Mánudagur 25.10.2010 - 14:37 - 42 ummæli

Fáfræði, fordómar og andleg örbirgð

Kannski kominn tími til að menn fái að lesa þennan svakalega texta frá hinu svokallaða mannréttindaráði Reykjavíkurborgar sem nú dreifir yfir borgarbúa og landslýð allan skefjalausum fordómum sínum og andúð á trú, sér í lagi kristni og þjóðkirkju, og vegur að rótum trúar, siðar og hefðar á miklum háskatímum þegar gott samfélag, holl gildi og gott líf eru í hættu.

Hér eru drögin sem nefndin hefur sent út til umsagnar:

Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að ýmsum réttindamálum á vegum Reykjavíkurborgar. Réttindum innflytjenda hefur verið sinnt af alúð meðal annars í samstarfi við félagasamtök. Verulegur árangur hefur náðst á sviði kynjajafnréttis og réttindi samkynhneigðra hafa færst til hins betra með aukinni fræðslu. Þess hefur jafnframt verið gætt í starfi borgarinnar að fólki sé ekki  mismunað vegna efnahagsstöðu, stjórnmálaskoðanna eða fötlunar.

Mannréttindaráð Reykjavíkur telur að beina þurfi sjónum að einum málaflokki til viðbótar, en það er málaflokkur trúar- og lífsskoðana. Fjölmörg kvörtunarefni foreldra í leik- og grunnskólum eru vegna slíkra mála og margar kvartanir  hafa borist Mannréttindaskrifstofunni. Einnig hafa starfsmenn þessara stofnana óskað eftir skýrum leiðbeiningum borgarinnar. Það er hlutverk Reykjavíkurborgar að sjá til þess að réttur allra sé tryggður.

Árið 2007 sendi Leikskóla- og Menntasvið Reykjavíkur frá sér skýrslu um samstarf kirkju og skóla. Starfshópurinn sem vann skýrsluna setti fram ákveðnar niðurstöður. Þrátt fyrir að þær hafi legið fyrir í nokkur ár er enn verulegur ágreiningur um þessi mál sem fer vaxandi ár frá ári. Mannréttindaráð Reykjavíkur vill því beina eftirfarandi atriðum til sviða og stofnana borgarinnar:

*   Fermingarfræðsla Þjóðkirkjunnar og annarra trú- eða lífsskoðunarfélaga skal fara fram utan skólatíma. Undanfarin ár hefur skólastarf í öllum skólum farið úr skorðum í a.m.k. 2 daga á hverju hausti vegna þessa. Slík truflun á skólastarfi er óæskileg auk þess sem hætta er á að börn sem eftir verða telji sig útundan.

*   Heimsóknir starfsmanna trúar- og lífsskoðunarfélaga á frístundaheimili, í leik- og grunnskóla, auglýsingar eða kynningar á starfi þeirra í þessum stofnunum sem og dreifing á öðru trúarlegu efni er ekki heimil í starfi barna á vegum Reykjavíkurborgar. Þar með er talin dreifing trúarrita s.s. Nýja testamentis, Kóransins, auglýsingabæklinga og annars kynningarefnis.

*   Samþætting húsnæðis og starfsemi stofnana sem vinna með börn á vegum Reykjavíkurborgar og starfsemi trúar- og lífsskoðunarhópa verður ekki heimil á skólatíma.

*   Ferðir í bænahús trúar- og lífsskoðunarfélaga, bænahald, sálmasöngur og listsköpun í trúarlegum tilgangi er hluti af trúaruppeldi foreldra en ekki hlutverk starfsmanna borgarinnar. Slík starfsemi á ekki  heima í starfi með börnum í opinberum skólum. Kirkjuferðir skulu ekki farnar á starfstíma frístundaheimila og leik- og grunnskóla. Þess skal sérstaklega getið að ekki er verið að hrófla við öðrum jólaundirbúningi leik- og grunnskóla.

*   Því er beint til stofnana borgarinnar sem hafa starfandi áfallaráð að tryggt sé að fagaðilar komi að sálrænum áföllum í stað þess að leitað sé til trúar- eða lífsskoðunarfélaga.

Til grundvallar þessum ákvörðunum er sá vilji Reykjavíkurborgar að tryggja rétt foreldra til að ala börn sín í þeirri trúar- og lífsskoðun sem þeir kjósa  og tryggja þar með trúfrelsi þeirra. Foreldrar eiga að geta treyst því að börn þeirra verði ekki fyrir trúarlegri innrætingu í starfsemi borgarinnar. Með því vinna starfsmenn Reykjavíkurborgar samkvæmt mannréttindastefnu hennar og mannréttindasáttmála sem Ísland hefur undirgengist.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (42)

  • Kristín Þórunn

    Nú ertu með skæting, félagi Mörður. Það er ekki hjálplegt.

  • Þið þurkist út í næstu kosningum..

  • Líst vel á þetta, tími til kominn að taka tillit til okkar hinna.

  • „Fáfræði, fordómar og andleg örbirgð“

    Fínn titill fyrir ævisöguna þína!

  • Mörður þú ert brjóstumkennanlegur.

  • Takk kærlega, Mörður, fyrir að birta tillöguna sem mörgum fari svo mjög fyrir brjósti.

    Kristín : Má vera en með þessa dæmalausa málflutningi biskups í gær, í glæsilegustu (?) kirkju landsins , í beinni útsendingu í útvarpi allra landsmanna, er ekki skrýtið þótt fólki bregður, og verður tilfinningasamt.
    Mér finnst Mörður ekki vera að ýkja málflutningi þeirra sem hafa talað á móti tillögurnar um starfsreglur. Frekar er hann að endursegja, skorinort, sumum af meginatriðum í því sem biskup og fylgisveinar hafa sagt.

    http://dagskra.ruv.is/ras1/4546342/2010/10/24/
    http://tru.is/postilla/2010/10/styrkur-veikleiki-imynd-veruleiki

  • Rétt Mörður, nóg komið að útúrsnúningum og lágkúru. Hvað hefur fólk eiginlega á móti trúfrelsi?? Skammarlegt hvernig fólk getur látið.

  • Vill fólk virkilega feta í fótspor sumra islamskra þjóða þar sem ekki er gerður greinarmunur á almennri fræðslu og trúboði. Þá er nú illa komið fyrir Íslendingum. Burt með allt trúboð í skólum

  • Mörður,
    ef þið hafið svona mikin ahuga á trúmálum, þegar þið ráðið ekki við landsmálin. Hvers vegna var það á ykkar vakt að múslimum tókst að heimta sér mat í grunnskóla fyrir sína trú.

  • Má bara Andri Snær Magnason tjá sína lífsskoðun í skólum borgarinnar? Hvenær fáum við ríkislímonaðið?

  • Hélstu, Mörður að enginn hefði andlega burði til að nálgast þetta nema fyrir þína tilstuðlan?

    Þeir sem hafa mest tjáð sig um þetta hafa auðvitað lesið þessa hörmung. Nema einhverjir kverúlantar (úr báðum fylkingum) sem gjamma sé þeim sigað – og hafa skoðanir á öllu bæði lesnu og ólesnu.

    Takk samt fyrir framtakið.

  • Elín, við höfum bara ríkistrúarlímonaði

  • Verðum við ekki að fara eftir stjórnarskránni? Mér vitanlega hefur ekki enn verið skorið í sundur, samband ríkis og kirkju. Hvort við viljum aðskilnaðinn, er svo annað mál.

  • Reynir Sigurðsson

    Ef við erum hlynnt trúfrelsi (og þá líka frelsi til að vera trúlaus).
    Hljótum við þá ekki að vera á móti því að foreldrar séu að troða sínum trúarskoðunum upp á saklaus börn sín?

  • Það er greinilega stefna borgarinnar NN. Lífsskoðanir illa séðar – hvorki meira né minna.

  • Já, ef ríkið má ekki trúboðast þá mega foreldrar sko ekki ala upp börn eins og þau vilja.

    Þú hlýtur að vera skyldur Merði til að segja eitthvað svona súperheimskt.

  • Elín: Það á að vera í höndum menntaðra kennara að fræða börnin. Og fræðsla er ekki það sama og trúboð. Kennarar eiga að gera grein fyrir mismunandi trúarbrögðum í heiminum, eðli þeirra og sögu. Ef þeir halda því fram að trúarhugmyndir séu staðreyndir, svo sem að konan hafi verið búin til úr rifi karlmannsins, eru þeir orðnir trúboðar.

  • Foreldrar mega auðvitað ala börnin sín upp í þeirri trú (eða trúleysi) sem þeir kjósa. En það á ekki að vera hlutverk okkar skattborgarana að taka það að okkur.

  • það er slettirekuskapur að ríkið sé að grípa frammi í fyrir hendurnar á foreldrum í trúarlegu uppeldi barna sinna.

  • Mér sýnist á sumum kommentunum að kaldhæðnin í inngangi Marðar hafi ekki alveg skilað sér til allra.

  • Þú hefðir sem sagt viljað banna fyrirlestra Andra Snæs Magnasonar NN? Að því gefnu að þeir hafi haft eitthvert fræðslugildi. Upplestrar rithöfunda líka úr sögunni? Nema að bækurnar innihaldi engan boðskap. Hvar endar þetta?

  • Elín: ég er ekkert á móti trúarbragðafræðslu. Það er vel til fundið að í sambandi við hana fái kennarar fulltrúa hinna ýmsu trúarbragða til að kynna trú sína. En þá er það kennarinn sem heldur um stjórntauminn. Sama á við um rithöfunda sem hafa mismunandi boðskap fram að að færa og fengnir eru í tíma til að kynna viðhorf sín. En einhliða áróður á ekki heima í skólakerfinu, allra síst í trúmálum sem byggjast hvorki á staðreyndum né neins konar vísindum. Trú er bara trú, þar er yfirleitt ekkert hægt að sanna eða rökstyðja. Mér skilst að fermingarundirbúningur fari nú fram innan skólakerfsins. Það er auðvitað fyrir neðan allar hellur og mikil mismunun fyrir börnin

  • Kristján G. Kristjánsson

    Þetta er mjög góður texti frá mannréttindaráðinu.

  • Mörður Árnason

    Páll J. — Það er líklega rétt. Ég áttaði mig einmitt ekki alveg á orðalagi sumstaðar í athugasemdunum. Hér eru viðhorf Karls Sigurbjörnssonar forstjóra Ríkisstofnunar trúmála:

    http://eyjan.is/2010/10/24/biskup-segir-vegid-ad-rotum-truar-sida-og-hefda-ef-prestar-koma-ekki-i-skola/

    og hér svarar Oddný Sturludóttir:

    http://eyjan.is/2010/10/25/formadur-menntarads-hefur-skomm-a-vidbrogdum-biskups-verdur-orda-vant/

  • Gagarýnir

    Segjum að landið sé Langtíburtistan og menn tigni þar hið heilaga goðmagn Cthulhu. Væri það ekki bara mannréttindi Lútherskt eða bara heiðins barns af Íslandi að þurfa ekki að sitja undir boðskap þess í skólatíma sem væri lögskipaður þar eins og hér?

  • Þakka þér þessa færslu Mörður.
    Hún sýnir hvað viðbrögð Ríkiskirkjunnar og sendisveina hennar, þ.e. biskups og presta eru fráleit. Tilmæli Mannréttindaráðs Reykjavíkur eru til fyrirmyndar og í alla staði eðlilegar í nútíma samfélagi.

  • Hér er svo bútur úr lögum og stefnu Menntasviðs Reykjavíkurborgar, sem er auðvitað gróðrarstía öfga og mannhaturs:

    „ Í leik- og grunnskóla skal börnum ekki mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar þeirra eða foreldra þeirra. Forðast skal aðstæður þar sem börn eru tekin út úr hópnum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúar- eða lífsskoðunum þeirra.“

  • Já þvílíkt mannhatur!!!!!

  • Adalsteinn Agnarsson

    Mörður, þú segir, miklir háskatímar þegar gott samfélag, holl gildi, og gott líf
    eru í hættu!
    Mörður, sýndu þjóðinni að þér sé ekki sama um hana, komdu með
    frumvarp, um loforð Jóhönnu, Frjálsar Handfæra Veiðar!
    Þú gætir leyst atvinnu vanda Íslendinga, fátækt fólk gæti fengið sér, til að
    byrja með, 100 eða 200.000 kr. bát, með árum eða mótor, og farið út á sjó
    með sjóstöng, fiskir þú 100 kg. á dag, 5 daga vikunar, x 4 vikur,= 2 tonn.
    2 tonn x 350 krónur kílóið = 700.000 krónur! Sennilega veiðir þú meira!
    Helmingi hærra kaup en í Álbræðslu, færðu fyrir létta, skemmtilega,
    holla, vel launaða, vistvæna, hvað villtu meira ?

  • Guðjón Eyjólfsson

    Mikið væri það gott ef stjórnendur borgarinnar fyndu einhverja lausn á þessu máli sem almenn sátt gæti náðs um.
    Það er nóg af deilum í þjóðfélaginu – á nú líka að fara að rífast um trúmál.
    Er ekki ráð að menn haldi stillingu sinni þar til niðurstaða er kominn í málið.

  • NN. Skv. tillögum mannréttindaráðs er trúarbragðakennurum óheimilt að fá fulltrúa hinna ýmsu trúarbragða til að kynna trú sína. Öðrum kennurum eru ekki settar neinar hömlur að gestakomur. Sumir eru jafnari en aðrir.

  • Elín: Ég get tekið undir að þarna er ákveðið misvægi. Annars er ég yfirleitt þeirrar skoðunar að áróður eigi ekki heima í stofum skólabarna, hvort sem um er að ræða stjórnmálaáróður eða trúboð. Þar verður þá að gefa ólíkum sjónarmiðum jafnt undir höfði. Ef prestur er fenginn til að kynna innihald lúthersku kirkjunnar, þá finnst mér og rétt að þeir sem hallast að öðrum trúarbrögðum, sem iðkuð eru á Íslandi, eða eru trúlausir fái lika að kynna sín sjónarmið.

  • Ég er NN

  • Margt er ágætt í tillögum mannréttindanefndar eins og að fermingarfræðsla fari fram utan skólatíma og prestar og æskulýðsfulltrúar heimsæki ekki skóla. En að það eigi að binda hendur trúarbragðafræðikennara á þann veg að þeir megi ekki fara með nemendur í moskur, hof eða kirkjur er fáránlegt. Einnig að ekki megi lesa eða læra um sálma, engla eða önnur trúarleg tákn er undarlegt svo ekki sé meira sagt. Það getur t.a.m. verið fróðlegt fyrir eldri nemendur að læra um það hvernig uppýsingin breytti innihaldi sálma eða trúarhugmyndum innan þeirra eins og svo mörgum öðrum hugmyndum.

    Það þarf að gera skýran greinarmun á kennslu til trúar (sem á heima hjá foreldrum, í trúar- og lífskoðunarfélögum og í kirkjum) kennslu um trú (sem er megin kennslufræðiáhersla skóla í dag) og svo kennslu frá sjónarhóli átrúnaðar (en þá geta nemendur átt samræðurum um trúar- og lífsskoðanir sínar).

    Trúarbragðafræði er kennd í mýflugumynd í 7. eða 8. bekk, í einstaka framhaldskóla er hún valgrein, á menntavísindasviði er nánast engin trúarbragðafræði kennd og guðfræðideild er smá í sniðum og hefur ekki bolmagn til að bjóða upp á gott trúarbragðafræðinám þar sem aðaláherslan er á cand. theol. nám. Við verðum samt að treysta því að kennarar geti séð um kennslu um trú á faglegan hátt. Það er nóg að líta á vef FÉKKST (félag kristinfræði, trúarbragðafæði og siðfræðikennara) til að sjá að það er mikil breydd í efni og kennsluaðferðum á grunnskólastigi. Ekki loka á kennslufræðilega möguleika kennara til að kenna trúarbragðafræði með fjölbreyttum aðferðum með þvi að ana fram með vanhugsaðar tillögur eins og að ekki megi fara með nemendur í kirkju eða að leyfa þeim að læra um sálma og fl.

    Öfgalaus, skynsamleg umræða er gagnleg, en ,,plís“ ekki láta hana stjórnast af skoðunum um aðskilnað ríkis og kirkju eða áliti á biskupi eða prestum sem er ,,allt önnur Ella“.

  • Ég man þegar Inúkhópurinn heimsótti skólann minn og ég sá Ketil Larsen í fyrsta skipti á sviði. Gróf upp gamalt viðtal við leikstjórann sem lýsir verkinu þannig: „Boðskapurinn höfðar ekki aðeins til okkar Íslendinga heldur hvaða þjóðar sem á í vök að verjast, til að viðhalda menningu sinni og tungu fyrir ágangi erlendra stórþjóða. Þessu vandamáli smáþjóða segjum við frá í formi leiksýninga.“ Líklega myndi þetta verk flokkast undir stjórnmálaáróður í dag. Kannski því væri úthýst líka þess vegna.

    http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3213420

  • Kirkjan er smám saman að færa sig upp á skaptið, næst fara þeir framá að
    klerkar fái að kenna „intellectual design“.

  • Tek undir orð LS í byrjun. Kaus ekki svona fólk til að stjórna -nei fyrirgefðu -eyðileggja, -allt sem eftir er gott og fallegt í landinu . Heimta kosningar.

  • Eigum við bara ekki að innleiða djöfladýrkun í öllum barnaskólum? …

  • Ég held að við ættum öll að bakka rólega frá honum Todda, burt séð frá trúarsannfæringu.

    Þetta verður allt í lagi Toddi, allt í lagi… suss suss.

  • Ekki vil ég að mín börn fái djöfladýrkun troðið inn í hausinn á sér með stafrófinu …

  • …Það er nú ekki alveg í lagi með heilabúið hjá Tudda….

  • Mörður Árnason

    Tek út þetta rugl í Tudda. Jafnvel hér eru takmörk fyrir því sem menn geta látið út úr sér.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur