Fimmtudagur 02.06.2011 - 20:44 - 5 ummæli

Harðir og linir

Kannski ætti að taka upp félagaskiptaglugga í pólitíkinni einsog fótboltanum? Þá yrði skipulagður einskonar pólitískur fengitími, til dæmis á vorin, og rétt fyrir áramót, en þar á milli yrðu kjörnir fulltrúar að vera rólegir á þeim stað sem kjósendur skipuðu þeim, eða þeir sjálfir síðast þegar þeir hoppuðu milli glugga – eða hvernig sem þetta er nú gert í fótboltanum. Hét reyndar fardagar á fyrri öldum.

Skemmtilegt með Ásmund Einar Daðason: Þegar hann gekk úr VG sagðist hann ætla að gagnrýna VG frá vinstri. Og samkvæmt því er Framsóknarflokkurinn til vinstri við VG?

Að minnsta kosti heldur meira á móti Evrópusambandinu en VG, að mati formanns Heimssýnar. Eða hvað? Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir á Vísi að vissulega sé flokkurinn skýr valkostur fyrir þá sem eru harðir á móti ESB-aðild. En hann sé líka valkostur fyrir þá sem ekki eru harðir á móti ESB-aðild. Þetta mætti túlka þannig að Framsóknarflokkurinn sé góður valkostur fyrir bæði harða og lina – á móti ESB-aðild.

Það er ekki nema von að Guðmundur Steingrímsson sé farinn að íhuga stöðu sína í flokkinum hans pabba og hans afa. En nú er félagaskiptaglugginn einmitt galopinn hjá okkur í Samfylkingunni eftir ræðu Jóhönnu um síðustu helgi: Velkomin Guðmundur, Siv, Eygló, Birkir Jón og þið hin sem hvorki eruð hörð né lin.

Svo opnum við bara gluggann aftur þegar ekki þarf lengur að rífast um Evrópusambandið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Baldurkr

    Gódur alltaf!

  • Fyndin samlíking!

  • Hannes Þórisson

    Já ekki vitlaus hugmynd.

    Ásmundur er bara með ESB á heilanum ekkert annað, fæ pínu á tilfinninguna að honum vanti þroska í stjórnmál.

  • Margretj

    Skiptir náttúrlega ekki nokkru máli þó kjósendur hafi aldrei kosið þetta framsóknarfólk sem þið viljið svo gjarnan fá til ykkar!

  • Það er eiginlega orðið að reglu frekar en undantekningu að einn stjórnarþingmaður hoppi af vagninum hvert skipti sem eitthvert mál sem einhverju skiptir kemur upp. Nú þegar eru þrír stjórnarþingmenn farnir. Ef fiskveiðistjórnunarfrumvarpið, eða frumvörpin fara í gegn, þá eru líkur á að einn í viðbót hið minnsta yfirgefi hið sökkvandi fley. Úrsagnartillagan úr NATO kallar líklega á einn stjórnarþingmann út í viðbót, en þá verður stjórnin líklega fallin.

    Að einhver stjórnarandstöðuþingmaður gangi til liðs við stjórnina er álíka líklegt og að fá fimm rétta í lottó. Stjórnin er sú óvinsælasta í sögunni. Reyndar gekk Þráinn Bertelsson til liðs við stjórnina, en það er ekki að marka, þar sem hann álítur alla þjóðina fífl, og er þess vegna eiginlega ekki marktækur.

    Guðmundur Steingrímsson gekk eiginlega aldrei úr Samfylkingunni, hann fattaði bara ekki í hvaða flokki hann var. Segir kannski meira um hann en margt annað.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur