Þriðjudagur 08.02.2011 - 10:51 - 8 ummæli

Hagsmunavarsla í Flugmálastjórn

Merkileg niðurstaða Samkeppniseftirlitsins um Flugmálastjórn í gær: Opinber stjórnsýslustofnun stundar hagsmunavörslu fyrir einkafyrirtæki í stað þess að verja almannahag og neytendarétt.

Samkeppniseftirlitið stendur sig hinsvegar og skipar Flugmálastjórn að fara að samkeppnisreglum. Flugfélagið Astræus (= Iceland Express) á að geta flogið næsta sumar með viðkomu í Keflavík milli Winnipeg og Lundúna án þess að ganga erinda keppinauta sinna – Icelandair fyrst og fremst – við kanadísk yfirvöld.

Flugmálastjórn hafði sett það skilyrði fyrir þessu flugi að flugfélagið útvegaði Icelandair svipuð flugréttindi í Kanada og það hefur sjálft. Hvernig félagið Astræeus á að útvega einhverjum slík réttindi hjá kanadískum stjórnvöldum er óljóst –  en byggist kannski á innlendri venju um samskipti heimaflugfélaga og stjórnvalda?

Málið virðist nefnilega lýsa þeirri venju í íslenskum stjórnsýslustofnunum að haga sér einsog framlenging af hagsmunaaðilum með innlenda kennitölu(r) – en telja skipta minna máli hagsmuni almennings – neytenda og skattborgara – eða alþjóðlegt orðspor Íslendinga.

Í frásögn á vefsetri Samkeppniseftirlitsins (hér) kemur í ljós að skilyrði Flugmálastofnunar í þágu keppinautar flugfélagsins sem um sótti eru ekkert einsdæmi. Flugmálastjórn fékk tilmæli um að hætta slíkum vinnubrögðum fyrir þremur árum – en hefur í tvígang virt þau að vettugi.

Hver er annars yfir á Flugmálastjórn? Innanríkisráðherrann Ögmundur Jónasson – eða forstjóri Icelandair?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Ertu ekki að misskilja samkeppnislögin Mörður? Bæði þú og Samkeppnisstofnun haldið að Iceland Express sé flugfélag sem það er ekki. Iceland Express er ferðaskrifstofa í eigu eins mesta fjársvikara Íslands, sem þið Samfylkingarfólk haldið hlífiskildi yfir. hvernig stendur á því?
    Ég sé ekkert athugavert við að hygla innlendu flugfélagi á kostnað erlends leiguflugfélags. Vissirðu að í mekka frelsisins fá aðeins skip smíðuð innanlands úthlutað veiðileyfum?

  • ferðalangur

    Er ekki líka einhver misskilningur fólginn í því að Iceland Express EIGI Aestrus… IE leigir vélar af þessu félagi. Það yrði nú saga til næsta bæjar ef fólk teldist eiga leigusala sinn?

  • Mörður Árnason

    Takk. Astraeus er systur- eða móðurfélag IE og ekki dótturfélag, breytti því í pistlinum. Og svo var það Hannes Hafstein sem orti: ,,Bara ef lúsin íslensk er / er þér bitið sómi.“

  • Hannes Hafstein var dönsk höfðingjasleikja.. Lestu frekar Einar benediktsson 🙂

  • Skattstjóri ætti að bæta um betur og taka Iceland Express uppí skuld við íslenska skattgreiðendur. Svo mætti Flugmálastjórn bæta um betur og skikka Icelandair til að fara með Pálma úr landi.

  • insh allah

    Sælir. Þetta er alls ekki fyrsta skiptið sem Flugmálastjórn mismunar og brýtur á móti hinum almena verkamanni og borgara.

    Í mörg ár hefur Flugmálastjórn hjálpað Íslenskum fyrirtækjum í leiguflugi erlendis að skaffa sér ódýrt, og jafnvel 3ja heims vinnuafl. Í formi þess að fullgilda skýrteini flugliða frá ríkjum utan Evrópu. Löndum eins og B.N. Ameríku, Kanada, Suður Afríku, Ástralíu, Irak, Malasíu og fl.
    Í sumum tilfellum hafa menn sem eru með þessi skýrteini fengið að starfa Í íslenskum loftförum í alt að 15 ár. Án þess að hafa Íslenskt eða Evrópskt skýrteini. Sem enginn Íslendingur mér vitanlega hefur fengið tilslökun á jafnvel þó að hann komi að utan með samskonar skýrteini. ´
    Íslendingur SKAL hafa Íslenskt skýrteini. Samkvæmt þeim.

    í Evrópu löndum þeim sem starfa undir sömu reglum (The Joint Aviation Authorities, JAA)
    Þar er reglan sú að fólk fær undanþágu 1 ár til að aðlagast og vinna að Evrópsku skýrteini. Sem má teljast eðlilegt. En að fullgilda sama skýrteinið í 15 ár en krefjast allra prófa og námskeiða hjá íslendingum. Er hrein og klár valdnýðsla og mismunun.

    Það sem Íslensk félög hafa grætt á þessu er að geta ráðið verktaka með skýrteini sem eru af alt öðrum standard en krafist er af Evrópubúum. Og oft hefur ekki reynst innistæða fyrir þar sem Flugmálastjórn hefur ekki aðstöðu til að kanna bakgrunn þessara manna sem skildi.
    Menn þessir eru að undirbjóða Evrópsku flugmannastéttirnar í stórum stíl. Og greiða fæstir skatta í Evrópu.
    Þetta eru forkastanleg vinnubrögð nú á tímum. Þegar Íslenskir flugmenn sem borga sína skatta og skildur, lepja dauðann úr skel með restinni af þjóðinni. Og ganga mjög margir atvinnulausir að auki.
    Þetta ætti þingið og samgönguráðherra að skoða strax.

    MBK. Insh Allah.

  • Bjarni Kjartansson

    Mér þykir líka grátbroslegt, þegar Rvíkurflugvöllur er á leið í umræðu á sviði einhverra opinberra kerfa, borgarinnar eða ríkis. Þá þarf alveg endilega að nota hann fyrir farþegaþotur sem ella hefðu átt að lenda í Keflavík.

    Stundum er borið við slæmu skyggni, svo sem þoku eða hliðarvind.

    Aðflugskerfi Keflavíkurflugvallar er með því alfullkomnasta sem völ er á og auðvelt að lenda þar ,,undir húddi“ það er án þess að sjáút um gluggann. Þetta kerfi var frá þeim tíma, sem völlurinn var notaður fyrir herflug og því ekki boðlegt, að herflugvélar með stutt drægi (tiltölulega) þyrftu frá að hverfa vegna skygnis.
    Lega þeirrar brautar sem getur notast sem lendingarbraut fyrir stórar farþegaþotur, er mjög svipuð og samsvarandi brauta í Keflavík, þannig að ávindshorn er að líkum afar nálægt því sem aðstæður eru í Keflavík, því ekki er svo alllangt þarna á milli.

    Auðvitað er þetta áróður um ,,nauðsyn varaflugvallar“ í Rvík. Stöðu sem hann getur ekki fengið, sakir þess, að brautirnar ná ekki allar máli (nægri lengd og breidd.)

    Sem sagt Mörður, opinberar stofnanir eru enn notaðar í allskonar áróðri og blekkingum, ekkert hefur breytst í því frá okkar ungdæmi.

    Miðbæjaríhaldið

  • Ekki veit ég hvort gagnrýni samkeppnisráðs á Flugmálastjórn á rétt á sér eða ekki en hitt veit ég að niðurstöður ráðsins eru ekki hafnar yfir gagnrýni. Bendi bara á þær niðurstöður sem ekki hafa staðist fyrir dómi auk ýmissa annarra sem orka tvímælis t.d. í fjarskiptamálum. Það er annað mál að vart er hægt að líkja saman Icelandair sem er „alvöruflugfélag“og svo Iceland Express (IE) sem er á mörkum þess, að mínu mati, að vera flugrekstrarhæft. IE þverbrýtur lög gagnvart farþegum sínum sérstaklega þegar vélar flugfélagsins eru í miklum seinkunum eða þegar það fellir niður flug vegna ónógrar þátttöku. Farþegar elendis fá yfirleitt engar upplýsinga þegar vélar IE eru í miklum seinkunum hvað þá að þeir séu upplýstir um réttindi sín samkvæmt reglugerð 574/2005 en það ber félaginu að gera. Mér er til efs að flugfélagið greiði farþegum, sem rétt eiga á 400 evru skaðbótum, nema aðeins þeim sem kvarta skriflega. Ég vil gjarna heyra í Flumálastjórn áður en ég tek undir gagnrýni þína.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur