Þriðjudagur 26.04.2011 - 10:12 - 16 ummæli

Þingflokkur Vinstri-móti

Í dag ætla þau Atli, Ásmundur Einar og Lilja Mós að stofna nýjan þingflokk.

Kannski.

Til þess þarf einmitt þrjá þingmenn, og þetta „borgar sig“ samkvæmt þingsköpum og reglum alþingis. Þrjú saman fá þau sérstakan starfsmann og meiri pening en sitt í hverju lagi, og í innanþingspólitíkinni komast þau sem þingflokkur að samráðsborði með hinum þingflokkunum, sem skiptir miklu máli við skipulagningu þingsins og gang mála frá degi til dags. Á þinginu er nefnilega einskonar þingflokkaræði – og þingmaður einn saman utan þingflokka á sér ósköp auma ævi.

Kannski. 

Þótt það sé ekki sérlega merkileg athöfn að stofna hentiþingflokk er í sjálfu sér ekkert að því að finna. Þetta er kostur í stöðunni, og þingmaður hlýtur að skoða þá kosti sem honum gefast hverju sinni til aukinna áhrifa í þágu málefnanna – og í þágu kjósendanna sem við efumst ekki um að hafi einmitt verið að gefa Ásmundi, Lilju og Atla alveg sérstakt umboð með því að kjósa V-listana í Reykjavíkurkjördæmi suður, Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi í alþingiskosningunum vorið 2009.

Kannski.

Þetta yrðu reyndar ekki sérlega merk söguleg tíðindi. Menn muna til dæmis ör-þingflokk Inga Björns Albertssonar og Hreggviðs Jónssonar – sem kölluðu sig Frjálslynda hægrimenn þegar þeir klufu sig út úr Borgaraflokknum 1989, og voru einmitt í andstöðu við ríkisstjórnaraðild þess flokks á miklum erfiðleikatímum. Síðan var lágmarkstala í þingflokki færð úr tveimur í þrjá. Og þegar til varð þingflokkur Samfylkingarinnar veturinn 1998–99 með aðild flestra þingmanna úr Alþýðubandalagi, Alþýðuflokki, Kvennalista og Þjóðvaka – þá stofnuðu þeir sem lentu upp á skeri sérstakan þingflokk óháðra, „einkum til samstarfs og aukinna áhrifa þingmannanna innan þings, en ekki um sérstök málefni eða framboð“ einsog segir í viðeigandi neðanmálsgrein um þetta á vefsetri alþingis. Uppúr þessum þingflokki spratt svo seinna sjálft VG – en Þingflokkur óháðra var þó fyrst og fremst hentifélag þriggja vinstrigrænna þingkarla, Hjörleifs, Steingríms J. og Ögmundar, með Kristínu Ástgeirsdóttur sem hafði orðið viðskila við systur sínar úr Kvennó og „átti sig sjálf“ um þær mundir.

Kannski.

Það er eiginlega nauðsynlegt að vera í þingflokki ef alþingismaður ætlar sér raunveruleg störf á þinginu. Fyrir fæsta þingmenn er þetta nokkurntíma neitt mál – þeir voru kosnir inn í ákveðinn þingflokk og telja sig eiga þar heima hvernig sem vistin kann að vera þá og þá stundina. Stundum gengur samstarfið vel, stundum myndast fylkingar innan þingflokksins, skoðanahópar um einstök mál eða viðvarandi flokkadrættir, stundum lenda menn útí horni, og það kemur fyrir að manni líður skárst útí horni! en oftast er það samt þannig að hver þingmaður ber ábyrgð á afstöðu þingflokksins alls, meiri eða minni, og á sinn þátt í að móta honum stefnu, við landstjórnina og í þinglegum verkefnum.

Kannski. 

Gallinn við nýjan þingflokk Atla, Lilju og Ásmundar Einars er einkum sá að þeir þrír þingmenn þekkja eiginlega ekki annað úr fyrri þingstörfum sínum en viðvarandi flokkadrætti. Öllum þremur virðist þeim líða best úti í horni, sem ofsóttum píslarvottum, og eru því vönust að taka sjálfkrafa afstöðu á móti sérhverri niðurstöðu sem meirihluti þingflokksins hefur komist niður á við þá erfiðu siglingu um raunsævi sem Vinstrigrænir hafa haft að hlutskipti undanfarin tvö ár.

Kannski.

Þessvegna er núna hinn grimmi efi. Að vera þingflokkur eða vera ekki þingflokkur. Lilja, Atli og Ásmundur Einar þurfa nefnilega sem þingflokkur – jafnvel sem hentiþingflokkur – að standa saman. Taka afstöðu með einhverjum eigin málum. Ekki vera hvert á móti öðru heldur gera hvert við annað þær málamiðlanir sem styrki eininguna og efli málstaðinn. Jafnvel þótt málstaðurinn sé „ekki um sérstök málefni eða framboð“ heldur einkum á lofti hafður til „aukinna áhrifa þingmannanna innan þings“.

Kannski.

Hérmeð er þeim Ásmundi Einari Daðasyni, Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur óskað góðs gengis við þetta verkefni. Þingmennirnir þrír segjast ekki vera farnir úr gamla flokknum sínum og þessvegna er alveg sjálfsagt að heiti nýja þingflokksins beri eitthvert svipmót þeirrar fortíðar. Hvernig væri að kalla nýja þingflokkinn bara Vinstri-móti?

Kannski.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Grettir Sterki

    Þú meinar félagi „Vinstri (gerum það sem við lofuðu) flokkurinn“?

  • Margrétj

    Hvað verður úr þessum flokki eða hvernig hann stendur sig á eftir að koma í ljós. Ekki býst maður við miklu. Þð er hins vegar alveg kristaltært að eitthvað verður að gera í pólitíkinni hér. Handónýtir flokkar og fólk eru við völd og sama er uppi á teningnum í stjórnarandstöðu. Eiginhagsmunapot, feluleikur og svik hafa verið sú „fæða“ sem þið nærist á.
    Almenningur er komin með upp í kok af ykkur öllum og miklu meir en það. Nú liggur fram kæra í útlöndum á ykkur! er hægt að vera aumari?
    Kæmi hér fram alvöru framboð af fólki sem ekkert hefur haft með pólitík að gera áður en nyti trausts þá yrðu þið borin út af okkur – öll sem eitt og það samdægurs.

  • Sigurgeir Ólafss.

    Ekki vera svona svekktir þið þarna í Samfylkingunni og í því sem kallið ykkur „Hinir raunverulegu VG“.
    Fýlan í ykkur út af þessu. Maður verður að halda fyrir nefið til að finna hana ekki.

    Lilja, Atli og Ásmundur höfðu einfaldlega kjark til að rísa upp gegn ofríki Samfylkingarinnar í þessu stjórnarsamstarfi og létu hjartað og hugsjónir sínar ráða í stað þess að láta undan kúgunum og hótunum Jóhönnu og klappliði hennar.

    Þetta er að verða eins og í alræðisríkjum sósíalismans á sínum tíma. Þeir sem ekki eru sammála og gagnrýna stjórnvöld, eru miskunarlaust ofsóttir og falla í ónáð hjá ríkjandi yfirvöldum.
    Þetta á svo sannarlega við Lilju, Atla og Ásmund Einar. Búið er að gefa út skotleyfi á þau fyrir að rísa upp og ganga út.

    Varðhundar vinstristjórnarinnar eru nú fengnir til að fara í mikla ófræginarherferð gegn þeim þar sem þau eru ofsótt, hrakyrt og þeim formælt að alla mögulega veru í öllum miðlum. Blogghersveitir eru virkjaður til þess arna, og það sama um „virta“ álitsgjafa. Voff-voff!!!

    Þetta er Ísland í dag líkt og alræðisríki A-Evrópu voru fyrir 1989.

  • Góður maður benti á að réttast væri að skipta VG í tvennt. Vinstri hættir (VG) og Vinstri mættir (Atli, Ásmundur, Lilja).

  • Telemakkos

    Til hamingju með snilldarnýyrðið „hentiþingflokkur“… 🙂

  • Ja, Elín, Vinstri mættir myndi vísa til þess að þetta fólk mætti sæmilega í vinnuna. Sem Lilja gerir að vísu, en ekki þier félagar Atli og Ásmundur

  • Kristján G. Kristjánsson

    Hvernig verður næsta samtal sem þú átt við eitthvert af þessum vinnufélögum þínum? Er það svona kurteis fyrirlitningarkveðja, eða þurfið þið kannski að vinna eitthvað saman til að bæta hag lands og þjóðar?
    (Ætli ég yrði ekki kallaður á teppið á mínum vinnustað fyrir að skrifa svona um vinnufélagana.)

  • Ef MÓTI er á móti Magma er ég með þeim.
    Ef MÓTI er á móti kvótakerfinu er ég með þeim.
    Ef MÓTI er á móti uppgjörslögum Árna Páls er ég með þeim.

  • Óðinn Þórisson

    Kannski er rétt nafn á þeirra nýja flokki
    Frjálsir vinstri grænir

  • Þetta gengur út á að hanga á laununum, umboðslaus, út kjörtímabilið og þess vegna munu þau væntanlega verja ríkisstjórnina eða verjast kosningum. Hins vegar nenna þau ekki að vera í stjórn og geta nú áhyggjulaus dinglað sér í stjórnarandstöðu. Réttnefni er Vinstri-blá.

  • Ómar Harðarson

    Vinstri grænir (b)

  • Ég kem með innleggið „Ruslflokkurinn“.

  • Kannski,

    er Mörður svekktur.

  • Gagarýnir

    Kannski hægt að kíkja á þetta. Sel ekki dýrara en keypti:
    http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1122367

  • Flestir kjósa flokka vegna stefnumála en ekki öfugt. Þessvegna gæti ég trúað að þau fái ágætis fylgi í næstu kosningum. Ég óska þeim alls hins besta.

  • MÖRÐUR hugleiddu þá staðreynd og þið ÖLL, að ef
    hugmynd L Í Ú festi8r rætur hjá ykkur um einhvern
    ákveðinn tíma um VEIÐIHEIMLD tekur ekki nokkur
    fullvita maður MARK ‘A YKKUR FRAMAR. EKKI MEIR_EKKI MEIR
    algjörlega þurrkaðir út.

    ÞJÓÐIN SAMÞYKKIR A L D R E I MEIRIA EN EITT Á Í EINU TIL
    VEIÐIHEIMILDAR Á L I F A N D I FISKA EÐA DÝR HÉR VIÐ LAND.

    LÍÚ HEFUR MARGT SAGT AÐ ÚTGERÐIN STANDI VEL UM
    ÞESSAR MUNDIR.
    Í 25 ÁR ÚTHLUTAÐ FRÁ ÁRI TIL ÁRS- BÚIÐ OG KLÁRT.

    MAÐUR eins og þú sem segist vera núttúru sinni GETUR ALDREI
    fallist að jafna smana malarnámu og lifandi verum með mjög
    takmarðan líftíma.

    EF einhverjir N’UNA vilja væla og kalla fram samúð, „farvel“ báðir
    hópar NORÐUR OG NIÐUR.
    AUÐLINDIN ER OKKAR OG FAST GJALD PR. VEITT KÍLÓ KLÁRT MÁL.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur