Sunnudagur 20.02.2011 - 14:25 - 1 ummæli

Til hamingju með Langasjó

Bjartar fréttir frá umhverfisráðherranum: Langisjór friðaður, og hluti Eldgjár í grenndinni – í samkomulagi við heimamenn í Skaftárhreppi – og áform Landvirkjunar um Skaftárveitu þarmeð útaf borðinu.

Græna netið var meðal fagnenda :

Græna netið óskar Íslendingum til hamingju með friðlýsingu Langa-sjóvar sem nú er orðinn hluti Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt hluta Eldgjár í Skaftártungu. Þetta eru merk tíðindi í sögu náttúruverndar á Íslandi og efla enn stórfengleik og aðdráttarafl stærsta þjóðgarðs í Evrópu.

Með því að friðlýsa Langasjó batt Svandís Svavarsdóttir umhverfis-ráðherra enda á ráðagerðir um að eyðileggja vatnið með svokallaðri Skaftárveitu, en ekki er nema um hálfur áratugur síðan sú fram-kvæmd var á teikniborðum ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar. Þá hófst öflug barátta náttúruverndarafla fyrir friðlýsingu Langasjóvar, og má minna á að hann er meðal náttúrusvæðanna sem nefnd eru sérstaklega í umhverfisstefnu Samfylkingarinnar, Fagra Íslandi. Nú telja allir sem til þekkja að vatnið sé ein af helstu náttúruperlum landsins, enda er þar orðinn eftirsóttur ferðamannastaður. Má dæmi Langasjóvar verða stjórnvöldum til áminningar um að vanda til verka við ákvarðanir um orkuöflun og verndarnýtingu í náttúru Íslands. Græna netið þakkar umhverfisráðherra og sveitarstjórnar-mönnum í Skaftárhreppi þessa friðlýsingarframkvæmd og óskar þeim farsældar í stöfum.

Stjórn Græna netsins leggur til að næsta stórverkefni í verndar-nýtingu verði myndarleg stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, sem bindi enda á öll áform um Norðlingaölduveitu.

Það fallegasta við þetta verk er kannski að friðunin vekur enga stórkostlega athygli, og það mótmælir henni ekki nokkur maður sem öfgum eða hryðjuverki. Samt hefði Skaftárveita um Langasjó örugglega verið rosalega hagkvæm, alveg einsog Norðlingaölduveita í Þjórsárverum. Fyrir bara hálfum áratug var Landsvirkjun með allt sitt Power komin á fremsta hlunn, ásamt vænum skammti af heimamönnum. Nú eru verðmætin metin á annan veg.

Ég man ágætlega eftir troðfullu Norrænu húsi í janúar 2005 þar sem dýrð Langasjóvar var sýnd á myndum og færustu vísindamenn landsins töluðu um gildi svæðisins – þá hafði ég ekki komið þarna sjálfur en hét því samstundis að láta það ekki bíðam lengi. Og Langisjór er þannig að þar er eiginlega ekki hægt að verða fyrir vonbrigðum með móbergshryggina báða beint í stefnu að jöklinum í fjarska og þetta undarlega bláa vatn … nema þá helst vegna annars ferðafólks því nú er Langisjór orðinn fjölsóttur, bæði af útlendum gestum og heimafólki. Allt í lagi ennþá, en auðvitað verður að passa uppá sjóinn og umhverfi hans einsog aðra ferðastaði – það er að verða svartur blettur á okkur sem gestgjöfum og umsjónarmönnum þessa einstaka lands hvað við sinnum illa fjölsóttum stöðum (sjá hér ljóta skýrslu Umhverfisstofnunar um þetta).

Fyrir fræðimenn er Langisjór reyndar einskonar Surtsey – því ekki er nema tæp öld síðan hann varð til í núverandi mynd – áður rann um hann kvísl úr Skaftá og var hann þá jökullitur og líflítill. Um 1960 breytti áin farvegi sínum og ólíklegt að hún hitti af eigin völdum aftur á sjóinn. Þá hófst ár 1 fyrir lífríkið í vatninu, svipað og eftir Surtseyjargosið. Fræðimenn telja að vísu galla að einhverjir ævintýra-menn slepptu silungi í vatnið, og þar mun nú vera væn bleikja – en það var áður stærsta fisklausa vatn á landinu, sem gefur rúm öðrum dýrum. Sjá um Langasjó hér (stutt Wiki-grein) og hér (góð úttekt á vefsetri Landverndar, sem hefur öðrum fremur barist fyrir friðuninni) – á síðari vefnum kemur meðal annars fram að Ari Trausti sjónvarpsvísindamaður telur Langasjó eitt af fimm merkustu vötnum Íslands, ásamt Mývatni, Þingvallavatni, Leginum og Hvítárvatni, og í sínum huga allra merkast.

Langasjóvar? -sjávar? -sjós?

Að lokum nokkrar línur um eignarföll. Í ályktun Græna netsins er eignarfallsmynd örnefnisins höfð Langasjóvar – og hefur vakið spurningar. Mér er málið skylt, er varamaður í stjórn félagsins og látinn prófarkalesa alla félagstexta:

Grunnorðið er til í þremur myndum: sjór, sær og sjár. Algengast í nefnifalli, þolfalli og þágufalli er nú sjór. Myndin r er líklega einkum höfð í skáldskap og hátíðamáli, en sjár er tiltölulega óalgengt orð – nema í eignarfallssamsetningum, og öðru fremur í orðinu sjávarútvegur. Kannski er algengasta beygingin núna einhverskonar samsláttur: sjór, um sjó, frá sjó, til sjávar; en eðlilegt er að hver orðmynd haldi sínu eignarfalli: sjár – sjávar, sær – sævar, sjór – sjóvar eða sjóar. Eignarfallið sjós er svo til líka, en þótti dönskulegt, að minnsta kosti þegar menn voru til sjós – nú er það náttúrlega orðið klassískt íslenskt orðasamband. Mæli samt ekki með því í örnefnum. Langasjósferð? Fögnum frekar friðun Langasjóvar.   😉

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Jón G Snæland

    Ég myndi nú ekki hafa neina sérstaka áhyggjur af því hvernig rangnefnið Langisjór er beygt enda. Hét Langisjór áður Skaftárvatn og var það skírt í ferð sem nokkrir Skaftfellingar og Rangæingar fóru um svæðið 1884 undir forustu Ólafs Pálssonar frá Höfðabrekku. Fóru þeir í þessum könnunarleiðangri allt norður til Þórisvatns, Skaftártungur og Landmannaafrétt. 1889 kom loks Þorvaldur Thoroddsen þangað og aftur 1893 og gaf hann Langasjó núverandi nafn, einnig endurskírði hann Sveinstind í höfuðið á Sveini Pálssyni landkönnuði. Sveinstindur hafði áður hafði verið skírður Bjarnatindur. Þorvaldur kallað einnig innri hluta fjallgarðsins Gamélsfjöll til heiðurs við danskan auðmann sem kostaði rannsóknir hans það sumar, er það líklega átt við innri hluta Fögrufjalla við Fögruvelli. En það má líka minna á það að kvísl úr Skaftá rann í vatnið fyrir einungis nokkrum áratugum og það gæti gers aftur, vegna mikilla breytinga á jökulsporðum ( hvað gera bændur þá ?) . T,d hvarf Bleykálukvísl fyrir norðan Hofsjökul. Og Austari jökulsá hefur mikið breyst við hop jökulsporðsins og ók ég yfir á þurru þar sem einn vatnsmesti áll árinnar var áður. En að öðru, þá finnst mér það vera sérkennileg stjórnsýsla, þar sem þarf að friða stór landsvæði til þess að loka á orkufyrirtæki. Og láta almenna ferðamenn lenda á milli álmanna og náttúruverndarfólks. En það verður raunin á Breiðbakssvæðinu og nákvæmlega sama dæmið er í gangi vegna stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur