Fimmtudagur 10.02.2011 - 19:02 - 26 ummæli

Álver á Bakka er plat

Nú eru enn farnar af stað hugleiðingar um álver á Bakka við Húsavík. Það á að vera bara 250 þúsund tonna – og á að „smellpassa“ einsog sagt var í fréttum í gær.

Gallinn er bara sá að slíkt álver er plat. Fyrirtæki í áliðnaði byggja ekki 250 þúsund tonna álver lengur. Þau telja að álver borgi sig ekki fyrren sirka við 400 þúsund-tonna-markið (Fjarðaál: 346 þ.t.), og nýjustu tíðindi herma að kjör-álverið nú sé verksmiðja sem getur afkastað 750 þúsund áltonnum á ári.

Þessvegna eru álver uppá 250 þúsund tonn, einsog nú er rætt um á Bakka — hvað þá enn minni álver, einsog lobbíistarnir reyna að selja í Helguvík – bara áfangar. Strax og þeir eru komnir upp hefst næstu áfangi, að stækka um svona helming í krafti hagkvæmni, og svo fram alla vegu.

Þessvegna er Landsvirkjun að missa áhugann á að selja alla orkuna í álverin – af því af þau þurfa að lokum meiri orku en hægt er að útvega með nokkurri skynsemi. Meðal annars þess vegna er verið að leita annarra kosta en álveranna bæði nyrðra og syðra.

Álverið á Bakka er bara í plati. Skammæir héraðshöfðingjar, stórorðir kjördæmaþingmenn og aðrir smákóngar sem fyrir því berjast – þeir treysta líklega á að vera komnir á elliheimili fyrir sunnan þegar raunveruleikinn kemur í ljós.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (26)

  • Sigurður

    En hver tekur við af Svandísi? Eða er Hæstiréttur bara tóm markleysa þessa dagana?

  • Jóhann Guðmundsson

    Er ekki tími til kominn að rukka almennilega fyrir orkuna, þegar Rio Tinto skilar 1650 milljarða króna hagnaði.

  • Gunnar Tryggvason

    Þessi rök á ég erfitt með að fallast á Mörður. Við eigum ekki að óttast valkosti komandi kynslóða. Ef valið stendur um 250þt álver nú, þá er það ákvörðun um 250þt álver nú og ekkert annað. Ef álverið vill stækka á seinni tímum, þá er það bara fagnaðarefni og við eigum við ekki að óttast þann kost að geta sagt „nei takk“ ég hef val um annað!!!

  • Tek undir með Sigurði, eru þingmenn Samfylkingarinnar sáttir við lögbrjótinn í Umhverfisráðuneytinu?

  • aagnarsson

    VG lofaði stórauknum strandveiðum, Samfylkingin lofaði frjálsum handfæra
    veiðum sem leyst hefðu byggða, fátæktar og atvinnuvanda Íslendinga!
    EN, allt í plati!

  • Sævar Helgason

    250 þúsund tonna álver á Bakka fær mjög fljótt mikið þrýsitvægi á byggðirnar í kring sem aðlagast hafa greininni -efnahags og atvinnulega. Það verður þrýst á með aukna hagkvæmni álversins. Við segjum -því miður jarðvarminn leyfir ekki meiri orkunýtingu. Þá er spurt -hvað með jökulárnar ? Afhverju ekki að nýta þær meira ? Og svo kemur athugasemd um lokun vegna óhagkvæmni…álversins – stærðin sé mjög óhagkvæm. Byggðin nötrar….

  • Jóhann Guðmundsson eftir nýju raforkusamningana greiðir Rio Tinto svipað verð fyrir orkuna frá virkjun og almenningur og er ívið hærra miða við nýtingu á afli þetta veit Mörður líka.
    Á vef LV kemur fram orku verð þar kemur fram að stóriðjan greiðir niður orkuverð til almennings.

  • Ragnar Böðvarsson

    Ég held að það verði afleit staða fyrir hvaða byggðarlag sem er, hvaða sveitarstjórn sem er og hvaða ríkisstjórn sem er, að standa frammi fyrir þeim afarkostum að annaðhvort fái stór verksmiðja meiri orku, hvað sem það kosti að virkja hana eða að verksmiðjan hætti störfum, fjöldi manns missi atvinnu og byggð verði í hættu.
    Ég mæli gegn því að við setjum okkur í þá stöðu. Reynum heldur að byggja upp fleiri, smærri og fjölbreyttari fyrirtæki.

  • Það eru reyndar til dæmi um að verið sé að byggja lítil álver (þ.e. innan við 300 þúsund tonna framleiðslugeta pr. ár). T.d. í Íran.
    Hafi Alcoa áhuga á að byggja max 250 þús tonna álver á Bakka án þess að fá nokkurt loforð um stækkun, eiga þeir að segja það hreint út og án nokkurra fyrirvara.
    Sé tekið mið af þeim álverum sem verið er að byggja í heiminum í dag mætti álykta sem svo að menn hafi vart áhuga á að byggja svona lítið álver. Engu að síður er það staðreynd að Alcoa rekur slatta af „lítlum“ álverum – en hefur líka verið að loka nokkrum þeirra:
    http://alcoa.com/ingot/en/capacity.asp

  • Hárrétt nálgun hjá Merði sem oft áður. – Annað mál þessu tengt: Olía hækkar nú sem óðast, bæði vegna mikillar og aukinnar eftirspurnar frá Kína og Indlandi, sem og vegna þess að olíubirgðir í jörðu hafa verið stórlega ofmetnar. Við hér á Íslandi þurfum óhjákvæmilega mikla orku til að knýja samgöngur og flutninga. Fyrirsjáanlega þurfum við að nýta raforku í stórum stíl í þessa þætti. Við erum þegar búin að nýta alla hagkvæmustu virkjanakosti hérlendis í þágu stóriðju og á allt of lágu verði til of langs tíma. Þurfum við ekki að fara að huga að því að eitthvað verði eftir til að halda þjóðfélagi okkar gangandi ?

  • Mörður nú ertu stórorður.

  • Grétar Thor Ólafsson

    Við eigum að fara varlega í að flýta okkur í að virkja. Ekki að ég sé á móti álverum eða virkjunum sem slíkum, heldur vegna þess sem einmitt Megawatt bendir á: Ódýr orka er að minnka hratt í heiminum.

    Og Guði sé lof fyrir að nú er kominn forstjóri í Landsvirkjun sem sér ekki lengur neina þörf á að selja orkuna á slikk heldur vill fá alvöru prís fyrir hana. Bravó!

  • Íslenska þjóðin er smám saman að átta sig á því, að hávær minnihlutahópur úr 101 Reykjavík má ekki og á ekki að ráða framtíð þjóðarinnar. Hún er að átta sig á því, að um er að ræða fámennan hóp manna sem sitja dagana langa í kaffihúsum og aldrei hafa komið nærri verðmætasköpun af neinu tagi en vilja þó framar öðrum nýta sér hið ljúfa líf sem kostað er af þeirri verðmætasköpun sem á sér stað vítt og breytt um landið.
    Í þeirra hópi er maður sem notið hefur gæðanna óspart, naut menntunar sér að kostnaðarlausu, fékk drjúgar launagreiðslur fyrir menningartengd verkefni, fyrirtækjastyrki til brokkgengrar þingmennsku og allt hans starf hefur byggst á styrkjum eða launagreiðslum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Þessi maður hefur aldrei komið nærri atvinnugreinum sem skapa útflutningsverðmæti en nýtir sér hiklaust gæðanna af verkum þeirra sem skapa þau verðmæti. Samt ræðst hann hiklaust gegn viðleitni manna um atvinnuuppbyggingu á landbyggðinni. Þannig launar kálfurinn ofeldið.
    Og þetta er svo sem í anda þeirrar ríkisstjórnar sem nú fer með völdin. Atvinnuleysi viðvarandi og enginn vilji til þess að bæta þar úr heldur þvert á móti lagðir steinar í götu þeirra sem vilja framþróun og öfluga atvinnuuppbyggingu. Og til þess að fullkomna það afturhald gerast ráðherrar brotlegir við lög og eru síðan flengdir opinberlega af Hæstarétti.
    Niðurstaðan af þessari stefnu eða stefnuleysi er samdráttur á öllum sviðum og fyrr en síðar fer að þrengja að háværa liðinu í 101. Þegar sú stund rennur upp mun fólkið í landinu sjálfsagt þurfa að þola vælið þaðan og garnagaulið útaf styrkjaleysinu og dæmalausum niðurskurði á öllum sviðum ekki síst til lista og menningarmála.

  • Auðun Gíslason

    Orka mun hækka og hækka á næstu árum. Um það er ekki deilt, það er því skrýtin „hugsjón“, að vilja byggja álver og fleiri álver, sem kaup orkuna nánast á kostnaðarverði!
    Annað, sem mun ekki gera annað en að hækka í verði, eru matvæli. Kannski kominn tími til að fara að huga að hugmyndinni um kálgarðinn í Helguvík. Og nýta orkuna til matvælaframleiðslu?

  • Hreggviður

    Orkan hækkar EF við viljum það.
    Hörður Árnason taldi að 4 aðilar komi að þeirri ákvörðun, þar sem samstaða yrði að nást. Þeir eru: Landeigendur, framkvæmdafyrirtækin, náttúruna ogsíðan kaupendur og þjóðin. Ekkert er gert í andstöðu við neinn þessara. Útkoman verður að vera ásættanleg fyrir alla.
    Auðlindirnar eiga jú að gefa þjóðarbúinu eitthvað, eru ekki allir sammála um það?

    Hér verður ekki hægt að keyra einhverja markaðshyggju og lenda með óraunhæft raforkuverð til heimila og lítilla fyrirtækja, það færi allt á hausinn. Það er ekki heldur hægt að binda alla orku til eins aðila, hvað með alla hina – byggðina, bændur og búalið?

    Hörður er réttur maður á réttum stað og hugsar málið skynsamlega.

  • Ástríðuþrungnar framfararæður stóriðjusinna minna mig á kínverskt plakat með vangamynd af borgarstjóra með djarfan svip og borgarmyndina í baksýn með mörgum spúandi verksmiðjuháfum.

  • Gleymum álverum, þau eru liðin tíð hér á Íslandi. Það stendur ekki til að leggja öll eggin í sömu körfuna. Það er líka erfitt að sjá gagnsemina í þessu t.d. á Austurlandi. Það er ekki annað að sjá en að uppbygging álvers á Reyðarfirði hafi skilið eftir sig sviðna jörð og sveitarfélögin sem veðjuðu á hana eru nánast öll gjaldþrota. Þar að auki eru bæði álver og virkjanir skráðar sem þjóðarskuld og eykur það enn á skuldarálag þjóðarinnar og hindrar þar með uppbyggingu ábatasamari atvinnuvega.
    Orkan verður bara dýrari og dýrari og græn orka stendur þar vel að vígi. Það er algerlega út í hött að fara kreista upp alla hugsanlega gufu og totta hverja einustu sprænu bara til að selja heimsauðvaldinu rafmagn þriðjaheimsverði í álbræðslu.

  • Bragi Páls

    Eruð það sem eruð á móti álveri á Bakka, með einhverjar góðar hugmyndir að atvinnuuppbyggingu þarna sem og annars staðar úti á landi?

    Eiga velflestir Húsvíkingar kannski að fá velborguð kontórstörf í musterum ESB í Brussel í staðinn fyrir atvinnu heima á héraði?

    Er þetta atvinnustefna Samfylkingarinnar?

  • aagnarsson

    Bragi Páls, horfðu til Noregs og lærðu af þeim, stæði Mörður við
    kosningaloforð sitt frjálsar handfæraveiðar, leysti það byggða,
    fátæktar og atvinnuvanda Íslendinga!

  • Hallur Heimisson

    Sæl öll.
    Það er greinilegt að fólk horfði ekki á Silfur Egils á sunnudaginn síðasta þar sem fjallað var um orku í háhitasvæðum endingu og getu. Umræða um svokallaða andstöðu við virkjanir er á misskilningi byggð. Það veður ekki farið í virkjanir nema að kaupendur séu tryggðir, kaupendur vilja ekki skuldbinda sig nema í arðbærum verkefnum að þeirra dómi s.s. 370 þús tonna álveri á Bakka og í Helguvík. Trygg orka í þessi álver er ekki til í landinu. Það er hægt að æða af stað og blóðmjólka virkjunasvæðin, er það það sem við viljum? Ég hef verið fylgjandi því að nýta orku til atvinnuuppbyggingar, á mig hafa runnið tvær grímur um það hvað mikil orka er möguleg á Íslandi. Ætlum við af stað uppá von og óvon? Ég segi nei.
    Forstjóri Landsvirkunar nálgast málinaf yfirvegun og málefnalega. Það er vel.
    Umræðan er ekki um 101 elítu eða hennar skoðanir, heldur um blákaldan veruleikann sem við höfum fram til þessa ekki viljað horfast í augu við. Orkan í landinu er miklu takmaraðri en við höfum viljað viðurkenna.

  • Sigurður

    Peterson fyrrverandi eigandi Norðuráls reisti hérna 60 þús tonna álver sem átti þá að vera gjörsamlega ómöglegt að álver að slíkri stærðargráðu bæri sig. En það skilaði gróða.
    Norðurál er 270 þús tonna álver og er núna á 13 ára líftíma sínum búin að borga sig 2 sinnum upp. Geri aðrir betur. Lagði 12 til 15 milljarða í Helguvík og skilað eigendum sínum góðum arði. Þá er búið að nota allar bókhaldsbrellur til að lækka skattinn.
    En hverju veldur svona afkoma?? ódýr orka? líklega. Ódýrt vinnuafl mögulega en byrjendagrunnlaun verkamanns í álverinu eru 175000, og byrjendalaun iðnaðarmanna eru 211000.
    Svo eru yfirmenn auðvitað með milljónir og og aka um á Land Cruser.

  • aagnarsson

    Sigurður, væri ekki hollara fyrir almenning að eiga lítinn bát og ná þessum tekjum á góðum degi ?

  • Það á auðvitað að tengja orkuverð til álvera við heimsmarkaðsverð á orku, ekki verð á áli. Orka mun aðeins hækka í verði í framtíðinni, en alls óvíst um álið.

  • Mörður Árnason

    Takk fyrir athugasemdir. Ég hef í tilefni af þessum fréttum ítrekað ósk um utandagskrárumræður á þinginu um framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í ljósi sameiginlega umhverfismatsins frá nóvember 2010. Þar er líka ástæða til að ræða vandlega þessar plat-hugmyndir um ,hálfver’ á Bakka og í Helguvík.

  • Flott hjá þér, Mörður.
    Vonandi verða það vitrænar og málefnalegar umræður.
    .
    Það er verið að vinna þingeyingum og öllum landsmönnum ógagn með því að fara fram fyrir norðan, með sömu rassaköstum og óvitagangi, og gert var á Reykjanesi.
    .
    Sem betur fer virðist vera kominn skynsamur stjórnandi að Landsvirkjun, sem hefur hærri sjónarhól en forverarnir.
    Lykilatriðið er að virkjun háhitasvæða krefst allt annarra vinnubragða en virkjun vatnsafls.
    .
    Ég varð mjög hugsi eftir að hafa gluggað í upplýsingarnar á þessari síðu.

    http://alcoa.com/iceland/en/info_page/bakki.asp

  • Eyjólfur

    Hansi,

    Og hvað ætli sé einn stærsti þátturinn í álverði, annað en það dýrasta sem í það er lagt, raforkan?

    Aukinheldur verður endurvinnsla enn hagkvæmari en nú, ef orkuverð heldur áfram að þokast upp á við. Til að endurvinna ál þarf um 5% af orkunni sem fer í að frumvinna það. Það er því nú þegar endurunnið í ákaflega ríkulegum mæli.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur