Miðvikudagur 16.02.2011 - 10:04 - 15 ummæli

Árásarákæran rann á rassinn!

Úrslitin í héraðsdómi eru sigur fyrir málstað tjáningarfrelsis, lýðræðis og heilbrigðrar skynsemi: Ákæran um árás á alþingi samkvæmt 100. grein hegningarlaga – í slagtigi með greinunum um valdarán, tilræði við forsetann og önnur hryðjuverk – var hlegin út úr héraðsdómi.

Nokkrir sakborninga fengu dóma, fyrir önnur ákæruatriði, og sjálfsagt verðskuldaða. Sá sem bítur í nef má búast við að vera bitinn í nef.

Aðalatriðið er auðvitað að ákæran mikla um árásina á alþingi – og kröfur um fangelsi frá 1 ári í ævilangt – hún rann á rassinn, líka saksóknarinn og líka hinn raunverulegi ákærandi, yfirmenn alþingis þegar atburðirnir urðu 8. desember og æ síðan.

Nú er bara að vona að það fólk kunni að skammast sín.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Birna Gunnarsdóttir

    „Sá sem bítur í nef má búast við að vera bitinn í nef“ – hér vísar þú væntanlega til lögregluþjónanna fimm sem sátu ofan á þeim sem er dæmdur fyrir að verjast lögregluofbeldinu ? Mega lögregluþjónar sem beita ofbeldi ekki búast við því að fólk reyni að verja sig ? Því ofbeldi lögreglu var það greinilega – enda hafa þing og lögregla séð sér hag í að eyða upptökum af aðförunum.

    Ég hygg að fáir ef nokkrir þeirra sem sátu réttarhaldið eða hafa fylgst með á rvk9.org séu sammála þér um að kalla dóma „sjálfsagt verðskuldaða“ – þetta mál er hneyksli frá upphafi til enda, alþingi og ákæruvaldinu til skammar, þessir dómar breyta engu þar um.

  • Spurning hlýtur að vakna um ábyrgð forsætisnefndar Alþingis á þessum málarekstri en í henni ræður meirihluti þingmanna Samfylkingar og Vg.

    Hvað varð um Þingsálykturnartillöguna sem lögð var fram til stuðnings níumenningunum – var tillagan einungis enn eitt af sýndarmennskubrögðum Samfylkingarinnar?

  • Nú er bara að vona að það fólk kunni að skammast sín, segir Mörður karlinn og getur drjúgt um talað. Hann hefur til skamms tíma stýrt umhverfisnefnd þingsins með frekju og yfirgangi og kemur framkoma hans þar engum á óvart sem fylgst hafa með honum í umræðuþáttum í sjónvarpi. En þegar tvær góðar gengu af fundi umhverfisnefndar og lýstu með því frati á formanninn sá karlinn sitt óvænna og baðst afsökunar, fullur iðrunar. Það sýndi, að hann kann að skammast sín. En það er ekki nóg. Hann verður að sýna í verki að hann hafi eitthvað lært og temji sér héreftir góða siði í samskiptum við fólk. Hroki, yfirlæti, frekja, hæðni og yfirgangssemi er ekki gott veganesti ef menn vilja ná frama í pólitík.

  • Sigurður Þór Guðjónsson

    Hittir beint í mark með allt nema kannski nefbitið! Árásinnni miklu var hafnað.

  • Mörður Árnason

    Við hljótum að skilja vonbrigði sakbirninga og aðstandenda þeirra yfir nokkrum dómum um nefbit og aðrar sakir. Það var hinsvegar ekki málið sem athygli vakti og deilur stóðu um — heldur ákæran samkvæmt 100. grein, um ,,árás“ á alþingi. Eftir nokkra daga átta þeir sem fremstir stóðu sig á því hvílíkur sigur felst í niðurstöðu héraðsdómsins í Reykjavik.

  • Hvaða sigur ertu að tala um Mörður. Þið eruð að semja fyrir hönd hryðjuverkamanna umvafin bankaleynd. Þið kunnið ekki að skammast ykkar.

  • Birna Gunnarsdóttir

    Varðandi sýknu af ákæru skv. 100. grein er í besta falli hægt að segja að dómararnir komið valdstjórninni í skjól frá því að hafa kosið að beita þessu ákæruofbeldi – e.t.v. má þá kalla það sigur spennitreyjunnar á hinum hamslausa. Hins vegar var kæran svo fráleit að dómari átti strax að vísa henni frá – dóminn setur niður við að virða ákæruvaldið svars um þessar sakargiftir sem engin stoð var fyrir í neinum gögnum.

    Það sem máli skiptir er að þau eru dregin fyrir dóm og dæmd. Þetta eru dæmigerðar aðferðir við pólitískar ofsóknir, fólki er stefnt fyrir dóm fyrir gríðarlegar sakir sem það er sýknað af en fær smádóm fyrir minni sakir.

    Markmiðið var að áreita fólk og hrella og því er náð.

  • Helga Tryggvadóttir

    Það var enginn ákærður, né dæmdur, fyrir að bíta í nef. Með því að kynna þér ekki málin nægilega vel en tjá þig óhikað um þau ertu að sverta mannorð eins af þeim níu sem hafa þurft að eyða æði miklum tíma og orku í að verja mannorð sitt fyrir dómi og leiðrétta rangfærslur sem þessar sem í sífellu koma fram í fjölmiðlum. Einn hinna níu var dæmdur fyrir að bíta lögreglumenn, en ekki í nefið. Annað bitið er sagt hafa verið í öxl lögreglukonu sem tók ekki eftir því fyrr en eftir á þannig að erfitt er að segja til um hvernig það átti sér stað. Hitt bitið var í fingur lögreglumanns þar sem hinn seki lá í gólfinu í lögreglutökum. Bæði bitin áttu sér raunar stað á meðan hann var í tökum lögreglunnar, og að eigin sögn haldinn ofsahræðslu. Nánari lýsingu má nálgast á blogginu frá réttarhöldunum á vefsíðu nímenninganna.

    Að mínu mati er töluverður munur á því að bíta frá sér á meðan maður er í lögreglutökum – í öxl eða hönd á manneskju sem er vel varin með sérútbúnum hönskum og í styrktum jökkum – eða bíta í nef manneskju. Bit í nef felur í sér árás á andlit manneskjunnar og er mun persónulegri, og fólskulegri, árás. Bitin sem dæmt var fyrir geta hins vegar vel flokkast undir einhvers konar varnarviðbrögð við árás, þó fólk geti haft misjafnar skoðanir á því.

    Mig langar til að biðja þig um að leiðrétta þessa missögn þína, því hún felur í sér að manneskja, sem í dag fékk yfir sig dóm héraðsdóms, mun þurfa að þola mun harðari dóm almenningsálitins á meðan dylgjur og sögusagnir fá að þrífast í umræðunni.

  • Mörður Árnason

    Sjálfsagt mál að leiðrétta þetta — samanber niðurstöðu Héraðsdóms (hér: http://www.domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=S201000149&Domur=2&type=1&Serial=1&Words=). Í fyrstu fréttum af úrskurðinum á netinu var talað um nefbit, og þessvegna rann það inní textann hjá mér. Þá var úrskurðurinn hinsvegar ekki kominn á vefinn hjá héraðsdómi. Fyrirgefið, og allt rétt hjá Helgu um dylgjur og sögusagnir.

    Á hinn bóginn skil ég ekki alveg tóninn í yfirlýsingu nímenninganna. En við skulum gefa þeim nokkra daga sem mest hefur mætt á í þessu máli. Mér þykir hinsvegar, einsog áður segir, að hér hafi unnist mikilvægur sigur.

  • Slöngustrákurinn

    Patar finna ekki til sektar yfir neinu sem þeir gera og geta þ.a.l. ekki skammast sín.

  • „Nú er bara að vona að það fólk kunni að skammast sín.“ Ha Mörður, barasta sigur fyrir réttlætið? Er það réttlætanlegt að halda þessu fólki í gíslingu í meira en ár af hálfu ríkisins? Er sakfelling fyrir að halda opnum dyrum réttlætanleg? Er réttlætanlegt að sakfella í máli þar sem sannast hefur að ákæruvaldið hefur eytt sönnunargögnum og ákæruvaldið ber sjálft vitni í eigin máli og fram hefur komið að vitnisburður þess sjálfs stangast á við sönnunargögn?

    Ég held hreinlega að þú sért ófær um að skilja alvarleika þessa máls! Oft hefur þú margt til þíns máls en hér ferð þú svo útaf sporinu að steininn tekur úr. Þetta var pólitískur skrípaleikur frá upphafi til enda og endar svo með því að mótmæli hafa verið glæpavædd og ákæruvaldið heldur andliti þrátt fyrir ógeðslega misbeitingu á valdi sínu gagnvart mótmælendum.

    Svo skilur þú ekki yfirlýsingu þeirra níu og vilt gefa þeim tíma til að komast að betri niðurstöðu um dóminn? Ég held að þú þurfir dágóðan tíma til að átta þig á samhengi hlutanna Mörður. Ákæruvaldið ákærði vísvitandi fyrir brot á 100. grein en sú er regla þess að ekki skuli ákæra nema líklegt þykir að til sakfellingar komi. Þá segir samflokkskona þína, Lára, að hún hafi allt eins búist við sýknun í þeim ákærulið og lýsir þar með yfir grófum amatjörisma sínum. Og hver verða eftirmál skrifstofustjóra alþingis og yfirmanns þingvarða sem tóku sig saman og eyddu sönnunargögnum? Og Helgi Bernódusson í slagtogi fyrrv. forseta alþingis sem fékk að panta ákæru út frá 100. grein hegningarlaga?

    Þá má benda þér á að „alvarlegasta“ brotið, er þegar maður er tekinn niður af fimm lögreglumönnum og finnst hann ekki geta andað, að leggja það að jöfnu við eitthvert áætlað ofbeldisverk en ekki örvæntingarfulla sjálfsvörn er fjarstæða.

    Annars segi ég aftur, taktu þér tíma og vaknaðu aðeins. Þetta er enginn sigur heldur áfellisdómur yfir réttarkerfinu sem og alþingi og valdaliðum þess. Mótmæli hafa verið glæpavædd og þú makindalega hrósar sigri og yfirlætislega segist gefa þeim sem haldið hefur verið í gíslingu valdsins tíma til að átta sig og að lokum gleðjast með þér. ?!

  • Einar Steingrímsson

    Nei, Mörður, þetta er ekki rétt: „Eftir nokkra daga átta þeir sem fremstir stóðu sig á því hvílíkur sigur felst í niðurstöðu héraðsdómsins í Reykjavik.“

    Þetta var vissulega mun skárra en það hefði getað verið, en þessa dóms verður minnst í áratugi, og hann verður ljótur blettur á íslensku réttarfari, en umfram allt á þeim stjórnvöldum sem hér hafa setið síðustu árin.

    Þú hefur hins vegar staðið þig frábærlega í gagnrýninni á aðfarir félaga þinna í Samfylkingunni, af einurð og hugrekki (sem þarf vissulega til að standa gegn þeirri fylkingu meðal félaga þinna sem þegjandi styður aðfarirnar).

    Fyrir það áttu mikinn heiður skilinn, svo ég ætla sannarlega ekki að skammast út i þig þótt okkur greini á um þetta. 🙂

  • Alexander G.

    Eru allir orðnir brjálaðir, man fólk ekki eftir ástandinu þessa daga, ég man eftir fréttum þar sem fólk var að reyna að brjótast inn í lögreglustöð til að frelsa mótmælanda. Ég man eftir lögreglumönnum sem þurftu að þola það að saur var hent í þá. Í þessu máli eru mótmælendur að brjóta sér leið inn í það allra heilagasta sjálft Alþingi og sama fólk neitaði að fara eftir fyrirmælum lögreglumanna. Lögreglan var skíthrædd þessa daga það þurfti ekki mikið að allt hefði farið til fjandans þessa daga. Ég er nokkuð viss um að í bandaríkjunum hefði þetta fólk verið skotið. Mörður hvernig væri að þú biðjir starfsmenn alþingis afsökunar það væri þó byrjun.

  • Kannt þú að skammast þín Mörður
    Þú skulda þjóð „þinni“ afsökunarbeiðni vegna vegna görða þinna ig félaga þinna áAlþingi Íslands þar sem þú greiddir atkvæði gegn því að almennirkjósendurgætu ákveðið örlög sin og sinna afkomanda
    Ég tel að þú og þínir samstarfsmenn hafið farið langt útfyrir valdsvið ykkar
    þar sem þið ákveðið lífskjör almennings næstu 30+ ár og það tekur nálina
    úr þegar þú og þínir samflokksdindlar NEITIÐ að fólkið sem ber byrðarnar
    fái að seigja nokkuð um það mál
    Mörður þú ert ekki alvitur né þínir félagar og hafið því ekki þann rétt að
    taka þá ákvörðun sem var tekin með sammþykkt Icesave sammningins
    enda var það ekki á oddinum í ykkar kosnigarbaráttu og voruð því ekki
    kosnir til að framkvæma þennan görning
    Þótt að hér ríki fulltrúalýðræði veitir það ekki fulltrúum sem kosnir eru
    Ótakmarkað vald
    Mörður skammast þú þín
    Ég tek atkvæði mitt til baka og óska að fá að taka þátt í þessari ákvörðun
    þar sem að ég tel að þú og þínir félagar séu á algörum villigötum
    Þjóðin þarf að hafa vit fyrir þér og þínum
    Kannt þú að skammast þín Mörður

  • Magnús Þór

    Mörður,
    þar sem þú skilur ekki tóninn í yfirlýsingu níumenninganna bendi ég þér á eftirfarandi viðbót við hana, sem birtist á vefsíðunni http://www.rvk9.org rétt í þessu:

    *

    Yfirlýsing frá níumenningum

    Dómurinn sem féll í héraðsdómi í morgun er málamyndadómur. Hann er í engu samræmi við þær alvarlegu ákærur sem við höfum setið undir síðasta árið. Hann er nógu mildur til að sefa mögulega reiði fólks en þó það harður að hann fullnægir refsiþörf ríkisvaldsins, breiðir yfir skömm þess og ýtir stoðum undir áframhaldandi ofsóknir í garð pólitískra andstæðinga þess.

    Við höfum þetta um málið að segja:

    Alþingi er smánarblettur á íslensku samfélagi og ber upphaflega ábyrgð á þessu máli. Fjölmargir þingmenn og starfsmenn þingsins – sér í lagi forseti alþingis, klappstýra ákæruvaldsins – tóku virkan þátt í að bera út róg um okkur. Þær smávægilegu tilraunir örfárra þingmanna til að vega upp á móti þessari lygaherferð voru þaggaðar í hel af þeim sömu og lugu hvað mest. Jóhanna Sigurðardóttir og félagar: Við fyrirlítum tækifærissinnaða og örvæntingarfulla tilraun ykkar til að bjarga eigin skinni á seinustu stundu.

    Embætti ríkissaksóknara er fjarstýrður ofsækjandi og fór í öllu eftir fyrirmælum þeirra sem vildu okkur dæmd. Þegar embættinu berast kærur gegn hinu opinbera, til dæmis lögreglunni, er þeim yfirleitt vísað frá vegna ólíklegrar sakfellingar. En sú regla gildir ekki þegar ríkið kærir niður á við.

    Dómstólar sem ráðnir eru af valdhöfum eru hápólitískir og afhentu lögreglunni stjórn yfir málaferlunum strax frá fyrsta degi. Oft er sannleikurinn ótrúlegri en skáldskapurinn: Þeir sem stjórnuðu réttarhöldunum yfir okkur voru þeir sömu og á endanum báru vitni gegn okkur.

    Ritstjórar stærstu fjölmiðlanna eru Göbbelsar íslensks ríkis og alþjóðakapítals og dæmdu okkur um leið og ákæran var birt. Út frá þeim pólitíska dómi ætluðu þeir sér að stýra umræðunni í átt að sakfellingu af hálfu samfélagsins jafnt sem dómstólanna. Á sama tíma var grátið tárum tilfinningakláms til stuðnings jakkafataklæddum peninga- og valdafígúrum vegna afskipta ríkisvaldsins af þeirra viðskiptum. Þannig afhjúpaðist viðhorf valdsins til hins meinta réttlætis réttarríkisins. Réttlætis sem aldrei á að bitna á toppum valda- og áhrifapýramídans.

    Samfélagið er alla jafna meðvirkt og í afneitun gagnvart því að ríkið geti haft rangt fyrir sér. Það sýnir sinnuleysi gagnvart möguleikanum á því að hafa sjálft áhrif. En eftir því sem á málið leið settu fleiri og fleiri spurningamerki við framgang ríkisins gegn pólitískum andstæðingum þess. Í kjölfarið urðum við vitni að sjaldgæfu aðhaldi gagnvart refsiarmi ríkisvaldsins. Þrátt fyrir tilraunir ofangreindra aðila til að stýra og afvegaleiða umræðuna tókst að rétta skekkjuna af og birta óþægilega en sanna mynd af málinu.

    Við erum sannfærð um að sú samstaða sem okkur var sýnd með ýmsum hætti, hér á landi jafnt sem erlendis, hafi skipt sköpum. Við þökkum innilega fyrir þann stuðning um leið og við hvetjum fólk til að halda áfram samskonar aðhaldi gagnvart ríkisvaldinu auk þess að snúa vörn í sókn og ráðast á bákn valdastéttarinnar og aðrar þær stofnanir sem viðhalda þeirri samfélagsskipan sem við búum við.

    Að lokum lýsum við yfir fullum stuðningi við allt það fólk sem hefur staðið, stendur og mun standa í okkar sporum, hvar sem er í heiminum.

    Sólveig Anna Jónsdóttir
    Snorri Páll Jónsson
    Þór Sigurðsson
    Steinunn Gunnlaugsdóttir
    Ragnheiður Esther Briem
    Teitur Ársælsson
    Jón Benedikt Hólm
    Andri Leó Lemarquis
    ______________________________

    Til viðbótar, sett inn kl. 21:30

    Vegna misskilnings um þann lið yfirlýsingar okkar sem snýr að Alþingi viljum við koma eftirfarandi á framfæri:

    Það sem átt er við með smávægilegum tilraunum örfárra þingmanna til að vega upp á móti lygaherferðinni, er málflutningur örfárra þingmanna sem meðal annars lögðu fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi lýsti því yfir að ekki hafi um árás verið að ræða þann 8. desember 2008. Ekkert varð þó úr þeirri yfirlýsingu.

    Þeir sem reyndu svo ítrekað að þagga þennan málflutning niður voru þingmenn þriggja flokka: Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar. Þar fór forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fremst í flokki ásamt nú- og fyrrverandi þingmönnum á borð við Jón Gunnarsson, Jón Magnússon, Björn Bjarnason og Einar K. Guðfinnsson. Hinn síðastnefndi afhjúpaði einstaklega skítlegt eðli sitt á meðan aðalmeðferð málsins stóð. Fyrst bar hann vitni fyrir dómi og lýsti þar léttvægi atburðarins sem við voru ákærð fyrir en skrifaði svo í kjölfarið á vefsíðu sína, allt aðra sögu af atburðinum – lygasögu ríkisvaldsins.

    Orð okkar um Jóhönnu Sigurðardóttir og útlitshönnuði Samfylkingarinnar krefjast ekki frekari skýringa. Þeir taka þau til sín sem eiga.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur