Þriðjudagur 19.04.2011 - 07:56 - 20 ummæli

LÍÚ og Vilhjálmur

LÍÚ og Vilhjálmur láta einsog einhver sé að svindla á þeim – gott ef ekki ræna þá.

Samt voru LÍÚ og Vilhjálmur líka að syngja og leika í kosningunum vorið 2009, þegar flokkarnir Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð fengu hreinan meirihluta á þingi, meðal annars vegna skýrrar stefnu í sjávarútvegsmálum.

Og í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar sem þessir flokkar mynduðu er alveg klárt hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í fiskveiðistjórnarmálum í umboði þjóðarinnar.

Hún vill að sýnt verði „með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá“ að „fiskistofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar“. Hún telur að úthlutun aflaheimilda sé „tímabundinn afnotaréttur og myndar ekki undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum“ og segir að bregðast verði við áliti Mannréttindanefndar SÞ, meðal annars með því að „gæta atvinnufrelsis og að tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind“.

Meðal aðgerða í þessu skyni sé að „takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur á heimildum milli ára“ og einnig að „stofna auðlindasjóð sem fer með ráðstöfun fiskveiðiréttinda í eigu þjóðarinnar“. Að auki skyldi „heimila frjálsar handfæraveiðar smábáta yfir sumarmánuðina“ – en ekki síst að breyta lögum um stjórn fiskveiða, meðal annars með það að markmiði að

leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili.

Þessi texti lá fyrir vorið 2009. Síðan hefur skilað af sér sérstök nefnd sem stikaði út tvær meginleiðir – útfærsla annarrar var reyndar afar óljós – og nú er komið að því að leggja fram frumvarp að nýjum lögum í samræmi við samstarfsyfirlýsinguna, stefnu beggja flokka og meirihlutavilja í landinu.

Það sem hægt er að skamma ríkisstjórnina fyrir er að vera ekki löngu búin að koma þessum breytingum á – í stjórnarsáttmálanum er talað um 1. september 2010.

Fyrirgefið barnaskapinn – en eiga menn ekki að búast við að stjórnarflokkar standi við skýra stefnu í samstarfsyfirlýsingu sinni?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

  • Árni kristjánsson

    Góður takk

  • Mestu mistök ríkisstjórnarinnar eru að hafa ekki strax farið í breytingar á fiskveiðistjórnuninni.
    Það á að gera strax róttækar breytingar. Innkalla allan kvóta strax til eigenda þ.e. þjóðarinnar, og taka upp sóknardaga kerfi eða allan nýtingarrétt á uppboð.
    Þetta er hægt að gera strax. Það á ekki að tala við LÍÚ, þeir eru ekki í ríkisstjórn og kemur málið ekki við.
    Ef núverandi útgerðarmenn vilja ekki halda áfram í útgerð er nóg til af vönum mönnum sem vilja stunda fiskveiðar.

  • Ríkisstjórn S og VG hafa spilað þetta svona upp, viljandi eða óviljandi. Þau gáfu möguleika á þessu þar sem þau gátu ekki í dugleysi sínu þrumað þessu frumvarpi í gegnum þingið fyrir löngu síðan. Það er barnaskapur ef flokkarnir hafa haldið að SA og LÍU myndu ekki nota þetta sem bitbein í kjaradeilunum.

  • Vanhæf ríkiistjórn.

  • Þegar þú tekur eitthvað sem einhver hefur keypt án þess að bætur komi fyrir er það þjófnaður.

    Ég kaus Samfylkinguna í síðustu kosningum út af Evrópumálum. Þrátt fyrir að þessar hugmyndir um fiskveiðistjórnun. Ég hafði ekki ímyndunarafl í að halda að þið væruð það klikkuð að framkvæma þetta í alvöru.

    Hér á Íslandi var besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heiminum þangað til að byrjað var að moka í potta fyrir stjórnmálamenn í atkvæðasöfnun (smábátapottarnir og strandveiðar, byggðakvóti og fl).

    Það er hreint ótrúlegt að þið hafið ekki gæfu til að átta ykkur á að hugmyndir ykkar um skattlagningu og innköllun aflaheimilda er ekkert annað en efnahagsleg hryðjuverkastarfsemi gegn fólkinu í landinu. Markmiðið á að vera hagkvæmur, skilvirkur sjávarútvegur sem ekki þarf á millifærslum í formi gengisfellinga eða styrkja að halda. Hugmyndir ykkar munu leiða til þessa ástands, málið er bara að við höfum ekki olíupeninga eins og Norðmenn til að halda upp sjávarútvegi.

  • Þeir sem kaupa þýfi hafa ekki eignarétt á því þegar það finnst.
    Sama gildir um kvótann, honum var stolið frá þjóðinni af stjórnmálamönnum og afhentur útgerðinni án endurgjalds.
    Útgerðin fékk aldrei eignarétt á kvótanum, bara nýtingarétt, þó þeir hafi fengið að braska með hann að egin vild.

  • Sævar Helgason

    Eru gömlu bankarnir ekki aðalræningjar kvótans-frá þjóðinni. Án þeirra hefði veðsetning aflaheimilda aldrei orðið. Þetta er eins og með gjaldeyrislánin sem síðar voru dæmd lögleysa. Þeir fóru einfaldlega ekki að lögum. Hver á hvað og hvað er hvurs ? Það eitt er klárt að þjóðin á auðlind sjávar að 200 sjómílum frá strönd Ísland. Svokallaðir kvótaeigendur-eiga ekkert í kvótanum-ekki frekar en sá sem kaupir stolna muni….

  • Garðar Garðarsson

    Sæll Mörður.

    Þið samfylkingarmenn og konur sem tjáið ykkur um kvótaúthlutun, hafið gefið til kynna að það eigi að fara fyrningarleið eða tilboðsleið þar sem báðar leiðir fela í sér að kvótinn verði innkallaður á einhverjum fjölda ára og endurleigður á markaði. Þessar tvær leiðir virðast hafa stuðning hjá þorra þjóðarinnar.

    Einnig virðist vera unnið að samningaleiðinni sem felur í sér að samið verður við þá er hafa kvótann í dag þannig að þeir haldi honum áfram í einhver ákveðin ár og geta síðan framlengt áfram þegar þessi ár eru liðin. Þessi leið breytir ekki miklu hvað varðar úthlutun og endurnýjun í greininni, og virðist hún hafa stuðning hjá Birni Vali Gíslasyni alþingismanni VG, sem er ráðandi maður í sjávarútvegsmálum meirihlutans. En þessi leið hefur ekki mikinn stuðning hjá þjóðinni og samrýmist ekki stefnu stjórnarflokkanna.

    Mörður getur þú útilokað að samningaleiðin verði farinn, eða í það minnsta sagt okkur að þjóðin fái að kjósa um leiðir?

  • árni aðalsteinsson

    „Best væri að ná þokkalega víðtækri sátt um málið, þannig að greinin geti starfað eðlilega og stjórnmálamenn lifað með slíkri sátt.“
    þetta sagði Vilhjálmur Egilsson við fréttamenn í gær,það virðist ekki vera nein nauðsýn að ná SÁTT við þjóðina,heldur bara þá sem hingaðtil hafa þegið einhverjar tuggur úr hendi LIU,enda er nú komið fram að sami óskapnaður braskar er enn að skammta útvöldum auðlindir landsins, nú bara undir nöfnunum Samfylking og Vinstri Grænir, gagnlausir stjórnmálamenn sem virðast hafa komist að völdum á fölskum forsendum og enginn áhugi virðist á að standa vörð um almannaeigur/hagsmuni.

  • Sigurgeir Ólafss.

    Skil vel að ekki sé hægt að gera kjarasamninga til langstíma, ef útgerðir geta ekki reitt sig að þá að þær hafi kvóta næstu þrjú árin til að veiða upp í samninga.

    Útgerð sem missir kvóta vegna þess að stjórnvöld gera hann upptækan, missir þar með rekstrargrundvöll sinn og er þar með dauðadæmd.

    Þetta er bara ekki flóknara.

    Þið í Samfylkingunni eruð í raun að berjast við vindmyllur.

    Þið sjáið ímyndaða anstæðinga í útgerð og útgerðarmönnum sem þið viljið sigra.

    Þessi afstaða ykkar er í raun byggð á öfund, illsku og hatri í garð útgerða landsins.

    Svo kallaðir sægreifar sem þið haldið fram að hafi fengi kvótann gefins, eru löngu farnir úr greininni og búnir að selja kvótann frá sér.

    Eftir standa nýir útgerðaraðilar sem hafa keypt kvóta til að standa undir sínum rekstri.
    Til þess hafa þeir orðið að taka lán.

    Ætlið þið kannski líka að fyrna lánin fyrir þá?

    Þetta svona álíka fáránlegt hjá ykkur eins og að gera upptækar íbúðir sem fólk hefur keypt á lánum, til þess eins að endurúthluta þeim til annarra.
    Og svo segja við þessa fyrrum íbúðaeigendur að þeir geti endurleigt íbúðirnar sínar af ríkinu.
    Lánin af íbúðunum verði það hinsvegar áfram að standa skil af.

    Þessi tilraun ykkar með fiskveiðistjórnunarkerfið mun setja margar útgerðir og sveitarfélög á hausinn, svo ábyrgð ykkar verður mikil.

  • Sævar Helgason

    Er ekki alveg ljóst að allar veiðiheimildir verða fullnýttar hvort sem fiskveiðistjórnunarkerfinu verður breytt eða ekki ? Fari einhverjir í fýlu við ný viðhorf í fiskveiðistjórnunarmálum og hætti útgerð- þá er bara meira fyrir aðra. Fiskurinn verðu veiddur áfram.

  • Rétt hjá þér Mörður þegar þú skrifar:
    „Það sem hægt er að skamma ríkisstjórnina fyrir er að vera ekki löngu búin að koma þessum breytingum á – í stjórnarsáttmálanum er talað um 1. september 2010.“

  • Stinga þessu bara undir fjölmiðla 110 ára fjölmiðlateppið. Opið og gegnsætt.

  • Garðar Garðarsson

    ÍTREKUN!

    Mörður getur þú útilokað að samningaleiðin verði farinn, eða í það minnsta sagt okkur að þjóðin fái að kjósa um leiðir?

  • Garðar Garðarsson

    Afsakið „samningaleiðin verði farin“ átti að standa.

  • Samningsleiðin felur það í sér að (kvótinn) nýtingarétturinn er áfram að fullu veðsettur, sem stangast á við veðlög, óheimilt.
    Þannig að eina sem kemur til greina er fyrningarleiðin 5% á ári, og útgerðin hafi forleigurétt á þessum 5% næstu 10-20 árin, þannig að veðböndin á (kvótanum) minkuðu um þessi 5% á hverju ári. þetta er mjög sangjörn leið fyrir alla útgerð, banka, almenning.
    Síðan þarf að stórauka kvóta til strandveiða 20-30 þúsund tonn, og taka upp dagakerfi fyrir srandveiðiflotann, því það á ekki að vera að búa til slysagildrur, í strandveiðikerfinu, með því að senda 3 tonna trillur út í sömu veður og mun stærri og öflugri skip, því nóg er nú um slysin við sjómenskuna, svo einhverir skriffinnar sem aldrei hafa stundað sjómensku sé ekki að búa þær til. Síðan á strandveiði flotinn að hafa frjálsar hand og línuveiðar á makríl þá daga sem hann stundar ekki strandveiðar.
    Úr þessu verður ekki komist hjá að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, held að allflestir séu samála um það nema LÍÚ.
    Það á að spyrja óbreytt kvóta kerfi, eða á að taka upp sóknarmark(daga)
    en í sóknarmarki kemur allur afli að landi, en í kvóta kerfinu segja kunnugir að 50 þúsund tonn fari í hafið aftur, á sama tíma sem huhdruðir fjölskildna þurfa að þyggja mataraðstoð hjá hjálparstofnunum.

  • Slysatíðni í sjómannastétt er sú hæsta meðal starfstétta á Íslandi, og ef ríkisvaldið meðvitað eða ómeðvitað, er að búa til slysagildrur í strandveiðiflotanum, með því að etja smæstu trillunum út í sömu veður og mun stærri og öflugri bátum, af embættismönnum sem aldrei hafa migið í saltan sjó,
    þá endar þetta ekki nema á einn veg fyrir ríkisvaldið.

    Almenningur mun fjölmenna á Austurvöll, og bera ríkisvaldið út úr Alþingishúsinu með góðu eða yllu, því það er farið að styttast í kveikiþræðinum hjá þjóðinni.

  • Samfylkingin talar alltaf eins og hún sé ekki viðriðin kvótabraskið, þeir vinna í sjávarútvegi eftir lögum sem Jóhanna Sigurðardóttir stóð sjálf í að setja og það sýnir kannski best í hvaða fari máli er.

  • aagnarsson

    14.000 ATVINNULAUSIR, 8.000 FLÚNIR LANDIÐ,
    MÖRÐUR, ER EKKI KOMIN TÍMI Á, AÐ EFNA ÞAÐ SEM ÞÚ VARST KOSINN ÚT Á,
    FRJÁLSAR HANDFÆRAVEIÐAR, ÞAÐ LEYSIR BYGGÐA, FÁTÆKTAR OG
    ATVINNUVANDA ÍSLENDINGA.

  • Gunnlaugur Ingbvarsson

    Já Mörður þið eruð að falla á tíma með þetta mál.
    Þetta eina mál þar sem þessi Ríkisstjórnin hefur langstærstan hluta þjóðarinnar með sér.
    Þið eruð að klúðra því FEITT og ekki merkilegar eða traustvekjandi upphrópanir þeiirra Jóhönnu og Össurar núna fyrst að hafa bara þjóðaratkvæðageiðslu um kvótakerfið. Núna fyrst. Afhverju gangið þið bara ekki í málið eruð þið hræddir við LÍÚ klíkuna.

    Ykkur eru ansi mikið mislagaðar hendur verð ég að segja.

    Öll lifandis ósköp lá á að senda út ESB umsóknina til Brussel og síðan er búið að gera 3 tilraunir til að neyða ICESAVE ófögnuðinn ofan í kok þjóðarinnar.
    Bæði þessi óvinsælu og umdeildu sundrungarmál ESB umsóknin og ICESAVE samningarnir hafa sundrað og klofið þjóðina meira en nokkuð annað í gjörvallri Íslandssögunni allt frá Sturlungaöld liggur mér við að segja.
    Bæði þessi mál hafa gert þessa Ríkisstjórn hálf veklausa og vanhæfa og bæði þessi mál hafa kostað milljarða króna og ekki síst komið í veg fyrir samstöðu og uppbyggingu meðal þjóðarinnar.

    En svo í ofanálag ætlið þið nú greinilega að klúðra kvótamálinu, eina málinu af þessum þremur þar sem þið hefðuð getað sameinað þjóðina að baki ykkur !

    Ykkur er ekki viðbjargargandi. Ég hef enga trú á að þið hafið kjark eða kraft til þess að koma fram sjálfsögðum réttlætis breytingum á kvótakerfinu í gegn !

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur