Sunnudagur 31.10.2010 - 09:54 - 13 ummæli

Lobbíisti snýr hjólum

Eftir að áláhugamenn á Suðurnesjum réðu vel tengdan lobbíista, Runólf Ágústsson, til starfa við að koma upp Helguvíkurálveri eru hjólin aldeilis farin að snúast – að minnsta kosti í fjölmiðlum. Á Stöð tvö í fyrrakvöld snerust hjólin til dæmis einkar hratt í Helguvík. Fréttastjórinn Kristján Már Unnarsson, sem hefur lagt feikilega rækt við stóriðjugeirann í starfi sínu, sagði fréttir af því að nú væru hjólin farin að snúast hraðar í Helguvík eftir nokkurt hlé. Eftir kynningu fréttastjórans kom frétt frá fréttamanninum Kristjáni Má Unnarssyni um aðalfund Vinnumálastofnunar. Þar hélt erindi forstjóri Norðurorku, Ragnar Guðmundsson, og var sagt lítillega frá því. Fram kom að Norðurál hefur ákveðið að stefna að fjórðungi minna álveri en áður, sem gerir allt auðveldara. Sem betur fer engar frekari spurningar um þá áætlun. Og svo ræddi Kristján Már við formann stjórnar Vinnumálastofnunar, þann sem hafði boðið Ragnari forstjóra að halda erindið. Og það var einmitt Runólfur Ágústsson, sá sami og gegnir störfum lobbíista fyrir Helguvíkurálverið. Runólfur sagði allt gott, og taldi að nú væru hjólin einmitt að fara að snúast í Helguvík.

Nú mundi einhver dóninn auðvitað spyrja hver hafi borgað Runólfi þessum fyrir að halda aðalfund Vinnumálastofnunar með þeim KMU og Ragnari. Því er til að svara að þegar lobbíisti selur sig, þá selur hann ekki bara vinnu sína og hæfileika heldur umfram allt félagstengsl sín, sambönd öll og þrýstingsmöguleika – í þessu tilviki sem formaður stjórnar Vinnumálastofnunar. 2007 lengi lifi!

Það skiptir svo litlu máli fyrir þá Ragnar, KMU og Runólf Ágústsson að engu er ennþá svarað um orkuöflun fyrir álverið – þannig að drepið sé á smávægilegan þátt þessara langvinnu draumfara suður með sjó. Fréttir af orku úr áður fyrirhugaðri Hverahlíðarvirkjun eru þær að Orkuveitan er hætt við og komin í viðræður við aðra.

Skiptir litlu. Hjólin snúast samt hjá hinum stórhuga lobbíista, og hjá hinum ágætu vinnuveitendum formanns stjórnar Vinnumálastofnunar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Þetta er fínt Mörður, að þú bendir okkur á hvenær er verið að spinna eitthvað fyrir almenning. Við erum jú ekki í þeirri stöðu að átta okkur á því hvað sé satt og rétt hverju sinni. Haltu áfram að segja hlutina eins og þeir eru, byggða á staðreyndum.

    Það er þjóðfélaginnu fyrir bestu ef umræðan sé gagnrýnin, þó aðeins ef gagnrýnin sé byggð á staðreyndum.

  • Það hefði nú verið spennandi að sjá Rúnólf nota tengslin sín fyrir skuldara landsins. Ekki er nú alveg hægt að sjá það fyrir sér að hann hefði beitt sér af alefli fyrir lítilmagnann! Þegar lobbíisti selur sig, þá selur hann sig flokksvaldinu í þessu tilfelli.

  • Andi Vindanna

    Hvað þarf margar vindmyllur til að knýja álver?

  • Hvað hefur þú og þín ríkisstjórn lagt til í sambandi við orkuöflun fyrir álverið í Helguvík?

    Eða flettir þú bara upp í hugmyndafræðinni og segir í anda „Little Britain“: The ideology says no!

    Hvernig væri að herða upp hugann og kynnast köldum raunveruleikanum með því að fletta upp í tölum Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi hér á landi?

  • Jón Erlingur Jónsson

    Andi V: Vindmyllur geta ekki knúið álver, því álver þarf mjög stöðuga orku. Vindmyllur er hins vegar hægt að nota til að bæta vatnsbúskapinn á hálendinu. Vindorkuver gæti t.d. komið í staðinn fyrir Norðlingaölduveitu. Það virkar þannig að þegar vindrafstöðvarnar framleiða rafmagn, er vatnið á hálendinu sparað. Kostnaðurinn við þessa lausn er þó sennilega meiri á KWst en álverin eru tilbúin að greiða.

  • Jón Erlingur Jónsson

    Ég legg til að hugmyndin um nýja háspennulínu út á Reykjanes verði lögð til hliðar. Það myndi setja hugsun manna um atvinnumál á Suðurnesjum ramma og heilbrigða veruleikatengingu.
    Á Suðurnesjum eru nú framleidd ca. 150 MW af raforku (er það ekki annars rétt? 100MW í Reykjanesvirkjun og 50MW í Svartsengi?). Eins og er streymir mest af þessari orku út af nesinu. Vel má vera að hægt sé að stækka Reykjanesvirkjun um 50-100MW. 200-250MW er gífurleg orkulind fyrir ekki fjölmennari byggðalög og ef hún er nýtt á svæðinu getur hún skapað mörg atvinnutækifæri ef vel er haldið á spöðum.
    Þar við bætist að það ætti að vera hægt að flytja yfir 100MW til svæðisins með núverandi línu ef mikið liggur við (þetta er varla einstefnulína 🙂 ).

  • Einkennilegt með Runólf því ég taldi að hann hefði sagt af sér sem formaður stjórnar Vinnumálastofnunar þann 24.júlí s.l. Það hefur sennilega bara verið fréttatilkynningahættur. Skv. ársfundinum virðist hann hafa endurráðið sig sem formann þann 4.ágúst 2010.
    Lobbíisminn er sennilega átaksverkefni Vinnumálastofnunar þar sem hún greiðir hluta af kosnaði við Lobbíistann Runólf en afganginn upp í Range Rover kaupið greiða sveitarfélög á stór- Helguvíkursvæðinu.

  • Sorglegt dæmi um svörtu hlið ríkisstjórnarinnar, þar sem dæmi sem þessi koma upp aftur og aftur hjá of mörgum ráðherrum. Valdsmennskan er freistandi og fláráð. Kveðja.

  • Góðan daginn Mörður, ekki seinna vænna að einhver vakni í samfylkingunni og dusti rykið af orkustefnu samfylkingarinnar. hvað hét hún aftur, Fagra Ísland?
    Stöð 2 er á fullu í að starta stóriðju bæði á Bakka og í Helguvík og ef þeir eru ekki að búa til fréttir hvaðan koma þá upplýsingarnar? Held þú ættir að hringja í Katrínu Júlíusardóttur og ræða þetta við hana áður en þú hengir auman lobbíista

  • Adalsteinn Agnarsson

    Loforð Marðar, FRJÁLSAR HANDFÆRA VEIÐAR, sem hann þorir ekki að efna,
    leysa FÁTÆKTAR OG ATVINNU VANDA Íslendinga!

  • Sveinbjörn

    Sæl
    Alltaf flott að fara í manin en ekki boltann. Vonandi fær Mörður rautt spjald fljótlega. Ef talað er um froðu á Alþingi þá er hann sá fyrsti sem kemur upp í hugann.

  • Kalli Sveinss

    Heyrði fyrir nokkrum dögum í hádegisfréttum RÚV., að álverið á Reyðarfirði hefði skilað inn í íslenska þjóðarbúið, 28 MILLJÖRÐUM á síðasta ári.
    Staðreyndin er að Ísland er örríki og hagkerfið svo smátt að ekki þarf mikinn fjölda stórra verkefna til þess að koma gangverki hagvaxtarvélarinnar af stað – landsmönnum öllum til hagsbótar.
    Hagstofan upplýsir að áætlaðar tekjur íslenska þjóðarbúsins af öllum álverunum, séu áætlaðar 85 til 92 MILLJARÐAR á árinu !
    Munar um minna.!
    Áfram með smjörið Katrín Júl. !

  • Runólfur er marghamur maður í mörgum skilningi þess orðs. Hann er stjórnarformaður Vinnumálastofnunnar. Hann var einnig fenginn til að liðka fyrir framgangi álversins í Helguvík af suðurnesjamönnum, sem hafa ekkert nema gott af Runólfi að segja, því hann vann að því að koma háskólanum í herstöðinni á fullt gas, samtímis sem hann var að braska sig niður í frostmark með hlutabréf, skömmu eftir að hafa verið neyddur til að segja af sér sem rektor á Bifröst. Nýbúinn að byggja Bifröst svo mikið upp, að það er verið að bjóða upp aðra hverja byggingu þarna á campusinum hjá þeim.

    Það var einmitt vel til fundið hjá suðurnesjamönnum að ráða Runólf í þetta starf þegar hann var var nýbúinn að segja af sér embætti umboðsmanns skuldara, eftir einn dag í embætti þar. Suðurnesjamenn eru lunknir að ná sér í svona náunga. Þegar öll sund eru lokuð, þá koma suðurnesjamennirnir og húkka þessa pilta að landi.

    Ferilskrá Runólfs er efni í reifara. Líklega verður hann kominn í vinnu hjá Arnaldi Indriðasyni fljótlega, skrifandi bækurnar fyrir Arnald?

    ísland þarf á meira af svona fjölhæfum náungum eins og Runólfi að halda. Manni sem getur hoppað úr einu opinbera embættinu í það næsta, og aldrei farið út á einkamarkaðinn, heldur verið undir verndarvæng hins opinbera. Reyndar endar þetta yfirleitt með skelfingu hjá Runólfi. En þegar þú vinnur hjá ríkinu er það bara aukaatriði.

    Eins og auglýsing orkuveitunnar fangaði það svo skemmtilega á góðærisárum OR: „þannig viljum við hafa það.“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur