Föstudagur 25.02.2011 - 09:42 - 6 ummæli

Árbót

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Árbótarmálið er komin. Hér eru  tvær málsgreinar úr samantektarkaflanum:

Lokauppgjörin vekja sérstaka athygli, ekki aðeins vegna þess að þau varða umtalsverða fjármuni, þ.e. alls um 84 m.kr. að núvirði, heldur einnig vegna þess að þau orka um margt tvímælis. Miðað við hvernig staðið var að uppsögn samninga við meðferðarheimilin að Torfastöðum og í Árbót, þ.e. þeim var sagt upp á lögmætan hátt með tilskildum fyrirvara (tólf eða sex mánuðum), virðast heimilin ekki hafa átt lögvarða kröfu til annarra greiðslna en vegna umsamins uppsagnarfrests. … Í báðum þessum til-vikum samdi ráðuneyti félagsmála engu að síður um sérstakar viðbótar-greiðslur og raunar í andstöðu við Barnaverndarstofu. …

Ljóst er að eitt þessara uppgjöra (Árbót) sker sig úr að því leyti að bóta-fjárhæðin byggði fremur í samkomulagi en eiginlegum reikningsskilum. Ekki verður heldur séð að þungvæg rök hafi verið fyrir greiðslunni, þ.e. að heimilið hafi við samningsslit setið uppi með raunverulegar eftir-stöðvar skulda sem stofnað var til vegna uppbyggingar þess. Í hinum tilvikunum (Torfastaðir og Götusmiðjan) var þrátt fyrir allt fastara land undir fótum í þessu tilliti, þ.e. bótafjárhæðin tók mið af útreikningum óháðra aðila á rekstrarframlögum eða eiginfjárstöðu heimilis.

Og tvær úr lokakafla skýrslunnar:

Í fimmta lagi vaknar sú spurning hvort stjórnmálamenn hafi haft óeðlileg afskipti af málefnum Árbótar og þeim ákvörðunum sem teknar voru um samninga við heimilið eftir að þjónustusamningi við það hafði verið sagt upp. Í því samhengi ber að hafa í huga að Barnaverndarstofa ber að öllu jöfnu stjórnsýslulega ábyrgð á þjónustusamningum við meðferðarheimili fyrir börn og unglinga, jafnt gerð þeirra, framkvæmd og lok. Eins ber að minnast þess að lögum samkvæmt má skjóta ágreiningi milli stofunnar og rekstraraðila heimila til ráðuneytis félagsmála. Nauð-synlegt reyndist að grípa til þess úrræðis í Árbótarmálinu. Það kom því í hlut félags‐ og tryggingamálaráðuneytis og ráðherra þess að ljúka málinu og er í sjálfu sér ekki gerð athugasemd við það.

Inn í samningsferli ráðuneytisins og Árbótar blönduðust þó augljós afskipti einstakra þingmanna Norðausturkjördæmis, m.a. fjármála-ráðherra … Telja verður að þau afskipti hafi að einhverju leyti veitt málinu úr faglegum farvegi og inn í hreinar samningaviðræður um bætur til heimilisins. Í þessu samhengi má á ný vitna í tölvubréf félagsmála-ráðherra til nokkurra starfsmanna ráðuneytisins frá 7. maí 2010: „Af hverju erum við að borga meira en 30 milljónir umfram skyldu? Hvers vegna? Jú – vegna sanngirnissjónarmiða og þrýstings frá kjördæmis-þingmönnum.“ Innan ráðuneytisins kom því hvorki til greina að óska álits ríkislögmanns á réttmæti bótagreiðslna, leita til dómstóla eða gera upp rekstur Árbótar á grundvelli ársreiknings heimilisins. Meginþunginn var lagður á einhvers konar málamiðlun. Að mati Ríkisendurskoðunar eru slík vinnubrögð ekki til fyrirmyndar eða til þess fallin að auka tiltrú almennings á stjórnsýslunni.

Mér sýnist þetta því miður staðfesta eigin ummæli á þingi í haust (sjá líka hér):

Um það sem hv. þm. Ólöf Nordal og fleiri ræddu áðan er það að segja að þetta mál lítur þannig út, þangað til það verður skýrt betur, að þetta sé gamaldags þjösnapólitík þar sem fagleg sjónarmið í stofnunum eru mis-virt og kjördæmahagsmunir þingmannasveitar eða einstakra þingmanna ráða mestu um úrslit mála. Það er mjög mikilvægt að öll gögn komist á borðið í þessu máli, (Gripið fram í.) að ráðherrarnir skýri frá því sem þeir hafa gert og aðhafst í þessu og einstakir þingmenn, þar á meðal hv. þm. Kristján Þór Júlíusson …

Nú bíðum við eftir því að ráðherrarnir og kjördæmisþingmennirnir segi okkur hvað þeir ætla næst að gera.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Herta Kristjánsdóttir

    Þingmenn hugsa fyrst og fremst um hagsmuni heildarinnar…að ég tali nú ekki um ráðherra.

  • Skítalyktin er hvort eð er orðin svo stæk. Hvað munar um eitt prump?

  • Skarphéðinn

    Það er nú í góðu lagi fyrir ykkur stjórnmálamenn að skoða hver er skildur hverjum!! Er kannski einhver í Árbót skildur einhverjum „gömlum“ stjórnmálamanni eða tengdur fjölskylduböndum????

    Það er það eina sem þið gerið þessa dagana það er að sjá um ykkur sjálfa og vini ykkar, að þið komist á jötuna og fitnið þar á kostnað okkar.

  • Ekki þekki ég til innviða þessa máls, hitt veit ég að á Árbót hefur verið unnið mjög gott starf og þar hefur miklum árangri verið náð. Þetta er ekki 9-5 starf heldur er sólarhringur fólksins lagður undir.
    Málið lyktar dálítið af persónulegum „núningi“ milli forstöðumanns Barnaverndarstofu og starfsfólks Árbótar. Árbót hefur lagt mikið undir til að skila þessu góða starfi og lagt i miklar fjárfestingar fyrir stafssemina. Allt í einu er fótunum kippt undan starfinu vegna ákvörðunnar eins manns. Þetta er siðferðin í íslenskum fyrirtækjum í dag. Ég tel að stjórnmálamennirnir i kjördæminu hafi einmitt verið að skila starfi sínu þegar þeir gripu inn í með aðgerðir sem má flokka undir sanngjörn mannréttindi. Spurningin er hvort ríkisendurskoðandi túlki reglurnar ekki of þröngt.
    Þetta minnir á þegar kvótaeigandi selur kvótann sinn úr byggðarlagi. Eftir situr fiskvinnslufólk, sem lagt hefur í íbúðarfjárfestingar til að þjóna kvótakónginum, atvinnulaust og með verðlausar eignir.

  • Þetta er vítaverð meðferð á almannafé.

    Ráðherrarnir Árni Páll og Steingrímur eiga að segja af sér.

    Myndu Mörður og félagar ekki krefjast afsagnar ef þeir væru nú í stjórnarandstöðu?

    Eða á krafan um ábyrgð og gegnsæi aðeins við um suma og þá stundum?

  • Guðmundur

    Hriðjuverkamennirnir voru úr Fjármálaeftirlitinu,þarna var stjórnarformðurinn Jón nokkur Sigurðson og Viðskiptaráherrann Björgvin G.Sigurðson

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur