Þriðjudagur 15.02.2011 - 16:43 - 8 ummæli

Ræða utan dagskrár

Hér er mitt framlag í utandagskrárumræðu í dag um Flóaskipulag, Landsvirkjun og Svandísi Svavarsdóttur (reyndar vannst ekki tími fyrir tvær síðustu málsgreinarnar):

Forseti

Miðað við orðalag 34. greinar gömlu skipulags- og byggingarlaganna um greiðslu kostnaðar vegna skipulagsvinnu, þar sem ekki er gert ráð fyrir annarri fjármögnun aðalskipulags en úr sveitarsjóði og úr Skipulagssjóði,

      miðað við 23. grein sömu laga þar sem landeiganda eða framkvæmdaraðila er  heimilað, með leyfi forseta, „að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað,“

      miðað við úrskurð umboðsmanns alþingis um kæru til ráðuneytis sveitarstjórnarmála frá mars 2009,

     miðað við úrskurð samgönguráðherra frá september 2009 um ólögmæti tiltekinnar greinar í samningi Landsvirkjunar og Flóahrepps,

     miðað við fordæmið þegar umhverfisráðherrann Siv Friðleifsdóttir neitaði að fallast á flugvallarhluta aðalskipulags Reykjavíkur árið 2002,

     og miðað við sögu þessa máls, þar sem forystumenn sveitarfélagsins féllu frá fyrri skipulagsákvörðun – gegn meirihlutavilja í sveitinni – eftir tilboð frá Friðrik Sophussyni þáverandi forstjóra Landsvirkjunar um greiðslu fyrir skipulagsvinnuna, fyrir bundið slitlag á tvo vegi, fyrir vatnsveituframkvæmdir og fyrir gsm-samband – sem allt virðist langt umfram nokkur eðlileg mæri í slíkum samskiptum

     þá er eðlilegt að hæstvirtur umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir skuli hafa synjað staðfestingar á Urriðafosshluta Flóahreppsskipulagsins, og látið reyna á þá ákvörðun fyrir dómi.

Ásakanir um lögbrot og valdníðslu eru fáránlegar í þessu máli. Hér voru engin lög brotin heldur hlaut ráðherrann við ákvörðun sína að túlka lögin einsog honum þótti réttast og vitlegast – á sama hátt og starfsmenn í stjórnsýslunni gera á hverjum degi. Þetta sjá allir sanngjarnir menn – en auðvitað ekki þeir sem eru í pólitískum hasar og heimta nú afsögn ráðherrans til að koma höggi á ríkisstjórnina og troða niður skynsemismálstað í skipulagsmálum og náttúruvernd.

Málsatvik eru hvað skýrust í því ljósi að í nýju skipulagslögunum er grein þar sem framkvæmendum er leyft að kosta skipulag – en sú greiðsla á aðeins að nema skipulagsvinnunni sjálfri og má ekki fara eina krónu umfram þann reikning.

Þessvegna eru yfirgnæfandi líkur á því að samningur Landsvirkjunar við Flóahrepp frá í júlí 2007 yrði úrskurðaður ógildur samkvæmt núverandi lögum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Garðar Garðarsson

    Miðað við dóma Hæstaréttar undanfarið þá virðist hann vera kominn í bullandi pólitík með Sjálfstæðisflokki í sumum málum.

  • Heyr heyr. Áfram Mörður!

  • Steingrímur Jónsson

    Af hverju kom engin krafa fram um að Umboðsmaður Alþingis segði af sér – er ekki rétt skilið að hann hafði fram sömu „lögleysuna“ og Svandís?

  • Andrés Kristjánsson

    Þetta er allt rétt hjá þér Mörður. Ég er mjög ánægður að þú hafir kallað gjörning LV réttu nafni, það er mútur. Ég hef spurt aðra, sem ekki eru sammála því að hér hafi sveitarfélagi verið mútað, hvað þetta er og fengið engin svör.

  • Mörður, þú hefur undanfarið afhjúpað þig sem ofstækismann sem alls ekki á að hafa völd og ég hugga mig við það að sennilega styttist í kosningar og þá munt þú hverfa af þingi og getur hallað þér aftur að flõskunni.

  • Það er leiðinda-lenska í netumræðu að kalla fólk „öfga“ og „ofstækis“. Og er sérstaklega notað um þrjár stefnur: feminisma, umhverfisvernd og frjálshyggju. Sennilega vegna þess að allir halda að þeir styðji jafnrétti, elski umræður og velji frelsið. En þegar einhver vill ganga lengra en þeir þá þarf að „aðra“ þá með einhverjum hætti, og þessi forskeyti verða fyrir valinu.

    Nú eru ábyggilega til öfgafeministar, ofstækissinnaðir umhverfisverndarsinnar og öfgafrjálshyggjumenn. En ég held nú að megnið af þeim sem eru tjargaðir með þessum penslum falli ekki í þann hóp þó þeir hafi skoðun sem er ekki nákvæmlega sú sem sá sem heldur á penslinum heldur.

    Og ég held að þetta sé alveg augljóst í tilfelli Marðar.

  • Ég tek undir hvert orð í þessari ræðu. Meðan hæstaréttardómarar eru valdir af pólitískum ráðherra er hætta á ferðum, en það er eitthvað sem við verðum að lifa með. Hitt er annað mál að það er óþarfi að sífellt óttast málaferli, þvert á móti það þarf að láta reyna á lög í ríkari mæli en gert er. Mjög oft leynist ávinningur í málaferlum þó þau tapist.

  • Melkisedek

    Þessi dómur er klókur.

    Harðari dómur hefði kallað á forherðingu einstaklinganna og beytt þeim í alvöru andófsmenn. Við þennan dóm verða þeir kettlingar.

    Þetta er ungt fólk og eins og Ragnar Aðalsteinsson gaf í skyn hafa þau þjást eins og sakamenn allan tíman sem málið hefur verið til meðferðar og amk fyrir þetta fólk er það partur refsingarinnar.

    Mér finnst ekki ósanngjarnt að menn skjálfi svolítíð á beinunum fyrir alvarlegt ofbeldisbrot.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur