Fimmtudagur 14.04.2011 - 12:45 - 2 ummæli

Icesave í Strassborg

Þátttaka Íslendinga á Evrópuráðsþinginu í Strassborg var heldur endaslepp í þetta skiptið – þetta stendur heila virka viku í hvert sinn, en núna komu skipanir um heimferð á öðrum degi, og í gærkvöldi voru Strassborgarfarar komnir í sætin sín á alþingi Íslendinga og skiluðu hver sínu áliti á vantrauststillögu Sjálfstæðisflokksins: Ég sagði nei, en þau Birkir Jón Jónsson og Lilja Mósesdóttir vildu vantraust og kosningar, hvort á sínum forsendum.

Þetta var auðvitað hundfúlt – það er að segja hin bráða heimferð og ekki atkvæðagreiðslan. Evrópuráðið er merkilegur vettvangur og margt þar að gerast sem okkur kemur við – ég var til dæmis á leiðinni í umræðuna í dag um vatnamál þar sem við höfum ýmislegt fram að leggja og annað að læra. Þarna var líka verið að ræða framtíð og aðbúnað mannréttindadómstólsins í Strassborg, sem við þekkjum ágætlega, en hann er rekinn á vegum og á ábyrgð Evrópuráðsins, og að auki á dagskrá ýmis daglegur vandi í álfunni: Skortur á umburðarlyndi í trúarefnum, deilur Rússa og Georgíumanna, samstaða gegn kynferðisglæpum gegn börnum. Svo er Strassborg góður staður, þúsund ára fransk-germönsk miðstöð í Rínardalnum með glæsilegum arkitektúr, menningarviðburðum – og góðum mat sem Alsasshérað er frægt af um heimsbyggðina.

Núna höfðum við hlakkað nokkuð til Íslendingarnir að taka á móti félaga úr heimastjórnmálunum sem sérstökum gesti Evrópuráðsþingsins – nefnilega Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra sem þangað var boðið í tilefni af umræðu um ríkisskuldaskýrslu í kreppunni. Steingrímur hafði lofað sér með fyrirvara um annir í tengslum við atkvæðagreiðsluna á laugardag, og þegar til kom varð ekkert úr heimsókn hans og ræðu. Það var illt, því þarna var tækifæri til að hitta þingmenn frá öllum ríkjum álfunnar – en ferðin hefði tekið hann heila tvo sólarhringa sem einmitt núna reyndust óvenjulega annasamir hjá íslenska fjármálaráðherranum.

Eiginlega varð fjarvera Steingríms til þess að yðar einlægur flutti Evrópuráðsþinginu Icesave-kveðjur – reyndar fyrir hönd flokkahóps jafnaðarmanna, eða sósíalista einsog þeir heita á þessum vettvangi. Mér fannst að ég hlyti við það tækifæri að skýra þær forsendur atkvæðagreiðslunnar að enginn borgaði með glöðu geði fyrir mistök sem aðrir væru sekir um, og að alþýðu manna tæki sárt að horfa upp á hnignandi velferðarþjónustu og menntamiðlun vegna ábyrgðarleysis og spillingar í einkageiranum. Úrslitin á Íslandi sýndu þetta vel – en íslenska nei-ið í þessu máli mætti ekki oftúlka. Eftir sem áður væru Íslendingar tilbúnir að standa við skuldbindingar sínar og greiða það sem þeim bæri.

Ræðunni (sjá hér á ensku) var ágætlega tekið, og ekki síður svolitlu ávarpi sem ég flutti yfir sósíalistunum félögum mínum daginn áður, og fór þá sérstaklega fram á skilning og stillingu breskra og hollenskra jafnaðarmanna. Þar sagði John Tomlinson, einn af nestorum breska Verkamannaflokksins, hinsvegar að hvað sem liði úrslitunum á Íslandi og ágætum málflutningi hjá Comrade Arnason, þá mundi Icesavemálið ekki gufa upp.

Og það er rétt. Hinsvegar skiptir öllu máli fyrir okkur núna að kynna stöðuna og slá á ofsaviðbrögð. Það hafa ráðherrarnir og aðrir fulltrúar okkar gert vel síðan um helgina – og þótt ferðin væri heldur stutt til Strassborgar í þetta sinn er ég ágætlega sæll yfir að hafa getað hjálpað til við þá brýnu landkynningu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Burt með elíturnar!

    Menntamennina til starfa í sveitunum!

  • Gunnlaugur Ingbvarsson

    Það var gott hjá þér Mörður.
    Mér sýnist samt sumir flokksbræður þínir sem sitja á þingi ekkert ætla að læra af þessari lexíu að hafa verið gerðir burtrækir með 2 ICESAVE samninga.
    Sumir vilja flýta málinu sem mest þeir geta til þess að fá okkur dæmt fyrir EFTA dómsstólnum og aðrir bíða glaðklakkalegir yfir því að þessi svokölluðu matsfyrirtæki lækki nú skuldaeinkunn landsins.
    Hinns vegar skeði það merkilega að alþjóðlegt skuldatryggingarálag landsins hefur lækkað um heil 10% síðan samningurinn var felldur og hefur ekki verið lægra síðan töluvert fyrir hrun.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur