Fimmtudagur 21.04.2011 - 19:42 - 11 ummæli

Vel, eða alls ekki, takk

Í kvöld var þess minnst á 15 sekúndum í fréttatíma Sjónvarps að fyrir fjörutíu árum komu handritin heim. Nokkrar svipmyndir af bryggjunni og flett gömlum skinnskræðum. Síðan komu almennilegar skemmtifréttir úr dýragörðunum og af eftirmálum bikarkeppninnar á Spáni.

Í gærkvöldi var á sama stað frétt af svipaðri lengd um sýningaropnun í Þjóðmenningarhúsinu. Einmana kvenvera glápti innum gler á sýningarskáp, svo voru einhver bréf og nokkrar bækur, og gamalt skrifstofudót. Þetta var víst um Jón Sigurðsson.

Jón og handritin verða náttúrlega að sæta því að vera miklu síðra myndefni en sebrahesturinn í dýragarðinum í Texas. Bara skylduverk hjá sjónvarpsstöð allra landsmanna, sinnt á stysta tíma hugsanlegum. Ekki vera að leggja neitt í þetta, strákar.

En af hverju að segja um þetta fréttir yfirhöfuð? Annaðhvort á að flytja svona fréttir vel – sem er ekki erfitt ef menn reyna — eða þá alls ekki, takk.

Kannski er þessi fréttametnaður í samræmi við það að Ríkisútvarpið hefur núna misst nafnið sitt eftir síðustu andlitslyftingu í Efstaleitinu. Núna er fyrirtækið bara kallað Rúv. Alltof lummulegt að heita eftir ríkinu, og svo erum við aðallega að reka sjónvarp og ekki útvarp.

Rúv.

Ósköp vorkennir maður þessum stjórnendunum að forsjónin skuli ekki hafa útvegað þeim smartari atvinnurekanda.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Hjá sumum okkar, er handritadagurinn einn af þessum „ég man hvar ég var, hvað ég gerði, hvernig mér leið, hvað ég hugsaði“ dagur.
    Öðrum er greinilega skítsama. Sorglegt.

  • Haukur Kristinsson

    Falleg ummæli Jenný Stefanía.

  • Guðmundur Gylfi Guðmundsson

    Tek undir með þér. Rúv er skelfilega ljótt nafn á Ríkisútvarpinu. Þetta orðskrípi var notað af keppinautunum, sérstaklega Stöð 2 þegar verið var að gera lítið úr Rkisútvarpinu. Þetta er einn af mörgum slæmum siðum sem hafa verið teknir hjá Ríkisútvarpinu og eru komnir frá Stöð 2.

  • Hin fasísku fjölmiðlalög ykkar varðmanna skoðana- og málfrelsis hljóta að taka á þessu.

    Eru handritin ekki evrópskt menningarefni?

    Þau hljóta að falla undir kvóta þess sem á að fjalla um og þar með það sem EKKI MÁ fjalla um.

    Þvílíkur viðbjóður!

    Steytum hnefann þegar við syngjum „NALLANN“.

    Vinir alþýðunnar munu hneppa hana í fjötra.

  • RÚV er verulega ófullnægjandi. Hvers vegna hefur menntamálaraðherra ekkert gert til að vinda ofan af verkum kúlulánadrottningarinnar?

    Jóhanna Vigdís, fréttakona Sjálfstæðisflokksins, sér nær ein um stjórnmálafréttir. Hvernig má það annars vera, jafn hlutdræg og bjálfaleg og hún er?!!

    Annað er eftir því.

    Spegillinn er það eina sem stendur undir nafni og skilar faglegri umfjöllunu um mikilvæg mál. Pistlar Sigrúnar Davíðs eru frábærir, eins og pistlar þeirra Spegilsmanna annarra.

  • Björg Eva

    RÚV er leiðinleg skammstöfun að nota sem orð, þótt áberandi sé hvað verið er að forðast. Réttast væri að kalla Ríkisútvarpið einfaldlega Pál.
    Fleira ekki hjá Páli að sinni – Í kvöldPáli var þetta helst, Páll verður næst á dagskrá annað kvöld.

  • Viskíprestur

    Allt það versta við Ísland þrífst upp á Rúv: Minnisleikir, makindahneigð og menningarleysi! Kannski er þetta ágæt spegilmynd. En það er spurning hvort metnaðurinn ætti ekki að teygja sig upp af því plani sem við búum við dags daglega. Það má þó ekki gleyma því sem vel er gert: Silfur Egils og Kiljan, pistlar Sigrúnar Davíðs og stundum Landinn. Punktur. Kannski ætti að gera Egil, Sigrúnu og Gísla að yfirmönnum stofnunarinnar. Þjóðin verður alltént að fara losa sig við þennan rykfulla poka sem menn nefna Pál. En þannig var nú tíðin þegar hann byrjaði árið 2005, að Páll vísaði alltaf til BBC sem fyrirmynd. Hann hefur líklega ruglað þeirri stofnun saman við NBC, enda lítur Rúv út núna einsog uppþornuð gólftuska.

  • Gagarýnir

    Líklega átti bara að sleppa þessu og láta sebrahestinn njóta sín.
    Þetta er nefnilega of mikið verkefni að fjalla um og ef það er gert með sóma hefur enginn áhuga. Íslenskir fréttamenn stunda engar rannsóknir enda starfsævi stutt. sérstaklega hjá „ljósvakamiðlum“, hvað sem það er. Metnaðurinn felst í miðlinum en ekki viðfangsefninu.

  • Fyndið að sjá fólk hér lofa Silfur Egils, Kiljuna og spegilinn.

    Ekki mikil von um framfarir ef fólk telur þessa þætti boðlega.

    Íslenska sjónvarpið er hið lélegasta á Vesturlöndum og þessir þættir beinlínis átakanlega lélegir, metnaðarlausir, staðnaðir og flatir.

  • Allt sem íslenskt er er talað niður og ber vott um þjóðrembu. EKKERT skal skyggja á fyrirmyndarríkið í austri.

  • Þegar það er ekki lengur eftirsóknarvert að horfa á fréttatíma Ruv, er ekki lengur hægt að réttlæta nauðungaráskrift allra sem eru eldri en 18 ára, og allra lögaðila í landinu, hvort sem þeir eru í rekstri eða ekki.

    Nóg um Ruv, en snúum okkur þá að Lögum um Mannvirki, fór í það að undirbúa það að skipta um bárujárn á þakinu, húsasmíðameistarinn tók ekki í mál að skrifa upp á þetta sem byggingarstjóri, og vera með starfábyrðartryggingu í fullu gildi í 5 ár eftir að verkinu liki, því óveður væru tíð á Íslandi og það fyrsta sem fyki væri bárujárn á húsþökum. Verkfræðistofa var tilbúin með iðnmeistara og byggingastjóra, en þá tvöfaldaðist kostnaðurinn, og það gengur ekki í kreppu. Fór í það að skoða þessi lög um Mannvirki, það þarf að breyta 8 mgr. 29gr. þar þarf að standa, í fimm ár frá lokum þeirrar nýbyggingar sem hann stýrir.
    Og 3 mgr. 27gr. þarf að standa, eigandi getur þó falið einum af iðnmeisturunum byggingastjórn fyrir mannvirki sem falla undir 1. tölulið 4 mgr. 27 gr.
    Þetta var niðurstaðan Hr. formaður Umhverfisnefndar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur