr. – 1 mia.kr.

    Þetta er talsverðir peningar á niðurskurðartímum, peningum sem væri betur varið í eitthvað annað.

    En svona er Samfylkingin, vil fara út í Cirkus sem kallst stjórnlagaþing til að breyta stjórnarskránni eftir sínu höfði og aðlaga hana að ESB.

    Sagt er að menn uppskeri eins og þeir sái, og það mun eiga við í þessu tilfelli.

    Uppskera Samfylkingarinnar mun því verða heldur rýr og þeir ávextir sem Samfylkingin heldur að hún fái út úr þessu, mun verða full af myglusveppum og því rotna fljótt í þeirra fórum.

  • Þarna er ég svo hjartanlega sammála þér Mörður. Þetta er stórkostlegt tækifæri sem þjóðin fær til að semja sína eigin stjórnarskrá. Núverandi stjórnarskrá er samin að mestu leyti af embættismönnum konungs um miðja 19. öld og ber þess öll merki hversu úrelt margt í henni er. Nú hefur hópur fólks farið með bænarskrá til kóngsins – nei forsetans – til þess að biðja hann að nýta þessi 150 ára gömlu ákvæði í stjórnarskránni! Erindið þarft en aðferðin gjörsamlega úrelt.

    Fögnum því að 525 manns vilji bjóða fram krafta sína af áhuga og einlægni. Finnum lausnir á praktískum vandamálum í stað þess að rífa niður með neikvæðni og nöldri. Lítum upp og framfyrir okkur í stað þess að horfa sífellt í götuna.

  • Orð í tíma töluð.

    Hamra þarf á því að kjósendur kjósi eftir bestu samvisku og raði frambjóðendum í öll 25 sætin á kjörseðlinum.

  • Telemakkos

    Stjórnlagaþing gæti verið fín hugmynd.

    Hins vegar er þessi svokallaða persónukosning hrein katastrófa.

    Mér skilst að kosningabaráttan fari mest fram á Facebook. Þar er ég ekki þátttakandi og mun aldrei verða það. Stór hluti kjósenda mun eyðileggja atkvæði sitt með því að kjósa Jón eða Gunnu í sömu blokk, sem eru í framboði. Jón og Gunna hafa hins enga möguleika, vegna þess að þau eru óþekktar persónur utan húsfélagsins í blokkinni, eigin vinnustaðar, vinahóps og eigin frændgarðar.

    Atkvæðin munu þess vegna flest safnast á þekkt fjölmiðlaandlit og síðan hina afar mislitu hjörð mest ábrandi bloggaranns. Og það er ekki fólkið sem ég tel vera fært um að bæta eða endursemja stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands.

    Þess vegna mun ég ekki taka þátt.

    Þetta eru aukin heldur þriðju tilgangslausu dellukosningarnar hérlendis í röð, fyrst kom Icesave-atkvæðið í boði forsetans, svo komu trúðakosningarnar í höfuðborginni og nú á að setja stjórnarskrána í hendur hóps sem mun verða afar illa fallinn til þess að koma nálægt henni.

  • Telemakkos

    Átti að standa:

    …afar mislitu hjörð mest áberandi bloggaranna.

  • Kristleifur Daðason

    Heyr heyr, Mörður.

  • Hin skýlausa krafa netverja um að HÆTTA STRAX AÐ REYNA AÐ ENDA KREPPUNA, HELDUR KOMDU ÞÉR HINGAÐ Í SVAÐIÐ MEÐ MÉR, ÞAR ER GOTT AÐ VERA, er orðin svo innilega pathetic…

    Verðið þið ennþá svona eftir tíu ár? Grenjandi á netinu?

  • Bragi, hver er hin rétta hugsun?
    Ef einhverjir ættu að vera fylgjandi stjórnlagaþingi þá væru það helst hægrimenn. Stjórnarskrá er framsal valds alþýðu til þingmanna, ráðherra, forseta og dómstóla og þess vegna leggur stjórnarskráin áherslu á að afmarka það vald og að tryggja rétt einstaklinganna gagnvart valdinu. Stjórnarskráin sem við höfum nú þegar er ágæt en gallinn er að það eru komnar allskonar túlkunarhefðir á hana og þær beinast flestar gegn frelsi einstaklinganna.

    Mér finnst stjórnlagaþingið segja: Við ætlum að byrja upp á nýtt í þessu landi og við ætlum ekki að tjasla upp á gamla kofann, nei við byggjum nýtt frá grunni. Er það ekki tilraunarinnar virði? Og kostnaðurinn, hann er sirka einn sendiherrabústaður!!

  • Það sem ég óttast mest er þetta orð í lögum um stjórnlagaþing: „ráðgefandi“
    Það gefur fjórflokknum tækifæri til að umbylta tillögunni að nýrri stjórnarskrá að þörfum og hag flokkana en eins og við öll vitum vilja flokkarnir ekki breyta neinu sem raskað gæti og ógnað völdum fjórflokksins.
    Að öðru leiti er ég sammála. Ef ekki núna þá aldrei.
    Kveðja að norðan.

  • Fín grein. Alltaf gott að sjá þegar pólitíkusar þora að ausa skömmum yfir fólk sem talar af fávísku, ótta eða óígrundaðri íhaldssemi. Kannski ég taki upp þráðinn til að svara sumum athugasemdunum hérna:

    Bragi Páls ætti að lesa fjárlagafrumvarpið áður en hann fer að giska á tölur út í loftið. Gert er ráð fyrir 200 miljón krónum í Stjórnlagaþingið – sumsé, 200 milljón krónum í að enduruppbyggja lýðræði á Íslandi; 3.73 sinnum meira en er greitt til þingflokka árlega, en bara 16% af því sem kostar að halda Þjóðkirkjunni gangandi. Þetta er svosem ekki lítil upphæð, en hún er heldur ekki mikil miðað við hvað verkefnið er mikilvægt – og þetta gerist ekki á hverju ári heldur.

    Telemakkos ætti að kynna sér hvernig STV kosningakerfið virkar; það er gríðarlega erfitt að sóa atkvæði í því. Hér hefur Þorkell Helgason útskýrt sæmilega hvernig það virkar: http://thorkellhelgason.is/?p=105

    Arinbjörn Kúld er hefur samt rétt fyrir sér – „ráðgefandi“ er stórhættuleg hugmynd í þessu samhengi, og mjög brýnt að því verði vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu beint án ívilnunar þingsins. Hinsvegar var þetta orð sennilega sett inn af lagatæknilegum ástæðum, til að ekki þyrfti að framvísa löggjafarvaldi til stjórnlagaþingsins, sem gæti jú verið alveg jafn hættulegt.

  • Almenningur getur gert þessar stjórnlagaþingskosningar stórmerkilegar.

    Þarna er fullt af flottu fólki í framboði.

    Finnum það og kjósum!

    Höfnum flokksdindlum, fulltrúum hagsmunahópa, bloggurum, álitsgjöfum og öllum þreyttu og „þekktu andlitunum“.

    Þetta er hægt!

  • Gagarýnir

    Því verr gefast heimska manna ráð… og allt það. Það góða við þessa tilraun er að skapa umræðu sem fer út í þjóðfélagið og vitundarvaknningu um hvað stjórnarskrá er.
    Mér hefur reyndar virst að reglugerð úr ráðuneyti, samin á dagsparti vegi þyngra fyrir dómi en stjórnarskráin.
    Mín hugmynd er að kalla saman útlenda menn og fela þeim þetta. Greiða svo atkvæði fyrst á þingi og ef hún er samþykkt þar með afgerandi meirihluta að bera hana undir þjóðina.
    Þetta er eins og fótboltinn, reglurnar þar eru settar af vísustu manna yfirsýn og við þeim tekið. Dómarinn dæmir eftir þeim. Hvernig væru fótboltaleikir ef menn byrjuðu um að þrátta td. um rangstöðu?

  • Þór Eysteinsson

    Sammála öllu sem fram kemur í þessari grein, Mörður. Auðvitað eru hælbítar íhaldsins mættir hér til að reyna að gera stjórnlagaþingið tortryggilegt, og höfða til lægstu samnefnara og lýðskrums. Nöldrað er yfir útgjöldunum í þeirri trú að þjóðin hugsi ávallt í krónum og aurum, en þingið er hverrar krónu virði sem varið er til þess. Vitanlega er það óheppilegt að stjórnlagaþingið er „ráðgefandi“, en það er óhjákvæmilegt vegna núverandi stjórnarskrár, auk þess sem það er viss kostur að við munum þá væntanlega fá að sjá og heyra þingmenn íhaldsins finna frumvarpi til stjórnarskrár allt til foráttu, og greiða atkvæði gegn því, og þar með sýna sitt rétta innræti og viðhorf til þjóðarinar.

  • Endilega sleppið íhaldinu þegar þið krítiserið mín orð

  • Adalsteinn Agnarsson

    Öll helstu mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, vona ég að komi frá ST.ÞINGI!!

  • Birgir Gunnlaugsson

    Ef ég man rétt þá voru það Framsóknarmenn sem settu fram kröfu um stjórnlagaþing í tengslum við stuðning þeirra við minnhlutastjórn samfylgingar og VG. Stjórnlagaþing verður því vart talið runnið undan rifjum Samfylkingarinnar. Ég get ekki séð að íhaldsmenn gangi fram og tali niður þingið frekar en aðrir þenkjandi menn. Þeir sem það gera hafa greininlega ekki hugsað málið til enda eða látið 5 mínútur duga. Það hlýtur að vera hverjum manni ljóst að við sem þjóð getum ekki haldið áfram að spóla í sama hjólfarinu. Ég er sammála Merði… EKKI DISSA STJÓRNLAGAÞING — til þess er það allt of mikilvægt í leið okkar að innbyrðis sáttum og því að skila vinnuhæfu þjóðfélagi til komandi kynslóða.

  • Sigurður Hr. Sigurðsson

    Stjórnlagaþingið er stærsta einstaka tækifærið sem Íslendingum hefur gefist til breytinga. Þeir sem ekki taka þátt hljóta að vera sáttir við óbreytt ástand.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur