Mánudagur 14.02.2011 - 08:53 - 20 ummæli

Landsvirkjun hætti mútum

Sjálf Landsvirkjun hefur nú gefið út yfirlýsingu þar sem „alfarið“ er „hafnað“ hinum „alvarlegu ásökunum“ Marðar Árnasonar þingmanns í Silfri Egils í gær – þeim að nota orðið mútur um samning ríkisfyrirtækisins við Flóahrepp um að fá Urriðafossvirkjun inn á skipulag gegn því að borga meðal annars bundið slitlag á tvo vegi, vatnsveituframkvæmdir og gsm-umbætur auk ríflegra greiðslna fyrir sjálfa skipulagsvinnuna og fundi sveitarstjórnarmanna sem henni tengjast vonandi.

Mútur eru vissulega stórt orð – en ég bara kann ekki annað kurteislegra. Hreppsnefndin var búin að segja nei, og meirihluti íbúa lýsti sig andsnúinn framkvæmdunum – en þá boðaði Friðrik Sophusson þáverandi forstjóri Landsvirkjunar til fundar og lagði fram splunkunýtt tilboð, sem endaði með samningunum í júlí 2007 um bundna slitlagið, vatnstankinn og gsm-sambandið. Og forkólfar Flóamanna gáfust upp.

Mútan blindar hinn skyggna og hallar máli hins réttláta, segir í boðorðum Gamla testamentisins (2M 23.8). En spekingurinn segir okkur því miður ekkert um áhrif mútunnar á þann sem veitir – sem ef eitthvað er ennþá alvarlegri verknaður.

Nú er kominn ný stjórn og nýr forstjóri hjá Landsvirkjun, og það má sjá af yfirlýsingunni að þetta fólk skammast sín augljóslega fyrir samninginn – sem er reyndar engan veginn einstæður í sögu Landsvirkjunar.

Ég skora hér með á Hörð Arnarson forstjóra Landvirkjunar, og stjórnarmenn fyrirtækisins, þau Bryndísi Hlöðversdóttur, Sigurbjörgu Gísladóttur, Ingimund Sigurpálsson, Pál Magnússon og Stefán Arnórsson, að sýna nú í verki að Landsvirkjun er ný og breytt – og segja upp mútusamningnum við Flóahrepp. Verði af Urriðafossvirkjun (sem ég vona ekki, en það er annað mál) er ósæmandi og óþolandi fyrir framkvæmandann að það hafi gerst í blóra við siðferðiskennd velflestra Íslendinga, að ekki sé talað um hegðunarreglurnar sem Móse þáði af meistara sínum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

  • Jónína Óskarsdóttir

    Tek heilshugar undir pistilinn.

    Ef við viljum komast út úr þokunni verðum við að nota réttu orðinn um hlutina.

    Þeim sem vilja áframhaldandi sukk og svínarí – hentar rósamálið.

    Svona vinnubrögð verða að heyra sögunni til.

  • Bragi Páls

    Á þá ekki ESB líka að hætta mútum til okkur sem hafa það að markmiði að greiða fyrir aðlögun Íslands að ESB og til að kaupa þjóðina til fylgilags við ESB?

  • Grétar Thor Ólafsson

    Er nú búið að taka smjörklípuaðferðina hans Davíðs og koma Landsvirkjun í vörn með „let them deny it“ aðferðum?

    Það er magnað að sjá hvað vinstri menn hafa lært vel af meistara samræðustýringar, Davíð Oddssyni, að búa til reyk og rugl til að afvegaleiða umræðuna, öllum til forheimskunnar.

    Nú er búið að snúa máli lögbrjótandi ráðherra upp í það að fórnarlömb valdnýslu ráðherra eru komin í bullandi vörn í að neita grófum ásökunum um mútur.

    Nú er búið að snúa máli lögbrjótandi Alþingis og innanríkisráðherra upp í að Hæstiréttur er núna orðin einhver „vondikall“ þegar kosningum var klúðrað svo hrikalega að það var ekkert annað hægt en að ógilda þær.

    Til hamingju Nýja Ísland. Á svona útúrsnúningum og smjörklípum skammarlausra vinstri manna skaltu vera reist. Sömu vinstri manna sem þótti svona mikið til lærdómsins af skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis koma. En fara svo í sömu lögbrjótandi, lagahunsandi hugsunarfar og sú skýrsla gagnrýndi svo mjög.

    Eruð þið ekki að segja að í þetta sinn séu lögbrot ráðherra öðruvísi? Viljið þið ekki stíga skrefið til fulls og segja að menn „skilji ekki sér-íslenskar aðstæður“ svona til að hugarfar 2007 manna verði alveg endurtekið?

    Þetta er hryllileg umræða, algerlega fyrrt ábyrðgartilfinningu og velsæmi, sem þið vinstri menn þykist einmitt hafa svo meira af en hægri menn.

    Og við erum heimskari fyrir vikið.

  • Stefán Þórsson

    Ég hef alltaf litið svo á, að þetta hafi verið mútur. Gaman að sjá þingmann þora að segja þetta umbúðalaust.

  • Hrafn Arnarson

    Það verður að teljast merkilegt að Grétar Thor skuli skrifa svo mörg orð án þess að víkja einu einasta að viðfangsefninu eða kjarna málsins.

  • Thrainn Kristinsson

    Múta sveitavarginum til að taka Urriðafossvirkjun af skipulaginu með því að draga fjárframlög til vegagerðar, GSM og fl. til baka

  • Jenný Anna Baldursdóttir

    Sannleikanum verður hver sárreiðastur. Flott Mörður.

  • Tek heilshugar undir með þér.

    Finnst Jónas Kristjánsson líka orða þetta vel „Ég veit ekki, hvað lögin segja um mútur, en ég þekki mútur, þegar ég sé þær“

  • Hæstiréttur hefur kveðið upp dóm; Umhverfisráðherra framdi lögbrot. Skilgreining nýrra stjórnarherra er hinsvegar að ef ekki er sagt að eitthvað sé leyft sé það sjálfkrafa bannað.
    Í lýðræðisríki er því öfugt farið; Ef ekki hefur verið sérstaklega tekið fram að eitthvað sé bannað geti þegnarnir treyst því að það sé leyfilegt.

  • Bragi Páls

    Grétar Thor. Svona eru bara vinstrimenn, þeir telja sig hafa einkarétt á sannleikanum og megi fara með hann eins og sína prívat eign.

    Að auki telja vinstrimenn sig alltaf hafna yfir lög og þurfi því ekki að fara eftir þeim.

    En svona eru vinstrimenn: Vont er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti.

    Legg til að ESB hætti að múta okkur til fylgilags við sig.

  • Gunnar Jóhannsson

    Sæll Mörður,

    Ég er eiginlega hættur að láta það koma mér á óvart sem þú lætur frá þér fara, en að kalla eðlileg viðskipti mútur er helst til langt gengið fyrir minn smekk. Ég gat ekki sætt mig við upphaflegt tilboð Landsvirkunnar þar sem mér fannst hinn almenni Flóamaður ekki njóta þess sem skyldi. Þegar hins vegar annað tilboð bauðst með tilheyrandi umbótum fyrir sveitina fannst mér það horfa öðruvísi við.
    En hér var allt uppá borðum, enginn feluleikur með eitt eða neitt. Mútur eru yfirleitt undir borðum og til hliðar við opinbera samninga, gjarnan beint í vasa þeirra sem greiða götuna.
    Ef þú selur íbúðina þína Mörður er þér frjálst að hafna öllum tilboðum sem koma í hana þar til viðunandi tilboð fæst. Að kalla það mútur er mjög frjálsleg túlkun á fyrirbærinu.

  • Gunnar,
    Þarna er verið að tala um vinnubrögð við skipulag sveitarfélags, ekki sölu á íbúð.
    .
    Svo má orða þetta á kurteislegri hátt. Þarna var greidd aukaþóknun fyrir óskyld atriði til að liðka fyrir samningum.
    .
    Mörður á heiður skilinn fyrir að hafa vakið athygli á málinu.
    Þarna voru ástunduð vinnubrögð, a la 2007, sem við verðum að segja skilið við.

  • Jónína Óskarsdóttir

    Gunnar:

    Mútur þarf ekki að fela í samfélagi eins og við höfum búið við.

    Og, það er út í hött að líkja þessu við það þegar einstaklingar kaupa eða selja íbúð.

    Þarna takast á almannahagsmunir/eignir og ríkisfyrirtæki.

    Það að svona viðskiptahættir hafi talist eðlilegir segir allt sem þarf um stóra samhengið. Þarna gerðist á litlum mælikvarða það sem rak landið í gjaldþrot. Stundum kallað spilling.

    Forsenda hennar er yfirleitt siðblinda og græðgi.

  • Bragi Páls

    Mörður, þetta eru alvarlegar ásakanir sem þú kemur með og greinilega settar fram í pólitískum tilgangi.

    Þú skalt þá líka beita þér fyrir því að ESB hætti að múta Íslendingum til að vera sjálfum þér samkvæmur.

  • Garðar Garðarsson

    Gott hjá þér Mörður.

    Það sem er verst við þetta allt saman er að Hæstiréttur leyfir mútur með dómi sínum, í það minnsta ef mútur eru hóflegar og hvað eru síðan hóflegar mútur kemur ekki fram í dómnum.

    Það er ekki hægt að segja annað en að Íslendingar séu siðlausir, en nú er kominn tími á breytingar.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Þar sem Mörður er kominn með þennan fína „áhuga“ á meintum mútugreiðslum, þá hlýtur hann að hafa litið sér mun nær og skoðað „styrktargreiðslur“ Jóns Ásgeirs Jóhannessonar til valinna samflokksmanna sinna, eins og forsætisráðherrans Jóhönnu Sigurðardóttur og ráðherranna Árna Páls Árnasonar og Katrínar Júlíusdóttur.

    Ef til vill er ekki nema von að fyrirtæki sjá ekki mikið að því að ganga hreint til verks í „styrktarmálum“ (mútum?) að fenginni reynslu hvað varðar liðlegheit stjórnmálamanna og flokka og þörf þeirra til að taka á móti slíkum „peningagjöfum“.

    Og varla hefur hann gleymt öllum hinum ráðherrum Samfylkingarinnar sem einnig þáðu „styrki“ frá þeim sem eru taldir bera mesta ábyrgð á hruninu og þá glæpaverkum tengdum þeim, og örugglegar allir með réttarstöðu grunaðra manna í rannsókn sérstaks saksóknara vegna hörmunganna. Ráðherrarnir Össur Skarphéðinsson, Guðbjartur Hannesson og Kristján Möller.

    Síðan hefur hann örugglega kynnt sér vel ofurstyrkina sem þingflokksformaðurinn hans Björgvin G. Sigurðsson fékk ásamt „styrkjunum“ sem Helgi Hjörvar, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, og Róbert Marshall þáðu með þökkum.

    Er ekki öruggt að meira en helmingur þingmanna Samfylkingarinnar hafi verið staðnir að því að þiggja „ofurstyrki“ auðróna?

    Kannski hefur hann líka flett ofan af svikum Samfylkingarinnar með að fá „styrkgreiðslur“ inn á ólíkar kennitölur eins og er haft eftir Sigurjóni Árnasyni fyrrverandi bankastjóra Landsbankans í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem hann sagði orðrétt.:

    „Ég held að það sé þannig t.d. að Samfylkingin hafi fengið miklu meira heldur en þeir hafa sagt frá. Ég held bara að þeir vísi í einhverja eina kennitölu sem er Samfylkingin, svo er til Samfylkingin í Reykjavík og ég veit ekki hvað þetta allt heitir.“

    „Síðan bara segja þeir frá því með mismunandi hætti af því að sumir biðja um þetta á margar kennitölur og aðrir fá þetta á eina kennitölu og eitthvað svona.“

    Merkilegt nokk að ekki hafi farið fram sérstök rannsókn á þessum þætti „styrkveitinganna“ og þá hversu mikið hafi verið stungið undan skatti? Sjálfsagt breytir Mörður sér fyrir jafn sjálfsagðri rannsókn, enda er ólíðandi að slíkt hafi getað gerst innan jafn „ráðvands“ flokks.

    Það ætti að vera auðvelt að virkja í rannsóknirnar Mörð og td. talsmanns Björgólfsfeðga, Ásgeir Friðgeirsson sem gerði svo lítið og sagði af sér þingmennsku fyrir Samfylkinguna til að getað hlýtt kalli auðrónanna, sem „Liar for Hire“ e

  • Gunnar Jóhannsson

    Einsi og Jónína,

    Þessi samningur var og er fullkomlega eðlilegur og sanngjarn. Hver á að gæta hagsmuna fólksins í sveitinni ef það gerir það ekki sjálft? Þið vitið það kannski ekki að í stórum hluta þessarar sveitar er ekki hitaveita og kalda vatnið oft af skornum skammti. Það er þess vegna eðlilegt að fólkið sem þarna býr vilji fá betri lífsgæði í skiptum fyrir réttinn til vrikjunarframkvæmda.
    Þarna var ekki um neina spillingu að ræða heldur voru það sveitastjórnarmenn og konur sem vildu aukin lífsgæði fyrir fólkið sitt. Er það glæpur? Þið megið ekki gleyma því að pólitík snýst um hagsmuni og hagsmunagæslu hvort sem um er að ræða þjóðarhag eða nærumhverfið eins og í þessu tilfelli.

    Eini glæpurinn sem framinn hefur verið í þessu máli er þegar umhverfisráðherrann ákvað að tefja málið vísvitandi um lögbrot sitt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir þessa virkjun. Lítilmannleg framkoma það.

  • Dofri Hermannsson

    Gunnar Jóhannsson.

    Mér finnst einlægni þín í því að vilja fá sem mest fyrir sveitarfélagið falleg en siðblindan að selja skipulagsvaldið fyrir malbik, vatnsveitu og gsm samband hræðileg.

    Ég var viðstaddur fjölmennan íbúafund veturinn 2005-2006 þar sem meðal annars þessi mál voru rædd í þaula. Margir voru heitir á móti virkjun Urriðafoss en aðrir voru því hlynntir – ef eitthvað væri á því að græða. Opinskátt var rætt um nákvæmlega þessa hluti sem svo enduðu í samningnum, betri vegi, betra gsm samband og vatnsveitu.

    Í samningnum við LV seldi Flóahreppur Urriðafoss frá komandi kynslóðum fyrir gsm samband, bundið slitlag og vatnsveitu sem endist í nokkur ár. Þetta er svipað og þegar Reykjanesbær seldi réttinn til að nýta jarðhitaauðlindir bæjarfélagsins í 2 x 65 ár.

    Svona samfélög eiga ekki að hafa skipulagsvald.

  • Gunnar Jóhannsson

    Dofri,

    Hvaða siðblinda er fólgin í því að tryggja komandi kynslóðum í þessari sveit betri lífsgæði. Þið sem hafið svo miklar áhyggjur af komandi kynslóðum ættuð frekar að sjá til þess að hér verði hreinlega komandi kynslóðir, því með þessu áframhaldi munu æ fleiri flýja sveitirnar og landið líka. Að selja nýtingarréttinn á jarðhitaauðlindunum á ekkert skilt við það sem hér um ræðir, það veist þú vel.

    Þessi fundur sem þú vitnar til var þannig að flestir voru hlynntir framkvæmdunum en miklu færri á móti en þú kýst að snúa þessu á hvolf af einhverri ástæðu.

    Skipulagsvaldið í sveitum landsins á heima hjá því fólki sem þar býr og hvergi annarsstaðar. Þessi pólitíska rétthugsunarárátta þín er falleg en óraunsæ og eigingjörn. Valdníðslan og hrokinn sem umhverfisráðherra hefur sýnt fólkinu í þessari sveit er til háborinnar skammar. Svo vænir Mörður það ágæta fólk sem stóð að þessu skipulagi að þiggja mútur. Það er varla hægt að leggjast lægra en það.

  • Gunnar, af hverju lætur fólkið í Flóahreppi ekki einfaldlega Landsvirkjun sjá um sveitarstjórnina alfarið, ef það er hvort sem er til sölu fyrir nokkra vegi og gsm-samband?

    Þú ættir að lesa þér til um siðblindu, þar sem þú skilur greinilega ekki hugtakið. Það liggur við að það ætti að svipta fólk sem svona hugsar sjálfstjórnarréttinum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur